20.10.1982
Neðri deild: 4. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

26. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Spurningar til mín eru ekki margar í sambandi við þetta frv. Þó eru það fáein atriði sem ég vil koma inn á.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að sjónarandstöðunni var ekki kynnt þetta frv. áður en það var gefið út. Hins vegar vil ég upplýsa, að meðan málið var til meðferðar gerði ég tilraun til að ná saman fundi með sjútvn., og reyndist þá aðeins einn maður vera í bænum og margir erlendis nú. Ég skal ekki neita því að það hefði svo sem mátt gera fleiri tilraunir, ég viðurkenni það, en á lokastigum þessa máls var það í svo hraðri meðferð að það reyndist ekki kleift þá helgi sem þetta var afgreitt. Hins vegar vil ég upplýsa það, að ég kynnti mér það eftir öðrum leiðum og ég taldi mig hafa vissu fyrir því að málið mundi hafa stuðning út fyrir raðir stjórnarflokkanna hér á hinu háa Alþingi.

Ég get tekið undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að millifærsluleiðin er ekki skemmtileg leið, þó við höfum oft orðið að fara hana. Ég tel hana vera afsakanlega tímabundið, á meðan fundnar eru aðrar leiðir. Vitanlega eru í þjóðfélaginu gífurlega miklar millifærslur, við skulum segja í sköttum. Skattakerfið er í raun og veru allt saman millifærsla, þegar skoðaðar eru þær greiðslur sem þegnarnir fá og við höfum svo sannarlega allir samþykkt. En almennt séð tel ég að beri að forðast slíkt og hef engu við það að bæta.

Í þessu sambandi nefndi hann sérstaklega Aldurslagasjóð og Úreldingarsjóð. Það er rétt, að það er heimild fyrir ráðh. að færa greiðsluafgang frá Tryggingasjóði í Aldurslagasjóð til að auka getu hans til að kaupa upp eldri skip. Reyndar tók ég þá ákvörðun fyrir einum tveimur árum. En staðreyndin er orðin sú, að það hefur ekki orðið þörf fyrir það fjármagn. Eftirspurn eftir úreldingu er svo lítil, og við getum kannske sagt því miður. Menn hafa fremur brugðið á það ráð að láta gera við skip sín, ekki síst eftir að innflutningur hefur verið svo takmarkaður sem nú er eða réttara sagt bannaður og nýsmíði er svo kostnaðarsöm, eins og kom fram í þeim tölum sem hv. þm. nefndi áðan um nýja togara. Því virðist ekki hafa orðið þörf fyrir þetta fjármagn þar. En ég vek athygli á því, að eingöngu er hér gert ráð fyrir að verja um það bil helming af greiðsluafgangi Tryggingasjóðs í þessu skyni, enda er vitanlega ekki um það að ræða að taka allt það fjármagn sem þar er. Það geta orðið þau skakkaföll, að Tryggingasjóður þurfi á því fé að halda. Reyndar geta tekjur hans dregist saman og munu dragast saman ef afli dregst saman.

Um olíugjaldið ræddi hv. þm. Karvel Pálmason. Ég vil upplýsa það og endurtaka það reyndar enn einu sinni, sem ég hef alltaf sagt þegar ég hef rætt um breytingu á olíugjaldinu. Ég segi, hef sagt og segi enn að ég hef talið þetta vera óheppilegt gjald eins og það er á lagt. Því hefur verið vinna í gangi allt frá því að fyrirrennari minn setti á fót nefnd í því skyni að skoða aðrar leiðir í þessu sambandi. Ég hef einnig heitið sjómönnum því að beita mér fyrir því að þetta gjald verði stórlækkað eða jafnvel fellt niður, enda hef ég alltaf lagt áherslu á að menn verði sammála um aðrar leiðir til að tryggja rekstrarafkomu útgerðar. Ég hef alltaf sagt þetta og hv. þm. getur flett því upp í þingtíðindum að loforð mitt er alltaf bundið þessu skilyrði. Þessar viðræður hafa farið fram að litlu leyti enn, en það er einmitt gert ráð fyrir að þær tengist framhaldsmeðferð þessa máls, sem þeirri nefnd er ætlað að fjalla um sem ég hef óskað eftir tilnefningum frá þingflokkunum í.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér um efnahagsmálin almennt. Ég er sannfærður um að það skapast, fyrr vonandi fremur en síðar, tækifæri til þess. Ég þakka svo hv. þm. Vilmundi Gylfasyni góð orð um framlagningu þessa frv. út af fyrir sig.

Reyndar er hv. þm. Matthías Bjarnason genginn úr salnum, en hann spurði hvað liði umfjöllun um viðmiðunarkerfið. Um það hefur verið mikið fjallað, eins og kemur fram í samþykkjum ríkisstj., og þar er lögð á það áhersla að um það skuli fjalla í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Slíkt samráð er haft. Það er ákveðin nefnd á vegum ríkisstj. sem fjallar um þetta mál og ég veit að samráðsfundur um þetta mál er nú á allra næstu dögum. Málið er því þarna í meðferð, eins og til hefur verið ætlast.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason spurði um hvenær og hvar o.s.frv. Ég vil nú vísa fyrstu spurningunni, um það hvenær efnahagslögin verða lögð fram, til hæstv. forsrh. Það er hann sem leggur þau fram. En ég vil hins vegar upplýsa hv. þm. um það, að að sjálfsögðu hefur mjög verið um þetta fjallað og við í Framsfl. höfum samþykki að við föllumst á ákvörðun forsrh. í því máli. Ég get ekki fjallað um það frekar nú, en ég veit að forsrh. er með það í athugun.

Í hvorri deildinni frv. verður lagt fram er einnig ákvörðun forsrh., sem leggur fram málið, en ég held að ég sé ekki að brjóta neinn trúnað þó að ég segi að ég geri ráð fyrir að málið verði lagt fram í Ed.

Ég vil einnig taka það fram út af þriðju spurningunni, um trúnaðarbrest, held ég að hv. þm. hafi kallað það, að slíku er alls ekki til að dreifa. Um þessi mál er mjög ítarlega fjallað í ríkisstj. og í þeirri ráðherranefnd sem ég á sæti í ásamt hæstv. félmrh. Ég vek einnig athygli á því, að það eru núna einmitt í gangi viðræður við stjórnarandstöðuna um þinghaldið og annað í því sambandi og þá alveg sérstaklega meðferð efnahagsmálanna. Ég þarf ekki að nefna þá fundi, sem þegar hafa verið haldnir, sem mér þóttu gagnlegir, og ég veit að gert er ráð fyrir fundum aftur í þessari viku um þetta mál. Ég geri mér fastlega vonir um að af þeim fundum og viðræðum verði árangur og menn geti þá komist að niðurstöðu um meðferð þeirra mikilvægu mála, þ.e. efnahagsmálanna og þess sem þeim tengist og fleira, þannig að við getum þá hér á þinginu ef ég má orða það svo, hagað okkur af ábyrgð og tekið á þessum stóru málum þannig að vel megi fara.

Ég vildi nota tækifærið og undirstrika það, að ég legg ákaflega mikið upp úr þeim viðræðum, sem nú fara fram um alla meðferð efnahagsmála og fleiri viðkvæmra mála og þinghalds í heild, og tel ekki fært af minni hálfu að fara að ræða hér ítarlega um þau mál á meðan þær umræður fara fram.