08.12.1982
Efri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

132. mál, umferðarlög

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Stefáni lónssyni, 4. þm. Norðurl. e., að flytja hér frv. til l. til breytingar á umferðarlögum, þess efnis að við 27. gr. laganna bætist ný mgr. sem orðist svo með leyfi forseta:

„Ökuskírteini útgefin af til þess bærum yfirvöldum á Álandseyjum, í Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Svíþjóð skulu hér á landi jafngild íslenskum ökuskírteinum.“

Í nýlegum gögnum frá Norðurtandaráði mátti lesa það að umr. urðu um þessi mál í samgöngunefnd ráðsins. Þar kom í ljós að Danir, Norðmenn og Svíar hafa nú ákveðið að norræn ökuskírteini skuli þar fullgild og það eins þótt skírteinishafi sé fluttur til viðkomandi lands og hafi tekið sér þar búfestu. Þessi ákvörðun stjórnvalda þar tekur þó ekki til íslenskra ökuskírteina í Danmörku og Svíþjóð. Þar hefur einnig komið fram að tregða Svía til þess að taka gild ökuskírteini frá Íslandi byggist á því, að Íslensk yfirvöld viðurkenna ekki sænsk ökuskírteini einhverra hluta vegna.

Þetta frv. er eingöngu flutt til þess að taka af tvímæli og staðfesta í lögum að ökuskírteini, sem útgefin eru á hinum Norðurlöndunum, séu gild hér. Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum í þessari hv. deild hvert starf hefur verið unnið til að samræma löggjöf á Norðurlöndum og til að vinna að því að réttindi, sem menn ávinna sér í einu Norðurlandanna, séu jafngild á hinum. Það er nú svo og hefur verið um nokkra hríð, að við Íslendingar höfum gjarnan einhverra hluta vegna verið síðastir í þessum efnum til að samþykkja slík réttindi og láta þau taka gildi. Nægir þar að minna á t.d. kosningarrétt í sveitarstjórnarkosningum. Það var núna á s.l. vori fyrst að norrænir menn, hér búsettir, gátu neytt kosningarréttar í þeim kosningum. Hafði slíkt þó tíðkast um hríð annars staðar.

Þetta er tiltölulega lítið mál og raunar stórfurðulegt að íslensk yfirvöld skuli ekki viðurkenna skírteini sem gefin eru út í Svíþjóð. Íslensk ökuskírteini eru viðurkennd mjög víða. Það er mér kunnugt um af reynslu. T.d. í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu eru þau tek:n góð og gild þó ekki séu kannske formlegar reglur í gildi um það. Það skýtur þess vegna mjög skökku við að þau skuli ekki vera viðurkennd í Svíþjóð og Danmörku, grannlöndum okkar, vegna þess við við höfum ekki viðurkennt þeirra skírteini. Þetta er ekki stórt mál, en þetta er kannske einn steinninn til viðbótar í þann samstarfsvegg sem Norðurlöndin hafa með sér myndað.

Ég legg til, herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til allshn.