02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

64. mál, umferðaröryggisár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd Norðurlandaráðs, samgöngumálanefnd, sem hefur haft undirbúning norræna umferðaröryggisársins til meðferðar og skipaði sérstaka undirbúningsnefnd, framkvæmdanefnd til undirbúnings norræna umferðaröryggisárinu. Ég hef að vísu ekki sótt nema tvo fundi framkvæmdanefndarinnar, sem ég á þó að nafninu til sæti í, beinlínis vegna þess að ærnar hafa nú gerst utanferðirnar á vegum Norðurlandaráðs, þó ég sækti ekki hálfsmánaðarlega þar að auki fund í framkvæmdanefndinni. En mér hefur aftur á móti gefist kostur á því að fylgjast með störfum hennar.

Ég vil upplýsa það að af hálfu framkvæmdanefndarinnar og samgöngumálanefndar Norðurlandaráðs í heild, þá hefur framlag Íslands til undirbúnings umferðaröryggisársins þótt allsæmilegt. Starfsmenn rn. og umferðarráðs hafa komið þar á framfæri hugmyndum varðandi þetta norræna samstarf og sameiginlegt átak í umferðaröryggismálunum sem hafa þótt býsna góðar. Að því leyti hygg ég að aðild Íslands að þessum undirbúningi hafi verið nokkuð góð miðað við ýmislegt annað.

Hitt var aftur á móti ljóst, að til þess að við gætum framkvæmt okkar hlut hér heima yrðum við að fá allverulegt fjármagn. Ég get tekið undir það, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði og hv. þm. Sveinn Jónsson ítrekaði áðan, að þar megum við ekki spara eyrinn en fleygja krónunni, því að nú gefst tækifæri til þess að gera sérstaki átak. En í meginatriðum hefur þetta sameiginlega starf Norðurlanda til undirbúnings þessu ári fyrst og fremst miðað að því að skipuleggja það sem gert er þannig að fjárframlög í einu landi og vinna, sem lögð er af mörkum, megi einnig koma til nytja í hinum löndunum. Hinu er ekki að neita, að á ýmsa lund eru okkar öryggismál í umferðinni með þeim sérstaka hætti sem vegakerfi okkar og náttúrufar landsins raunverulega sníður. Þess vegna nýtist okkur ekki ýmislegt af því sem kemur til sameiginlegra nytja meðal hinna landanna. En ég vil þakka ráðh. fyrir upplýsingarnar sem hann veitti okkur hérna og einnig þann hug sem fram kom hjá honum til þessa máls.