07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það virðist vera ljóst, eða nokkurn veginn ljóst skulum við orða það, af því sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að ekki munu a.m.k. verða afgreidd lánsfjárlögin fyrir jólahlé, vafasamt taldi hann að þau yrðu lögð fram, hafi ég tekið rétt eftir, og hið sama á við um lánsfjáráætlun. Í sjálfu sér er þetta ekkert nýtt. Menn upplifðu líka á ráðherratíð hæstv. fyrrv. fjmrh. Matthíasar Á. Mathiesen, ef ég man rétt, að með seinni skipunum væru þessi gögn á ferðinni. (MÁM: Alltaf að samþykkja fjárlögin.) En þetta er auðvitað eitt af þeim málum sem Alþingi stendur oftar frammi fyrir, þ.e. að hæstv. ráðh. og ríkisstj., og ekki bara þessi ríkisstj., ég tek það enn skýrt fram, þannig að það valdi ekki misskilningi, vinna með allt öðrum hætti en Alþingi ætlast til af þeim. Það er auðvitað meginmál.

Ég hef velt því fyrir mér æðilengi hvaða tilgangi t.d. þjónaði afgreiðsla fjárlaga á hinu háa Alþingi. Þau eru að mörgu leyti, mestu leyti kannske og þá mest hin síðari ár, orðin nokkurs konar pappírsgagn. Það mun t.d. vera búið að setja upp önnur fjárlög við hliðina á þeim fjárlögum sem Alþingi afgreiðir, veita aukafjárveitingar til haustsins í haust, það sem af er árinu fram í október, sem eru milli 5 og 600 millj. (SvH: Hvað er þetta?) Er hæstv. forseti Nd. ekki með á nótunum? (SvH: Nei.) Það er sjálfsagt að endurtaka þetta. Ég hélt að hann heyrði af því að hann situr ekki fjær en þetta. Það er búið að setja upp framkvæmdafjárlög fyrir hæstv. ráðh. og embættismannakerfið við hliðina á hinum raunverulegu fjárveitingum, sem Alþingi er að samþykkja. Í okt. s.l. nam sú upphæð á milli 5 og 600 millj. kr. Hefur nú hæstv. forseti Nd. náð þessu? (SvH: Ég hef heyrt.) Já, það er gott, og meltir það vonandi. Þetta er auðvitað eitt sýnishornið af því hvernig framkvæmdavaldið fer með málin. Það er orðið til lítils gagns fyrir hv. Alþingi, fjárveitingavaldið, að vera hér með skæklatog um fjárveitingaupphæðir til hins eða þessa málaflokksins þegar hæstv. ráðh. og aðrir ráðsmennskast á sama tíma með fjármuni svo hundruðum milljóna skiptir að eigin geðþótta.

Ég tek undir það með hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen að hæstv. fjmrh. gaf það fyllilega í skyn í fjárlagaumr. að bæði lánsfjárlögin og lánsfjáráætlunin yrðu lagðar hér fram á Alþingi innan nokkurra vikna, ef ég man orðalagið rétt. Það er engu líkara en hæstv. ráðh. hafi þá ekki vitað á hvaða árstíma jólahátíðin er. Kannske hann hafi sömu hugmyndir uppi og hans ágæti flokksbróðir í Delirium Bubonis að fresta jólunum. En auðvitað hefur tímatal ekkert breyst frá því að hæstv. fjmrh. flutti fjárlagaræðuna fyrir nokkru. Jólahátíðin er á sama tíma enn og ætla mætti að hún væri þá. Kannske er ekki ástæða til að fjölyrða öllu frekar um þetta, en snúa sér aðeins að öðru efni þessara umr.

Það kann að vera rétt hjá hv. formanni þingflokks Alþb. að ekki sé æskilegt að vera að ræða vafaatriði hér á hv. Alþingi, sem ákveðnir einstaklingar, í þessu tilfelli lagaprófessor, hafa ekki enn látið frá sér fara formlega, þó þess sé að vænta að það verði gert, en fyrst þessu máli er hreyft á Alþingi verður ekki komist hjá því að ræða það. Þetta er það mikilvægt mál að það er full ástæða til uppgjörs.

Ég skal sleppa því að ræða sérstaklega ummæli prófessors Sigurðar Líndals. Við höfum hér annan lagaprófessor, fyrrv. lagaprófessor við Háskóla Íslands, sem ég tel ástæðu til að bera fyllsta traust til í þessum efnum. En það sem ég vildi hér gera að umræðuefni eru þær hugmyndir, sem ég að gefnu tilefni hlýt að gefa gaum ef réttar eru, að 1. gr. brbl., um skerðingu verðbóta á laun, eigi ekki einvörðungu að gilda frá og með 1. desember s.l., heldur 1. febr., 1. mars, 1. júní og svo áfram, ef þetta er rétt. Mér þykir leitt ef hæstv. utanrrh., fyrrv. lagaprófessor við Háskólann, er farinn því að ég hef ástæðu til að ætla að einstakir hv. þm. í hans flokki, stjórnarliðinu, hafi haft uppi þær skoðanir að hér væri ekki einvörðungu um að ræða skerðingu verðbóta þann 1. desember, heldur skyldu þær skerðingar halda áfram. Ég vildi því spyrja hæstv. utanrrh., sé hann í kallfæri, — helst hefði ég viljað spyrja hæstv. forsrh. því það er hann sem leggur fram brbl., en hann er ekki í kallfæri, ekki að sinni, — hver sé skoðun hæstv. utanrrh. sem fyrrv. lagaprófessors við Háskólann á þeim ákvæðum 1. gr. sem að þessu lúta. Telur hann að samkv. þeirri lagagrein sé um að ræða skerðingu á verðbótum einvörðungu þann 1. desember eða, eins og gefið hefur verið í skyn að ég hygg af einhverjum flokksbræðra hans, að sú skerðing eigi líka að taka til 1. mars, 1. júní og áfram?

Það er auðvitað nauðsynlegt, fyrst þetta mál ber hér á góma, að fá svör frá þessum tilteknu hv. þm., og þá fyrst og fremst frá hæstv. utanrrh. eða hæstv. forsrh., um hvað í raun og veru sé hér á ferðinni. Veit hæstv. forseti nokkuð hvar hæstv. utanrrh. er staddur á þessum tíma? (Gripið fram í.) En kannske hæstv. forseti gæti hringt og látið athuga (Fjmrh.: Vill ekki ræðumaður tala hærra?) Það mætti tala hátt ef það ætti að ná til sumra ráðh. Þeir eru ekki svo nálægir þingstörfum oft og tíðum. (SvH: Eða með leðurhlustir.) Eða með leðurhlustir, bætir hæstv. forseti Nd. við. Á meðan athugað er um staðsetningu hæstv. ráðh. er kannske ástæða til að spyrjast fyrir um það ... Líklega er hv. formaður þingflokks Alþb. líka horfinn, en einhverja vitneskju gæti hann kannske veitt í þessu máli. (ÓRG: Bara snúa sér við, bara snúa sér við.) Já, hann er kominn í ráðherrastólinn, ekki spyr ég að. Það á ekki að standa á því. Ég þakka hv. þm. að hann skuli vera hér. (Forseti hringir.) Það er nú ástæðulausi, herra forseti, að vera að þagga niður í hv. 11. þm. Reykv. Það er ekki svo oft sem hann lætur til sín heyra á hv. Alþingi.

En ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson sem formann fjh.- og viðskn. Ed. hvort það hafi komið fram skoðanir í fjh.- og viðskn. sem gætu gefið til kynna að einhverjir hv. þm. úr stjórnarliðinu álíti að skerðingarákvæði á verðbætur eigi ekki einvörðungu að taka til verðbótaútreikninga 1. desember, heldur eigi líka að taka til 1. mars, 1. júní og svo áfram.

Ég hef óskað sérstaklega eftir að fá upplýsingar um hvort slíkt hefur komið fram. Ég tel mjög alvarlegt mál ef uppi eru hugmyndir um að 1. gr. feli þetta í sér og þá sé fullkomin ástæða til að upplýsa það. Ég beini því líka til þeirra hv. þm. Framsfl., séu þeir hér inni, sem sæti eiga í fjh.- og viðskiptanefndum, en ég veit ekki betur en fjh.og viðskn. beggja deilda hafi fjallað um þetta mál sameiginlega: Er það skoðun einhvers þessara hv. þm. að skilja beri 1. gr. brbl. á þann veg að skerðingar á verðbætur endurtaki sig í framhaldi af 1. des.? Það er nauðsynlegt að fá þetta upplýst. Ég fullyrði að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar standa í þeirri meiningu að hér sé um að ræða einvörðungu skerðingu 1. desember, en ekki áframhaldandi. Ég er alveg fullviss um að sé einhver vafi á um þetta atriði hljóti forustumenn í verkalýðshreyfingunni, í Alþýðusambandinu, fyrr en síðar að taka sterkar á í andstöðunni við þessi ákvæði að því er varðar skerðingu verðbóta.

Ég sé að einstakir hv. þm. Alþb. sofa værum svefni undir þessum umr. — ég nefni engin nöfn.

Í lokin vil ég aðeins ítreka að við fáum hér svör við þeim getgátum sem á kreiki hafa verið um hvernig skilja beri þetta ákvæði 1. gr. brbl. um skerðingu á verðbótaþætti launa og ég treysti því að formaður fjh.- og viðskn. Ed. láti okkur í té vitneskju um hvort slíkur skilningur um áframhaldandi skerðingu hefur komið fram af hálfu einhverra hv. þm., sem sæti eiga í fjh.- og viðskn., því að ég tel að Alþingi eigi skýlausan rétt, og ekki bara Alþingi heldur og þjóðin öll og ekki síst launafólkið, það sem verst er sett og hér er verið að skerða stórlega laun hjá, á að vita um hvort slíkur skilningur er á kreiki á hv. Alþingi og þá ekki síst ef hann er á kreiki innan stjórnarherbúðanna, í liði því sem ber ábyrgð á þessari lagasetningu.