06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

130. mál, málefni fatlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Frv. um málefni fatlaðra var til rækilegrar meðferðar síðast hér á hv. Alþingi s.l. vetur. Kom frv. fyrst til umr. 17. des. 1981, þar sem ég gerði ítarlega grein fyrir einstökum efnisatriðum þess og hv. stjórnarandstæðingar tóku þátt í umr. Ég held að mér sé óhætt að segja að frv. hafi þá þegar almennt verið vel tekið. Málið kom síðan til meðferðar félmn. Nd. og hlaut þar mjög rækilega umr. og meðferð. Nefndin skilaði hv. Nd. áliti 5. maí s.l. þar sem þáv. formaður n., hv. þm. Alexander Stefánsson, gerði mjög ítarlega grein fyrir nál. og öllum þeim brtt. sem nefndin lagði til að gerðar yrðu á frv. Sömuleiðis tók hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þátt í umr. um málið, sem hún hafði og gert við afgreiðslu þess og meðferð alla í nefndinni.

Það varð að samkomulagi á milli okkar, sem um þessi mál fjölluðum hér s.l. vor, að málið yrði ekki afgreitt á því þingi, heldur yrði það sent til frekari meðferðar á s.l. sumri. Ég komst þá þannig að orði um niðurstöðuna í ræðu sem ég flutti hér í þinginu 5. maí s.l.:

„Ég hefði að sjálfsögðu, eins og væntanlega allir aðrir alþm., helst kosið að okkur hefði tekist að ljúka málinu á yfirstandandi þingi. En þegar fyrir lágu jafneindregnar beiðnir og raun ber vitni um frá Landssamtökunum þroskahjálp og frá svæðisstjórnunum um að hinkra með málið í sumar taldi ég eðlilegt, eins og aðrir hv. alþm. sem um þetta mál hafa fjallað, að verða við þeirri beiðni, og ég hef litið svo á að um þá niðurstöðu sé samkomulag á milli flokkanna á Alþingi. Með þeim hætti er mögulegt að hlýða enn frekar á þá aðila sem vilja um málið fjalla. En það þýðir að sjálfsögðu ekki að Alþingi geti lofað því að samþykkja allt það sem frá þessum aðilum kemur. Vandinn er Alþingis að taka ákvörðun í þessu efni, að fara yfir tillögurnar og gera upp við sig hvernig með þær eigi að fara.“

Ég leit sem sagt þannig á, eins og kemur fram af þessum tilvitnuðu orðum, að hér hafi verið um að ræða pólitískt samkomulag þeirra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi.

Málið fór til meðferðar í sumar. Það voru ýmsir aðilar kallaðir til og niðurstaðan liggur nú hér fyrir framan okkur í því þskj. sem hér er til umr. Það er 130. mál, þskj. 134, frv. til laga um málefni fatlaðra.

Breytingarnar sem gerðar hafa verið á frv. eru allar í samræmi við þær tillögur sem félmn. Nd. gerði á s.l. vori. Þær till. eru hér inni í frv., en annars er frv. eins og það var fyrir.

Meðal þeirra aðila sem fjölluðu um málið í sumar var samráðsnefnd um málefni fatlaðra. Hún gekk frá tillögum sem mér voru sendar til athugunar. Það var í nóvembermánuði s.l., í síðasta mánuði. Þær till. eru prentaðar sem fskj. með frv. á bls. 40 til og með bls. 42 í þskj. Ég kaus að hafa þennan hátt á fremur en setja tillögurnar inn í frv. því að hér er um að ræða ýmsar tillögur frá samráðsnefndinni sem félmn. Nd. hafði að sjálfsögðu ekki tekið afstöðu til. Mér fannst eðlilegt að leggja frv. fram eins og hún hafði fjallað um það á s.l. vetri, þannig að nýjar tillögur væru ekki dregnar inn í myndina. Það gæti valdið töfum jafnvel og ruglingi í meðferð málsins. Það er svo að sjálfsögðu n. að taka afstöðu til þessara einstöku tillagna frá samráðsnefndinni. Ég hygg að sumar séu þannig, að það sé tiltölulega útlátalítið að fallast á þær, en aðrar eru þannig, að það hlýtur að vera mikið álitamál hvort á þær verður fallist. Ég tel rétt að uppgjör í þeim efnum fari fram innan nv. félmn.

Ég mun ekki í þessari framsögu fara yfir einstakar tillögur samráðsnefndarinnar, vegna þess að ég kæri mig ekki um á þessu stigi að gera það í einstökum atriðum hvaða tillögur það eru sem ég fyrir mitt leyti gæti fallist á og hverjar ekki, en ég mun að sjálfsögðu, ef óskað verður eftir því, reiðubúinn að ræða við formann n. og aðra nm. um tillögur samráðsnefndarinnar áður en frv. fer til 2. umr. hér í hv. deild.

Af þeim ástæðum að frv. fékk hér mjög rækilega meðferð á s.l. vetri og hefur verið til meðferðar í sumar og undanfarna mánuði ætla ég ekki að fara yfir einstök atriði frv. nú nema eitt. Það er ákvæði frv. um Framkvæmdasjóð fatlaðra. Í frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi árlega til a.m.k. jafnvirði 33 millj. kr. miðað við 1. janúar 1983 í beinu framlagi. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi tala sé að sjálfsögðu of lág miðað við árið 1983 og tel rétt að taka mið af því sem Alþingi treystir sér til að samþykkja í þessum einum við afgreiðslu fjárlaganna núna á næstu vikum, þegar talan verður endanlega ákveðin. Ég vek sem sagt athygli á að þessi tala, sem hér er inni er í rauninni ekki rétt. Hún er ekki till. okkar, en till. sem við gerum er sú, að tekið verði mið af niðurstöðu Alþingis og fjvn. við afgreiðslu fjárlaganna á næstu vikum. Mér finnst eðlilegt að þá komi það fram hvað Alþingi treystir sér til að gera því að það er auðvitað gagnslaust fyrir fatlaða og aðra þá sem þurfa að una við þessi lög að setja inn tölu sem er óraunhæf og ekki stenst, við þurfum að reyna að sameinast um að koma þarna inn tölu sem er raunhæf og þingið treystir sér til að miða við í framtíðinni.

Þetta vildi ég nefna, herra forseti, og sömuleiðis að í frv. er gert ráð fyrir, eins og það er prentað, að lögin öðlist gildi 1. janúar 1983, en það getur að sjálfsögðu. ekki orðið. Það verður að finna nýjan gildistökudag, sem gæti auðvitað alveg eins verið 1. júní 1983 ef frv. verður afgreitt á fyrri hluta næsta árs.

Ég ætla ekki, herra forseti, að tefja þessa umr. frekar. Ég vil svo nota þetta tækifæri til að þakka þeim, sem um þetta mál hafa fjallað, fyrir góðar undirtektir, og ég er raunar viss um að svo verður áfram.

Ég fer fram á það við hv. félmn. að hún kanni möguleika á því að vinna með félmn. Ed. að afgreiðslu málsins núna á næstunni þannig að unnt verði að ljúka málinu hið allra fyrsta. Ég skora á hv. félmn. Nd. að halda þannig á þessu máli að þessu þingi ljúki ekki án þess að frv. um málefni fatlaðra verði að lögum. Ég vildi ógjarnan að það gerðist, þó að þingslit bæri að fyrr en venjulega, að þetta mál dagaði uppi. Það er svo mikilvægt og stórt í mínum huga að slíkt má ekki gerast. Þar með væri þessum málaflokki stefnt í mikla óvissu og ég held að Alþingi megi ekki taka á sig þá ábyrgð að ýta meðferð þessa máls til hliðar. Mér hefur líka skilist á fulltrúum allra þingflokkanna að þeir vildu leggja það á sig að frv. yrði afgreitt hið allra fyrsta. Ég heiti á n. að gera það sem hún mögulega getur í því skyni. Félmrn. mun fyrir sitt leyti reyna að hjálpa þar til eftir því sem frekast er kostur á.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.