07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi Matthías Á. Mathiesen gerði að umtalsefni vinnu fjh.- og viðskn. Ed. og fjh.- og viðskn. Nd.brbl., sem þar eru til meðferðar, og þá sérstaklega ummæli prófessors Sigurðar Líndals á fundi n. í morgun. Ég greindi þeim þm., sem fundinn sátu í morgun og ég náði til, hér fyrr á þessum fundi, m.a. hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen, frá því að prófessor Sigurður Líndal hefði óskað eftir fresti til morgundags til að ganga endanlega frá sínu áliti. Ég tel það mjög óheppilegt að hv. þm. Matthías Á. Mathiesen skyldi engu að síður fara í þessari umr. um lánsfjáráætlun, sem er allt annað mál í sjálfu sér, fara að greina sérstaklega frá ummælum sem prófessor Sigurður Lindal hafði á fundum n. þegar prófessor Sigurður Líndal hafði óskað eftir fresti til morgundags til að gera nefndinni endanlega grein fyrir sínum skoðunum. Ég held að það sé mjög óheppilegt, þegar þingnefndir fá sérfræðinga til viðtals við sig og óska sérstaklega eftir því að þeir tjái sig um málin sem sérfræðingar, að verið sé að hlaupa inn í þingsalina með frásagnir af ummælum þeirra þegar viðkomandi sérfræðingar hafa óskað eftir fresti til næsta dags til að skila skriflegri niðurstöðu í málinu. Það má nefna í því sambandi, að eitt af þeim atriðum sem prófessor Sigurður Líndal tjáði sig um á fundinum hafði hann ekki skoðað sérstaklega áður en hann kom á fundinn. Þess vegna m.a. bað hann um frest til næsta dags til að geta kynnt sér málið nánar.

Vegna ummæla hæstv. utanrrh. vil ég hins vegar geta þess, að það var niðurstaða fjh.- og viðskn. að leita formlega til forseta lagadeildar Háskólans og óska eftir því að hann, sem æðsti embættismaður lagadeildarinnar, benti á þann prófessor sem menn þar vildu að veitti þessa umsögn. Það er því ekki fjh.- og viðskn. sem valið hefur prófessor Sigurður Líndal til að veita þessa umsögn, heldur var það forseti lagadeildar Háskóla Íslands sem valdi þann prófessor við skólann sem hann taldi að þessa umsögn ætti að láta í té.

Ég vil taka undir þau orð, sem hæstv. utanrrh. sagði hér, að prófessor Sigurður Líndal er með virtustu fræðimönnum hér á landi, ekki aðeins í lögfræði heldur í réttarsögu og ýmsum öðrum fræðigreinum. Ég tel það mjög óheppilegt vegna samskipta n. við ýmsa umsagnaraðila í þjóðfélaginu og vegna prófessors Sigurðar Líndals sérstaklega að ummæli hans skuli blandast svo í pólitískar deilur á þinginu áður en hann hefur haft tækifæri til að láta umsögn formlega í té. Ég vil biðja menn að biða með niðurstöður sínar og ályktanir um þetta mál út frá hans umsögn þangað til hún liggur formlega fyrir.

Hitt er svo rétt að hér komi fram, því að n. hefur þegar lokið afgreiðslu á því máli, að á fundum n. hafa komið fram frá þeim aðilum sem við höfum kvatt til mismunandi skoðanir á þeim lögfræðilegum atriðum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni varðandi túlkun 1. gr. Fyrra atriðið er hvort kaupgjaldsvísitala hækki ef frv. fellur á tímabilinu des. til 1. mars og hitt atriðið er hvort þau ákvæði sem kveða á um sérstaka helmingun verðbótahækkana eigi eingöngu við eitt verðbótatímabil, þ.e. það sem nú stendur yfir, eða hvort það eigi við öll verðbótatímabil þar á eftir. Eins og hæstv. fjmrh. lýsti hér áðan hefur ávallt í yfirlýsingum ríkisstj. um þetta efni á undanförnum mánuðum komið skýrt fram að eingöngu er um þessa einu niðurfærslu að ræða. Ég vek athygli hv. þm. á að í þessari 1. málsgr. lagagr. er vitnað í tvenn önnur lög og endanlegur skilningur á 1. málsgr. er háður því hvernig menn lesa út úr lögum nr. 10/1981, 5. gr., og lögum nr. 13/1979, 48.–52. gr.

Hagstofustjóri Klemens Tryggvason var fyrstur þeirra sem komu á fund fjh.- og viðskn. til þess að tjá sig um þetta atriði. Hans skoðun var ótvíræð. Hann tjáði n. að hann hefði borið sig saman við færa lögfræðinga. Að hans dómi mundi vísitalan hækka ef lögin yrðu felld á tímabilinu. síðan hafa komið fulltrúar frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands og lagt fram skriflega grg. til n. Þar koma andstæð viðhorf fram: annars vegar að það hafi ekki áhrif þó lögin séu felld og hins vegar að það hafi áhrif. Það var á grundvelli þessara mismunandi sjónarmiða, sem höfðu komið fram á fundum n. frá Klemens Tryggvasyni hagstofustjóra, frá fulltrúum Vinnuveitendasambands Íslands og frá fulltrúum Alþýðusambands Íslands, sem óskað var eftir því við forseta lagadeildar Háskóla Íslands að hann benti á prófessor við lagadeildina til að tjá sig um þetta lögfræðilega atriði. Ég bið hv. alþm. að bíða með nánari umr. um þetta atriði þar til öll málsskjöl liggja fyrir.