08.12.1982
Neðri deild: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

136. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Vegna þess að það frv. sem hér um ræðir snertir álagningu fasteignagjalda í janúarmánuði er nauðsynlegt að Alþingi taki afstöðu til þess fyrir jól og þess vegna bað ég um að málið fengi að koma hér fyrir.

Frv. gerir ráð fyrir að í 1. gr. verði heimilt að skipta greiðslum fasteignagjalda meira en verið hefur. Í 2. gr. er gert ráð fyrir að heimavistir, þar með taldir stúdentagarðar og hjónagarðar, falli undan álagningu fasteignagjalda. Og í 4. gr. er gert ráð fyrir að fasteignamat undir fasteignaskatta í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi, Seltjarnarnesi og Mosfellshreppi hækki ekki meira en annars staðar á landinu á þessu ári og jafnvel minna ef sveitarfélög nota þær lækkunarheimildir sem öll sveitarfélög hafa. Það er heimilt að lækka fasteignagjöld um 25% og nú fá þau að hækka þau líka um 25%. Hér er sem sagt um að ræða frv. sem gerir ráð fyrir að dregið verði úr þeirri mismunun eftir landshlutum sem íbúar þéttbýlisins verða stundum að sæta. Ég vil skýra frá því, herra forseti, að það er einnig von á frv. til l. um breyt. á lögum um eignarskatt, sem hefur í raun og veru sama efni að flytja, þ.e. að hið háa fasteignamat hér á þéttbýlissvæðinu verði ekki til að hækka eignarskatta á þessu svæði umfram það sem verður annars staðar.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn. og fer þess á leit við hv. nefnd að hún ljúki málinu svo fljótt að afstaða þingsins liggi fyrir fyrir áramót þannig að frv. geti orðið að lögum og taka megi tillit til þess við álagningu fasteignagjalda í janúarmánuði.