07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Aths. mín verður örstutt. Ég tek undir gagnrýni síðasta ræðumanns, hv. þm. Karvels Pálmasonar, varðandi framkomu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. En ég hlýt að vekja athygli á því, að kyndugt er það þegar formælendur núverandi og fyrrverandi svokallaðra A-flokka eru að metast á um það í framíköllum og ræðum hvor þeirra sé meiri og betri málsvari hærri raunávöxtunar fjármagns í landinu. En látum það liggja á milli hluta. Hinu hafði ég meira gaman af, að þessir fulltrúar A-flokkanna, minnugur 1978 og framkomu þeirra þá, voru að metast um hvor þeirra væri meiri kjaraskerðingarflokkur.