02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

265. mál, stjórn og starfræksla póst- og símamála

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Stutt aths. út af því sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexanderssyni.

Ég hélt að það væri nokkuð augljóst mál, að í eina byggð geta legið við skulum segja sjö línur, eins og mun vera austur á Egilsstöðum, þar sem kvartað er. Heim til Egilsstaða munu í notkun sjö línur. Hins vegar liggja e.t.v. 30 línur inn á miðstöðina í sveitinni. Til að tengja allar þær línur beint við Egilsstaði þyrfti að sjálfsögðu að fjölga æðimikið línum til Egilsstaða ef engin skiptistöð er á milli. Þetta ætti held ég öllum að vera ljóst. Það er við þetta sem er að stríða. Hins vegar geta allir þessir símar verið sjálfvirkir út af fyrir sig, en ef allar sjö línurnar eru uppteknar eru þeir vitanlega á tali. Tæknilega er ekki hægt að tengja svo marga beint við Egilsstaði nema fjölga öllum línunum og það kostar mikið fé. Það er þetta sem við er að eiga. Þetta er t.d. það svar sem Póstur og sími gefur í sambandi við Akranes.

Nú eru að vísu bundnar miklar vonir við nýja tækni, svokallaða digitaltækni, sem verður tekin í notkun á Reykjavíkur/Keflavíkursvæðinu á næstu tveimur árum.

Með þeirri tækni er hægt að senda miklu fleiri, allt að 100, símtöl eftir einum þræði. Símtölin eru greind í sundur — ég fer ekki út í það hér — og þetta gerbreytir öllum þessum möguleikum sem við erum að tala um.

Ég mun að sjálfsögðu láta rannsaka það sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði um Póst og síma. Sumt af því hefur nú verið upplýst, en ég mun að sjálfsögðu láta athuga það.