08.12.1982
Neðri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv., fyrrum flokksbróðir minn, hefur vakið á því athygli nokkrum sinnum hvílíks tvískinnungsháttar gætir oft í afstöðu sjálfstæðismanna til ýmissa mála. Nú liggur það fyrir, a.m.k. virðist sú vera stefna Sjálfstfl., að það eigi að hverfa frá hinum miklu niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðir innanlands, sem m.a. hafa verið ær og kýr núv. ríkisstj. Hins vegar var ekki að skilja annað á máli síðasta hv. ræðumanns en hann væri að krefjast þess, að þessar niðurgreiðslur yrðu auknar í krónutölu. Þarna rekur sig eitt á annars horn eins og oft gætir hjá þeim ágæta flokki. Látið er í veðri vaka að það sé stefna flokksins að þessar niðurgreiðslur séu stórvarasamar og frá þeim beri að hverfa, en sá þm. flokksins, sem talaði hér síðastur, gerir kröfu um þveröfuga framkvæmd. Hann kvartar undan því að niðurgreiðslufjárhæðirnar úr ríkissjóði séu ekki hækkaðar að sama skapi og verðhækkanirnar hafa verið á landbúnaðarafurðum. Þetta er þessi tvískinnungur í afstöðu sem hv. 4. þm. Reykv. hefur oft nefnt.

Örfá orð um það sem fram kom hjá hæstv. landbrh. hér áðan. Hann sagði að framleiðendur landbúnaðarafurða ættu rétt á útflutningsbótum sem næmu 10% af samanlögðu heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar hverju sinni. Þetta er ekki rétt. Í lögum er hvergi sagt að framleiðendur landbúnaðarafurða eigi þennan rétt. Þvert á móti er sagt að ríkisvaldinu sé heimilt að greiða þessar fjárhæðir. M.o.ö. er ekki heimilt að greiða meira. Þetta ætti hæstv. landbrh. að sjálfsögðu að vita, enda veit ég að hann veit það. En þessi lagafyrirmæli hafa oft verið túlkuð þannig, að hér væri um kröfurétt framleiðenda að ræða, þegar um það er að ræða að verið er að setja þak á heimild ríkisins til að greiða fé skattborgara í þessu skyni.

Ég veit ekki hvort menn gera sér alveg fyllilega ljóst um hvað er hér að tefla. Það er um það að ræða að heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar á hverju ári er metið í íslenskum krónum, ekki aðeins verðmæti hefðbundinnar landbúnaðarframleiðslu eins og sauðfjárafurða og mjólkurafurða, heldur er einnig inn í þetta dæmi tekið áætlað verðmæti ýmissa hlunninda, svo sem lax- og silungsveiði, hrognkelsaveiði, rekatöku, dúntekju, selveiði og annað eftir því. Þetta allt saman er síðan lagt við verðmæti hefðbundinnar landbúnaðarframleiðslu og 10% af þessu samanlagða verðmæti er það sem ríkissjóði er heimilt að greiða í uppbætur með útfluttum landbúnaðarafurðum. M.o.ö., ef veiðist vel í laxi og silungi eitt árið, þá ber ríkissjóði samkv. þessum skilgreiningum að hækka fjárhæðir sinar í niðurgreiðslur á kjöt og smjör til erlendra neytenda. Ef það er gott dúntekjuár, þá á ríkissjóður að greiða meira í niðurgreiðslur með landbúnaðarafurðum til útlanda o.s.frv. Þannig er þetta framkvæmt. Ef aukin fiskirækt skyldi bera einhvern árangur, sem vonandi gerist, og tekjur aukast af lax- og silungsveiði, sem m.a. er horft mjög á sem aukabúgrein sem gæti skilað miklum arði, þá yrði ríkissjóður dæmdur samkv. kerfinu til þess að greiða stöðugt hærri og hærri fjárhæðir í útflutningsbótum með afurðum hefðbundinnar landbúnaðarframleiðslu, sem nú eru komnar langt fram úr því marki sem Íslendingar sjálfir þurfa á að halda. Vonir manna um umbætur í landbúnaðarmálunum þegar dæmið er gert upp, ef þær vonir rætast, munu koma fram með þeim hætti að íslenskir skattborgarar þurfi í síauknum mæli að verja peningum úr sameiginlegum sjóðum sínum í útflutningsbætur með landbúnaðarafurðum.

Í öðru lagi er auðvitað algerlega fráleitt, eins og hæstv. landbrh. gerði hér áðan, að bera saman verð á innlendri framleiðslu, sem fyrst og fremst tekur verðákvarðanir sínar með hliðsjón af innlendum kostnaðarþáttum, bera saman verðþróun á slíkum afurðum annars vegar og hins vegar innfluttri framleiðslu þar sem verðlag ræðst m.a. af stefnu stjórnvalda hverju sinni í gengismálum. Auðvitað er hægt að velja alls konar samanburð í þessu sambandi. T.d. hefði slíkur samanburður verið mun óhagstæðari fyrir hæstv. landbrh. ef valið hefði verið árið sem fylgt var svokallaðri stöðugri gengisstefnu á Ístandi. Samanburður milli tveggja neysluþátta eins og hér um ræðir, þar sem annar byggist á innflutningi og þeirri gengisstefnu sem fylgt er hverju sinni og hinn ræðst af innlendum kostnaðartilefnum, er að sjálfsögðu algerlega út í hött.

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni í fsp. hans. Ég hef, eins og hann og allir hv. þm., orðið var við mjög mikla ólgu meðal almennings út af þessari síðustu verðhækkunarskriðu á mikilvægustu neysluvörum heimilanna. Það er auðvitað mjög skiljanlegt að almenningur skuli bregðast þannig við, því að um svipað leyti og laun almenns launafólks í landinu eru skert um helming þeirrar hækkunar, sem á þessi laun á að koma í jólamánuði, hækka mikilvægustu neysluvörur alþýðuheimila á bilinu 16–25 %. Það er von að fólki blöskri þetta. Og menn skyldu hyggja að því að launafólkið, sem á fyrir höndum að lifa slíkan jólamánuð, fær þessar hækkanir ekki bættar fyrr en eftir þrjá mánuði, ef þær fást bættar þá, sem ekki virðist vera samkv. þeirri túlkun sem sumir hafa gefið á 1. gr. brbl. hæstv. ríkisstj.

Menn skyldu gera sér grein fyrir einu meginatriði í þessu máli. Það er að verðmyndunarkerfið á landbúnaðarafurðum er ekki orðið til og hefur aldrei verið sniðið fyrir bændur. Það hefur aldrei starfað í þágu bænda, í þágu þeirra sem framleiða viðkomandi afurð, heldur hefur allt kerfið ávallt verið sniðið og uppbyggt með þarfir þeirra fyrir augum, sem eru milliliðir á leiðinni frá bóndanum til neytandans. Það sést gleggst á því sem hæstv. landbrh. sagði með réttu, að þetta verðmyndunarkerfi hefur aldrei getað tryggt framleiðendunum, bændunum sjálfum, þau laun sem þeir eiga að bera úr býtum lögum samkv. og viðmiðunarkerfið átti að miðast við. Af hverju? Vegna þess að þetta verðmyndunarkerfi er þannig, að framleiðendurnir, bændurnir sjálfir, hafa ávallt verið látnir mæta afgangi. Í þeirra hlut hefur aldrei komið annað en þeir molar sem eftir hafa verið á borðunum, þegar allir hinir hafa verið búnir að fá sitt.

Verðmyndunarkerfið í landbúnaði er fyrst og fremst skapað og starfrækt til þess að tryggja hagsmuni þeirra sem vinna úr framleiðsluvörum bændanna. Menn vita mætavel að ýmis framleiðslu- og þjónustufyrirtæki hér á Íslandi, bæði í opinberri eigu og einkaeigu, hafa á undanförnum árum orðið að una því hvað eftir annað, að verðlagsyfirvöld hafa skammtað þeim aðeins brot af þeirri hækkun sem þessi fyrirtæki hafa farið fram á, og sem þau telja sig geta sannað að þau þurfi, vegna innlendra kostnaðartilefna. Þau einu fyrirtæki sem ekki hafa þurft að sæta þessari meðferð eru framleiðslufyrirtæki og úrvinnslufyrirtæki landbúnaðarins. Vegna hvers ekki? Vegna þess að þeirra hagsmunir eru fast niðurnjörvaðir í verðmyndunarkerfi landbúnaðarafurða. Verðmyndunarkerfið er þannig uppbyggt, að það er ógerningur að láta þessi fyrirtæki sæta sömu meðferð og önnur sambærileg fyrirtæki í hliðstæðri framleiðslu hafa orðið að sæta af hálfu verðlagsyfirvalda. Framleiðsluaðilar landbúnaðarvara eru nefnilega búnir að festa síg þannig í kerfinu að það er gersamlega útilokað annað en þeir fái ávallt fulla þá hækkun sem þeir telja sig eiga kröfu á og telja sig geta sannað fyrir þeirri nefnd sem úrskurðar verð landbúnaðarafurða. Það er fyrir þessa aðila en ekki bændurna sem verðmyndunarkerfið er búið til.

Ég átti hlut að því í minnihlutastjórn Alþfl. 1979–1980 að gera tilraun til þess, sem þá var gerð í fyrsta skipti, að vinnslustöðvar landbúnaðar fengju einhverja sambærilega meðhöndlun í sambandi við verðákvarðanir eins og önnur framleiðslufyrirtæki á öðrum sviðum í landinu þyrftu að sæta. Minnihlutastjórn Alþfl. neitaði að fallast á þá niðurstöðu verðlagsnefndarinnar, að þessi fyrirtæki fengju þær hækkanir á vinnslukostnaði sínum sem þau töldu sig hafa getað sannað fyrir verðlagsráðinu að þau ættu kröfu til. Það ætlaði allt vitlaust að verða. Þetta var í fyrsta skipti sem gerð var tilraun til þess að halda eitthvað aftur af þeim hækkunarkröfum, sem vinnslustöðvar landbúnaðarins voru búnar að geirnegla til sín innan verðmyndunarkerfis landbúnaðarafurða.

Þetta, herra forseti, er skýringin á því, að þrátt fyrir þær hörmungar sem sagt er að landbúnaðurinn eigi við að stríða skuli vera unnt að byggja stórhýsi, stærsta mjólkurvinnslufyrirtæki á öllum Norðurlöndum, sem nú stendur til að reist verði á vegum mjólkursölu- og dreifingaraðila hér í Reykjavík. Þar er enga kreppu að sjá, vegna þess að þetta eru einu framleiðsluaðilarnir innanlands sem eru búnir að sníða sér slíkt kerfi, að til þeirra krafna verður ávallt tekið fyllsta tillit við verðákvarðanir á landbúnaðarafurðum, en bændurnir eru látnir mæta afgangi. Það er þetta sem menn gera sér ekki fyllilega grein fyrir. Verðmyndunarkerfið hefur aldrei verið starfrækt í þágu bænda. Það var smíðað fyrir milliliðina og það er starfrækt í þeirra þágu. Bændunum er hins vegar ætlað að hirða þá mola sem eftir eru á borðunum, þegar allir milliliðirnir eru búnir að fá sitt.

Það er enginn vandi, herra forseti, að tryggja bændum ákveðnar lágmarkstekjur miðað við lágmarkstekjur annarra stétta með því að afnema þetta verðmyndunarkerfi. Við skulum átta okkur á því, að niðurgreiðslufjárhæðin, sem greidd er á næsta ári skv. fjárlfrv. hæstv. ríkisstj., nemur 240 þús. kr. á hvern einasta framleiðanda landbúnaðarafurða í landinu. 240 þús. kr. renna inn í þetta millifærslukerfi. Halda menn að ekki væri hægt að nota þá fjármuni til þess að tryggja bændum mannsæmandi lífskjör ef þeir þyrftu ekki að draga á eftir sér allt þetta milliliðakerfi sem þrífst á þessum fjárgreiðslum ríkisins? Útflutningsbæturnar einar nema 64 þús. kr. á hvern einasta framleiðanda landbúnaðarvöru í landinu. En það eru ekki þeir sem fá þetta. Þeir njóta ekki nema mjög takmarkaðs góðs af þessu fé. Þetta fé rennur til þeirra aðila sem taka við framleiðslu íslenska bóndans og skila henni á markað til neytandans. Þetta er sannleikurinn um landbúnaðarkerfið.

Gleggsta dæmið um þetta kerfi allt saman held ég að komi þó í ljós ef menn skoða hvernig haldið er á greiðslu útflutningsbóta vegna landbúnaðarafurða og hvernig ferill slíkra greiðslna er. Nú er það vitað, og engin nýlunda fyrir neinn Íslending, að útflutningur landbúnaðarafurða, t.d. dilkakjöts, á sér gjarnan stað mörgum mánuðum eftir að slátrað er. Nú skulum við rekja sögu einnar slíkrar sendingar til þess að við áttum okkur á fyrir hvern þetta er upp byggt.

Þegar slík sending hefur farið úr landi til erlends kaupanda, þá greiðir hann fyrir hvert kíló af dilkakjöti, sem hann kaupir, verð sem ekki einu sinni nemur sláturkostnaðinum á hvert kíló, ef marka má upplýsingar dagblaðsins Tímans. Í Tímanum kom það fram — og ekki er hann málgagn sem ætti að vera fjandsamlegt bændastéttinni — nú á síðustu dögum að andvirðið, sem fæst á erlendum markaði fyrir íslenskt dilkakjöt, dugi ekki einu sinni til að greiða sláturkostnaðinn á hverju kílói. Með þessum prís er varan seld úr landi. Þegar liggja fyrir í bönkum skil hins erlenda kaupanda, sem greiðir kannske innan við þriðjunginn af því verði sem þarf að fást fyrir þessar afurðir, og síðan greiðir ríkissjóður afganginn af verðinu, eftir því sem útflutningsbætur hrökkva til, þá tvo þriðju sem upp á vantar.

Hvað er gert við þetta fé ríkissjóðs? Hafa menn áttað sig á því? Það skal ég segja ykkur. Það er byrjað á að greiða útflytjandanum sölulaun. Hvað eru sölulaunin há? Þau nema tveimur prósentum, ekki af því verði sem fæst fyrir dilkakjötið erlendis, heldur af verðinu á innanlandsmarkaði. Það skiptir því útflytjandann ekki neinu máli á hvaða verði honum tekst að selja afurðirnar erlendis, hann hefur alltaf sitt á hreinu, hann fær 2% í söluþóknun af innanlandsverðinu. Hann mundi fá söluþóknunina óbreytta þó hann stæði fyrir því að gefa kjötið. Hvaða áhuga haldið þið nú að slíkur útflytjandi hafi á að ná góðum viðskiptasamböndum erlendis, þegar það hefur engin áhrif á þóknunina til hans hvaða verð hann fær fyrir vöruna úti? Og hvaða aðili skyldi það nú vera sem fær þessa söluþóknun? Ætli hæstv. landbrh. hafi fengið einhvern stuðning þaðan í prófkjörinu sínu? Það skyldi þó ekki hafa verið. Það skyldi þó ekki vera er að einhver hafi lánað honum eitthvað úr þeim herbúðum. Hann borgar það sjálfsagt aftur með rentum.

Nú hlýtur einhver að hafa varðveitt þær kjötbirgðir sem út voru fluttar frá því að slátrun átti sér stað, t.d. í septembermánuði, þangað til að útflutningi kom. Einhver frystihús hljóta að hafa varðveitt þessar birgðir. Hver skyldi eiga það frystihús? Spyr sá sem ekki veit. En sú regla hefur verið í gildi um nokkurra ára skeið, að heimilt sé að greiða vaxta- og geymslukostnað af útflutningsbótafénu úr ríkissjóði áður en aðrir reikningar eru greiddir. Með öðrum orðum, útflytjandinn, sá sem annast söluna á afurðunum til útlanda, hann hefur allt sitt á hreinu. Sá aðilinn sem hefur geymt vöruna í frystihúsum sínum, hann hefur ríkisstjórnarsamþykkt fyrir því að hann fái sitt strax greitt. Sá aðili sem hefur séð um ávöxtunina á þessu öllu saman og orðið fyrir vaxtakostnaði, hann fær það greitt úr ríkissjóði.

Sá fjórði í röðinni. það er þá væntanlega sláturleyfishafinn eða vinnslustöðin sem þessar afurðir hefur unnið, hann fær sinn reikning greiddan. Undir hvaða hatt skyldi sá aðili vera seldur? Spyr sá sem ekki veit, en hefur grunsemdir um ýmislegt. Þegar allir þessir aðilar eru búnir að fá sitt á hreinu, mörgum mánuðum eftir að slátrun hefur átt sér stað, mörgum mánuðum eftir að útflutningurinn hefur átt sér stað, þá er loksins komið að síðasta hlekknum í keðjunni, bóndanum sjálfum. Og þá fær hann molana sem eftir kunna að vera á borðinu þegar hinir aðilarnir allir eru búnir með kökuna. Að ráðast á þetta kerfi er ekki að ráðast á íslenska bændastétt, vegna þess að þetta kerfi hefur aldrei verið byggt með þarfir hennar fyrir augum. Það eru aðrir í samfélaginu sem hafa byggt upp þetta kerfi, það eru aðrir aðilar sem njóta góðs af því, og það eru aðrir aðilar en íslenskir bændur sjálfir sem rísa upp til varnar ef á að breyta þessu kerfi.

Um niðurgreiðslurnar sérstaklega. Auðvitað hljóta menn að sjá það, að þegar niðurgreiðslur á eina afurð geta numið allt að helmingi, jafnvel rúmum helmingi af verðinu, þá hlýtur það að hafa áhrif á neysluvenjur alls almennings. Ég spyr: Lætur nokkur sér detta það í hug, að neysla landbúnaðarafurða í landinu héldist óbreytt ef þær væru seldar yfir búðarborðið á raunverulegu söluverði, ef niðurgreiðslurnar yrðu felldar niður og fólkið í landinu þyrfti að greiða raunverulegan kostnað, sem það greiðir að hluta til í sköttum, fyrir þær afurðir sem framleiddar eru á vegum þessara atvinnugreina? Auðvitað ekki. En þessi staðreynd, að niðurgreiðslunum skuli vera beitt af svo miklu afli sem ríkisstj. gerir, hefur þær afleiðingar, að gersamlega er komið í veg fyrir það að nokkur eðlileg verðlagsþróun geti átt sér stað á þessu sviði, því að auðvitað lætur enginn sér til hugar koma að það mundi geta gerst hér á Íslandi, ef niðurgreiðslum yrði aflétt, að verðlag á landbúnaðarafurðum yrði látið hækka sem því næmi, því að þá yrðu þessar afurðir ekki keyptar nema í mjög litlum mæli.

Fólk mundi snúa sér að öðrum neysluvörum, m.a. vörum sem aðrir þættir landbúnaðarins framleiða, öðrum neysluvörum en hinum hefðbundnu neysluvörum í körfu vísitölufjölskyldunnar. Og ef menn stæðu frammi fyrir því hef ég þá trú, að verðmyndun öll mundi verða tekin til endurskoðunar og verðþróunin á landbúnaðarframleiðslunni yrði öll önnur en átt hefur sér stað á undanförnum árum.

Auðvitað er okkur öllum ljóst sem hér erum inni, í hvaða flokki svo sem við erum, að það er ekki unnt að aflétta þessum miklu niðurgreiðslum í einu vetfangi. Það yrði slíkt áfall fyrir íslenska bændastétt. Og það yrði hún sem yrði fyrir áfallinu, en ekki vinnslustöðvarnar, sem menn hafa verið að byggja upp með peningum íslenskra skattborgara á undanförnum árum. Mér er það alveg jafn ljóst og öðrum, að ef ætti að afnema þessar miklu niðurgreiðslur í einni svipan, þá yrði það til mikils áfalls fyrir íslenska bændastétt. Ég hef ekki nokkurn áhuga á að stuðla að slíku. Það sem ég vil stuðla að er að menn geti fetað sig út úr þessu kerfi í áföngum, án þess að verða landbúnaðinum að tjóni. Það sem ég vil stuðla að er að menn tryggi íslenskum bændum mannsæmandi lífskjör og afkomu, svo að þeir geti stundað sinn búskap með eðlilegum hætti, í samræmi við eigin óskir og þarfir þjóðarinnar. Ég er andvígur því að íslenskir skattborgarar og bændur sjálfir séu að draga á eftir sér allt þetta dýra vinnslu- og sölukerfi, sem verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og útflutningsbótakerfið eins og við þekkjum það er fyrst og fremst orðið, til þess að láta íslenska skattborgara greiða kostnaðinn af því. Það eru ekki bændurnir sem eru byrði á íslenskum skattborgurum. Það er þetta kerfi. Og það vita varðhundar þessa kerfis öllum öðrum mönnum betur. Þess vegna skjóta þeir alltaf bændum fyrir sig ef á að ræða þessi mál við þá. Þess vegna segja þeir alltaf: Gagnrýni á kerfið er árás á íslenska bændastétt. Þetta segja þeir vegna þess að þeir hvorki geta né þora að segja annað.