13.12.1982
Neðri deild: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

28. mál, málefni aldraðra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef lýst þeirri skoðun minni áður í umr. um þetta mál, að ég tel eðlilegt að fjvn. ráði mestu um það hvernig fjármagni úr sjóðnum er ráðstafað. Rökin fyrir því eru þau, að hún er kosin lýðræðislega af þinginu sem heild og er ætlað í hliðstæðum málum, þar sem verið er að veita fjármagn, að vera sá aðili sem leggur fyrir þingið sitt álit til samþykktar eða synjunar. Í því máli sem hér er um að ræða er vissulega verið að ráðstafa stórum fjárhæðum, sem munu vonandi skipta sköpum, til að bæta hag aldraðra, en einnig hljóta þær ákvarðanir að hafa mikil áhrif á byggðaþróun í landinu. Þess vegna finnst mér sanngjarnt að það komi hér fram hjá talsmanni n., hv. 1. landsk. þm., hvernig fyrirhugað er að tveir aðilar skuli gera tillögur til ráðh. um ráðstöfun fjárins. Samkv. 5. brtt., sem er breyting á 11. gr., skal greinin hljóða svo samkv. till. n., með leyfi forseta:

„Sjóðurinn skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins. Stjórn sjóðsins skal vera í höndum samstarfsnefndar um málefni aldraðra samkv. 3. gr., sbr. og 5. tölul. 4. gr., sem gerir tillögur til ráðh. um úthlutanir úr sjóðnum.“

Svo stendur hér í 13. gr. frv., með leyfi forseta: „Ráðh. gerir í samráði við fjvn. og stjórn sjóðsins áætlun til fimm ára um framkvæmdir.“

Hver er hugsunin á bak við þetta, hvar er valdið sem ræður? Er það ráðh., er það samstarfsnefndin, er það fjvn.? Nú veit ég að óþarfi er að minna á það, af því að flm. er landsþekktur sem sjómaður, að þó vel hafi verið mönnuð skip á Íslandi þá hafa menn haft einn skipstjóra en ekki marga, og þar hefur það vald verið sem skorið hefur úr. Í þessu sambandi hlýtur það líka að geta farið svo að sitt sýnist hverjum, samstarfsnefndinni, fjvn. og ráðh. Ég á ákaflega erfitt með að una því, að í ákvarðanatöku um dreifingu fjármagns sé einhverjum einum manni t.d. falið það vald eins og ráðh. Það er andstætt mínum skoðunum á lýðræði. Ég á líka erfitt með að una því, að stjórn sjóðsins, sem vissulega stendur ákveðnum hóp manna í hinum ýmsu tilfellum skil á gjörðum sínum, sé sett ofar en fjvn. í þessum efnum og þar með ábyrgð þingsins á framkvæmd laganna.

Það má vel vera að þetta sé þannig hugsað að það rekist ekki á, og að flm. muni leggja til ákvarðanir í fyrirhugaðri reglugerð með frv. sem geri það að verkum að þetta renni allt í einn farveg. En mér þætti vænt um ef flm. n. gerði grein fyrir því hvar hið endanlega vald í dreifingu þessa fjármagns á að vera og hver rökin eru fyrir því.