02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

83. mál, nýting á smokkfiskstofninum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Alexanderssyni fyrir að bera fram þessa fsp. varðandi smokkfiskveiðarnar, sem ég held að feli í sér margar aðrar spurningar um með hvaða hætti við stöndum að nýtingu á auðlindum sjávar hér í Norður-Atlantshafinu.

Ég hygg að hæstv. sjútvrh. hafi svarað því hér til sem hægt var varðandi þessar rannsóknir og veiðar. Við höfum haft í ýmsu að snúast varðandi rannsóknir á fiskstofnum okkar og höfum kannske komið meira til leiðar við þær rannsóknir en raunverulega var hægt að ætlast til miðað við fjármagn okkar og getu.

Það eru náttúrlega gömul sannindi og almenningi kunn allar götur frá því að Bjarni Sæmundsson gaf út Fiskana sína, að hér er um að ræða flökkukvikindi sem staðnæmist óvíða lengi. Þó hefur borið við að hann dokaði við í íslensku fjörðunum, 1–3 mánuði, ekki miklu styttri tími en norsk-íslenski síldarstofninn var veiðanlegur á sínum tíma. Ég tel alveg fráleitt að við gefum okkur ekki betur að veiðum á flökkustofnum en við höfum gert fram að þessu og reynum að komast upp á lag með að veiða þá annars staðar þar sem þeir eru tiltækir, utan okkar fiskveiðilögsögu. Mætti jafnvel vitna í lýðhvöt Einars heitins Benediktssonar á sínum tíma, þegar hann spurði:

Vissir þú hvað Frakkinn fékk til hlutar?

Fleytan er of smá, sá grái er utar.

Við eigum skip núna sem duga til þess að sækja fisk í troll á djúpsjó, en við hófum bara ekki sinnt þessu.

Þess er að geta, að hér er ekki aðeins um beitu að ræða. Hér er um að ræða talsvert verðmætan krabba til manneldis líka og í vaxandi mæli.

Ég geri ekki ráð fyrir að það verði Hafrannsóknastofnun sem verður hvatinn að því að við sækjum þennan fisk á djúpslóðina, ekki heldur ríkisstj., en það mætti e.t.v. stuðla að því að mönnum verði gert kleift að gera út til að ná í þennan fisk og stuðla að því með einhverjum hætti að íslenskir fiskimenn komist upp á lag með að veiða kolmunna og spærling á sama hátt og grannar okkar.