07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er undarlegur maður, hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Ragnar Grímsson. Hann hóf mál sitt hér áðan með því að ráðast að hæstv. landbrh. fyrir að hann notaði of mikinn tíma, meiri tíma en þingsköp ætluðu honum. Síðan stendur hann hér og talar og talar og talar sjálfur þótt hæstv. forseti sé að slá í bjöllu vora. Ég tel það orðið mjög athugandi fyrir forseta hér, bæði í deildum og Sþ., að fá sér lengri kólf svo að slá megi beint í hnakkann á hv. þm. til þess að hann stöðvi þennan málflaum sinn þegar hann er hér að misnota tíma þm.

Það er satt að segja afskaplega athyglisvert fyrir okkur, sem í stjórnarandstöðunni erum, að hlusta á þetta svefnherbergisrifrildi þeirra hæstv. ráðh. og hv. 11. þm. Reykv., formanns þingflokks Alþb. En þótt þeir séu búnir að tala hér og skamma hvor annan á víxl, þá fáum við ekki, ég og einn sessunauta minna botn í þessa umr. þeirra, því að ég gat ekki betur heyrt en að hæstv. landbrh. segði að þessar milljónir yrðu notaðar ef breytingar yrðu á verðbótakerfinu. En ef hv. 11. þm. Reykv. og flokksbræður hans stöðva þær breytingar, verður þetta fé þá ekki notað? Mér finnst þetta ekki hafa komið fram nógu skýrt. Það má vel vera að ég hafi misskilið orð hæstv. ráðh. Ég vona að hann leiðrétti mig þá. Eða verður þessu fé kannske varið eftir einhverjum geðþóttaákvörðunum hans eða annarra ráðh.?

Hitt er annað mál, að það (Gripið fram í.) undrar mig ekki þótt hv. 11. þm. Reykv. sé farinn að furða sig á því að stefnuyfirlýsing ríkisstj. sé brotin. Hann er búinn að vera að gera þetta frá því að þessi ríkisstj. tók við völdum, í skjóli þeirra ráðh. sem hann styður til valda hér á Íslandi.