07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þetta var einkennileg ræða í framhaldi af umr. um 33. gr. Ólafslaga. En herra forseti. Ég vil vekja athygli á einni lítilli staðreynd, einni ótrúlega ruglingslegri staðreynd, sem gekk fram af munni hv. síðasta ræðumanns og er nú inntakið í því sem ég hef verið að segja í ýmsum myndum í mörg ár. Hann segir: Þegar hann var ráðh. í fjóra mánuði og gat gert það. Í fyrsta lagi sat þá minnihlutastjórn, en í öðru lagi setja ríkisstjórnir ekki lög. Það er það sem ég er að reyna að kenna þessum hv. þm. æ ofan í æ. Það var minnihlutastjórn sem sat — og hvar áttum við að leita bandamanna? Hjá Lúðvík Jósepssyni? (ÓRG: Setti þm. ekki sjálfur brbl. meðan hann sat í þessari ríkisstj.?) Koma á raunvöxtum með brbl.? (ÓRG: Já.) Það skýrir málið. (Gripið fram í.) Koma á raunvöxtum með brbl.? (ÓRG: Því ekki það?) Góð hugmynd að koma á raunvöxtum með brbl. (Gripið fram í: Það er það sem hann meinti.) Og enn, herra forseti, verður málflutningur hv. þm. ruglingslegri. Það er þessi grundvallarruglingur sem fram gengur í ótrúlegustu myndum frá allri línunni, hv. þm. Albert, hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. (ÓRG: Af hverju setti þm. brbl. þegar hann var ráðh.?) Það voru ein brbl. og það var um kosningar, 2. og 3. des. Þetta er fullkominn útúrsnúningur manns sem eina ferðina enn hefur orðið undir í málflutningi. Hann vildi að ráðh. í minnihlutastjórn setti lög um vexti. Málið er það. (Forseti: Ekki samtal.)

Herra forseti. Eina ferðina enn er það undirstrikað svo rækilega hvernig þessir menn, sem sitja á ráðherrafundum með öðrum formönnum þingflokkanna, ræða með hvaða hætti eigi að brjóta lögin í landinu, — ekki breyta þeim, heldur brjóta þau. Ég nefni framkvæmdina á vaxtamálunum og nú kemur hann og segir: Af hverju setti minnihlutastjórn ekki lög á sínum tíma? Fyrst og fremst setur engin ríkisstjórn lög. Og ennfremur, hv. þm., minnihlutastjórn setur enn síður lög. Og ég bið hv. 11. þm. Reykv. að skammast sín nú, segja ekki neitt, koma ekki í pontu, en fara heim og velta þessu fyrir sér, af hverju þessi endalausi ruglingur gengur aftur og aftur fram í þessu máli. (ÓRG: Hvaða ríkisstj. opnaði verðtryggðan reikning í bankakerfinu?)

Upphaf að svokölluðum verðtryggingum rekur sig til 33. gr. nefndra Ólafslaga. (ÓRG: Því svararðu ekki? Hvaða ríkisstj. opnaði verðtryggðan reikning í bankakerfinu?) Ég er að fara að svara því. Framan af, fyrstu 18 mánuðina, stóð þessi ríkisstj. sig vel í vaxtamálum, en þegar hún byrjaði að svíkja — það eru tæp tvö ár núna síðan það var — byrjaði líka að halla undan fæti fyrir henni. (Gripið fram í.) (Forseti: Ég var að óska eftir því að það sé ekki samtal.) Alveg sjálfsagt að maðurinn tali við sál sína. (ÓRG: það er alveg auðheyrt að þm. veit eiginlega ekkert hvað hann er að tala um.)

Herra forseti. Ég kom hér í ræðustól aðeins til að vekja athygli á að hv. 11. þm. Reykv. fann mjög að því að minnihlutastjórn Alþfl., sem sat frá byrjun des. 1979 og til byrjunar febrúarmánaðar 1980, skyldi ekki hafa gefið út lög um vaxtamál. Það er þessi ruglandaháttur sem er meiri skaðvaldur í öllu okkar stjórnkerfi en nokkuð annað. (ÓRG: Hefur nokkuð gengið að framkvæma þau lög sem voru í gildi meðan ríkisstj. sat? Átti hún ekki að beita sér fyrir því að lög sem voru í gildi þegar hún sat yrðu þá framkvæmd?) Þannig er að... (Gripið fram í.) (Forseti: Ekki samtal.) Í minnihlutastjórn Alþfl. var hv. 2. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson viðskrh. Hann skal alltaf eiga mína virðingu fyrir að hann hefur staðið sig í verðtryggingarmálum, meira að segja þannig að vextir voru snarhækkaðir 1. des. 1979, daginn áður en alþingiskosningar fóru fram. Hinu skal ég greina frá í fullri hreinskilni, að vissulega voru þau ræflarök til í okkar röðum að við skyldum ekki gera þetta fyrir kosningar. En það var gert. Ég hef átt margan ágreining við þennan hv. þm., en ævinlega skal hann eiga mína virðingu fyrir að lögin voru framkvæmd eins og þessar greinar í þeim gefa tilefni til. (ÓRG: Minnihlutastjórnin reyndi þá að koma á raunvöxtum eftir allt saman?) Hún framkvæmdi lögin sem voru fyrir. Þessi lög voru samþykkt hér í byrjun apríl 1979. Ríkisstj. á að framkvæma lög. Þetta er enn einn rugluþankinn. Ríkisstj. á að framkvæma lög þangað til meiri hl. Alþingis hefur breytt þeim. (ÓRG: Af hverju framkvæmdi hún þau ekki alveg?) Hún gerði það. (ÓRG: Nei. Þetta var ekki verðtryggingarhækkun á vöxtum. Það var fyrst þegar þessi ríkisstj. kom og opnaði verðtryggðan reikning sem ...)

Herra forseti. Ég biðst afsökunar, en ég verð augljóslega að setja mig í hlutverk barnaskólakennarans og útskýra fyrir hv. þm. 33. gr. nefndra laga fjallar um áfangahækkanir sem áttu að taka yfir gefið tímabil. Einn áfanginn skyldi koma til framkvæmda 1. des. og þeim áfanga, eins og Seðlabankinn lagði til að hann yrði framkvæmdur, var fylgt í botn daginn fyrir kosningar. Okkur var ljóst að þetta var óvinsæl ráðstöfun sem kynni að svipta okkur einhverjum atkv. En lög eru lög. Sá sem bar ábyrgð á framkvæmd þessara laga var þáv. bankamálaráðherra, núv. hv. 2. þm. Reykn., og hann var gagnrýndur mjög. Ég þekki þar gerst til. Og ég stóð með honum í því að þetta skyldi gert með þessum hætti. Hann hefur hvorki hagað sér sem lýðskrumari né lítilmenni í þessum málum, en því miður er ekki hægt að segja þá sögu af öllum hv. þm. Þm. veit ekki hvað stendur í lagagr. Það er alveg augljóst. Hann þekkir það ekki. (ÓRG: Þm. veit ekki hvaða reikningar eru í bankakerfinu greinilega.) Ég er ekki að tala um það. (Gripið fram í.) Það er rétt. (ÓRG: Hvað er hv. þm. þá að tala um?)

Herra forseti. Það þyrfti að fá túlk til að skilja hvað hv. þm. er að reyna að segja. Ég kom hér í ræðustól, hæstv. forseti, til að vekja athygli á þeirri litlu aths. hv. 11. þm. Reykv. að hann vékst að minnihlutastjórn Alþfl., sem sat í þrjá mánuði, fyrir að hafa ekki gefið út lög um áhugamál sín. Því miður er þetta ekki mismæli, því að hv. þm. mismælir sig ekki, og því miður er ekki heldur um að ræða að hann vilji segja rangt frá í þessum efnum. Hv. þm. veit ekki betur og hann skilur ekki að þessi stofnun, Alþingi, er til að setja lög. Þeir sem í ríkisstj. sitja eiga að framkvæma þau. Hann skilur það ekki. Hann er liður í þessu ruglaða kerfi, sem öllum þessum skaða hefur valdið, og kom kyrfilega upp um sig með því að finna að því að minnihlutastjórn, sem nýtur ekki trausts meiri hl. Alþingis eins og menn vita, skyldi ekki gefa út lög. (Gripið fram í.) (Forseti: Ekki samtal.) Í fyrsta lagi er það ekki frv., heldur þáltill., og í annan stað bið ég hv. þm. að lesa þskj. og spyrja svo. (Gripið fram í.) Þegar menn verða illa úti í umr., hv. þm. Eyjólfur Konráð, láta þeir eins og 11. þm. Reykv. lætur nú. Hann hóf ræðu sína á því að kvarta yfir því að ég hefði ekki átt við hann orðastað hér í Sþ. Hans vegna og málflutningsins, herra forseti, legg ég til að hann haldi sig í Ed. og ég fái að vera í neðri.