02.12.1982
Sameinað þing: 24. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

83. mál, nýting á smokkfiskstofninum

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Mér er ómögulegt að þegja í þessari umr., þar sem ég ætti að geta vitnað eitthvað í henni.

Það er varla á bætandi og Hafrannsókn hefur verið skömmuð nóg undanfarið, en ég er svolítið hissa á að fiskifræðingarnir skuli ekki hafa orðið varir við smokkfiskinn í sumar. Ég hef sjaldan eða aldrei orðið meira var við hann í trollið en einmitt á þessu sumri. Hann festir sig um allt í troll hjá okkur. Þetta gerist á veiðum við Suðausturlandið. Ég efa hreinlega að þeir hafi rannsakað málið. Nú endurtek ég að ég vil ekki kasta meiri rýrð á þá fremur en orðið er og hefur verið gert undanfarið, þeir hafa fengið nóg. En ég er hræddur um að þarna sé um að ræða meira en trassaskap þeirra, reyndar hef ég þó ekki sagt að hér sé trassaskapur á ferð, því þá vantar fé og þá vantar skip til að athuga þetta. — Þeir hafa svo mörg svið um að fjalla. Þetta er hálfkák á öllum sviðum, ef þeir koma þá nærri því. Þá vantar fjármagnið. Við skulum ekki beinlínis álasa mönnunum sem um þetta fjalla.

Hv. þm. Skúli Alexandersson sagði nokkur orð um veiðar Norðmanna og Rússa við Jan-Mayen. Ég er hræddur um að honum hafi misheyrst. Ég hlustaði einmitt á þessa frétt og heyrði að það var rækja sem menn nefndu í fréttinni. Ég heyrði ekki minnst á smokkfisk þar, enda held ég að smokkfiskur gangi ekki það langt norður. Þetta er frekar hlýsjávarfiskur. Ég man það langt að árið 1940 og þar fyrir, þegar ég var heima í minni sveit, sem ég átti auðvitað alltaf að vera, rak hann inn á fjörur í stórum stíl og við tíndum þetta upp og höfðum gaman af og drógum eitt og eitt kvikindi á færi og höfðum gaman af því líka.

En mér finnst vel athugandi mál að rannsaka þetta. Það eru orðnar ískyggilega háar upphæðir bundnar innflutningi smokkfisks. Við þurfum að flytja inn vissan fisk fyrir 13 millj. kr. til að láta ofan í annan fisk. Það er orðið alvörumál fyrir okkur þegar svo er komið. Við megum vel eyða einhverjum peningum til að rannsaka flökkufiskinn og láta ekki aðra fá af honum meira en þeir fá því að svo selja þeir okkur hann aftur.