07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að segja okkur það sem hann sagði áðan, þó að ég dragi fyllilega í efa að uppi hafi ekki verið hugmyndir innan fjh.- og viðskn. frá ákveðnum einstaklingum þar eftir að Þorsteinn Pálsson lýsti þeirri skoðun sinni að hugsanlega væri þetta rétt þó ekki hafi hann lýst því yfir að það ætti að vera svona.

Mér dettur ekki í hug að halda að lagaprófessorinn, sem er sendur á vettvang fjh.- og viðskn. frá Háskólanum, hafi ekki kynnt sér þau gögn sem tiltekin lagagr. fjatlaði um — komi bara án þess að hafa undirbúið sig á nokkurn hátt undir að svara því sem var kannske fyrst og fremst vitað um að hann yrði spurður að — þó að ég skilji ósköp vel að hann vilji áður en hann sendir frá sér formlega slíka umsögn fá einhvern tíma til að ganga frá henni. Mér finnst móðgun við lagaprófessor frá Háskólanum að segja að hann komi á fund þingnefndar án þess að hafa kynnt sér þau gögn sem lúta að því máli sem hann er beðinn um að veita umsögn. Tíðkist slíkt í Háskólanum dreg ég enn frekar í efa nauðsyn ýmislegs sem þar kann að eiga sér stað. En nóg um það.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er undrandi á því,— að ég svari ekki fyrir Matthías Á. Mathiesen, en hann hóf þessar umr.,-að umr. hefst um slíkt mái. Í mínum huga, og ég hygg a.m.k. í hugum launþega, er það stórt mál hvort kjaraskerðing á verðbótaþætti launa verður bara 1. des. eða hvort hún verður áframhaldandi meðan lögin kunna að gilda. Það er stórt mál í mínum huga þó að hv. 11. þm. Reykv., formanni þingflokks Alþb., þyki það ekki stórt mál eða þess eðlis að það þurfi að ræða fyrir opnum tjöldum á Alþingi. En það er hans hugsun en ekki mín. (ÓRG: Nei, nei.) Það þýðir ekki að segja nei, hv. þm., því lýstirðu yfir áðan úr ræðustól, og ég segi við þig eins og þú sagðir við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson: Það er þá eins gott að þú segir eitthvað annað á eftir.

Auðvitað kemur í ljós hvað hér er um að ræða, hvort það eru uppi hugmyndir meðal stjórnarliða, sem að einhverju leyti eru að gæla við það, um að þarna verði ítrekaðar skerðingar. Það hlýtur að koma í ljós. Ég tek undir það með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Ef einhver minnsti vafi leikur á að hér sé einvörðungu um að ræða skerðingu 1. des. og ekki meir verður því ótvírætt að breyta. Það getur ekki gengið að það sé látið í veðri vaka og þjóðin öll eða að mestu leyti a.m.k. hafi skilið þessa lagagr. svo, að hér sé einvörðungu um skerðingu að ræða 1. des., en síðan kunni hitt að verða ofan á, að skerðingarnar séu ítrekaðar. Það verður að taka af öll tvímæli. Það er því ekki að nauðsynjalausu að umr. af þessu tagi fer fram á hv. Alþingi. Þetta er slíkt stórmál að þjóðin krefst ábyggilega öll svars við þeim spurningum hvort það sé hér um að ræða slíka meðferð málsins eða ekki. Ég ítreka það, sem ég sagði hér í dag, að ekki hvarflar að mér eitt augnablik að viðbrögð verkalýðsforustunnar, hvar í flokki sem þeir menn kunna að standa sem þar eru í fyrirsvari, forustumanna hennar og launþega almennt í landinu, hefðu ekki orðið miklu harkalegri ef hefði verið ljóst að fyrir þeim sem að þessari lagasmíð standa vekti að skerðingin ætti að vera með þeim hætti sem hér hefur borið á góma, sem ég vona þó að sé ekki.