07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég sé ekki hæstv. fjmrh. í sæti sínu og veit ekki hvort hann má mál mitt heyra. Þar kemur hann inn í salinn og þá get ég hafið ræðu mína.

Erindi mitt í ræðustól var að taka undir gagnrýni hv. 1. þm. Reykn., þar sem hann gagnrýndi að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun væri ekki fram komin. Ég hlýddi ekki á upphaf ræðu hv. 1. þm. Reykn., þannig að það kann að vera um endurtekningu að ræða hjá mér þegar ég minni á að við 1. umr. fjárl. sagði hæstv. fjmrh. orðrétt eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Nú er unnið að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1983 og verður hún væntanlega lögð fyrir Alþingi að nokkrum vikum liðnum“.

Þessar umr. fóru fram 4. nóv., þannig að það eru nálægt 5 vikur síðan. Ég veit ekki hvað hæstv. fjmrh. kallar nokkrar vikur, en ég held að úr því að menn eru komnir fram úr fimm vikum sé um margar vikur að ræða, en ekki nokkrar. Þegar hæstv. fjmrh. er spurður nánar út í þetta síðar í umr.,hvenær megi búast við lánsfjáráætlun, — það er gripið fram í ræðu hans, — þá svarar hann: „Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni hér í dag, að von mundi vera á lánsfjáráætlun að nokkrum vikum liðnum“. — Ég endurtek: 5 vikur eru meira en nokkrar vikur. Úr því sem komið er er um margra vikna töf að ræða.

Hæstv. fjmrh. bar fyrir sig einkum tvö vandamál, sem þyrfti að gera grein fyrir í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. Annars vegar var fjárhagsvandi Fiskveiðasjóðs, sem hann taldi vera margra ára gamlan. Ekki skal ég fjalla í einsraka atriðum um fjárhagsvanda Fiskveiðasjóðs. en ég vek athygli á að þessi fjárhagsvandi Fiskveiðasjóðs var ekki meiri fyrir nokkrum mánuðum en svo, að það var varið 100 millj. kr. af svokölluðum tekjuafgangi Fiskveiðasjóðs til að styrkja togaraflotann. Það er nú ráðslag hjá einni ríkisstjórn að greiða 100 millj. kr. út úr sjóði eins og Fiskveiðasjóði, sem á við svo alvarlegan fjárhagsvanda að stríða að ekki er hægt að koma fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir næsta ár saman vegna þess vanda. Auðvitað var þarna verið að taka ímyndaðan hagnað. Auðvitað var þarna verið að taka af sjóði, sem ekki hafði efni á að láta eina krónu af hendi, til þess að greiða taprekstur útgerðarinnar í landinu, sem er rekin með tapi vegna stjórnarstefnunnar, vegna þess að núverandi stjórnvöld hafa aldrei leyst neinn vanda með öðrum hætti en þeim að ýta honum á undan sér, og það er auðvitað engin lausn.

Hæstv. fjmrh. gaf aðra ástæðu fyrir töf þeirri sem orðið hefur á framlagningu fjárfestingar- og lánsfjáráætlunarinnar. Sú ástæða var, að Landsvirkjun gerði ráð fyrir svo ákaflega miklum orkuframkvæmdum á næsta ári. Nú man ég ekki betur en þessi hæstv. ráðh. og flokksbróðir hans hæstv. iðnrh. hafi hrósað sér af því að síðasta Alþingi hefði markað stórhuga stefnu í orkumálum. Nú er það ekki hróssvert vegna þess að ráðin voru tekin af þessum tveim hæstv. ráðh. um stefnumörkun í orkumálum á síðasta Alþingi. En allavega fannst þeim ekki boginn spenntur þá of hátt og ekki ætti að koma þeim á óvart eftir stefnumörkun Alþingis á s.l. vori að gera þyrfti ráð fyrir þessum orkuframkvæmdum í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár. Þeir höfðu nægan tíma til að fjalla um það vandamál og leysa, en það hefur bara ekki verið leyst frekar en önnur verkefni og vandamál sem ríkisstjórnin hefur átt við að glíma. Sannleikurinn er sá, að auðvitað er ríkisstjórnin og einstaka ráðh. nú að fjalla um að það þurfi að fresta ýmsum þeim framkvæmdum sem þeir hafa hrósað sér af áður, að það þurfi að draga á langinn ýmsar þær framkvæmdir sem þeir voru aðilar að að tímasetja fyrir aðeins nokkrum mánuðum.

Það eru skýringar á því af hverju fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar kemur ekki fram. Skýringarnar eru blátt áfram þær, að ríkisstjórnin hefur gefist upp á að leysa þau vandamál sem uppi eru þegar slíkar áætlanir eru gerðar. Það er hver höndin upp á móti annarri innan ríkisstj. og ríkisstj. þorir ekki að sýna drög að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hér á Alþingi, til þess að upplýsa ekki hve ómegnug hún er að leysa vandamálin og hve deilur innan ríkisstj. eru á háu stigi að þessu leyti — að svo miklu leyti sem um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hefur yfir höfuð verið fjallað innan ríkisstj. að svo komnu máli.

Það er rétt að það komi hér fram, að burtséð frá fyrirheiti hæstv. fjmrh. um að birta Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. innan nokkurra vikna, en það fyrirheit gaf hann fyrir 5 vikum, er hann skyldur samkv. lögum að leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn. Það stendur í 14. gr. Ólafslaga orðrétt og skulu þær fylgja fjárlagafrv. Engum blöðum er um það að fletta að þessari skyldu hefur hæstv. fjmrh. brugðist. Þetta eru þó lög sem hann var aðili að að samþ. Hann var ráðh. þegar þessi lög voru sett og ætti því skylda hans til að framfylgja þeim að vera enn ríkari. Jafnvel þegar jafnströng skylda var ekki fyrir hendi, í tíð hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesens sem fjmrh., var þessa þó gætt og skal það fram tekið að gefnu tilefni.

Hæstv. fjmrh. sagði að það væri auðvitað ekkert unnið við að leggja fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun mjög snemma vegna þess að hún tæki breytingum og vitnaði til þess að meðferð slíkrar áætlunar á síðasta þingi bæri því vitni, en nú er þar til að taka að það var einmitt lélegur undirbúningur þeirrar áætlunar og stefnuleysi og ráðleysi hæstv. fjmrh. og samráðh. hans sem varð þess valdandi hve miklum breytingum sú áætlun tók. Þrátt fyrir að áætlunin fyrir yfirstandandi ár tæki slíkum breytingum og þrátt fyrir að hún væri ekki samþ. fyrr en í aprílmánuði s.l. hefur framkvæmdin orðið slík að áætlaðar erlendar lántökur hafa farið langt fram úr áætlun.

Nú er hæstv. fjmrh. meiri áætlunarsinni en ég, en ég tel þó til góðs að gera sér grein fyrir þróun mála fram í tímann og gera slíka fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, eins og lög um stjórn efnahagsmála gera að skyldu, að minnsta kosti eitt ár fram í tímann. Þessi lög nefna á öðrum stað slíkar áætlanir til þriggja ára fram í tímann, en ríkisstj., sem er arftaki þeirrar vinstri stjórnar sem setti þessi lög hefur aldrei haldið það né farið eftir því.

Ég tel að áætlanir til eins árs séu af hinu góða — en þær missi gjörsamlega marks ef þær eru ekki samþ. fyrr en á nær miðju ári sem þær eiga að gilda fyrir. Það er þess vegna allt sem ber að sama brunni um meðferð hæstv. fjmrh. varðandi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem og önnur þau efni sem hér hafa verið nefnd sem dæmi um fálm, fum og fát núverandi hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum.

Ég skal ekki á þessu stigi blanda mér í þær deilur sem hér hafa komið fram um mismunandi túlkun brbl., um áhrif þess ef þau verða felld eða halda ekki gildi sínu. Ég vil aðeins að gefnu þessu tilefni leggja áherslu á að það er skylda okkar alþm. að gera okkur grein fyrir áhrifum þeirrar lagasetningar sem við ræðum um og greiðum atkvæði um hér á Alþingi og þess vegna er það auðvitað krafa alþm. að nefndir þær sem fjalla um brbl. rannsaki þetta mál og þessi ágreiningsefni til hlítar, þannig að alþm. geti gert sér fulla grein fyrir áhrifum þess sem hér hefur verið deilt um að ætti sér stað við mismunandi afgreiðslu mála á Alþingi.