07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. svaraði fsp. mínum í löngu máli. Fór reyndar töluvert fram yfir þann tíma sem ráðh. er ætlaður samkv. þingsköpum til að svara spurningum, og væri æskilegt til að hraða störfum þingsins, að þær reglur, sem í þingsköpum eru um ræðutíma, verði látnar gilda jafnt um alla hér. (Gripið fram í: Þetta er misskilningur.) Því miður komu ekki fram í þessu langa svari nema að mjög litlu leyti svör við þeim fsp. sem ég bar fram og voru mjög einfaldar og stuttar. Hefði verið hægt að svara þeim með örfáum orðum á innan við mínútu. Í stað þess kaus hæstv. landbrh. að fjalla almennt um ályktun sem lögð hefur verið fram á Alþingi um stefnumótun í landbúnaðarmálum. Hún er ekki til umr. hér.

Því miður virðist eftir þessu svari að dæma að það hafi ekki enn verið ákveðið að taka föstum tökum þetta atriði í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. frá upphafi þessa árs, — atriði sem ég og margir aðrir telja eitt af grundvallaratriðunum í því samkomulagi sem gert var um stjórn efnahagsmála í upphafi ársins. Að menn hæfust handa um endurskoðun á ýmsum grundvallarþáttum í okkar efnahagskerfi og legðu síðan fram tillögur um þær kerfisbreytingar sem menn næðu saman um. Hér er nú upplýst að það hefur eingöngu með óformlegum hætti, eins og það var orðað, verið rætt við fulltrúa bændasamtakanna um þetta efni, en ekki er greint frá því hve margir fundir hafa verið haldnir né hvaða tillögur hafa verið lagðar fram.

Ég vil í þessu sambandi upplýsa að á fundum fjh.- og viðskn. Ed. og Nd. fyrir nokkru voru fulltrúar bændasamtakanna og upplýstu að þeir hefðu aðeins einu sinni á öllum þessum mánuðum verið kallaðir til viðræðna við fulltrúa landbrn. um þetta efni. Það voru reyndar sömu einstaklingar og hæstv. landbrh. tilgreindi hér, Ingi Tryggvason og Gunnar Guðbjartsson, sem gáfu þessar upplýsingar. Þeir upplýstu jafnframt að bændasamtökin hefðu verið reiðubúin að skipa formlega viðræðunefnd við rn. um þessi atriði og hefðu beðið eftir formlegu bréfi frá rn. svo að þau gætu skipað viðræðunefnd. Ég tel það ekki rétt vinnubrögð, þegar bændasamtökin eru reiðubúin að skipa sjálfstæða viðræðunefnd til skrafs við rn. um þessi grundvallaratriði í efnahagsmálum okkar og grundvallaratriði í lífsafkomu bændastéttarinnar í landinu, að rn. sé ekki reiðubúið að taka málið föstum tökum, heldur kjósi frekar að halda áfram með óformlegum hætti og með eins linum tökum og áðan kom fram og í upplýsingum fulltrúa bændasamtakanna, en að þeirra mati hefur aðeins einn fundur verið haldinn og það mjög óformlegur.

Ég vil skora á hæstv. landbrh. að hann skipi nú þegar formlega viðræðunefnd af hálfu rn. sem hefji viðræður við þá viðræðunefnd sem bændasamtökin eru reiðubúin að skipa, bæði til þess að endurskoða verðmyndunarkerfið og til að endurskoða útflutningsuppbótakerfið. Þetta eru slíkir grundvallarþættir í okkar efnahagslífi og lífsafkomu bændastéttarinnar að umræðan um endurskoðun á þeim má ekki vera í einhverjum óljósum óformlegum farvegi. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh. hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að það verði skipuð formleg viðræðunefnd, sem nú þegar hefjist handa um að ræða þessi mál við þá viðræðunefnd sem bændasamtökin hafa upplýst á fundum fjh.- og viðskn. að þau séu reiðubúin að skipa.

Hæstv. ráðh. vék að því í svari við minni fsp., þó að ég hefði ekki nefnt það einu orði í fsp., að það hafi verið ákveðið að 10 millj. kr. yrði varið til að fækka sauðfé. Það er alveg rétt. En þegar sú umr. fór fram var almennt rætt um að það yrði niðurskurður um 50 þús. fjár í haust og önnur 50 þús. að ári. Nú hefur verið upplýst á fundum fjh.- og viðskn. Alþingis af hálfu fulltrúa bændasamtakanna, að einungis hafi verið samið við bændur um niðurskurð á 10–15 þús. fjár af þessum 50 þús. og samningar hafi einungis verið gerðir við um 100 bændur eða rúmlega það. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. landbrh. hvort hann hafi ekki sama skilning og við fleiri að af þessum 10 millj. kr. skuli eingöngu greiða bætur þeim sem gerðu formlegan samning um niðurskurð, þ.e. þeim sem skáru niður 10–15 þús. fjár.