07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

262. mál, löggjöf um samvinnufélög

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör þau sem hann gaf. Þau voru allítarleg. Hins vegar harma ég það auðvitað að seinagangur er á undirbúningi þessa máls. Ég skal viðurkenna að það er rétt að það tók ennþá lengri tíma að undirbúa hlutafélagalögin nýju. En þar var þó ruddur vegurinn. Það er hægt að styðjast mjög við nýju hlutafélagalögin að því er ný samvinnufélagalög varðar, sérstaklega þegar leitað er að leiðum til að auka lýðræði í félögunum. Það var einmitt gert með nýju hlutafélagalögunum.

Ég get nú ekki fallist á það að samvinnumenn ráði sínum félögum í raun. Það gera þeir því miður ekki. Þau eru býsna lokuð þessi félög og æðimikil stjórn að ofan. Ég held að æðstu, mestu og stærstu ákvarðanir séu teknar af toppinum og gangi síðan niður píramítann og menn verði að framkvæma þær hvort sem þeim líkar betur eða verr. En ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma hér. Gangurinn er auðvitað sá að reyna að koma á lýðræði í félögum á Íslandi almennt, hvort sem þau eru í formi hlutafélaga eða samvinnufélaga.

Raunar eru almenningshlutafélög og þær hugmyndir sem Erlendur Einarsson, forstjóri SÍS, setti fram og ég gat um hér áðan náskyld. Það eru mörg ákvæði um almenningshlutafélög sem eru mjög við hæfi í nýtískulegum samvinnufélögum. Það á því ekki að þurfa að verða ágreiningur á milli manna eins og mín, sem berjast sérstaklega fyrir almenningshlutafélögum, og þeirra sem vilja að samvinnuformið ráði. Það skiptir ekki meginmáll hvað félög eru kölluð. Aðalatriðið er það að þau séu raunverulega undir áhrifum eigendanna og að eigendurnir geti stuðlað að því að rekstur sé bæði heilbrigður, svo að ég noti nú það orð, og arðvænlegur. En ég tel það heilbrigðan félagsrekstur, ef eigendurnir, félagarnir raunverulega ráða en ekki einhverjir allt aðrir, jafnvel þó að þeir séu eftir krókaleiðum kjörnir til þessara starfa.

Ég skal ekki fara lengra út í þessa sálma en vona að menn sameinist um það að hraða undirbúningi málsins. Þá kem ég að ræðu hv. 4. þm. Reykv. sem ég þakka mjög fyrir. Ábending hans er að sjálfsögðu rétt svo langt sem hún nær. En því miður er mikið verk að semja löggjöf eins og þessa og væntanlega erfitt að koma slíkum lögum frá á Alþingi án þess að áður hafi verið rætt við hagsmunaaðila að einhverju leyti. Og auðvitað var það gert við undirbúning hlutafélagalaganna. Ég tel að það sé sjónarmið út af fyrir sig að alþm. eigi að reyna að vinna slíka löggjöf. Þá yrðu þeir auðvitað atvinnustjórnmálamenn enn frekar en orðið er. Því er ég andvígur og hygg að hv. þm. Vilmundur Gylfason sé líka andvígur því að þm. geri ekkert annað en að vasast í þingstörfum, þó að það sé göfugt starf að vera á löggjafarsamkundunni og vinna að löggjöf fyrir land og þjóð.

Allt er þetta auðvitað efni í margra klukkutíma umræður. Ég held að við hv. 4. þm. Reykv. séum í þessu efni meira sammála en kann að lita út fyrir. Ég vildi mjög gjarnan að aðstæður væru til þess að löggjafinn, þm. sjálfir gætu lagt fram slík frv. En til þess þurfa þeir, eins og ég áður sagði, að vera á góðum launum árið um kring og gera ekkert annað og það tel ég skaðvænlegt, að þm. einangrist með þeim hætti frá atvinnuvegunum. Ég hef haldið því fram og held því fram enn, að það ætti mjög að stytta þingtímann og hver einasti alþm. hefði önnur störf ákveðinn hluta ársins, helst helming ársins. Einn væri bóndi, annar sjómaður, einhver kannske lögfræðingur o.s.frv. En ég þakka bæði hæstv. ráðh. og hv. 4. þm. Reykv. fyrir orð þeirra hér áðan.