09.12.1982
Sameinað þing: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu á sér nokkuð langan aðdraganda. Það munu vera tvö ár í dag síðan sú deila hófst sem nú stendur enn yfir um samskipti Íslendinga við svissneska áthringinn Alusuisse. Ég hygg að öllum Íslendingum sé það kunnugt að árangurinn af þeim viðræðum og þeirri vinnu sem unnin hefur verið á þessum tveimur árum er næsta lítil. Ég hygg að öllum Íslendingum sé jafnframt kunnugt með hverjum hætti upphaf málsins var. Ég ætla ekki að endurvekja hér í þessu húsi deilur um það hvort upphaf málsins og þær bumbur, sem iðnrh. barði á sínum tíma, hafi skaðað meðferð málsins á síðari stigum. Hitt er ljóst, að hvorki hefur gengið né rekið í þessu máli allan þann tíma.

Til þess að gera langt mál stutt og án þess að rekja alla forsöguna vil ég byrja á að segja það að álviðræðunefnd, sú sem hér er mjög til umræðu og á að sjálfsögðu samkvæmt nafni sínu og skipunarbréfi að annast viðræður við svissneska álhringinn Alusuisse um þessi deilumál, hefur ekki tekið þátt í viðræðum við Alusuisse eða ÍSAL á þessu ári. Hins vegar hefur ráðh. átt nokkra fundi með Alusuisse um það nánast hvort viðræður skuli teknar upp. Í þessari nefnd hefur á ýmsu gengið og margt verið rætt sem atþjóð er ekki kunnugt um. Í upphafi starfs nefndarinnar varð það samkomulag að starf hennar skyldi verða trúnaðarmál. Þess vegna hafa menn lítið fylgst með því sem þar hefur gengið á.

Ég hygg að menn muni það að þegar ráðh. átti viðræður við Alusuisse í vor sem leið urðu niðurstöður þær hjá honum að enginn grundvöllur væri til samninga við svissneska áthringinn. Ég vil ítreka það í þessu sambandi hversu mikil nauðsyn það er fyrir Íslendinga að fá orkuverðið hækkað. Það er mál málanna varðandi þennan samning. Ráðherra stóð að þeim viðræðum nánast einn. Álviðræðunefnd tók ekki þátt í þeim. Hún fékk hins vegar upplýsingar frá ráðh. um niðurstöður þeirra viðræðna sem þá fóru fram. Þær voru á þann veg, eins og ég hygg að menn muni, að enginn grundvöllur væri fyrir frekari samningum, árangur væri enginn.

Með þá niðurstöðu að leiðarljósi hélt álviðræðunefnd áfram að vinna. Endanlegar niðurstöður voru fengnar frá breska alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækinu Coopers & Lybrand. Umræður innan nefndarinnar snerust síðan um það hvort ekki væri eðlilegt að beina því máli beint í skattameðferð, þ.e. að lagðir yrðu skattar á ÍSAL í samræmi við þá útreikninga sem breska endurskoðunarfyrirtækið hafði lagt fram.

Ég hygg að það hafi verið einum eða tveimur dögum eftir að álviðræðunefnd fékk hinar endanlegu skýrslur enska endurskoðunarfyrirtækisins í hendur sem tilmæli bárust frá iðnrh. um að álviðræðunefndin afgreiddi það mál sem skattamál þá þegar, á sinum fyrsta fundi eftir að hún fékk þetta í hendur. Nefndarmenn höfðu þá ekki einu sinni lesið þessar endanlegu niðurstöður. Ég bað því um nokkurn frest meðan ég færi yfir skýrslurnar. Það var gagnrýnt af fulltrúum ráðh. því að svo lá á að afgreiða málið í nefndinni. Þegar síðan málið kom fyrir í nefndinni var mér skyndilega ljóst að Alusuisse eða ÍSAL, fulltrúar þeirra, höfðu ekki einu sinni fengið í hendur þau gögn sem um var að ræða. Þeir höfðu ekki einu sinni fengið í hendur þau gögn sem iðnrh. var að leggja til að skattar yrðu lagðir á eftir. Þá gerði ég þá sjálfsögðu sanngirniskröfu að öll gögn í málinu yrðu send gagnaðilanum, ekki vegna þess að ég hefði neina sérstaka samúð með honum, þvert á móti, heldur vegna þess að almennar umgengnisreglur hljóta að vera á þann veg, þegar tveir deila, að báðir aðilar hafi í höndum þau gögn sem verið er að reyna að meta. Eftir nokkurt japl og jaml og fuður var fallist á það. Gögnin voru send Alusuisse og ákveðið að nefndin tæki ekki afstöðu í málinu fyrr en hinn erlendi aðili hefði þó gögnin í höndum.

Síðan berst bréf frá svissneska álhringnum, það bréf sem sjónvarpsfréttamaður vitnaði til í sjónvarpi að mjög jákvætt hefði verið. Vegna þeirra umræðna sem hér hafa orðið um þetta mál og allrar þeirrar deilu sem nú er upp risin held ég að rétt sé að gera í nokkru máli grein fyrir hvað í þessu bréfi stóð, á hvaða grundvelli svissneski álhringurinn vildi hefja viðræður um endurskoðun raforkusamningsins og lausn þeirra deilumála sem fyrir liggja. Enn á ný ítreka ég að ég ætla ekki að gera grein fyrir því hér vegna þess að ég hafi neina samúð með svissneska álhringnum, langt í frá, heldur af hinu, að ástæða er til að öll gögn málsins komi fram. Allir eiga auðvitað að njóta sannmælis í sínu máli.

Í bréfi svissneska álhringsins segir að þeir leggi til, til þess að sýna fram á vilja þeirra til að leysa deilumálið vinsamlega, — og fer ég nú allhratt yfir sögu án þess að lesa orðrétt bréfið sem hér liggur fyrir á ensku — að deilumál varðandi fortíðina, sem risið hafa mjög hátt þessi tvö ár, verði lögð í nokkurs konar gerð, þ.e. að tilnefndir verði þrír lögfræðingar til að skera úr um lagalegan ágreining í þessari deilu. Einn lögfræðingur verði tilnefndur af Íslendingum, annar af Alusuisse, en þeir komi sér síðan saman um þriðja lögfræðinginn.

Þessi lögfræðingagerðardómur skeri úr um lögfræðilegan ágreining. Í fyrsta lagi hvernig túlka beri afstöðuna, annars vegar til ákvæða í aðalsamningi um að samskipti ÍSALs og Alusuisse skuli vera sem samskipti milli óháðra aðila, og hins vegar til ákvæða í hjálparsamningi um að Alusuisse skuli beita sér fyrir því að ÍSAL njóti bestu kjara í kaupum sinum á hráefni. Þarna er um að ræða mjög mikilvægt atriði hverrúg túlka skuli.

Við höfum túlkað það svo, að rétt sé með farið hjá breska endurskoðunarfyrirtækinu Coopers & Lybrand. Þeir hafa túlkað það svo, að í viðskiptum milli óháðra aðila, hvort heldur er á súráli eða rafskautum, sé ekki um neitt sérstakt, ákveðið eitt verð að ræða, heldur liggi það verð á ákveðnu bili í heimsviðskiptum. En vegna ákvæða hjálparsamningsins um að ÍSAL skuli njóta bestu kjara sé eðlilegt að meta innkaup ÍSALs á þessum hráefnum á þann veg að verðið skuli vera í neðra kanti þessa bils. Þess vegna er túlkun á þessum ákvæðum mjög mikilsverð. Og ég vil leggja áherslu á að samkvæmt aðalsamningi á svissneski álhringurinn auðvitað rétt á því að óska eftir gerðardómsúrskurði um ágreiningsmál. Jafnvel þó að við vildum ekki samþykkja að leggja slík mál í gerð, þá geta þeir óskað eftir því og fengið málið í gegn samkvæmt ákvæðum aðalsamnings.

Jafnframt óska þeir eftir að þessi gerðardómur þriggja lögfræðinga úrskurði um lagalegan rétt Íslendinga til að leggja skatta á ÍSAL aftur í tímann allt til ársins 1975, en eins og menn vita stendur þessi deila um hækkun í hafi og óeðlilega hátt verð á hráefnum allt frá árinu 1975.

Þeir leggja einnig til að sérstakur gerðardómur íslenskra lögfræðinga úrskurði um deiluna varðandi afskriftaraðferðir sem Alusuisse hefur notað.

Þeir gera síðan ráð fyrir því, að þegar úrskurður liggi fyrir frá þessum lögfræðingum verði enn á ný endurmetin krafa til skatta, miðað við það að sú niðurstaða sem Coopers & Lybrand hafa komist að kynni að einhverju leyti að breytast eftir þann lagaúrskurð. Þá segir Alusuisse í bréfi sínu:

Verði þessi málsmeðferð höfð uppi um túlkun á lagalegum ágreiningi og skattainneignin eða skattaálagning metin aftur, eftir úrskurð á þennan hátt, munum við ekki gera talnalegan ágreining um álagningu skatta í þessu máli. Þegar mál hafa verið meðhöndluð á þennan veg munum við ekki gera ágreining um þá skattaálagningu sem út úr því kemur.

Þessi málsmeðferð virðist mjög eðlileg, enda eiga þeir kröfu á því samkvæmt aðalsamningi að skorið sé úr með gerðardómi ef ágreiningur er varðandi atriði samningsins.

Þeir segja síðan:

Verði samkomulag um að leysa deilumálin aftur í tímann á þennan hátt, þá erum við tilbúnir til að taka nú þegar upp samninga um endurskoðun raforkusamningsins, þar sem tekið verði tillit til þess raforkuverðs sem greitt er til álvera í Evrópu og Ameríku, jafnframt því sem tekið sé tillit til samkeppnisaðstöðu ÍSALs.

Þá segir enn í bréfinu:

Við erum jafnframt tilbúnir til að taka þá þegar upp samninga um endurskoðun skattareglna í aðalsamningi. Og áfram segir:

Inn í þessar viðræður komi viðræður um stækkun álversins í Straumsvík og þátttöku nýs hluthafa í ÍSAL. Jafnframt komi inn viðræður um möguleika íslenska ríkisins til þess að gerast hluthafi í ÍSAL siðar ef íslenska ríkið óskar.

Að lokum bæta þeir við í bréfi sínu að þeir séu tilbúnir að ganga út frá því, ef málum sé hagað á þennan veg, að samningaviðræðum verði lokið á fyrsta ársfjórðungi 1983, þ.e. fyrir 1. apríl 1983.

Ég hygg að ég hafi ekki verið einn um það, að mér kom þetta bréf Alusuisse nokkuð á óvart. Sérstaklega í framhaldi af þeim fundi sem iðnrh. hafði átt með fulltrúum félagsins í vor, þar sem niðurstaðan var sú, að engin leið væri að ræða við þá um nema lagfæringu á þessum samningi. Hvernig stendur á því, eftir að þær niðurstöður fengust af fundi iðnrh. með þessum mönnum að ekkert sé hægt að komast áfram með þessa samninga, að svohljóðandi bréf kemur frá þessum aðilum? Mér er náttúrlega spurn hvort menn telji það frágangssök að taka upp viðræður, sem nánast eru án nokkurra skuldbindinga, á þeim grundvelli sem þetta bréf gerir ráð fyrir.

Það er rétt að um þetta bréf var mikið fjallað í álviðræðunefnd. Menn voru þeirrar skoðunar að þarna væri kominn fram jákvæður grundvöllur til að hefja samningaviðræður á, sem sjálfsagt væri að láta reyna á. Auðvitað væri einnig rétt að láta reyna á hvort unnt væri að fá fram einhverja frekari jákvæða punkta áður en samningaviðræður hæfust. Einkum var rætt um hvort unnt væri að fá Alusuisse til að fallast á einhverja hækkun á raforkuverði þá þegar, áður en samningaviðræður hæfust, til að sýna góðan vilja til samninga, jafnframt því sem mikill ávinningur væri fyrir Íslendinga ef unnt væri að fá Alusuisse til að fallast á tímasetningu, hvenær nýr raforkusamningur tæki gildi, áður en í sjálfu sér væri farið að semja um hann. M.o.ö. þó að samningar drægjust eitthvað á langinn, jafnvel fram yfir 1. apríl, sem þeir höfðu sjálfir gert ráð fyrir að væri lokapunktur í samningum, þá væri búið að festa það hvenær samningurinn tæki gildi og þar með reynt að tryggja íslenska hagsmuni.

Með þessi skilaboð fór iðnrh. síðan á fund með Alusuisse 22. nóv., ef ég man dagsetninguna rétt. Þær viðræður iðnrh. snerust auðvitað um það hvort hefja ætti viðræður á þeim grundvelli sem hér er um að ræða. Niðurstöður iðnrh., sem hann skýrði nefndinni síðan frá, voru þær að engin leið væri að ræða við þessa erlendu menn um þessi atriði og þeir virtust ekki meina neitt af því sem í þessu bréfi þeirra stæði. Engu hefði þokað áfram, en þó hefði verið ákveðinn annar fundur 6.–7. des.

Eftir þennan fund sendi ráðh. síðan Alusuisse telex, sem ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni, en ég verð þó að segja að fleiri en einn og fleiri en tveir nm. í álviðræðunefnd lýstu undrun sinni á skilningi ráðh. í þeim telexum sem hann sendi þá frá sér. Viðræður hófust á ný 6. des. Og niðurstöður ráðh., að ég hygg af tveimur fundum sem haldnir voru þann 6. des., voru þær, sem hann skýrði frá í álviðræðunefnd að kvöldi 6. des., að enginn grundvöllur væri til að hefja viðræður við þessa aðila. Þeir vildu ekki hækka orkuverðið og þeir vildu ekki ganga til móts við sjónarmið Íslendinga á neinn hátt, en hefðu uppi ýmsar kröfur.

Það var á þessu augnabliki sem ég ákvað að leggja fram ákveðna tillögu í álviðræðunefndinni, sem í nokkrum punktum miðaði að því að opna samningaviðræðurnar, tillögu, sem væri dálítil lagfæring á þeim grundvelli sem Alusuisse hafði sjálft lagt fram, og freista þess með ákveðnum punktum, sem þeir stæðu frammi fyrir, að láta þá svara því hvort þeir væru tilbúnir að ganga til samningaviðræðna á slíkum grundvelli.

Ég kynnti þessa tillögu í álviðræðunefndinni. Og vegna þess hve mikið fjaðrafok hefur orðið út af tillögunni ætla ég að gera hér lítillega grein fyrir henni á hv. Alþingi.

Fyrsta atriði tillögunnar var að Alusuisse féllist á 20% hækkun raforkunnar 1. febr., áður en nokkrar viðræður færu af stað, eingöngu til að sýna að þeir hefðu góðan vilja til að hefja viðræður um endurskoðun orkusamningsins. Þegar þeir hefðu fallist á 20% hækkun yrðu hafnar viðræður um endurskoðun raforkusamningsins á grundvelli þess orkuverðs sem greitt er í Evrópu og Ameríku og samkeppnisaðstöðu ÍSALs.

Þetta atriði hefur iðnrh. leyft sér að rangtúlka á allan veg, bæði í ræðu sinni hér áðan og í útvarpsumræðum. Hann skýrir það nánast svo, bæði í útvarpi og hér, að ég sé að leggja til að samið sé við Alusuisse um 20% hækkun á raforkuverði. Ég verð nú bara að segja beint út: Hvers konar málstað hafa þeir menn sem þannig þurfa að hagræða sannleikanum í fjölmiðlum og vita þó gjörla um málsatvik? Mér er skapi næst að spyrja hér, eftir allt sem á undan er gengið: Er líklegt að sá sannleikur, sem iðnrh. hefur borið okkur í álviðræðunefnd af viðræðum við Alusuisse, sé eitthvað í svipuðum dúr og sá sannleikur sem hann ber hér á borð varðandi þá tillögu sem ég hef lagt fram í álviðræðunefndinni? Þá er ekki von á góðu. Sú 20% hækkun sem ég lagði til að farið væri fram á á raforkuverðinu strax var eingöngu til þess að Alusuisse sýndi að þeir ætluðu að ganga til samninga um hækkun raforkuverðs með góðum vilja. Þetta veit iðnrh. vel. En í ræðu sinni hér á undan tvinnar hann inn í þetta að á móti hafi komið krafa frá Alusuisse um að lækka kaupskylduna niður í 50% á raforku. (Iðnrh.: Þú vissir af því.) Ég vissi að Alusuisse hafði lagt fram slíka kröfu í viðræðum við iðnrh. En iðnrh. kaus að túlka það svo hér í sinni ræðu áðan, að það færi algjörlega saman, svo að af orðum hans mátti skilja að í minni tillögu væri það fólgið að 20% hækkun þýddi að fallið væri frá kaupskyldunni sem nemur 50%.

Þetta þykir mér ekki vænlegur málflutningur. Ég verð að segja það að ég er gjörsamlega undrandi á þessum málflutningi ráðh. Ég er gjörsamlega undrandi á því að hann skuli ekki treysta sér til að ræða þessa tillögu efnislega eins og hún er, en tjá sig tilknúinn að blanda inn í ræðu sína alls konar atriðum, sem alls ekki snerta málið, til þess eins að gera mína tillögu tortryggilega. Málstaður manna, sem þannig haga máli sínu, er ekki sterkur. Ég árétta enn á ný að ef sá sannleikur, sem fyrir mig er borinn í álviðræðunefnd af samningaviðræðunum við Alusuisse, er eitthvað á borð við þann sannleika sem iðnrh. ástundar í túlkun á þessari tillögu minni, þá er ekki von á góðu. Í því tilefni held ég að ástæða sé til að ég endurtaki þau orð mín að líklega geti iðnrh. ekki staðið að þessum samningi ef hann hagar orðum sínum á þennan veg.

Jafnframt var í minni tillögu sagt að þegar Alusuisse hefði fallist á 20% hækkun, áður en nokkrar viðræður hæfust um endurskoðun orkusamningsins, mundum við fallast á að setja fyrri deilumál í þriggja lögfræðinga gerð, með nokkrum breytingum, sem ég hafði áður gert grein fyrir í nefndinni frá því sem þeir höfðu sjálfir farið fram á. Jafnframt yrðu þegar hafnar viðræður um endurskoðun orkusamningsins, þar sem byggt væri á því orkuverði sem nú gerist í Evrópu og Ameríku og samkeppnisaðstöðu ÍSALs, jafnframt því sem inn í þá samninga yrði sérstaklega tekin ákveðin hækkunarformúla, þar sem verðið á raforkunni yrði miðað við uppsveiflu á álverði.

Í minni tillögu var síðan gert ráð fyrir að þegar eftir að Alusuisse hefði fallist á 20% hækkun á raforkuverði, eingöngu til að sýna góðan vilja í þessum samningum, yrðu hafnar viðræður við þá um endurskoðun skatta ákvæða aðalsamningsins ásamt fleiri slíkum atriðum. Það er alveg rétt að í minni tillögu er sagt að Íslendingar fallist á stækkun álversins, ef samningar náist um önnur atriði, og þá sérstaklega miðað við að samningar náist um viðunandi raforkuverð og viðunandi endurskoðun á þeim orkusamningi sem nú liggur fyrir. Á þeirri yfirlýsingu varðandi stækkun álversins eru því fjölmargir fyrirvarar, fyrirvarar sem að fullu tryggja rétt Íslendinga á allan hátt. Jafnframt að við föllumst á að Alusuisse fái að taka inn nýja hluthafa í rekstur ÍSALs, auðvitað eftir samninga við okkur og þau skilyrði sem við getum fallist á.

Nú telur iðnrh. það slæmt mál að ég skuli hafa gert tillögu um að Alusuisse fái að taka inn nýjan hluthafa í ÍSAL. En ég man ekki betur en iðnrh. hafi sjálfur í upphafi deilunnar gert kröfu um það að hluthafar yrðu fleiri, að nýir aðilar yrðu teknir inn í rekstur ÍSALs. Hann er líklega búinn að gleyma því. Nú er þetta talið slæmt mál af minni hálfu, þó að reynt hafi verið á sínum tíma að tryggja rekstur ÍSALs með því að fá einhvern nýjan aðila að þessum rekstri til að hafa ábyrgð þar líka, auk þessara — ég vil segja allt að því glæpamanna sem iðnrh, telur sig eiga við í Alusuisse. Þar má enginn annar koma við sögu en þessir menn sem hann á engan hátt getur samið við, að því er hann segir, og telur slæma á ýmsan hátt. En ekki bara það, heldur leyfir hæstv. ráðh. sér í ræðu sinni áðan að túlka mína tillögu þannig, að ég hafi farið fram á að þeir fengju nýjan hluthafa sem ætti 50% eignaraðild. Hvaðan hefur iðnrh. það?

Enn á ný sér ráðh. sig tilknúinn að rangtúlka mína tillögu og hagræða sannleikanum til þess að bæta sinn málstað. Málstaðurinn er ekki betri en það, að ráðh. sér engan veginn fært að gera þessa tillögu að umræðuefni hér á hæstv. Alþingi eins og hún er. Það þarf að hagræða sannleikanum, segja rangt frá, gefa ýmislegt í skyn. Og eins og menn vita: „Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi.“ Ég tel að málflutningur ráðh. sé fyrir neðan allar hellur og honum til stórrar vansæmdar.

Jafnframt er í þessari tillögu minni gert ráð fyrir því, að svissneski álhringurinn fallist á að íslenska ríkið geti síðar meir orðið eignaraðili að þessu álveri ef það óskar eftir. Þar er um engar skuldbindingar að ræða heldur eingöngu ósk um það og yfirlýsingu um að við getum komið þarna til greina sem aðili. Í erindisbréfi sem iðnrh. setti álviðræðunefnd — sem hann reyndar telur enga viðræðunefnd, vegna þess að nú á hún að vera honum til ráðuneytis, þó að í skipunarbréfi eigi hún fyrst og fremst að vera til viðræðna — í því erindisbréfi er það tekið fram að álviðræðunefnd skuli í samningaviðræðum leggja áherslu á að íslenska ríkið geti í þrepum orðið meirihlutaaðili, eignaraðili að ÍSAL. Það er nú ekkert annað.

Í einhverju blaðaviðtalinu segir iðnrh. í dag að í tillögu minni felist margvísleg fríðindi fyrir ÍSAL. Ég vil biðja iðnrh. að gera grein fyrir því hvaða fríðindi það eru. Ég sé ekki að í þessari tillögu séu nein loforð, sem ekki eru háð ströngustu úrslitum um samninga, og allir fyrirvarar settir af hálfu Íslendinga varðandi þetta mál. Síðasti liðurinn í tillögu minni er svo sá, að samningum verði lokið fyrir 1. apríl, á fyrsta ársfjórðungi ársins 1983.

Tillaga mín var tekin til umræðu í álviðræðunefnd. Ég kynnti þessa hugmynd þar. Fulltrúi Alþfl., Sigþór Jóhannesson verkfræðingur lýsti því strax yfir að hann teldi eðlilegt og rétt á þessu stigi, þegar aðeins einn dagur væri eftir af viðræðum iðnrh. og Alusuisse, að reynt væri að koma með einhverja fastmótaða tillögu í þessa átt. Hann sagði reyndar að hún gæti verið á ýmsa vegu og nefndi ýmsa möguleika í því sambandi, en sagðist þó fyllilega geta fallist á að tillaga yrði lögð fram í þessum dúr, eins og ég hefði lagt hana fram.

Formaður viðræðunefndarinnar, dr. Vilhjálmur Lúðvíksson, gerði tillöguna að umræðuefni, skrifaði hana upp á nýtt og bar fram brtt. Breytingarnar fólust að mestu í breytingu á uppsetningu, í breytingu á röðun punktanna eins og þeir liggja fyrir í tillögu minni, jafnframt þessi 20% hækkun sem yrði að koma strax áður en við hæfum samningaviðræður, til að Alusuisse skildi að ætlunin væri að semja í góðri trú. Formaður viðræðunefndar, dr. Vilhjálmur Lúðvíksson, sagði þá að hann teldi æskilegt að tillaga í þessum dúr yrði lögð fram.

Það sem næst skeði, þar sem við sátum í hring við boðið, var að formaður sagði: „Það er rétt að við tökum einn hring og heyrum afstöðu manna í þessu máli.“ Ríkisendurskoðandi, Halldór V. Sigurðsson, sagðist telja eðlilegt að lögð yrði fyrir Svisslendingana tillaga í þessum dúr. Þóroddur Th. Sigurðsson, fulltrúi sjálfstæðismanna í ríkisstj., taldi eðlilegt að lögð yrði fram tillaga í þessum dúr, en velti fyrir sér hvort byrjunarhækkun ætti að vera 20 eða 25%. Ragnar Aðalsteinsson, sérstakur lögfræðilegur ráðgjafi iðnrh. í nefndinni, sagði sem svo, að hann teldi hættulegt að nefna nokkra tölu í þessu sambandi, það gæti reynst okkur illa í framtíðinni, og hann vildi ekki tengja stækkun álversins viðræðum um endurskoðun orkusamningsins.

Ingi R. Helgason, fulltrúi Alþb. í nefndinni, gerði nokkrar brtt. við tillögu mína. Þær brtt. sem hann skrifaði niður voru tvenns konar. Annars vegar að í stað þessara 20%, sem iðnrh. nú telur óalandi og óferjandi og reynir að rangtúlka hér á allan hátt, komi 25%. Hins vegar að í stað þess að við lýstum yfir því að við værum samþykkir því að stækka álverið, ef fullnægjandi samningar næðust fyrir Íslendinga í öðrum atriðum, skyldi greinin orðast þannig, að við værum samþykkir því að hefja viðræður um stækkun álversins ef samningar næðust um önnur atriði. Stærri ágreiningsmál hafði hann ekki á því stigi.

Fulltrúi Sjálfstfl., Hjörtur Torfason, sagðist ekki vera mótfallinn því að till. í þessum dúr yrði lögð fram. Hins vegar mundi hann sitja hjá við atkvgr. þar sem hann hefði ekki haft neitt samráð við sína flokksmenn.

Það var því alveg ljóst að það var meiri hluti fyrir því í álviðræðunefnd að leggja fram slíka hugmynd á þessu stigi mála. Það var alveg ljóst að meiri hlutinn taldi nauðsynlegt og eðlilegt að á þessu stigi mála yrði lögð fram einhver „konkret“ hugmynd, sem Svisslendingarnir stæðu frammi fyrir, um hvað við vildum gera.

Það skeði síðan að bæði fulltrúi Alþb. og formaður nefndarinnar, sérstaklega skipaður af ráðh., fóru í símann og hringdu í ráðh. Ég lýsti því þá yfir, að ég kynni því illa að fulltrúar í álviðræðunefnd færu í símann til þess að bera undir ráðh. hvaða ráðleggingar nefndin ætti að gefa honum á fundi sinum fyrir viðræðurnar við Svisslendingana daginn eftir. Þegar þetta skeði var orðið áliðið nætur. Formaður viðræðunefndarinnar var þetta kvöld lengi í símanum að skýra iðnrh. frá þessari tillögu. Við biðum allir á meðan. Hvað segir svo iðnrh. hér á hv. Alþingi? Hann segir: Formaður nefndarinnar gerði mér grein fyrir þessum tillögum á þriðjudagsmorgni. Enn ein

ósannindi iðnrh. í þessu máti. Sú spurning hlýtur að vakna hvernig standi á því að iðnrh. getur nánast ekki greint rétt eða satt frá neinu aðalatriði þessa máls. Ég hlýt enn að spyrja sjálfan mig: Skyldi það allt vera rétt sem hann er búinn að segja okkur um viðræðurnar við Svisslendingana, eftir að hafa hlustað á hvernig hann lýsir mínum tillögum og túlkar þær og gerir grein fyrir viðræðunum sem þar fóru fram?

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Það er alveg ljóst að mikill meiri hluti var í nefndinni fyrir því að ráðh. legði fram ákveðna tillögu. Og ég legg áherslu á það að þessi tillaga batt ekki hendur Íslendinga á nokkurn hátt. Hún fól eingöngu í sér að við fengjum 20% hækkun á raforkuverðinu áður en samningar hæfust um endurskoðun orkusamningsins, og jafnframt að Svisslendingarnir skuldbyndu sig fyrir fram til að ljúka viðræðunum fyrir 1. apríl. Hvað skyldi hafa verið í hættunni að bera slíka tillögu fram? Hvers vegna skyldi hafa verið ómögulegt að gera það, úr því að mikill meiri hluti í nefndinni var sammála um að stíga eitthvert skref í slíkum dúr?

Að morgni 7. des. hóf iðnrh. enn einn fund sinn með Alusuisse um það hvort hefja skyldi viðræður, hvort farið skyldi að tala saman um endurskoðun þessara orkusamninga. Kl. 2. s.d. var haldinn enn á ný fundur í álviðræðunefnd. Þar gerði iðnrh. grein fyrir því sem komið hefði fram á fundinum um morguninn og lýsti þeim tillögum sem hann hafði lagt fram og fyrirspurnarbréfi sem hann hafði einnig lagt fyrir Alusuisse. Þegar hann hafði lokið máli sínu lýsti ég miklum vonbrigðum mínum með það að hann skyldi ekki hafa tekið tillit til þess sjónarmiðs, sem fram hafði komið í álviðræðunefndinni, að nauðsynlegt væri að leggja fram í ákveðnum atriðum tillögur um að opna samningaviðræðurnar. Iðnrh. skýrði frá því að það væri tilgangslaust. Fulltrúar Svisslendinganna neituðu gjörsamlega að ræða nokkra hækkun. Ég fór þess á leit að á þeim fundi sem átti að hefjast kl. 4 um daginn legði ráðh. fram hugmyndir í þessum dúr. Ég fór ekki einu sinni fram á það að mín tillaga yrði lögð fram eða endilega þau atriði sem ég var með, heldur að tillaga í þeim dúr yrði lögð fram í ákveðnum liðum til þess að Svisslendingarnir stæðu frammi fyrir því að svara henni. Ég taldi að þarna væri um ákveðin tímamót að ræða vegna þess að þetta væri í annað skiptið sem fulltrúar Alusuisse væru komnir til að ræða við iðnrh. um það hvort viðræður ættu að hefjast. Þetta var líklega fimmti fundurinn á þessum tíma, á tveimur vikum eða þremur, um það hvort ætti að hefja viðræður á grundvelli þess bréfs sem Alusuisse hafði lagt fram. Iðnrh. lýsti því yfir að hann teldi engan grundvöll fyrir því að leggja slíkar hugmyndir fram. Ég man ekki hvort það kom fram hjá honum eða formanni nefndarinnar að sá fundur, sem fyrirhugaður væri seinna um daginn, væri ekki hugsaður til að leggja fram neinar tillögur, það væri allt öðruvísi fundur.

Ég lýsti því þá yfir að ef ráðh. færi ekki eftir því sem meiri hluti nefndarinnar teldi nauðsynlegt á þessum tímamótum, að ákveðin tillaga kæmi fram í þessum dúr á þessum síðasta fundi, þá teldi ég að grundvöllur fyrir samstarfi í nefndinni væri brostinn. Ég lýsti því yfir að ef hann ekki tæki einhver skref í þessa átt í þessum dúr, þá mundi ég segja mig úr nefndinni og lýsa allri ábyrgð á hendur iðnrh. varðandi framgang samningaviðræðnanna.

Þetta vissi iðnrh. þegar hann gekk á þennan síðasta fund með Alusuisse. Þrátt fyrir það vildi hann ekki á nokkurn hátt taka tillit til þess eða leggja fram tillögu, sem á engan hátt var skuldbindandi fyrir Íslendinga, gat ekkert falið í sér nema ávinning fyrir okkur og gat verið merkileg tilraun til að reyna að opna samningaviðræður.

Auðvitað var það rökrétt niðurstaða hjá mér að segja mig úr nefndinni. Ég segi það alveg eins og er að ég ætla ekki að sitja í einhverri nefnd, sem er kölluð álviðræðunefnd, viðræðunefnd fyrir aftan iðnrh., ef hann heldur hvern fundinn með Alusuisse á fætur öðrum um það hvort viðræður eigi að hefjast og skammtar okkur síðan upplýsingar af þeim fundum eftir því sem honum sýnist. Ég ætla ekki að sitja í neinni slíkri nefnd fyrir aftan iðnrh. og mynda með því eitthvað sem hann kallar þjóðarsamstöðu á bak við það sem honum dettur í hug að segja eða túlka í viðræðum við Alusuisse. Ég ætla mér ekki að sitja í einhverri álviðræðunefnd sem iðnrh. ætlar að reka eins og rússneskt hænsnabú. Það kemur ekki til greina. Það getur vel verið að stjórnarandstaðan vilji sætta sig við það. Það er hennar mál. Henni er það fullkomlega heimilt. En ég er þeirrar skoðunar, að það sé ábyrgðarhluti að bera ábyrgð á því lengur hvernig iðnrh. heldur á þessu máli. Ég er þeirrar skoðunar, að ég geti það ekki.

Þegar iðnrh. segir að ég hafi beint þessu máli nú í nýjan farveg. fært víglínuna, tel ég að það sé nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að færa víglínuna. Það er nauðsynlegt að reyna að koma á þessum samningaviðræðum. Og mér er spurn: Hvers vegna gat iðnrh. ekki hugsað sér að bera fram slíka tillögu, sem ekkert fól í sér annað en tilraun til að botna samningaviðræður eftir tiltölulega jákvætt útspil frá svissneska álhringnum? Það getur orðið erfitt að skýra það. Ég ætla ekki að reyna að skýra hvað skeður í hugarfylgsnum iðnrh. En hitt er annað, að hann gerir því nokkuð skóna að nú muni hann grípa til þeirra aðgerða sem einar duga. Það skyldi þó aldrei vera að hann hafi hreinlega verið búinn að undirbúa einhliða aðgerðir og ekki haft nokkurn áhuga á að semja eða reyna að koma þessum samningaviðræðum á?

Það getur vel verið að iðnrh. hafi verið illa við að leggja þessi gömlu deilumál í gerð, í lögfræðingaúrskurð um lagalega túlkun á því hvernig okkar mál stæðu. Ég veit ekki nema hann hafi verið að hugsa um hvernig hann stæði í kosningum, ef úrskurður væri kominn áður en kosningar færu fram og sá úrskurður væri okkur ekki í vil. Ég er ekki að gera því skóna að hann verði okkur ekki í vil, langt í frá. En ég geri mér grein fyrir því, að þegar tveir deila geta verið uppi fleiri en eitt sjónarmið. Ég geri mér líka grein fyrir því að,hversu illir sem við teljum að þessir svissnesku álhringsmenn séu, þá eiga þeir rétt á að óska eftir gerðardómsúrskurði um lagalega túlkun á deilumálum.

Fróðlegt er að íhuga það sem stendur í leiðara Þjóðviljans í dag. Leiðaranum lýkur svo með leyfi forseta: „En það er nóg komið af neitunum frá þessum herramönnum, við þurfum ekki fleiri.“

Við þurfum ekki fleiri. Skyldu þeir hafa ætlað að efna til fleiri samningafunda? Við þurfum ekki fleiri neitanir frá þeim, segir málgagn iðnrh., eftir að hann hefur sjálfur neitað gersamlega að fallast á vilja meiri hluta álviðræðunefndarinnar um að leggja fram tillögu um að opna samningaviðræður. Við þurfum ekki fleiri neitanir. Skyldi það benda til þess að hann hafi ætlað að halda fleiri samningafundi? Nei. Jafnframt segir í þessum leiðara:

„Ísland er fullvalda ríki og í samræmi við það hljótum við að grípa til þeirra einu úrræða sem duga, þess réttar sem fullveldið veitir okkur til að ráða sjálf eigin málum. Það er mál að þófinu linni en verkin tali“, segir í leiðaranum.

Iðnrh. hefur síðan sjálfur boðað hér einhliða aðgerðir til að hækka raforkuverðið. Nú vil ég segja það strax að ég hef hvað eftir annað hér í ræðustól á þingi sagt að ég útiloka það ekki að við verðum að grípa til einhliða aðgerða í þessu máli, ég útiloka það ekki. Það kann að fara svo. Auðvitað er það lífshagsmunamál fyrir okkur að fá raforkuverðið hækkað. En ég hefði talið sjálfsagt að reyna samninga til þrautar. Ég hefði talið sjálfsagt, á grundvelli þess bréfs sem fyrir liggur, að reyna að opna samninga með tillögu, sem felur í sér enga áhættu fyrir okkur, sem felur í sér 20% hækkun á raforkuverðinu, áður en til samninga er gengið um hækkun þess, tillögu sem felur í sér að þeim samningum skuli lokið fyrir 1. apríl á næsta ári. Hverju tapa menn? Hverju tapa menn á slíkri tillögu? Ég segi engu. Ég fullyrði að aðstaða okkar til að grípa til einhliða aðgerða, ef til þess kemur, er auðvitað miklu sterkari og miklu betri ef við getum sýnt fram á það að við höfum þó ítarlega reynt á þennan hátt að ná samkomulagi.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að það er meginmál fyrir Íslendinga að árangur náist. Við leggjum áherslu á árangur en ekki áróður í þessu máli. Það er auðvitað rétt að æskilegt er að fá fram þjóðarsamstöðu, mikla samstöðu í þessu máli. En sú samstaða verður að vera um hagsmuni Íslendinga en ekki um Hjörleif Guttormsson. Það er ekki verið að tala um þjóðarsamstöðu um Hjörleif Guttormsson, það er verið að tala um þjóðarsamstöðu um hagsmuni Íslendinga. Hvað halda menn að það hafi kostað Íslendinga að eiga í tveggja ára þófi iðnrh. í þessu máli án þess að geta nokkurn hlut hreyft raforkuverðið? Það er þess vegna ábyrgðarhluti að halda áfram á þeirri braut sem iðnrh. hefur markað í þessu máli. Þess vegna hef ég sagt mig úr álviðræðunefnd og lýsi því yfir, að iðnrh. ber sjálfur ábyrgð á því sem hér eftir skeður í þessum samningaviðræðum. Ef hann hins vegar er tilbúinn að leggja fram slíka tillögu til að opna viðræður, eitthvað í þeim dúr sem ég lagði fram, með þeim breytingum sem formaður nefndarinnar gerði á þeirri tillögu, þá erum við framsóknarmenn tilbúnir að taka þátt í þeim viðræðum. En auðvitað hljótum við á allan hátt í öllu þessu máli að leggja áherslu á það, hver sem með þetta mál fer, að meginmálið er árangur en ekki áróður.