02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

83. mál, nýting á smokkfiskstofninum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Til að svara fyrstu þremur liðum þessarar fsp. vil ég, með leyfi forseta, lesa bréf Hafrannsóknastofnunar dags. 15. nóv. s.l. Þar segir:

„Ætíð er fylgst með göngu smokkfisksins að landinu. Haustið 1979 gekk beitusmokkur að landinu og hafði þá lítt sem ekkert orðið vart við hann hér í 14 ár. Á árabili þar á undan hafði hann sýnt sig í veiðanlegu magni í fjögur af hverjum níu árum. Síðan 1979 hefur smokkurinn ekki gengið að landinu í þeim mæli að veiðar væru stundaðar, enda þótt lítillega hafi orðið vart við hann sum haust, eins og t.d. nú. Beitusmokkurinn er annars flökkuskepna, sem talin er eiga heimkynni eða a.m.k. hrygningarslóð í hafinu djúpt vestur af Írlandi og allt suður undir Azoreyjar. Hingað kemur hann nær eingöngu sem ókynþroska fyrsta árs dýr í fæðuleit og stendur stutt við, 1–3 mánuði.“

Þetta var svar Hafrannsóknastofnunar við 1. lið. Við 2. lið segir stofnunin svo með leyfi forseta: „Þegar smokkur gekk að landi haustið 1979 höfðu engar athuganir farið fram á þessari tegund um árabil af skiljanlegum ástæðum, en með endurkomu þorsksins voru þær vaktar til lífs á ný. Tekin voru sýni til líffræðiathugana fyrir göngu smokksins og gerðar veiðitilraunir. Þær tilraunir til veiða, sem fram fóru, flotvörputilraunir, voru gerðar af einkaaðila með smávegis stuðningi Hafrannsóknastofnunar. Þar sem lítill tími var til stefnu í þetta skiptið og tilraunirnar gáfu mjög góðar vonir um að hægt væri að taka smokk í flottroll ákvað Hafrannsóknastofnun að standa sjálf að eða fyrir veiðitilraunum, er smokkurinn kæmi aftur. Voru fyrirhugaðar fleiri tilraunir, svo sem tilraunir með að dæla smokknum beint á dekk, — draga hann að dæluopi með ljósum. Ameríkumenn hafa gert slíkt með árangri. Var m.a. fengin stór loðnudæla haustið 1980 í þessu skyni. En tilraunir hafa engar orðið af þeirri einföldu ástæðu að smokkurinn hefur ekki látið sjá sig síðan svo að einhverju nemi. Ávallt hefur þó verið gerð rannsóknaráætlun um beitusmokk og áætlun um tilraunaveiði. Þar sem aldrei er ljóst fyrir fram hvenær hægt verður að fara út í svona tilraunir er erfitt að binda rannsóknaskip við slíkt verkefni fyrir fram. Þá getur verið örðugt að fá leiguskip eða styðja aðila til tilrauna með stuttum fyrirvara. því hefur verið hugað að því að taka rannsóknaskip úr öðrum verkefnum um stuttan tíma til slíkra tilrauna, ef til kæmi. Hefur m.a. fengist vilyrði ráðh. fyrir því að slík verkefni hefðu forgang, enda gæti ella e.t.v. ekkert orðið af slíkum tilraunum. Þótt beitusmokkurinn hafi ekki komið að landinu í veiðanlegu magni í fjögur ár hefur ávallt verið fylgst með honum, tekin sýni þegar færi hafa gefist og líffræðiathuganir farið fram.“ Þetta er svar við 2. lið.

Um 3. lið segir svo í bréfi stofnunarinnar: „Framtíðaráform um nýtingu smokkfisksins hér við land standa eðlilega og falla með göngu hans að landinu. Hafrannsóknastofnun hefur bent á, að þegar smokkar eru hér við land er oft um gífurlegt magn að ræða. Þar sem hér er um óþekktan úthafsstofn að ræða hefur verið talið eðlilegt að veiða eins mikið og hægt er. Veiðar hér hafa hins vegar aðeins farið fram með einföldum handveiðarfærum og smokkfiskafli sjaldan dekkað þörfina fyrir beitusmokk. Þetta kemur aðallega til af því hve smokkurinn stendur stutt við og svo vegna þess hve veiðarfærin eru afkastalítil. Ef takast mætti að veiða beitusmokkinn í troll eða með öðrum stórvirkum aðferðum er enginn efi á að hægt væri að fullnægja þörfinni fyrir beitusmokk þau ár er smokkurinn kæmi. Þau ár sem hann sýnir sig ekki hér við land, og þau eru nú að verða ærið mörg, þýðir ekkert að hugsa til veiða sökum eðlis og lifnaðarhátta tegundarinnar, eins og að framan hefur verið drepið á.“

Hér fylgir með allítarleg grein eftir fiskifræðinginn þann sem þetta skrifar, Einar- Jónsson. Fer ég ekki út í hana.

Í 4. lið er spurt að því hve mikið sé flutt inn til landsins af smokkfiski á hverju ári 1979, :980 og 1981.

1979 var cif-verðmætið samtals 2 millj. 318 þús. og skiptist þannig, að frá Bandaríkjunum fluttum við að verðmæti 309 þús., en frá Kanada 2 mill Í. 19 þús. 1980 var flutt inn að cif-verðmæti fyrir samtals 8 millj. 422 þús. Þar af var flutt inn frá Kanada fyrir 7 millj. 377 þús., frá Bandaríkjunum fyrir 768 þús.,frá Danmörku fyrir 97 þús. og frá Noregi fyrir 179 þús. 1981 var flutt inn fyrir samtals að verðmæti 12 millj. 984 þús. Þar af var flutt inn frá Noregi 4 millj. 815 þús., frá Kanada fyrir 3 millj. 535 þús., frá Færeyjum fyrir 3 millj. 527 þús., frá Bretlandi fyrir 1 millj. 11 þús. og frá Bandaríkjunum fyrir 96 þús. Magnið hefur einnig aukist. 1979 var magnið samtals 888.8 tonn, árið 1980 var magnið 2919.5 tonn og 1981 2507.9 tonn. Það er magnminnkun frá 1980–1981 þó að verðmætið hækki allverulega.

Eins og kom fram reyndar í bréfi Hafrannsóknastofnunar átti ég árið 1979 viðræður við fiskifræðinga um smokkfiskinn og óskaði þá eftir því að tilraunir yrðu gerðar. Þá var stofnunin ekki í aðstöðu til að gera þær á stundinni. Slíkt hafði ekki verið undirbúið, enda enginn smokkfiskur sést í 14 ár svo að segja, en engu að síður var einkaaðili hvattur til þess og styrktur til að hefja þá tilraun. Eins og áður kom fram lagði ég áherslu á að stofnunin yrði reiðubúin að gera slíka tilraun hvenær sem er.

Það sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda um smokkfisk hér við land á undanförnum árum kemur mér á óvart, ef hann hefur verið hér í einhverju magni, því að við höfum fylgst með þessu. Þótt upplýst hafi verið að nokkur smokkfiskur hafi sést hefur verið fullyrt að magnið væri langtum minna en svo að um stærri veiðar gæti orðið að ræða, eins og t.d. í troll.

Það var athyglisvert, sem hv. fyrirspyrjandi nefndi áðan, að Norðmenn hafa leyft öðrum þjóðum að veiða á Jan Mayen-svæðinu. Ég tel vissulega vel koma til greina að leita eftir slíkum heimildum, því að eins og sjá má af þeim tölum sem ég nefndi áðan er hér um töluvert verðmæti að ræða í innflutningi.