09.12.1982
Sameinað þing: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Eðlilegt er að það þyki tíðindi þegar stjórnarflokkar í einni ríkisstjórn takast á um stórmál á borð við það sem hér er til umræðu. Þó er það svo, að þetta er dæmigert um þá stöðu sem nú ríkir innan ríkisstj. Allt logar þar í slagsmálum og klögumálin ganga á víxl, ekki eingöngu í málinu sem hefur verið til umr. í dag heldur í fjölmörgum öðrum málum. Það sanna dæmin og þarf ekki að nefna þau, en minna má á t.d. viðmiðunarfrv. sem ekki fær afgreiðslu í ríkisstj.

Það er ekki tilefni til þess að rifja upp hvernig upphaf þessa máls, sem hér er til umr., varð fyrir u.þ.b. tveimur árum, þegar hæstv. iðnrh. talaði digurbarkalega og tók sér í munn setningu eins og þá, að um sviksamlegt athæfi væri að ræða hjá svissneska álhringnum Alusuisse. Stofnað var til álviðræðunefndar svokallaðrar. Þingflokkur Sjálfstfl. tók ákvörðun um að taka þátt í þeirri nefnd og samþykkti um það ályktun 20. júlí á s.l. ári þar sem ákveðið var að skipa mann í nefndina. Þar var sérstaklega tekið fram að störf nefndarinnar hlytu fyrst og fremst að snúast um þær ásakanir sem ráðh. hafði látið frá sér fara á hendur svissneska fyrirtækinu og snérust fyrst og fremst um súrálsverð, verð á rafskautum, skattgreiðslur o.fl. Þegar nefndin hóf störf sín kom í ljós að í erindisbréfi hennar voru tekin fram atriði um allt önnur efni en Sjálfstfl. taldi að ættu að vera á starfssviði nefndarinnar og í störfum nefndarinnar.

Í þessu máli öllu hefur það síðan gerst, eins og hér hefur verið rakið af öðrum hv. þm., að afskipti ráðh. hafa leitt til þess að nefndinni hefur verið skákað til hliðar og málið siglt í strand. Það var ekki fyrr en í lok októbermánaðar með bréfi hæstv. forsrh. til svissneska fyrirtækisins að það var staðfest með þýðingu á útskrift úr Alþingistíðindum og með þýðingu á yfirlýsingu forsrh. í blaðaviðtali að ekki væri um sviksamlegt athæfi að ræða. Þetta bréf var dags. 27. okt., undirritað af Jóni Ormi Halldórssyni aðstoðarmanni forsrh. og stílað til dr. Paul Müller í Zürich. Í framhaldi af þessu bréfi komu skilaboð frá svissneska fyrirtækinu um að það væri tilbúið að halda áfram viðræðum við íslensk stjórnvöld og þar komu fram fjölmörg atriði, sem þeir lögðu upp úr að skoðuð yrðu sérstaklega, og þarf ég ekki að telja þau, enda hefur það komið fram í ræðum fyrri hv. ræðumanna.

Það skal tekið fram að um langa hríð höfum við sjálfstæðismenn verið mjög óánægðir með störf álviðræðunefndarinnar og þegar fundir voru hér í Reykjavík 5. og 6. maí s.l. samþykkti þingflokkur Sjálfstfl. að senda bréf til iðnrh. þar sem sagt var skýrum stöfum að hverju óánægja flokksins beindist. Eftir að hafa fjallað í bréfinu um hvernig ráðh. hundsaði nefndina í starfi sínu sagði svo, með leyfi forseta:

„Af þessu tilefni vill Sjálfstfl. láta í ljós mikla óánægju yfir að ekki hefur af hellindum verið efnt til þess samstarfs við stjórnarandstöðuna sem nauðsynlegt verður að teljast í svo mikilvægu máli. Forsenda þess, að hægt sé að ná þjóðarsamstöðu í slíku máli er full samráð og samvinna stjórnar og stjórnarandstöðu um alla stefnumótun og um undirbúning og þátttöku í öllum viðræðufundum.“

Og í lok bréfsins segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Um önnur atriði, eins og t.d. endurskoðun raforkuverðs, breytta eignaraðild og stækkun álvers, er nauðsynlegt og eðlilegt að stefnan sé mörkuð í samstarfi við alla þingflokka og sérstök nefnd sé skipuð til að annast þær viðræður. Sjálfstfl. er að sjálfsögðu reiðubúinn fyrir sitt leyti að taka þátt í slíku samstarfi. Núverandi starfshættir eru hins vegar óþolandi, þar sem iðnrh. hefur ekki staðið við fyrirheit um samstarf við stjórnarandstöðuna eða sinnt boði Sjálfstfl. um samvinnu í þessu efni, eins og að framan hefur verið rakið.“

Hér lýkur tilvitnun í bréf sem þingflokkur sjálfstæðismanna sendi hæstv. ráðh. og er dags. 5. maí s.l. Honum var jafnframt tilkynnt þá að efni þessa bréfs yrði ekki gert opinskátt að sinni og honum þannig gefið tækifæri til að ræða við Sjálfstfl. um frekari framgang mála.

Í framhaldi af þessu, nánar tiltekið síðar í maímánuði, kallaði hæstv. ráðh. á mig til viðtals í ráðuneyti sínu þar sem við skiptumst á skoðunum og ég gerði frekari grein fyrir þessum hugmyndum Sjálfstfl. Þeim viðræðum lauk með því, að hæstv. ráðh. ætlaði að hafa frekara samband við Sjálfstfl. þá stuttu síðar, og það gerðist um sumarið. Hann hafði samband við formann flokksins og þeir áttu umræður um þessi mál og voru þá enn ítrekuð sjónarmið sjálfstæðismanna.

Tveimur dögum áður en til viðræðna var gengið við Alusuisse, eða nánar tiltekið hinn 20. nóv., hitti hæstv. ráðh. forustumenn Sjálfstfl. og enn á ný ítrekuðum við rækilega okkar sjónarmið í þessu máli og jafnframt var þar rætt um efnisviðhorf okkar varðandi samningatilraunir við svissneska félagið. Það verður að segja þá sögu eins og er, að hæstv. ráðh. hefur algjörlega hundsað viðhorf Sjálfstfl. til þessara mála.

Ég legg á það áherslu að Sjálfstfl. telur afar nauðsynlegt að alvöruviðræður hefjist sem allra fyrst. Fulltrúi flokksins í álviðræðunefnd hefur ávallt stutt tillögu um það atriði. Það byggðist fyrst og fremst á formsatriðum, sem hæstv. ráðh. er fullkunnugt um, að hann skyldi sitja hjá um tillögu Guðmundar G. Þórarinssonar.

Það er hárrétt, sem hér hefur komið fram, að mikill meiri hluti álviðræðunefndarmanna var á þeirri skoðun að fylgja skyldi þeim vinnubrögðum sem hv. 12. þm. Reykv. lagði áherslu á og gerði tillögu um á fundi sem haldinn var s.l. mánudag. Hins vegar gerðist það, að hæstv. ráðh. sá sér ekki fært, vildi ekki eða gat ekki fylgt þessum tillögum fram í viðræðum við Alusuisse. Þá vil ég taka það sérstaklega fram að við lítum svo á, sjálfstæðismenn, að álviðræðunefndin sé hætt störfum, nefndin sé úr leik og það sé tilgangslaust að halda starfi hennar áfram, enda er samráðsgrundvöllurinn brostinn.

Við vísum í fyrsta lagi til þess, að sérfræðingar sem setið hafa í nefndinni hafa ákveðið að láta af störfum í nefndinni, og hins vegar til þess, að stærsti stjórnarflokkurinn hefur dregið mann sinn út úr henni. Við teljum þess vegna að hæstv. ráðh. beri skylda til að hafa beint samband við umbjóðendur þeirra sem skipuðu menn í viðkomandi nefnd. Ég legg áherslu á þetta og ítreka að við lítum svo á að nefndin sé úr leik og við okkur eigi að hafa samband beint. Þetta vil ég að hæstv. ráðh. skilji og þess vegna tek ég af öll tvímæli.

Ef hæstv. ráðh. ætlar að halda áfram samningatilraunum við svissneska félagið verður hann að gera upp sinn hug í þessu máli. Ætlar hann einn að bera ábyrgð á þessu máli eða ætlar hann að hafa samstarf og samráð við aðra? Kjósi hann þjóðarsamstöðu eða samstöðu við aðra þingflokka ber honum skylda til að efna til viðræðna um það mál. Eina raunhæfa leiðin út úr ógöngum hæstv. ráðh. er að ný viðræðunefnd verði skipuð og í henni sé fullt jafnræði á milli þingflokka og jafnframt að sú nefnd fái fullt vald á málinu þannig að hún bæði leggi grundvöllinn að samningaviðræðunum og taki beinan þátt í þeim. Þetta vil ég að hæstv. ráðh. skilji. Þetta hefur honum margoft verið sagt, líklega 10 eða 20 sinnum, og nú komumst við ekki hjá því að það sé sagt á þeim stað sem því verður trúað að þessu hafi verið haldið fram. Vilji hæstv. ráðh. ekki verða við þessum óskum hlýtur hann einn að bera ábyrgð á þessu máli, og eins og fram hefur komið fyrr í þessum umr. er vafasamt hvort hann hafi umboð hæstv. ríkisstj. til þess.

Ég ætla ekki hér, herra forseti, að gera að umtalsefni efnisatriði þeirra viðræðna sem átt hafa sér stað. Það er ekki við hæfi að það sé gert á opinberum vettvangi, þó ekki væri nema vegna þess að ný viðræðunefnd hlýtur að þurfa að móta algjörlega upp á nýtt þann grundvöll sem við viljum leggja upp með í samningaviðræðum við Alusuisse. Hins vegar veit hæstv. ráðh. hver okkar sjónarmið eru í þessu efni og honum hafa margoft verið kynnt þau.

Það er fyrst og fremst þráhyggja og metnaður hæstv. ráðh. sem hefur leitt til þess að viðræðunum hefur nú verið siglt í strand og til þessarar upplausnar hefur dregið. Hæstv. ráðh. vill nefnilega bæði stjórna viðræðunum, leggja grundvöll að samningaviðræðunum og gerir jafnframt kröfu til samstöðu, en sú samstaða á að byggjast á því að hann ráði ferðinni einn, geti síðan komið til fulltrúa annarra stjórnarflokka og fulltrúa stjórnarandstöðunnar og heimtað samstöðu um málið. Slík vinnubrögð ganga ekki og þetta er meginástæðan fyrir því að hæstv. ráðh. hefur sigli þessu máli í strand og klúðrað því algjörlega.

Þetta mál hefur leitt til upplausnar í stjórnarherbúðunum og í gær og í dag hafa gengið bréf á milli stjórnarflokkanna. Það hlýtur að teljast til tíðinda þegar stjórnarflokkar verða að skrifast á. Jafnvel er það haft fyrir satt að í slíkum bréfum sé hótað ýmsu. Það er aðalatriði þessa máls að komið verði í veg fyrir að hæstv. ráðh. haldi áfram á þeirri linu, sem hann hefur fylgt hingað til, þar sem aðalatriðið hefur verið pólitískur áróður í stað árangurs, þar sem uppskeran hefur verið upplausn í stað einingar. Þetta gagnrýnum við sjálfstæðismenn um leið og við ítrekum okkar viðhorf um nýja viðræðunefnd.

Það sem skiptir auðvitað langmestu máli er að allan þann tíma sem þetta mál hefur verið í höndum núverandi hæstv. iðnrh. erum við að tapa vegna þess að orkuverðið hækkar ekki. 1 mill þýðir meira en milljón dollara á ári. Það er þess vegna ábyrgðarhluti þegar hæstv. ráðh. situr svo lengi á þessu máli strandaður, eins og fyrr hefur verið lýst.

Ég vil að lokum, herra forseti, biðja hæstv. ráðh. að skýra það hér og nú hvað hafi gerst á ríkisstjórnarfundi í morgun. Hann segir á forsíðu Þjóðviljans í dag að þetta mál hafi verið rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Þar hlýtur ríkisstj. að hafa tekið afstöðu til málsins. Jafnframt segir hæstv. ráðh., eins og fyrr hefur komið fram á þessum fundi, og leyfi ég mér að vitna til áðurnefndrar Þjóðviljafréttar í dag, með leyfi forseta:

„Við munum að sjálfsögðu ræða þessi mál á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun (þ.e. í dag), og ég hlýt í framhaldi af þessu upphlaupi Framsóknar að skýra opinberlega frá efnisatriðum málsins og leggja fyrr en varir fram þær tillögur sem helst geta gagnað íslenskum málstað eins og nú er komið.

Þessa yfirlýsingu ber auðvitað að skoða með hliðsjón af leiðaraskrifum Þjóðviljans, sem hv. 12. þm. Reykv. gat um í sínu máli.

Það er skýlaus krafa að hæstv. ráðh. segi það hér og nú hvort fyrir honum hafi vakað allan tímann að sigla þessu máli í strand og efna í kjölfarið til einhliða aðgerða. Ég tek fyllilega undir það sem hv. 12. þm. Reykv. sagði. Það hafa vaknað grunsemdir um þetta mál og hæstv. ráðh. verður annaðhvort að koma hreint til dyranna og hreinsa sig af þessum áburði eða draga verður þá ályktun af hans málflutningi og hans vinnubrögðum allan tímann að sá einn hafi verið tilgangurinn að koma í veg fyrir árangur í viðræðunum til þess eins að hann gæti þjónað þeim málstað að efna til einhliða aðgerða í þessu máli. [Fundarhlé.]