21.10.1982
Sameinað þing: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

18. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal að flytja á þskj. 18 till. til þál. um staðarval stóriðju á Norðurlandi. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna sérstaklega nauðsyn eflingar atvinnulífs á Norðurlandi eystra og kosti þess að velja þar stóriðnaði stað, t.d. í grennd við Akureyri eða Húsavík.“

Á tveimur síðustu þingum var sams konar till. lögð fram en varð ekki útrædd. Eins og hv. þm. er kunnugt er hér um að ræða mál sem á sér nokkuð langan aðdraganda og hefur hlotið verulega umræðu í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Á Alþingi, 94. löggjafarþingi, sem sat 1973–1974, fluttum við hv. þm. Halldór Blöndal svipaða till. og þessa. Þeirri till. var vísað til ríkisstj. með svofelldri umsögn í nál. um það atriði till. að kanna hagkvæmni þess, vegna jákvæðrar þróunar byggðar og aukins öryggis í orkuöflun allra landsmanna, að velja stóriðjufyrirtæki stað á Norðurlandi. Orðrétt segir í nál. hv. allshn. Sþ., með leyfi hæstv. forseta:

„Um hið fyrra atriði er það að segja að viðræðunefndin um orkufrekan iðnað hefur haft það til könnunar og mun halda henni áfram. Þegar til aukins rafmagns kemur nyrðra verður þetta mál vafalaust í brennipunkti.“

Þetta hafði hv. allshn. Sþ. um hliðstæða till. að segja á árinu 1974.

Eins og kunnugt er hefur Alþingi ákveðið að næsta stórvirkjun í landinu verði í Blöndu og eru þegar hafnar undirbúningsframkvæmdir við þessa virkjun. Teningunum er því kastað að þessu leyti. Augljóst er að næg orka verður til staðar á Norðurlandi innan skamms, bæði vegna samtengingar alls orkukerfis landsmanna og einnig vegna þess að ákveðið er að Blönduvirkjun rísi. Stórfyrirtæki í iðnaði, sem nota mikla orku, bæði við Eyjafjörð og við Húsavík, munu,því geta fengið næga raforku á hagkvæmu verði, jafnvel fremur á Norðurlandi en í öðrum landshlutum á næstunni.

Þegar þessi till. var til umr. á Alþingi öðru sinni á síðasta þingi tók hæstv. iðnrh. til máls og lagði á það áherslu að við þyrftum að vera vel á verði, kanna sem flesta möguleika til þess að renna traustum stoðum undir atvinnulíf í landinu, auka fjölbreytni þess, koma á nýjum vaxtarbroddum í stað þess sem brott fellur í tímans rás og vegna breyttra aðstæðna. Ég vil taka heils hugar undir þessi ummæli hæstv. iðnrh. Hann sagði einnig að Alþb., sem hann mælti fyrir, hefði lagt á það um langt skeið áherslu að sérstaklega vel yrði vandað til undirbúnings að stofnun meiri háttar iðnrekstrar í landinu, fyrirtækja sem geta talist stór á okkar mælikvarða, því að alltaf er það afstætt hvað telst stórt og hvað smátt, sagði hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. skýrði einnig frá því að hann hefði sett á laggir 3. okt. 1980 nefnd sem kölluð hefur verið staðarvalsnefnd. Samkv. skipunarbréfi, sagði hæstv. ráðh., sé henni ætlað það hlutverk að kanna hvar helst komi til álita að reisa iðjuver í tengslum við nýtingu á orku- og hráefnalindum landsins. Í þessu erindisbréfi er einnig kveðið á um að hlutverk nefndarinnar sé að kanna umrædda staði sem helst kæmu til álita ef reist yrðu iðjuver í tengslum við nýtingu á auðlindum landsins. Hann sagði í þessu sambandi orðrétt: „Er þá átt bæði við hráefnaauðlindir og orkulindir, og vel má tengja það einnig þeim auðlindum sem í mannfólkinu sjálfu búa. Jafnframt er nefndinni ætlað, eins og segir í skipunarbréfi, að taka tillit til líklegra áhrifa sem slíkt fyrirtæki hefði á atvinnulega og efnalega þróun, samfélag náttúru og umhverfi. Er nefndinni falið að greina í hverju slík áhrif séu helst fólgin og bera saman viðkomandi staði með hliðsjón af því.“ Svo sagðist hæstv. iðnrh. efnislega frá þegar hann tók til máls um till. þessa á síðasta þingi.

Nú hefur staðarvalsnefnd nýlega skilað bráðabirgðaskýrslu um staðarval álvers í landinu. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skoðun staðarvalsnefndar að forðast beri eftir föngum myndun nýrra verksmiðjuþorpa og einhæfra iðnaðarbæja. Hníga þar einkum til hagrænar og félagslegar ástæður sem studdar eru innlendri og erlendri reynslu og nánar verður vikið að í skýrslu nefndarinnar. Staðarvalsnefnd telur affarasælla að nýtt fyrirtæki falli sem eðlileg og jákvæð viðbót inn í þá atvinnu og félagslegu heild, sem fyrir er, án þess að raska verulega ríkjandi jafnvægi. Af þessum sökum er það álit staðarvalsnefndar að einkum beri að stuðla að staðsetningu nýrra fyrirtækja í nágrenni þéttbýlis þannig að starfsmannafjöldi nýs fyrirtækis verði að jafnaði ekki meiri en 20% af þeim vinnumarkaði sem fyrir er á svæðinu. Starfsmannafjöldi í fullbyggðu álveri fyrir 130 þús. tonn, með skautsmiðju, er talinn vera um 600 manns. Að baki slíku fyrirtæki þyrfti því um 3000 manna vinnumarkað hið minnsta, að mati staðarvalsnefndar, eða sem nemur u.þ.b. 7000 íbúðum yfir komandi vinnusókn.“

Á þessum forsendum kemst staðarvalsnefnd í raun að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki af þessari stærðargráðu, 400–600 manns, sé tæpast unnt að velja stað annars staðar í landinu en í grennd við höfuðborgarsvæðið eða á Eyjafjarðarsvæðinu. Þessi niðurstaða staðarvalsnefndar styðst við erlendar athuganir og reynslu, t.d. í Noregi. Í þessu sambandi vil ég leggja sérstaka áherslu á að staðarval slíkra stórfyrirtækja hefur langvíðtækust áhrif á heildarbyggðaþróun í landinu ef þeim er valinn staður þar sem fyrir er öflugur iðnaður og þjónustuumhverfi. Í því sambandi er Eyjafjarðarsvæðið langálíflegasta þéttbýlissvæði á landinu utan höfuðborgarinnar og nágrennis hennar. Um þetta atriði sagði ég orðrétt í framsöguræðu á síðasta þingi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ætla má að fyrirtæki, sem veitti 400 manns atvinnu, muni örva aðra atvinnustarfsemi í Eyjafirði svo að um 600 ný atvinnutækifæri hlytust af staðarvali slíks stóriðjufyrirtækis til viðbótar. Þannig yrði fjöldi nýrra atvinnutækifæra 1000 og íbúafjölgun a.m.k. 3000 vegna staðarvalsins. Á hinn bóginn yrði íbúafjölgun minni og færri ný atvinnutækifæri sem hlytust af staðarvali slíks fyrirtækis í 1000 manna héraði, svo að dæmi sé tekið, en félagslegar aðstæður allar gerbreytast þar sem hefðbundnar atvinnugreinar væru væntanlega einar fyrir í slíku byggðarlagi.“

Það er því ekki einasta nauðsynlegt vegna þeirra raka sem staðarvalsnefnd nefnir að velja slíku fyrirtæki stað í öflugu þéttbýli, heldur nást með slíku staðarvali langtum meiri áhrif á heildarbyggðaþróun í landinu en ef slíku fyrirtæki væri valinn staður utan slíks þéttbýlis og þjónustuumhverfis.

Það er alkunna að nokkur ágreiningur hefur verið um stefnuna í atvinnumálum á Eyjafjarðarsvæðinu að þessu leyti. Því er ekki að leyna að margir eru hræddir við stóriðju á Eyjafjarðarsvæðinu, einkum stofnun álvers. Menn benda á að staðhættir séu slíkir í Eyjafirði, bæði veðrátta og landslag, að mengunarhætta sé þar meiri en á öðrum stöðum. Ég vil leggja ríka áherslu á það í þessu sambandi, eins og ég hef gert í þau skipti sem ég hef fjallað um þetta mál bæði hér á Alþingi og annars staðar, að það skiptir höfuðmáli að kannað sé hvort hér sé einhver hætta á ferðum. Slíkar athuganir hafa því miður ekki farið fram og þær taka sinn tíma. Það er þetta atriði, að tapa ekki ennþá lengri tíma í undirbúningi og athugun á þessu máli, sem fyrst og fremst knýr mig til að endurflytja þessa till. Á það má líka benda í þessu sambandi að tækni fleygir fram á öllum sviðum. Tækni hefur einnig breyst í mengunarmálum. Þess vegna er öll umræða um mengunarhættu af stórfyrirtækjum í Eyjafirði nánast alveg út í hött ef ekki er stuðst við nýjustu þekkingu á þessu sviði.

Þá er einnig rétt að undirstrika að till. þessi er um alhliða eflingu atvinnulífs á þessu svæði, bæði Eyjafjarðarsvæðinu og í grennd við Húsavík. Það dylst engum að um ýmsa kosti er að ræða. Þar má nefna frekari fullvinnslu sjávar- og landbúnaðarafurða, ýmsan nýiðnað, svo sem rafeindaiðnað, eflingu þess iðnaðar sem fyrir er, nýjar atvinnugreinar, svo sem fiskiræki, loðdýraræki o.s.frv. Ég vil undirstrika enn og aftur að auðvitað á að gera allt sem unnt er til að auka atvinnutækitæri á þessum svæðum og ekki síst að standa þannig að stjórn landsins að atvinnulíf hafi almenn skilyrði til að blómgast og dafna. En þeir möguleikar, sem þarna kunna að leynast, breyta því ekki að það er nauðsynlegt að minni hyggju að kanna hvort unnt sé að velja stóriðnaði stað á Eyjafjarðarsvæðinu án áhættu, án þess að umhverfi eða náttúru sé hætt. Þetta er ekki síst nauðsynlegt vegna þess að verði fyrirtæki í orkufrekum iðnaði reist í landinu, fyrirtæki af framangreindri stærðargráðu, 400–600 manns, þá er í raun réttri ekki um aðra staði að ræða en Eyjafjarðarsvæðið eða þá höfuðborgarsvæðið og nágrenni. En það hlýtur öllum að vera ljóst, að einhliða uppbygging stórfyrirtækja, sem nota mikla orku, umhverfs höfuðborgarsvæðið hlýtur að hafa mjög einhliða áhrif á byggðaþróun í landinu.

Stefnan í atvinumálum hefur verið mjög ofarlega á baugi á Norðurlandi eystra undanfarin ár og ekki að ófyrirsynju. Þetta á einkum við um stærstu þéttbýlisstaðina, Akureyri og Húsavík, þar sem vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu er iðnaður. Þar hefur oft og tíðum orðið nokkur, stundum verulegur samdráttur í atvinnulífinu. Á hann vafalítið rætur að rekja til öfugsnúinnar efnahagsstefnu ríkisstj. undanfarin ár, t.d. í gengismálum, verðlagsmálum, vaxta- og húsnæðismálum. Ástæða er þó til að ætla að til viðbótar sé um verulegan frambúðarvanda að ræða í eflingu atvinnulífs á þessum stöðum, einkum á Akureyri þar sem vaxtarbroddurinn er í iðnaði og þjónustugreinum, og einnig á Húsavík eins og ég sagði áðan. Á Akureyri voru um 60% vinnuaflsins hjá 11 stærstu fyrirtækjum bæjarins árið 1970. Nú eru 70% vinnuaflsins hjá einvörðungu 7 fyrirtækjum, þar á meðal sjúkrahúsinu og Akureyrarbæ. Þessi stóru fyrirtæki: Útgerðarfélag Akureyringa, Verksmiðjur SÍS, Slippstöðin, Niðursuðuverksmiðja K. Jónsson og Co., svo að nokkur séu nefnd, eiga öll í erfiðleikum vegna þeirrar stefnu sem ríkt hefur í efnahags- og atvinnumálum undanfarið. Ég legg þó áherslu á að ekkert hinna fyrrgreindu fyrirtækja virðist líklegt til að vaxa verulega umfram núverandi stærð og umsvif-eða nægilega til þess að örva atvinnulífið á Akureyri — jafnvel þótt úr rættist með atvinnu- og efnahagsstefnu stjórnvalda. Þess er m.ö.o. ekki að vænta að hjá þeim verði til ný atvinnutækifæri, sem nauðsynleg eru á næstu árum ef ungt fólk, sem kemur á vinnumarkaðinn, á að geta fest rætur og heimili í þessu héraði.

Svipuðu máli gegnir raunar um Húsavík. Þar virðist fiskiðnaðurinn vart bæta við sig verulegu vinnuafli og aðrar iðngreinar á Húsavík flestar bundnar þjónustu við hann. Nýr vaxtarbroddur er því nauðsynlegur þar til eflingar atvinnulífinu ekki síður en á Akureyri, enda hafa bæjaryfirvöld á Húsavík sýnt á þessu sérstakan skilning undanfarin ár. Hafa staðið yfir um nokkurt skeið athuganir á að koma þar á fót nýjum iðngreinum, t.d. trjákvoðuverksmiðju, svo sem kunnugt er. Þetta er mjög lofsvert framtak hjú bæjaryfirvöldum á Húsavík og sýnir að minni hyggju að þau hafa ríkan skilning á því að kanna beri alla kosti þess að efla og treysta framtíðaruppbyggingu atvinnulífsins í byggðarlaginu.

Fram til þessa hafa skoðanir því miður verið skiptari á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu um framtíðaruppbyggingu atvinnumálanna, einkum að því er varðar könnun á staðarvali fyrir stóriðnað í byggðarlaginu. Það verður líka að segjast að þm. kjördæmisins hafa ekki verið á eitt sáttir í þessu stóra máli. Nú nýverið hafa orðið miklar umræður um atvinnumálin á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Bæjarstjórn Akureyrar hefur nýlega samþykkt samhljóða ítarlega ályktun um atvinnumál í kjölfar þess að mjög hefur syrt í álinn undanfarin ár á atvinnusvæðinu á Akureyri eins og kunnugt er af fréttum. Ég leyfi mér, herra forseti, að lesa úr þessari atvinnumálaályktun bæjarstjórnar Akureyrar. Þar segir:

„Á áratugnum 1971—1981 fjölgaði Akureyringum

um 10 930 manns í 13 420 eða um 2 490 manns. Þetta samsvarar rúmlega 2 % fjölgun á ári. Í upphafi áratugsins voru Akureyringar 5.28% allra landsmanna en í lok hans 5.87%. Hlutfallsleg aukning er þannig 0.6%. Bæjarstjórn Akureyrar álítur að svipuð þróun á næsta áratug sé bæði eðlilegt og æskilegt markmið í þessu efni. Margvísleg stefnumörkun bæjarstjórnar á undanförnum árum hefur miðað í þessa átt. Má þar nefna nægilegt lóðaframboð til íbúðabygginga og atvinnustarfsemi og öra uppbyggingu ýmissar þjónustu bæjarins.

Bæjarstjórn telur fjölbreytt atvinnulíf nauðsynlega forsendu fyrir stöðugleika í efnahag bæjarins og bæjarbúa. Jafnframt stuðlar fjölbreytt atvinnuval að því að allir geti fengið starf við sitt hæfi.“

Þá segir enn í ályktun bæjarstjórnarinnar um atvinnumálin:

„Bæjarstjórn telur að nýta beri þau tækifæri til atvinnusköpunar sem landið og hafið umhverfis það bjóða upp á, þ.e. þær auðlindir er þjóðin hefur yfir að ráða. Vegna þeirrar umræðu sem nú fer fram um hvernig nýta beri raforku, sem áformað er að framleiða með fallvötnum landsins, vill bæjarstjórn árétta að hún telur rök hníga að því að næsta fyrirtæki í orkufrekum iðnaði, sem reist verður í landinu, risi á Eyjafjarðarsvæðinu. Því beinir bæjarstjórn því til stjórnvalda að nauðsynlegum rannsóknum á svæðinu verði hraðað og á grundvelli þeirra niðurstaðna verði tekin ákvörðun um stofnun slíks iðnaðar í samráði við íbúa svæðisins.“

Ályktun bæjarstjórnar Akureyrar um atvinnumál er ítarlegri en þetta og birtist í grg. með þessari þáltill. Eins og ég sagði áðan var þessi ályktun samþykki samhljóða í bæjarstjórn, en mér er tjáð að fulltrúar Kvennaframboðs og fulltrúar Alþb. hafi gert einhvern fyrirvara með sérbókun.

Ég vil leggja áherslu á það, herra forseti, að í þessari ályktun bæjarstjórnar Akureyrar kemur fram hvað fyrir okkur vakir, flm. þessarar till. Við tökum heils hugar undir þessa ályktun bæjarstjórnarinnar. Við beinum þeirri áskorun fyrst og fremst til stjórnvalda að nauðsynlegum rannsóknum á Eyjafjarðarsvæðinu verði hraðað og þannig lagður grundvöllur að því að unnt sé að taka ákvörðun með rökum um stofnun orkufreks iðnaðar við Eyjafjörð í samráði við íbúa byggðarlagsins.