21.10.1982
Sameinað þing: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

18. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það var tvennt sem ég vildi nefna hér.

Hv. 7. landsk. þm. nefndi í sínu máli að í iðnþróunarnefnd á Eyjafjarðarsvæðinu væri ekki fulltrúi iðnrekenda. Ég tel rétt að ítreka það, sem ég sagði áðan, að nýstofnað iðnþróunarfélag á Eyjafjarðarsvæðinu á þar fulltrúa. Ég hef litið svo til, að það væri samnefnari fyrir þá sem vinna að iðnaðarmálum á því svæði. Mér er ekki kunnugt um að iðnrekendur við Eyjafjörð hafi með sér sérstakt félag eða deild í þeim félögum iðnrekenda sem starfa á landsmælikvarða. En til þess að leitast við að tryggja að sem best samstarf tækist í þessari nefnd og hún endurspeglaði viðhorf manna víðar en á Akureyri einni saman skipaði rn. í hana þrjá fulltrúa: Helga Guðmundsson bæjarfulltrúa, sem er formaður nefndarinnar, Valdimar Bragason bæjarstjóra á Dalvík og Gunnar Ragnars framkvæmdastjóra Slippstöðvarinnar á Akureyri. Þeir eru þarna fyrir utan þá aðila tilnefnda í nefndina sem ég gat um áðan.

Hitt vildi ég svo taka undir, sem hér kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. og ég vék ekki að sérstaklega í mínu máli, auðvitað þurfa menn að gá til veðurs í sambandi við efnahagsþróun heimsins þegar verið er að tala um gífurlegar fjárfestingar af því tagi sem um er að ræða í fyrirtækjum eins og þeim sem við erum að nefna hér og verið er að athuga um grundvöllinn fyrir, trjákvoðuverksmiðju og hugsanlegt álver. Ég get getið þess hv. alþm. til upplýsingar, að samkvæmt lauslegu mati kostar fyrirtæki eins og 130 þús. tonna álver, sem ég sagði að væri talin eðlileg einnig í þeim rekstri á alþjóðavísu, um 440 millj. Bandaríkjadala, sem svarar til um 6700 milljóna íslenskra króna. Hér eru því stórar upphæðir á ferðinni og á þær ber að sjálfsögðu að lita þegar menn eru að vega og meta atvinnuþróun af þessu tagi og það jafnframt að hér er um að ræða málefni landsins alls, þó að eðlilegt sé að menn á einstökum svæðum, sem horfa til atvinnuþróunar, leggi þar einnig orð í belg. Þar þarf einmitt að standa að hlutunum út frá víðtæku mati, eins og reynt er að gera með þeim athugunum sem fram fara, og ekkert liggur fyrir um hvaða ákvarðanir verða teknar í kjölfar þeirra. Fyrst verða menn að sjá niðurstöðurnar og átta sig sem allra best á því sem hér er á ferðinni.

Ég get svo nefnt það hér að lokum, að í sambandi við athugun á trjákvoðuverksmiðju, sem hugsað hefur verið til að staðsetja á Húsavík, hefur verið við það miðað við athugun málsins að slíkt fyrirtæki gæti risið þar. Auðvitað þarf að athuga það nánar og það er ti1 sérstakrar könnunar. Í sambandi við þessa hagkvæmniathugun er höfð samvinna við finnska aðila. Það er gaman að rifja það upp hér, þegar ágætir gestir eru hérlendis frá Finnlandi, sem er forseti Finnlands með sínu fylgdarliði, að finnsk fyrirtæki hafa tekið á þessu máli að beiðni Íslendinga, þar sem samstarfsaðili við þessa hagkvæmniathugun er finnskt stórfyrirtæki sem er stærsta markaðsfærslufyrirtæki Finnlands, og athugun á markaði í Evrópu fyrir þessar afurðir er unnin sérstaklega af finnsku fyrirtæki sem er samband finnskra pappírs- og trjákvoðuframleiðenda.

Forseti Finnlands vék einmitt að því í ræðu í veislu, sem haldin var af forseta Íslands honum til heiðurs í gærkvöld, að æskilegt væri að hægt væri að renna fleiri stoðum undir samskipti landanna á viðskiptasviði, og þó að hér sé aðeins um hagkvæmniathuganir að ræða, án nokkurrar skuldbindingar um frekara samstarf ef til stofnunar fyrirtækis kemur, er hér vissulega um áhugavert og athyglisvert samstarf að ræða, sem gæti verið vísir að öðru meira, ef niðurstöður athugunarinnar reynast jákvæðar.