07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lauk máli sínu með því að fara að ræða úrslit næstu kosninga og sagðist vonast til þess að stjórnarandstæðingar ynnu þar mikinn sigur. Mig langar til að spyrja hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson hvort sigur Sjálfstfl. í Norðurl. v., ef hann verður að veruleika, verði sigur fyrsta mannsins á listanum, ráðherrans Pálma Jónssonar, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur nú kallað svikara hér í ræðustól Alþingis í dag, eða sigur annars mannsins á listanum, Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Það væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það fyrirfram. (EKJ: Í fyrsta lagi kallaði ég ráðh. ekki svikara og í öðru lagi hlýtur það að koma á daginn þegar þar að kemur hver sigrar.) Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði að þessi ríkisstj. hefði verið mynduð af svikurum. (EKJ: Af svikum og undirferli.) Þeir sem stunda svik eru væntanlega svikarar. Það er almenn málvenja í landinu að þeir sem stundi svik séu svikarar. Eru þeir sem stunda svik eitthvað annað en svikarar? (EKJ: Pálmi Jónsson myndaði ekki ríkisstj.) En hann gekk glaður inn í hana og situr glaður í henni. (EKJ: Og ætlar ekkert út úr henni.) Nei, hann ætlar ekkert út úr henni og mun sitja í henni þegar hann verður í framboði með hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni. Ég mælist til þess að þeir ræði það á framboðsfundum í Norðurl. v. hvort þessi ríkisstj. hafi verið mynduð af svikurum eða ekki og hvort þeir sem stunduðu svikin séu svikarar eða ekki. Síðan vænti ég þess, að það verði sagt frá því eftir kosningar hvernig þeim orðaskiptum lyktar. Ég ítreka ósk mína um að fá svör við því hvort sigur Sjálfstfl. í Norðurl. v., ef af honum verður, sem er náttúrlega allsendis óvist, telst sigur fyrir stjórnarandstæðinga eða stjórnarsinna. (EKJ: Það kemur á daginn.)

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var að enda við að lýsa því áðan að ríkisstj. ætlaði sér að sitja. (Gripið fram í.) Það er alveg nauðsynlegt að ræða við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson. Ræða hans var svo óljós áðan að hana þarf að upplýsa nánar.

Annað atriði, sem er mjög óljóst í þessu, eru sífelldar vangaveltur þingmanna Sjálfstfl. í stjórnarandstöðunni um hvernig beri að túlka 1. gr. brbl. Þessir menn eru fyrir löngu búnir að lýsa því yfir að þeir ætli að greiða atkvæði gegn þessari grein. Nú standa þeir hins vegar upp hér á Alþingi hvað eftir annað og segja: Hvað þýðir hún, hvað þýðir hún og er ekki hægt að fá á hreint hvað hún þýðir? — Hv. þm. Geir Hallgrímsson lagði á það ríka áherslu áðan að menn yrðu að vanda vel meðferð málsins í Alþingi til að fá að vita hvað þessi grein þýddi og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var að ítreka það áðan. En mennirnir eru fyrir löngu búnir að lýsa því yfir að þeir ætli að fella hana, hvað svo sem hún þýðir. Þetta er því sérkennilegur málflutningur, satt best að segja. Það kynni þó ekki að vera að þessir hv. þm. væru að leita eftir smugu til að þurfa ekki að vera á móti greininni? Það er alveg sjálfsagt að aðstoða þá við það. Þess vegna hef ég orðið við öllum óskum þeirra sem formaður fjh.- og viðskn. Ed. og leitað mér upplýsinga hjá fjölmörgum aðilum. Ég sé að mennirnir stríða við örvæntingarfulla þörf eftir því að finna einhvers staðar smugu til að geta a.m.k. setið hjá. Það má vel vera að við finnum í sameiningu þessa smugu fyrir hv. þm. Geir Hallgrímsson og Eyjólf Konráð Jónsson í meðferð málsins. Ef það gæti orðið veruleiki getur vel verið að það borgi sig að vera frekar deginum lengur en skemur við að fjalla um málið, — enda er það greinilegt að engir hafa lagt eins mikla áherslu á að það væru kallaðir til hinir og þessir sérfræðingar í málið og hv. þm. Sjálfstfl. Ég hef orðið við þeim óskum og við höfum unnið vel og dyggilega, eins og við gerum alltaf, félagarnir í fjh.- og viðskn. Ed., við að fjalla um þetta mál.

Hins vegar vil ég vekja athygli félaga míns, hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, á því að einnig stendur í 1. mgr. 1. gr., sem hann var að vitna til áðan: „sbr. 5. gr. laga nr. 10/1981.“ Ég ætla ekki að fara að ræða lagaskýringar úr þessum ræðustól, en vek athygli á þessu, sem stendur í lok greinarinnar: „sbr. 5. gr. laga nr. 10/1981.“ Hér er einmitt vitnað til greinar í öðrum lögum sem prófessor Sigurður Líndal hafði ekki skoðað áður en hann sagði sitt álit áfundinum í dag aðspurður. Hann bað um frest til að geta skoðað það nánar. Ég ætla hins vegar ekkert að segja hvaða dóm hann kann að fella. Það kemur í ljós.

Hitt er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að því hefur verið marglýst yfir af öllum talsmönnum ríkisstj. í þessu máli að eingöngu hafi verið ætlunin að þessi helmingun ætti sér stað í eitt skipti, — enda var hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson að enda við að lýsa því að hann hefði aldrei fyrr en í dag áttað sig á að um annað gæti verið að ræða. Það sýnir að hann hefur hlýtt vel og rækilega á útskýringar ríkisstj.-liðsins á efnisinnihaldi þessarar lagagreinar. Ef lögfræðingum tekst hins vegar að lesa út úr orðalagi greinarinnar annan skilning, þá hafa einfaldlega orðið lagatæknileg mistök, sem hafa ekkert með efnisinnihald sjálfs málsins að gera. Það verður auðvitað leiðrétt í meðferð þingsins ef það kemur á daginn að orðið hafi lagatæknileg mistök þeirra manna sem fengnir eru til að orða lagatexta fyrir ríkisstjórnir sem og þing. Efnisinnihaldið hefur alltaf verið ljóst og aldrei verið dregið í efa. Þar með svara ég þeirri fsp. sem hv. þm. Karvel Pálmason beindi hér til mín áðan og var aðalhvati þess að ég bað um orðið. — Ég gat hins vegar ekki stillt mig um að vekja athygli á þessari sérkennilegu ræðu sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flutti.

Hv. þm. Karvel Pálmason spurði mig áð því hvort einhverjir nm. í fjh.- og viðskiptanefndum hefðu lýst þeirri skoðun sinni að það ætti að túlka þetta á annan veg en hefur verið hingað til, að þetta væri í eitt skipti. Nú skal ég geta þess, að ég tel ekki eðlileg vinnubrögð hér á Alþingi að ég sem formaður n. sé spurður um það á Alþingi hverju einstakir nm. hafi lýst sem sinni skoðun í n. Það tel ég ekki eðlilegt. Ég tel að viðkomandi nm. eigi að lýsa því sjálfir og alveg ástæðulaust og ekki í samræmi við þingvenjur að hafa formann nefndanna sem einhvern millilið í þeim efnum. Ég vil þess vegna taka það skýrt fram að ég tel það á engan hátt eðlilegt að vera að spyrja formann nefndar meðan þn. starfar hvort nm. hafi lýst hinum og þessum skoðunum meðan n. er að fjalla um málið. Ef við ætluðum að fara að taka upp þau vinnubrögð hér á Alþingi að gefa skýrslu um slíkt gætu nefndastörf orðið mjög erfið. En ég tel að það heyri frekar til undantekninga að hv. þm. Karvel Pálmason ber fram þessa fsp.

Ég minnist þess ekki að nokkur þm. hafi í n. lýst þeim skilningi, að slíka helmingun ætti að endurtaka jafnt og þétt á komandi vísitölutímabilum. Ég minnist ekki að nokkur þm. í n. hafi lýst því að slíkt væri hans skoðun. (KP: Enginn vafi neins staðar?) Það hefur enginn þm. lýst þeirri skoðun. Hins vegar hafa þm. hlýtt á þá skýringu, sem fyrst kom fram hjá Þorsteini Pálssyni, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, að túlka ætti lagagreinina á þann veg að þetta væri endurtekið. Það er mína held ég u.þ.b. hálfur mánuður síðan Þorsteinn Pálsson lýsti þeirri skoðun á fundi n. En ég vek athygli á að í efnahagsskrá sem Vinnuveitendasambandið gaf út fyrir nokkru um þróun efnahags- og verðlagsmála á næstu mánuðum gerir Vinnuveitendasambandið ekki ráð fyrir að þessi helmingun sé endurtekin 1. mars, heldur gengur Vinnuveitendasambandið út frá því í þeirri efnahagsspá, sem hefur ávallt verið stefna ríkisstj., að þetta eigi sér stað einu sinni. Nm. hafa þess vegna verið að leita álits sérfræðinga eins og Sigurðar Líndals prófessors á því sem einstakir viðmælendur n. hafa sagt, en ekki á skoðunum sem fram hafa komið innan n. Það er alveg á hreinu. Og ég veit ekki til þess að nokkur nm. hafi lýst því sem sinni skoðun að helmingur vísitölubóta ætti að vera síendurtekinn. Þvert á móti. Nm. hafa lýst því yfir, að ef það léki einhver minnsti lagatæknilegi vafi á því að þetta ætti aðeins að gera einu sinni væri nauðsynlegt að breyta orðalagi brbl. þannig að það tæki af öll tvímæli.

Hins vegar verð ég að segja að mér finnst svolítið sérkennilegt að þm. í Nd., bæði hv. þm. Matthías Á. Mathiesen og hv. þm. Karvel Pálmason, flytja í dag hverja ræðuna á fætur annarri um brbl. Þeim er greinilega orðið mál, þm. Nd., að fá þessi brbl. í hendur til að geta um þau fjallað. Vænti ég þess að samstarfsmenn mínir í fjh.- og viðskn. Ed. verði nú samvinnuliprir svo að við getum stuðlað að því allir í sameiningu á næstunni að þessir miklu ákafamenn úr Nd. í umr. um brbl. geti fengið að fjalla um þau. Það er ekki víst að lögin verði á þann veg þegar þau koma til þeirra að það þurfi að vera nokkur vafi um þetta atriði 1. gr. Mér sýnist þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu hafa verið að bjóða upp á það í þessum umr. að menn sameinuðust um að flytja brtt. við brbl. og n. stæði þá öll að slíkum brtt.