09.12.1982
Sameinað þing: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. bar sig nokkuð illa upp undan því í ræðu sinni hér áðan, að ég hefði sakað hann um að segja rangt frá fundum sem hann hefði haldið með Alusuisse. Þetta er ekki rétt og þarfnast nokkurra leiðréttinga. (Gripið fram í.) Ég leiddi að því líkur en fullyrti það ekki, þm. Sverrir Hermannsson. En eins og um margt annað í máli ráðh., sem þyrfti leiðréttingar við, verð ég að fara fáeinum orðum um þessi orð ráðh.

Það sem ég gerði grein fyrir áðan var undrun mín yfir því að ráðh. skyldi takast að fara rangt með öll aðalatriði þeirrar tillögu sem ég hef flutt í þessu máli. Ég lýsti undrun minni á því að maður, sem gjörla þekkti það sem skeð hafði og vissi hvað hafði farið fram, skyldi falla í þá gryfju að segja rangt frá öllum aðalatriðum til þess að reyna að villa um fyrir þeim sem á orð hans hlýddu, ekki bara í fjölmiðlum og Ríkisútvarpi, heldur líka hér á Alþingi.

Í fyrsta lagi hélt ráðh. því fram að ég hefði flutt tillögu um að raforkuverð yrði hækkað um 20% og þar við sæti, en gegn því fengi Alusuisse að stækka álverið. Auðvitað er þetta eins fjarri lagi og hægt er. Ég furðaði mig á því að ráðh. skyldi þurfa að grípa til slíkra ósanninda til þess að fegra sína frásögn. Það bendir til þess að málstaðurinn sé ekki góður. Á fleiri atriðum slíkum flaskaði ráðh. og fór rangt með.

Ég hef ekki haft mikil samskipti við ráðh. en ég hef hingað til verið þeirrar skoðunar, að hann væri tiltölulega sannorður maður. Eftir að hafa heyrt þessa lýsingu á þeirri tillögu sem ég flutti og hann vissi nákvæmlega hvernig var fór ég auðvitað að efast um að þetta væri í einu skiptin sem ráðh. hefði sagt ósatt. Ég verð að játa það, að beiti menn almennum líkindareikningi aukast talsvert líkurnar fyrir því að ráðh. hafi sagt ósatt oftar, og ég verð að játa að eftir lýsingu hans á þessari tillögu fer maður að velta því fyrir sér hversu oft hann hefur sagt satt. Ég ætla hins vegar ekki að fara nánar út í það. Ég fullyrti ekki að ráðh. hefði sagt ósatt á fundum sínum með Alusuisse. Ég sagði hins vegar að það hlyti að hvarfla að manni við að hlusta á meðferð hans á tillögu minni að verið gæti að það væri ekki heldur allt satt sem þar hefði verið sagt.

Ég ætla ekki að fara að elta ólar við allt sem ráðh. sagði. Hann sagði að ég hefði talað um 4–5 fundi þessar 2–3 vikur, þeir hefðu hins vegar verið tveir. Það sem um var að ræða var það, að suma dagana voru tveir fundir, þannig að ég taldi þetta vera 4–5 fundi. Það má vera að ráðh. vilji túlka þetta sem fund og síðan hlé og svo fund aftur seinna um daginn eða eitthvað slíkt. Ég sé að hann nikkar höfði við því og við getum sjálfsagt fallist á það, svo að þar ber ekki endilega mikið á milli. Það sem kannske ber verulega á milli er það, að ráðh. mat stöðuna þannig, að ógerningur hefði verið að bera fram þá tillögu sem ég hafði áhuga á að yrði kynnt. En málið er auðvitað það, að meiri hluti álviðræðunefndar var á því að nauðsynlegt væri í þessari samningastöðu að bera fram slíka tillögu. Það væri rétt og það væri nauðsynlegt einmitt á þeim tímamótum sem við stóðum á í þessum viðræðum.

Það kann að vera að ráðh. segi það núna, að þrátt fyrir öll þau nei sem hann hafi fengið á fundunum 6. og 7. des. hafi hann ætlað að halda áfram að ræða við Alusuisse. En í leiðara Þjóðviljans, málgagni ráðh., segir þó í dag að þeir þurfi ekki fleiri nei. Og þá hlýtur maður að fara að velta því fyrir sér, hvort ráðh. hafi yfir höfuð nokkurn tíma ætlað að semja. Ég verð að játa að ég efast meira og meira um það eftir málflutning hans og eftir að hafa séð og heyrt hans kynningu á því hversu langt hann er kominn með þessar einhliða aðgerðir. Ég leit svo á að það væri nauðsynlegt að varpa fram tillögu sem gæti opnað samningaviðræðurnar. Ég er þeirrar skoðunar enn. Ráðh. gerði nokkurt veður úr því hvort menn gætu áttað sig á hvílíkt hagræði það væri fyrir Alusuisse að fá yfirlýsingu um að þeir mættu stækka álverið og taka inn nýjan hluthafa. Enn á ný misskilur ráðh. í grundvallaratriðum það sem um er að ræða. Þarna er auðvitað um það að ræða, eins og ég skýrði mjög ítarlega áður í minni framsöguræðu hér, að öllum fyrirheitum um umræður um slíka hækkun eða nýjan hluthafa fylgdu fjölmargir skilmálar um að samningar næðust um önnur atriði.

Ég vil síðan segja það, að ég vefengi ekki niðurstöður Coopers & Lybrand varðandi athuganir á yfirverði Alusuisse til ÍSALs aftur í tímann, ég geri það ekki. Ég tel að þessar niðurstöður Coopers & Lybrand séu eins góðar og unnt er að fá í þessari stöðu, séu það raunhæfasta mat sem hægt er að fá. Og ég er þeirrar skoðunar, að það þurfi að taka á Alusuisse með fullri festu í þessu máli. Á því er enginn vafi. Ég er alveg viss um að Alusuisse hefur beitt yfirverði á hráefnum til ÍSALs á undanförnum árum. Ég er viss um að langsamlega flest fjölþjóðafyrirtæki vinna þannig, að þau beita yfirverði gagnvart dótturfyrirtækjum sínum í hinum ýmsu löndum og draga þannig megnið af hagnaðinum inn til Sviss, þar sem skattar eru miklu vægari en í flestum þessum löndum.

Grundvallarmálið er það, að skattar í Sviss eru kannske upp undir helmingi lægri en í nærliggjandi löndum, Þýskalandi og Frakklandi. Þetta verður til þess að fjölmörg þessara fjölþjóðafyrirtækja hafa sínar höfuðstöðvar í Sviss. Síðan verðleggja þessi fyrirtæki hráefni og þjónustu í gegnum höfuðstöðvarnar út til dótturfyrirtækjanna og með slíkri hagræðingu sjá þau til þess að hagnaður verði lítill sem enginn í dótturfyrirtækjunum, hann myndist í höfuðstöðvunum í Sviss þar sem skattagreiðslur eru mjög lágar. Þetta gera þessi fyrirtæki yfirleitt öll og það er enginn vafi á því, að Alusuisse hefur gert það. Ég er alveg sannfærður um það eftir þann tíma sem ég hef unnið að þessum málum. Ég tel nánast að hér sé um að ræða mál sem eigi líka að ræða við ríkisstjórn Sviss. Hvað eru menn að tala um fríverslun? Hvað er fríverslun? Er það bara niðurfelling tolla? Það kemur fjölmargt fleira til, sem ég ætta ekki að fara út í núna, en auðvitað er ljóst að skattareglurnar í Sviss valda því að fé er dregið út úr fjölmörgum löndum inn til Sviss, og þar liggur galdurinn að baki hinu svissneska efnahagsundri, að baki hinu alþjóðlega svissneska bankakerfi. Á þessu er enginn vafi. Við þurfum að halda á málum gagnvart Alusuisse af mikilli festu. Við þurfum að halda vel á þeim og það má ekki gefa þeim eftir í því. Hitt er annað, að það þarf náttúrlega að gera það skynsamlega og það þarf líka að gera það af sanngirni.

Ég tel að á þessari stundu hefði verið hárrétt að leggja fram tillögu og leita eftir frekari samningum á þennan hátt. Sú hækkun sem hefði komið út úr þessu var í vasanum. Hún var þá komin þó ekki væri nema 20%, án nokkurra skuldbindinga af okkar hálfu annarra en þeirra að fara í viðræður um endurskoðun samninganna, viðræður sem gert var ráð fyrir að lokið væri 1. apríl og þess vegna engu að tapa og á ekkert hætt. Hefði að slíkum viðræðum loknum slitnaði upp úr án möguleika til að fá leiðréttingar, þá hefði ráðh. hæglega getið dregið upp úr tösku sinni allar sínar áætlanir um einhliða hækkanir, og þá hygg ég að hann hefði fengið víðtækari samstöðu um slíka afstöðu heldur en hann á eftir að fá núna, ef hann ætlar að starfa að þessu máli eins og hann raunar kynnir núna. Ég tel að aðstaða til einhliða hækkunar núna sé óheppileg, tímasetning sé óheppileg vegna þeirrar lægðar sem í áliðnaðinum er almennt. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það hér, það er ástæðulaust, en ég ítreka það, að með því að reyna að opna samningaviðræður á þann hátt sem ég lagði til, með þeim breytingum sem formaður nefndarinnar lagði til, á þann hátt sem meiri hluti nefndarinnar taldi eðlilegt að að þessu væri staðið, var engu að tapa en allt að vinna. Og í kjölfar þess hefði mátt grípa til harðari aðgerða ef nauðsynlegt hefði verið.

Aðalatriðið enn á ný í þessu máli er það, að menn verða að gera sér grein fyrir því að það sem skiptir máli er árangur í þessu máli en ekki áróður.