07.12.1982
Sameinað þing: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

36. mál, laxveiðar Færeyinga í sjó

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Þótt ég þakki hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir þátttöku í þessum umr., þá kemst ég því miður ekki hjá að lýsa vonbrigðum mínum yfir tóninum í ræðu hans, svo að ég noti nú hans orðalag, og þeirri neikvæðu afstöðu, sem mér finnst gæta í orðum hans, og óneitanlega skilningsleysi á alþjóðalögum, og þá sérstaklega efni 66. gr. hafréttarsáttmálans, sem einmitt verður undirritaður eftir örfáa daga, þar sem við væntanlega vinnum endanlega sigra í okkar landhelgisbaráttu. Endanlega, sagði ég. Við eigum að vísu eftir að fylgja fram ýmsum ákvæðum samkomulagsins í hafsbotnsréttindum, einmitt að því er varðar að fá aðra til þess að hlíta sáttmálanum, og þá ekki síst Færeyinga. Um það fjallar einmitt þetta mál.

Það kann að vera rétt að fullar sannanir vanti fyrir því að íslenskur lax sé á Færeyjamiðum þessa stundina. Þar hafa þó fundist íslensk merki og það er enginn vafi á því að þangað hefur íslenskur lax gengið. Mér dettur ekki í hug að halda annað en svo sé. Ég stend við hvert einasta orð, sem ég bæði hef sagt og skrifað um þetta, þar með að þetta sé siðlaust og löglaust athæfi. Það stend ég við. Að orð mín hafi ekki lagagildi er mér fullljóst. En það er nú einu sinni svo, að fyrirvarar nefndarmanna, jafnvel þótt í ræðum séu, og ég á sæti í utanrmn., sem um þann vandræðasamning sem gerður var á s.l. vetri fjallaði, hafa auðvitað ekki lagagildi. En það hefur þýðingu að vitna til þeirra ákvæða, þegar þau eru mælt fram á Alþingi með þeim hætti sem ég gerði, og mér finnst að enginn hv. alþm. eigi að reyna að gera lítið úr því og draga með þeim hætti úr rétti Íslendinga, heldur eigi að standa saman um að halda til haga okkar rétti eins miklum og frekast er unnt að lögum, og ég undirstrika það, að alþjóðalögum.

Víst er það að nánustu frændur okkar og vinir eru Færeyingar. Það er raunar tekið fram í þáltill. Og ég held að það séu ekki margir þm. sem hafa lengur en ég barist fyrir því að auka og bæta samskiptin við Færeyinga. Ég veit ekki til annars en ég hafi stutt hvert einasta réttlætismál þeirra, um veiðiheimildir o.s.frv. En þeim er ekkert gott gert með því að láta þá komast upp með þessi lögbrot, vegna þess að það endar með skelfingu og það getur gerst fyrr en siðar. Það getur verið búið að eyðileggja villta laxastofninn á Atlantshafi innan eins eða tveggja ára og þar með allar íslenskar ár. Og ef Færeyingum verður kennt um það, þá er ég hræddur um að vináttan kynni að kólna. Þess vegna er ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Auðvitað er ég hlynntur rannsóknum. En rannsóknir sem taka kannske 5–10 ár ætla ég ekki að láta mér lynda að sé eina úrræðið. 200 þús. norskar kr. eru vissulega peningur, en það þarf að merkja í miklu, miklu stærri stíl ef eitthvert mark á að taka á endurheimtu merkinga á næstu árum. Þegar veidd eru kannske 1000–1500 tonn af laxinum, 5-10 sinnum meira en fiskast í öllum íslenskum ám, þá sjá menn hve gífurleg rányrkja þetta er.

Auðvitað er ekki allur laxinn upprunninn á Íslandsmiðum. Þess vegna er einmitt í till. gert ráð fyrir því að hafa samstarf við aðrar þjóðir og önnur upprunalönd laxins, sem eiga þessa fiska, alveg upp í landsteina Grænlands. Þeir mega ekki einu sinni fiska með þessum hætti innan 12 mílnanna. Það er alger misskilningur á 66. gr. hafréttarsáttmálans að þeir hafi eitthvað frekari rétt fyrir það að þeir hafi 12 mílna landhelgi eða 200 mílna efnahagslögsögu. Þeir mega ekki veiða þennan fisk, þeir eiga hann ekki. Þeir mega einungis veiða hann eftir samkomulagi við aðra. Upprunaríkin eiga þennan fisk og geta ákveðið aflahámark. Einustu undantekningarnar eru þær, þegar um er að ræða að hefðbundnum veiðum er stofnað í hættu og þar með efnahagslegu öryggi, skulum við segja. Það er orðað „economic dislocation“. Það er kannske eitthvað erfitt í þýðingu, en það er einasta undantekningin, og þá á að taka tillit til hagsmunaríkisins, Færeyja í þessu efni. Það er aldrei skylt að gera það annars. Þess vegna er nauðsynlegt að Íslendingar geri sér grein fyrir þessum rétti sem þeir eiga. Og ekki bara rétti, heldur skyldu. Það er líka skylda upprunaþjóða laxins að varðveita stofninn.

Mér er ómögulegt að skilja þau orð hv. þm. að það sé ekki hægt að samþykkja þessa till. vegna orðalags, að mér skildist nánast dónaskapar. Till. hljóðar svo, með leyfiforseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að stöðva rányrkju Færeyinga við veiðar Atlantshafslaxins í efnahagslögsögu sinni og hafa um það samráð við önnur upprunalönd laxastofnsins, sem nauðsynlegt reynist.“

Ég tel engan dónaskap í þessu. Það á að fela ríkisstj. að gera ráðstafanir til að stöðva veiðarnar. Það tekur auðvitað svolítinn tíma að gera þessar ráðstafanir. Og auðvitað á að gera það með siðaðra manna hætti í samningum og samkomulagi, með því að segja upp samningnum frá því í vetur ef nauðsyn krefur, hann er uppsegjanlegur með 6 mánaða fyrirvara. Ég geri mér engar vonir um að þessar veiðar verði stöðvaðar á næsta ári. En ég vonast til að það verði kannske hægt að minnka þær um helming frá því sem er á þessu ári og stöðva þær síðan algerlega innan eins eða tveggja ára, eða kannske að heimila veiðar á 100 tonnum eða þar um bil, sem Færeyingar veiddu áður en þetta urðu alþjóðalög. Þeir byrjuðu þessar veiðar ekki fyrr en það voru orðin alþjóðalög, stendur í 46. gr. Þeir hafa aldrei haft rétt til þess að veiða laxinn. Það er algert hámark, þessi 50–100 tonn, sem þeir veiddu hér í gamla daga.

Öll þessi rök mín eru þegar komin í mínar ræður, greinargerðir, greinar o. s. frv. Nú er farið að kvölda og ég skal þess vegna ekki rekja þetta. En ég bið hv. 1. þm. Norðurl. v. að skoða hug sinn betur og kynna sér málin betur áður en hann heldur því fram að ekki megi samþykkja þessa till. Ég sé ekkert orð, sem gefur tilefni til þeirra ummæla hans, ekki einu sinni í grg. Ég sé ekki annað en hún sé fullkomlega kurteisleg og vel rökstudd. En ég er svo sannarlega til viðræðna um að breyta orðalagi og ræða einhverjar aðrar leiðir en nákvæmlega þessa till. til að hindra þessa rányrkju, þetta siðlausa athæfi Færeyinga, einmitt af því að ég vil vináttu sem mesta við þá, og ég veit að vinátta getur ekki byggst á því að lögbrot séu viðhöfð til þess að ganga á rétt annarra. Þó að við séum auðvitað fyrst og fremst að hugsa um okkar eigin réttindi, að þarna er íslenskur lax, þá erum við líka að hugsa um að varðveita Atlantshafslaxinn í heild, laxastofninn. Þess vegna eigum við að hafa samvinnu við aðra þá sem þennan stofn eiga og samstarf sem best, og þar með Færeyinga. Ef þeim tekst að auka sína laxarækt, sem ég vona og treysti, þá verði það auðvitað til umr. hvort þeir vilja rányrkja sinn eigin stofn með úthafsveiðum eða veiða innan sinnar efnahagslögsögu. Ég er alveg viss um að þeir vilja það ekki þegar þeir kynnast laxinum meira en þeir þekkja hann nú. Þá verða þeir kannske aðalbandamenn okkar í því að stöðva allar veiðar í sjó, í öllu Atlantshafi. Það er takmarkið.