06.12.1982
Neðri deild: 14. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

130. mál, málefni fatlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Varðandi spurningar hv. þm., en ég bið hana að afsaka að ég svaraði þeim ekki í athugasemd minni áðan:

Auðvitað verður að meta gildistökuna. Ég legg á það áherslu númer eitt að frv. verði afgreitt í vetur og verði þá að lögum, en auðvitað verður að ráðast hvort gildistakan er 1. júní eða 1. jan. Ég vil ekkert vera að taka af skarið með það. Það verður að meta út frá aðstæðum. En ég vil gjarnan að þetta frv. verði sem fyrst að lögum. Það er búið að fá vandaða og rækilega meðferð í langan tíma.

Í sambandi við sérkennsluna og að verkefni hennar verði tekin út úr Framkvæmdasjóðnum og þau fjármögnuð á fjárlögum, eins og hv. þm. spurði um, er auðvitað því til að svara að þetta fer allt eftir því hvaða fjármunir eru til ráðstöfunar. Auðvitað verður að meta málið með hliðsjón af því. Ég held að það sé ekki til góðs að setja þessi mál mikið dreifðara í stjórnkerfið en þau eru nú þegar og það sé skynsamlegt að halda við þá stefnu sem þegar hefur verið mörkuð í þeim efnum, þannig að allir þessir þættir, bæði heilbrigðisþátturinn, félagsmálaþátturinn og kennslumálaþátturinn haldist í hendur og það verði ekki farið að kljúfa þessa þætti upp í frumeiningar á nýjan leik. Tilgangurinn með setningu laga um aðstoð við þroskahefta var að samstilla kraftana og ég tel að það eigi að reyna að halda við það markmið áfram í meginatriðum.