21.10.1982
Sameinað þing: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

18. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hér er til umr. þáltill. sem flutt var á síðasta þingi og ég gerði þá að umtalsefni, þegar umr. fór fram um hana, og ekki eru liðnir nema sumarmánuðirnir síðan þessi mál bar hér á góma í umr. í lok síðasta þings, þannig að ég get vísað að nokkru til þess sem þá kom fram, en vegna þess sem síðan hefur gerst og þeirra fsp. sem hér eru fram komnar tel ég rétt að fara allnokkrum orðum um þetta mál og reyna að svara þeim fsp. sem hér hafa komið frá hv. alþm. þetta varðandi.

Eins og fram kom hjá fyrri flm. þessarar þáltill., hv. 3. þm. Norðurl. e., er honum ljóst að í gangi er vinna varðandi öll þau atriði sem að er vikið efnislega í þáltill. Sú vinna er í gangi á vegum stjórnvalda og hér er meira um það að ræða að ýta á eftir, minna á þau sjónarmið sem hv. flm. bera í brjósti um þessi efni. Sérstaklega nefndi hv. frummælandi hér áðan nauðsyn athugana og rannsókna í sambandi við þessi mál, ekki síst varðandi umhverfisþáttinn. Mér þykir það nú ágætt þegar það heyrist hér frá hv. alþm. að rannsóknir séu nauðsynlegar og æskilegar í stórmálum sem þessum, því að stundum ber það við að það er talið að ofgert sé á því sviði, en þegar um er að ræða stórverkefni, sem taka óhjákvæmilega talsverðan tíma í undirbúningi ákvarðana, er hv. alþm. auðvitað ljóst að þar þarf að vanda vel til og kosta nokkru til í undirbúningi, ekki síst til þess að forða því að menn misstigi sig bæði varðandi ráðstöfun fjármagns og eins varðandi þau áhrif sem uppbygging stórra atvinnufyrirtækja hefur á samfélagið hið næsta og einnig náttúrlegt umhverfi, sem engir hafa áhuga á að spilla, að ég vona með stórrekstri.

Ég vil aðeins minna á það hér, að það var haustið 1980 sem iðnrn. skipaði svonefnda staðarvalsnefnd um iðnrekstur til þess að gera víðtækar athuganir á hvar skynsamlegt væri að hugsa til þess að setja niður meiri háttar fyrirtæki, sem byggi á auðlindum og orkulindum landsins og hráefnum, sem hér falla til til úrvinnslu. Í þessari nefnd eru fulltrúar, fyrir utan iðnrn., frá heilbrrn., en undir það heyrir Heilbrigðiseftirlit ríkisins eða sú stofnun sem fer með þau verkefni sem snúa að starfsleyfum fyrir iðnrekstur. Þá á Náttúruverndarráð fulltrúa í þessum hópi, til að það fylgist sem best með þessum málum, og einnig er þarna fulltrúi frá byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þessi nefnd hefur unnið mikið starf og hefur haft sérstakan verkefnisstjóra á sínum vegum, sem er Pétur Stefánsson verkfræðingur, og fleiri hafa unnið að málum fyrir nefndina. Er þess að vænta nú innan skamms, að fyrir liggi álit frá henni almenns efnis um þessi mál — niðurstöður úr mikilli vinnu, sem fram hefur farið á vegum nefndarinnar varðandi þetta meginverkefni, að draga upp sem skýrasta mynd af því hvar skynsamlegt geti talist að setja niður slík meiri háttar iðnfyrirtæki í landinu út frá víðtæku mati. Ég vænti að það þyki fengur að þessum niðurstöðum þegar þær koma fram og liggja fyrir.

Fyrir utan þetta hefur staðarvalsnefnd um iðnrekstur fjallað um einstök tiltekin málefni að beiðni rn. varðandi iðnrekstur sem er á dagskrá og þar sem fram fer hagkvæmnismat og er þá nauðsynlegt einnig að taka inn staðarkosti og það sem lýtur að hugsanlegri staðsetningu slíkra fyrirtækja. Þ. á m. er sú hagkvæmniathugun á íslenskri áliðju eða nýju álveri hérlendis sem nú er að unnið. Nefndin fékk það verkefni að leggja mat á þá þætti sem lúta að staðarvali slíks hugsanlegs fyrirtækis. Til þess var vitnað hér áðan og vegna þess að hér komu fram fyrirspurnir þar að lútandi nefni ég þetta hér, en mun ekki vík ja að því fyrr en sá sem um spurði, hv. 6. þm. Norðurl. e., er hér viðstaddur og get komið að öðrum þáttum í millitíðinni í von um að hann birtist.

Fyrir utan þessar athuganir, sem varða Norðurland eystra eins og aðra landshluta, taldi iðnrn. skynsamlegt að litið yrði á iðnþróunarmálefni Eyjafjarðarsvæðisins sérstaklega. Það ýtti á, að frá sveitarstjórnum á þessum svæðum, m.a. og líklega sérstaklega frá bæjarstjórn Akureyrar, hafa komið ábendingar til stjórnvalda um hættu á að atvinnuleysi geti skapast þar m.a. vegna erfiðleika hjá vissum greinum starfandi iðnaðar og samdráttar sem menn hafa talið að væri yfirvofandi t.d. í byggingariðnaðinum. Iðnrn. skipaði því, að höfðu samráði við aðila heima fyrir og fleiri, sérstaka samstarfsnefnd sem hefði það verkefni að kanna stöðu iðnaðar og möguleika á iðnþróun á Eyjafjarðarsvæðinu. Í skipunarbréfi nefndarinnar frá 4. febrúar 1982 segir einnig:

„Við tillögugerð n. skal höfð hliðsjón af öðru atvinnulífi á svæðinu, samþykktum og ályktunum sveitarstjórna og annarra aðila um atvinnumál á Norðurlandi eystra. Um ákjósanlega iðnþróun yrði horft til sem flestra greina almenns iðnaðar smárra og stærri fyrirtækja, sem ætla má að hafi vaxtarmöguleika og falli að því atvinnulífi og umhverfi sem fyrir er. Varðandi orkufrekan iðnað sem til álita kæmi er miðað við íslensk fyrirtæki og virkt forræði landsmanna yfir slíkum rekstri. Lögð er sérstök áhersla á að tekin verði til athugunar félagsleg áhrif slíkra stórfyrirtækja og að gerðar verði strangar kröfur um umhverfisvernd. Jafnframt verði höfð í huga tengsl þeirra við annað atvinnulíf, að öðrum greinum iðnaðar meðtöldum, m.a. varðandi úrvinnsluþróun afurða frá orkufrekum iðnfyrirtækjum. Við áætlanir um atvinnuþróun á svæðinu verði haft að markmiði að tryggja sem best atvinnu og byggð á öllu Eyjafjarðarsvæðinu.“

Þetta er tilvitnun í skipunarbréf þessarar samstarfsnefndar um iðnþróun á Eyjafjarðarsvæðinu, en þar eiga fulltrúa Alþýðusamband Norðurlands, Framkvæmdastofnun ríkisins, Iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga, Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar, sem stofnað var á þessu ári, og Náttúruverndarráð auk fulltrúa frá iðnrn. Þessi nefnd hefur unnið talsvert á þessu ári og raunar, að ég hygg, mikið starf og haft samráð við marga á svæðinu, eins og raunar sú staðarvalsnefnd um iðnrekstur sem vitnað var til áðan, sem hefur haft samvinnu og samband við sveitarstjórnir víða um land og marga aðra aðila varðandi sín verkefni.

Til athugunar hefur verið, eins og hér hefur komið fram, hagkvæmni hugsanlegrar nýrrar áliðju hérlendis, álverksmiðju, og gerði iðnrn. um það samning við norska fyrirtækið Árdal Sundal Verk og einnig samning við Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen um að vinna að þessu hagkvæmnimati. Þessi athugun stendur nú yfir, en er langt komin þannig að ég vænti þess að niðurstöður úr henni liggi fyrir á þessu ári, áður en því lýkur, og það verði hægt að meta mál í framhaldi af því. Það er auðvitað öllum hv. alþm. ljóst, að fjárfesting af því tagi sem tengjast kann nýju álveri hérlendis, sem gert er ráð fyrir að Íslendingar standi að, er ekki lítil. Það er ekki lítið fyrirtæki þar á ferð, ekki síst ef miðað er við þá stærð slíkra fyrirtækja eins og algengast er nú, allt að 130 þús. tonna ársframleiðslu, sem auðvitað er hugsanlegt að byggja upp í áföngum. Er raunar gert ráð fyrir og lögð áhersla á að möguleikar á því sviði verði fram dregnir í þessari hagkvæmniathugun.

Í tengslum við þessa hagkvæmniathugun var óskað eftir því, að staðarvalsnefndin umrædda legði mat á skynsamlega möguleika í sambandi við staðsetningu á nýrri álverksmiðju hérlendis og um það skilaði hún bráðabirgðaáliti á því sumri sem nú er liðið. Þar kom fram, eins og hér var vitnað til af hv. 3. þm. Norðurl. e. að einkum væru það tvö svæði á landinu sem talið væri að kæmi til greina með tilliti til fólksfjölda að tækju við slíku stórfyrirtæki, þ.e. Faxaflóasvæðið og Eyjafjarðarsvæðið. Á það er hins vegar bent í þessari álitsgerð, að að mjög mörgu sé að hyggja í sambandi við þessi efni, ekki síst umhverfismálum, og það á alveg sérstaklega við hugsanlega staðsetningu slíks fyrirtækis á Eyjafjarðarsvæðinu vegna þeirra landfræðilegu aðstæðna sem þar eru fyrir hendi og þeirra hagsmuna í landbúnaði m.a. sem þar er um að ræða, þar sem eru ein blómlegustu landbúnaðarsvæði landsins við Eyjafjörð. Þar má því ekki tefla á tvær hættur í sambandi við mengunarmál. Því er það, að í framhaldi af þessu áliti mun nefndin láta gera, og hefur reyndar þegar hrundið því af stað, athuganir á umhverfisáhrifum slíks rekstrar með tilliti til þess tæknibúnaðar sem best er þekktur og til greina kemur til að koma í veg fyrir skaðlega mengun af slíkum rekstri. Þær athuganir taka nokkurn tíma og það er ekki gert ráð fyrir að niðurstöður af þeim liggi fyrir fyrr en þá á næsta ári, e.t.v. á seinni hluta næsta árs. Meðal þátta sem þar þarf að athuga sérstaklega eru loftgæðaathuganir, dreifing mengunarefna, sem tengist loftstraumum, og hafinn hefur verið undirbúningur að slíkum athugunum.

Hér var spurt af hv. 6. þm. Norðurl. e. hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í sambandi við þetta í framhaldi af ábendingum staðarvalsnefndar og hvenær slíkra ákvarðana gæti verið að vænta. Það eitt liggur fyrir um þetta mál í framhaldi af því sem frá nefndinni kom, að við hagkvæmniathugunina verði gerður samanburður á áætluðum kostnaði slíks fyrirtækis, annars vegar við Faxaflóa og þá á Reykjanesi sérstaklega og hins vegar á Eyjafjarðarsvæðinu, nánar tiltekið í Arnarneshreppi þar sem helst hefur verið talið koma til greina að slíkt fyrirtæki yrði sett niður. Þannig hefur sem sagt þeim möguleika verið haldið opnum með þessu — eða réttara sagt hefur sá möguleiki ekki verið útilokaður — að slíkt fyrirtæki gæti komið til greina við Eyjafjörð, en hins vegar ekkert um það hægt að fullyrða á meðan niðurstöður úr slíkum athugunum liggja ekki fyrir, en þær eru hugsaðar sem grundvöllur til að meta þessi mál út frá sem bestri vitneskju. Eins og ég greindi frá ættu niðurstöður að geta legið fyrir á næsta ári, trúlega ekki fyrr en á seinni hluta þess, hvað snertir þessar umhverfisathuganir.

Ég vil láta þess getið, að í sambandi við þetta mál allt hefur verið haft mjög gott samband við heimamenn, að ég best veit, af hálfu staðarvalsnefndar um iðnrekstur og eins við iðnþróunarnefndina á Eyjafjarðarsvæðinu. Þannig áttu fulltrúar frá staðarvalsnefndinni fund með iðnþróunarnefnd Eyjafjarðar 11. okt. s.l. og fóru yfir þessi mál með henni, greindu frá stöðu mála og spurðust fyrir um hvort menn teldu að eittvað skorti upp á málsmeðferðina, og hvort heimamenn vildu leggja þar inn nýja þætti eða nýjar ábendingar, en á þessum fundi komu ekki fram slíkar umkvartanir. Um málið virðist því ríkja góður friður á þessu stigi máls í sambandi við skoðun þess.

Hér var einnig vikið að athugunum varðandi trjákvoðuverksmiðju á Húsavík, sem hefur verið til meðferðar um nokkurt skeið, og spurst fyrir um stöðu þess máls. Það er rétt, sem látið var að liggja af hv. 5. þm. Norðurl. e., að von er á því að niðurstaða úr hagkvæmniathugun liggi fyrir innan skamms. Ég vil orða það svo, að það geti orðið fyrir lok ársins, kannske eitthvað fyrr eða fyrir jólaföstuna, en að þessu máli hefur verið unnið af krafti, að reyna að átta sig á sem flestum þáttum þess, og það hefur ekkert það fram komið, að mér sé kunnugt um fram til þessa, sem útiloki að hér geti verið arðbært fyrirtæki á ferðinni, en að sjálfsögðu þarf að meta slíkt stig af stigi eftir því sem athugunum fleytir fram. Einnig hér þarf að gefa ríkan gaum að umhverfisþáttum málsins, fyrir utan hina fjárhagslegu þætti, og á það hefur verið lögð áhersla að svo sé.

Fyrir utan þessar athuganir, sem hér er að vikið, vil ég geta þess, að kannanir varðandi jarðhitasvæði á Norðurlandi eystra hafa staðið yfir og í mótun er áætlun varðandi frekari rannsóknir á háhitasvæðum okkar, sem ég geri ráð fyrir að leggja fyrir hv. Alþingi þegar hún er fullmótuð af hálfu ráðuneytis og ríkisstj., því að þær rannsóknir sem þar er gert ráð fyrir munu óhjákvæmilega kosta allnokkurt fjármagn.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, geta þess, að ég tel mjög eðlilegt að þm. kjördæmis eins og Norðurlands eystra gefi gaum að þessum stóru málum, sem hér hefur verið vakið máls á með endurflutningi þessarar þáltill., og ég tel það eðlilegt að þeir fái að fylgjast með þessum málum eins og aðrir hv. alþm., þegar nýir áfangar liggja fyrir í könnun þeirra, en eins og fram kom í skipunarbréfi iðnþróunarnefndar fyrir Eyjafjarðarsvæðið þurfum við að sjálfsögðu að líta til þess atvinnurekstrar sem fyrir er, fylgjast með þróunarmöguleikum hans og bera þá saman við þá möguleika sem menn sjá í sambandi við nýjan iðnað og ný fyrirtæki.