07.12.1982
Sameinað þing: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

269. mál, verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og endurskoðun útflutningsbótakerfisins

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það sem ég sagði hér fór býsna mikið í taugarnar á hv. þm. Karvel Pálmasyni. Um Alþfl. hafði ég þó það eitt að segja, að vísa á ummæli talsmanna hans hér fyrir prófkjör eða um það leyti. Það var ekkert annað. Og ef ég á að tilgreina hverjir mennirnir voru, þá var það varaformaður flokksins, það var formaður flokksins, það var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Jón Baldvin. Öll þessi ummæli liggja fyrir og það er enginn vandi að lesa þau í Alþingistíðindum. Mín ummæli og mitt mál hér áðan, sem hv. þm. hafði sérstaklega við að athuga, var einungis að benda á þessar heimildir. Það var það sem hann hafði við mitt mál að athuga.

En til viðbótar við þetta er rétt að það komi hér fram að þessi fjárveiting, sem hefur verið talað um sem stuðning við bændur í þá átt að fækka bústofni í landinu, er nú ein af nýjum flíkum keisarans. Hér er um að ræða meðal annars fjármagn sem hefur verið notað til útrýmingar á vissum sauðfjárpestum. Stærsti hlutinn af þessu gengur yfir í það verkefni. Og það sem m.a. dró úr allri virkni í sambandi við ráðstöfun þessa fjár eða mótun hugsanlegra aðgerða í þessum efnum, það var hvernig þessu var klúðrað í höndum rn., þannig að það var nú bara einn punkturinn aftan við alla hina af því dæmalausa sleifarlagi sem hefur ríkt í þessum efnum hin síðari ár.