07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Austurl. og hv. 6. landsk. þm. viku hér að vísitölufölsun. Ég held ég fari rétt með að hv. 6. landsk. þm. telur að allar ríkisstjórnir hafi staðið fyrir vísitölufölsun. Þessu mótmæli ég. Ég kannast ekki við að hafa staðið fyrir vísitölufölsun. Ég kannast við að hafa veitt fjármagni á sínum tíma úr ríkissjóði til að hafa áhrif á vísitölu, en ekki til þess að falsa vísitölu.

Hv. 11. þm. Reykv. sagði að hv. 1. þm. Reykv. væri eini forsætisráðherrann sem hefði orðið að breyta efnahagslöggjöf með brbl. Mig langar til þess að spyrja þennan (ÓRG: Vegna þess að hann vissi ekki hvað hann átti að gera.) hv. þm. að því, hversu oft ríkisstjórnir, sem hann hefur stutt og Alþb. núna á fjórum árum, hafi komið með efnahagsmálafrv. til Alþingis til umfjöllunar með eðlilegum hætti, eins og á að gera. Svarið er: Aldrei, aldrei, (Gripið fram í: Ævinlega.) aldrei. Ríkisstjórnirnar hafa báðar, bæði vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar og vinstri stjórn Gunnars Thoroddsens, afgreitt efnahagsmálin með brbl. (Gripið fram í: Nei, nei.) Þær hafa ýmist beðið eftir því að Alþingi færi heim eða gert ráðstafanirnar rétt áður. Ólafslög voru undantekning í þeim málum og Ólafslög voru nánast ekkert annað en „ritual“ sem þeir ráðh. sem þá sátu ætluðu sér að fara eftir, en fóru aldrei eftir, aldrei nokkurn tíma, því að þeir hafa ekki haldið eina einustu grein af lögunum frá 1979. Umræðurnar í dag snúast einmitt um það. Hvað stendur í 14. gr., hvað á að gera og hvað er ekki gert? Við skulum átta okkur á því, að lánsfjáráætlunin hefur aldrei verið afgreidd eins og lögin frá 1979 segja til um. Menn voru gagnrýndir fyrir að þeir voru of seinir áður, en síðan hefur farið með allt öðrum hætti. Ólafslög voru ekki neinar efnahagsráðstafanir. Ólafslög voru rammi um hvernig ætti að stjórna efnahagsmálum, sem menn hafa svo aldrei farið eftir.