21.10.1982
Sameinað þing: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

18. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Í upphafi ræðu síðasta ræðumanns, þ.e. hv. þm. Karls Steinar Guðnasonar, hvíslaði að mér hv. þm., sem nærri mér situr, svolátandi spurningu: Hvaða skammarstrik skyldi það vera sem Karl Steinar Guðnason vill ekki láta frem ja í Helguvík?

Ég fagna framkominni hógværri og svo skynsamlegri till. til þál., sem hér er flutt af Lárusi Jónssyni og Halldóri Blöndal, svo háþróaðri í raun og veru að hún er að nálgast hið guðdómlega stig að ekki þurfi að flytja hana framar. Við höfum fjallað um till. af þessu tagi, samda með þessum hógværa aðdraganda skynsamlegrar hugsunar, við höfum fjallað um hana áður. Ég hef tekið undir till. af þessu tagi í grundvallaratriðum, en nú má einu við það bæta sem áður hefur verið um sams konar till. sagt: Ennþá er það fjær lagi nú, að við getum gefið undir fótinn þeim bjartsýnishugmyndum að af orkufrekum iðnaði, framleiðslu á landi hér á málmum og málmblöndum til sölu á alþjóðlegum markaði, geti landsfólk okkar lifað góðu lífi. Ég vil minna hv. þm. á það, að einmitt um þessar mundir er atvinnuleysið mest og örast vaxandi í löndum stóriðjunnar, hins orkufreka iðnaðar, vegna þess ástands sem nú ríkir í efnahagsmálum okkar blessaða tæknivædda heims.

Þegar við hugleiðum það, að hvert atvinnutækifæri, eins og það er kallað, atvinna hvers manns við fyrirtæki af því tagi sem hér hefur borið á góma, þ.e. í álverksmiðju, myndi kosta því sem næst 15 millj. kr., þá getum við nú reynt að geta okkur til um hversu mörgum mönnum við gætum ekki veitt atvinnu fyrir slíkt framlag í kapítali í léttari iðnaði eða við þan störf þar sem unnið er úr landsins gæðum og unnið að því að nýta landsins gæði betur fremur en að taka þátt í hinum alþjóðlega braskmarkaði með hina þungu málma á vegum erlendra auðhringa eða í nánum fjárhagslegum tengslum við þá.

Ég er enn sem fyrr þeirrar skoðunar, að hlutverk okkar verði að nýta gæði þessa lands betur en við höfum áður gert, leggja áherslu á að byggja upp og efla þær tegundir iðngreina þar sem við kunnum best til verka, í matvælaframleiðslunni, og minni jafnframt á að það er ekki atvinnuleysi í þessu landi. Hvernig í ósköpunum getur á því staðið að ekki skuli vera atvinnuleysi á Íslandi, þar sem svo til vantar alla stóriðjuna og hinn orkufreka iðnað, ef þetta er lausnin til frambúðar á atvinnumálum þessarar þjóðar? Við minnumst allir hinna glæsilegu fullyrðinga um það, með hvaða hætti járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði ætti að verða ný stoð undir efnahagslíf Íslendinga. Það hefur kannske farið framhjá hv. þm., að enn í sumar kom ný frétt um það með hvaða ágætum þessi stoð hefur reynst. Peningarnir úr vösum íslenskra skattþegna, sem áttu að endast til þess að sjá þessari verksmiðju farborða til ársins 1985, eru þegar upp urnir á þessu sumri. Tapið á þessari verksmiðju, sem við ályktuðum í orði sem svo í umr. í vetur að nægt hefðu til þess að setja bundið slitlag á allan hringveginn á einu ári, samsvarar þeim kostnaði sem mundi nægja til þess að leggja bundið slitlag á hringveginn tvisvar og hálfum sinnum á þessu ári.

Ekki er ég því andsnúinn, nema síður sé, að við leitum til þess fanga að koma orkunni okkar í verð, að framleiða orkufrekan varning, sem við getum selt á föstu og uppfæranlegu verði erlendis til þess að kaupa fyrir fljótandi orku í mynd olíu og annarrar orku, sem við þurfum að flytja inn í landið, með því að gera samninga til langs tíma við þá aðila sem á slíku þurfa að halda. Ég vil aftur á móti ekki, eins og nú horfir, að við stundum það, og það er ég raunar viss um að er ekki vilji hv. flm. þessarar till. heldur, ég vil taka það fram, ég þekki þá af miklu meiri greind en svo og varfærni, — að við gefum undir fótinn með það, að með slíkum hætti, eins og nú er ástatt í heiminum á hinum alþjóðlegu mörkuðum með þessa vöru, getum við leyst atvinnuvandamál í Norðurlandskjördæmi eystra. Til þess má ég ekki hugsa að við gefum undir fótinn með slíkt, eins og nú horfir. Þessa kosti eigum við alla að athuga. Ef við komumst að þeirri niðurstóðu með skynsamlegum hætti, að við getum með slíkum hætti eflt efnahagslega stöðu í þeim landshluta og efnahagslega stöðu þjóðarinnar til langframa, þá ber okkur sannarlega að neyta slíkra kosta, en það er þá eins gott að við spillum ekki með þeim hætti atvinnu sem fyrir er á þeim slóðum, að við vegum ekki að rótum traustra atvinnutækja sem fyrir eru í þeim landshlutum og að við fordjörfum ekki landið okkar á þann hátt og spillum kostum þess, sem fyrir eru.

Ég styð efnislega þessa till. með sjálfsögðum skynsamlegum fyrirvara og ætla að síðar á þessum vetri, þrátt fyrir þau mál sem í aðsigi eru og má halda að úfar muni af rísa hér inni á þinginu, fáum við tækifæri til þess að ræða hliðstæð mál og mál sem varða grundvallarhugsunina í þessari þáltill., — þá möguleika sem við eigum á því að efla efnahag þessarar þjóðar og menningu með því að koma upp fyrirtækjum af þessu tagi. Ætla má ég þá, að við munum draga nokkrar ályktanir af reynslunni, sem við höfum haft af hinum fyrri stóriðjufyrirtækjum, sem reist hafa verið á landi hér með pompi og prakt, og þætti þá sæta furðu ef enginn þeirra hv. þm., sem börðust af mestri hörku fyrir því að slík fyrirtæki væru sett upp á landi hér, kynni ekki að ganga út úr þessum hv. þingsal með bleika kinn.