13.12.1982
Efri deild: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

106. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir hefur auk mín flutt frv. til l. um breyting á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þetta frv. felur það í sér, að 4. gr. laganna verði breytt þannig að helmingurinn af búvörugjaldi, sem hefur verið greitt til Stofnlánadeildarinnar á grundvelli þessarar greinar, falli til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Það er eins með þetta frv. og það sem ég var að skýra hér áðan, frv. til l. um breyt. á jarðræktarlögum, að það hefur æðimikið blandast inn í umr. um Framleiðnisjóð landbúnaðarins og ég get að verulegu leyti vísað til þeirrar umr. Hins vegar vil ég vekja athygli á því sem kemur fram í grg. um ákveðið samkomulag, sem var gert á milli bændasamtakanna og ríkisvaldsins, þegar fallist var á að taka upp fulla verðtryggingu á lánum til landbúnaðarins árið 1979, en þá gerðu fulltrúar bænda þann fyrirvara að tekjur Stofnlánadeildarinnar yrðu að öðru leyti ekki skertar og færu þær eftir þeim lögboðnu leiðum sem fyrir hendi voru og eru.

Nú hefur það hins vegar komið í ljós, að frá árinu 1979 til og með fjárlagagerðar þessa árs hefur framlag til Stofnlánadeildar landbúnaðarins verið skert og hefur sú skerðing farið vaxandi ár frá ári og nemur nú í heild sinni 45.35 millj. kr. Þetta er sem sagt svarið við því samkomulagi og efndirnar á því, sem var gert árið 1979.

Það er að sjálfsögðu líka augljóst, að eftir að búið er að taka upp fullaverðtryggingu á öll lán landbúnaðarins eða svo gott sem eru ekki lengur orðin til staðar nein rök fyrir því að bændur leggi af eigin aflafé fjármagn til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, a.m.k. alls ekki fram yfir þá upphæð sem Stofnlánadeildin greiðir vegna lífeyrissjóðs aldraðra bænda. Þess vegna er hér lagt til að Stofnlánadeildin haldi hálfum sínum tekjum af búvörugjaldinu eins og þær hafa verið og hitt færist yfir í Framleiðnisjóð landbúnaðarins þar sem það mundi þjóna þeim megintilgangi þeirrar löggjafar, ef fram næðist, að byggja upp ný viðfangsefni í landbúnaði. Að sjálfsögðu tel ég að eðlilegt sé að bændurnir í þessu landi taki þátt í því, og í rauninni er það á vissan hátt í fullu samræmi við það sem ákveðið var með setningu laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins fyrir rúmum tveimur árum.

Ég held að það sé óþarft að ég skýri þetta mál nákvæmar, herra forseti, en geri það að tillögu minni að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til landbn. Að sjálfsögðu geri ég það einnig að till. minni varðandi frv. um jarðræktarlögin. Ég held að ég hafi gleymt áðan að gera það að tillögu minni að vísa því til landbn.