06.12.1982
Efri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

127. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 131 hef ég ásamt þeim hv. þm. Eiði Guðnasyni, Agli Jónssyni, Stefáni Guðmundssyni og Stefáni Jónssyni leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 52/1959, um kosningar til Alþingis, með síðari breytingum.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Það er í raun og veru um að ræða breytingu á einni grein þessara laga, 45. gr., og lagt til að einni viðbótarsetningu verði bætt þar inn í. Hún varðar það, að nafnnúmer skuli fylgja nafni kjósanda utan á umslagi.

Þetta frv. er fyrst og fremst flutt til að auðvelda úrvinnslu utankjörfundaratkv., sem þarf að dreifa í mismunandi kjördeildir eftir því hvar k jósandi er á kjörskrá.

Það kemur fram í síðustu mgr. 71. gr. laganna um kosningar til Alþingis að yfirkjörstjórn á hverju kjörsvæði skuli strax að morgni kjördags bera þau utankjörstaðaatkv., er borist hafa, saman við kjörskrá viðkomandi staðar, og það, sem ekki finnst þar, skuli borið saman við þjóðskrá og atkv. komið á réttan ákvörðunarstað. Til þess að auðvelda þetta er nauðsynlegt að nafnnúmer kjósanda sé einnig utan á umslaginu. Það hefur oft reynst erfitt og jafnvel tafið svo að slík atkv. verða ónýt ef þau komast ekki á ákvörðunarstað. Hefur þá ekki verið hægt að finna hvar viðkomandi er á kjörskrá þar sem nafnnúmerið hefur vantað utan á umslagið. Þetta er ástæðan fyrir því að frv. er flutt.

Ég tel ekki að frv. þurfi fleiri skýringa við, en legg til að þessu máli verði vísað til allshn. að loknum umr.