13.12.1982
Neðri deild: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

116. mál, grunnskóli

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu að bæta við framsöguræðu hv. flm. þessa frv., enda hef ég gerst meðflm. þess, hefði enda ekki staðið hér upp nema til þess eins að benda enn einu sinni á það ástand sem ríkir á hinu háa Alþingi í hvert sinn sem talað er um málefni sem varða börn og unglinga þessa lands. Það er sorglegt til þess að vita að ævinlega þegar stendur upp flm. slíks frv., sem oftast er af kvenkyni fækkar í salnum. Erum við raunar allar þrjár komnar í salinn að þessu sinni, en inni sitja að þessu sinni óvenjumargir karlmenn, þ.e. þrír að tölu. Það er kannske þess vegna sem svo er komið. Stjórnmálamenn virðast hafa áhuga á flestu öðru en málefnum barna og unglinga.

Hér er þó ekkert smámál á ferðinni og auðvitað er afskaplega erfitt að tala um það nema í miklu víðara samhengi. Ég hef gerst stuðningsmaður þessa frv. og meðflm. í fyrsta lagi af hreinum prinsipástæðum. Ég tel alveg rétt athugað hjá hv. flm. að ákvæði um kennslu í grunnskólum eigi að vera inni í grunnskólalögum, en ekki í einhverjum allt öðrum lögum, eins og á sér stað í áfengislögum frá 1969. Ég minnist þess, að í grunnskólalög var á sínum tíma sett ákvæði sem varðar framkvæmd almannatrygginga. Það er auðvitað ósiður, sem náð háa Alþingi ætti að varast sem allra mest, að dreifa lagaákvæðum fyrir hinar ýmsu stofnanir hér og þar um lagakerfið í stað þess að reyna að hafa þau í samhengi.

En vitaskuld er annað og meira í þessu frv. en þetta. Við vitum ósköp vel hvernig ástandið er hér í þessum efnum, þ.e. ef við þorum að játa það. Mönnum hættir gjarnan til að líta framhjá slíku, en ég held að ekki þurfi annað en horfa ofurlítið í kringum sig til að sjá að fíkniefni auk áfengisvandamáls eru óðum að ryðja sér til rúms hér á landi.

Það er ákaflega erfitt og flókið mál að reyna að átta sig á hvers vegna svo er komið. Við getum öll haft ýmsar meiningar um hvernig þjóðfélagsástandið almennt er í þessu landi, hvernig fjölskyldan stendur við sitt hlutverk. Hinu er ekki heldur að leyna, að vandamál sem upp koma í nágrannalöndunum, eins og síaukin fíkniefnaneysla, flytjast líka inn hingað hvort sem við viljum eða viljum ekki.

Persónulega er ég ekki hissa á því þó að börn og unglingar séu kannske á margan hátt svartsýnni og vonlausari en við vorum á þeirra aldri. Nýlega var haldin teikningasamkeppni á Norðurlöndum — og hvað birtist á annarri hverri teikningu sem börnin og unglingarnir skila frá sér? Það er skelfing þeirra og hræðsla við núverandi ástand heimsmála, óöryggi og ótti við kjarnorkuvopn og annað slíkt. Það er auðvitað samhengi þarna á milli. Börn og unglingar eru á margan hátt öryggislausari en þau hafa verið áður. Og allt hlýtur þetta að skoðast í samhengi.

Ég er alveg sammála hv. flm. um að það er ákaflega erfitt að inna kennslu á borð við þessa af hendi. Öll kennsla verður að vera raunhæf til þess að hún þjóni einhverjum tilgangi og kennarinn þarf að eiga traust nemanda síns til þess að mark verði tekið á kennslunni. Svipað má vitaskuld segja um samband barna og foreldra. Það er ákaflega lítils virði ef annar aðilinn, og þá sá sem eldri er og reyndari, segir vísvitandi ósatt og hlífist við að segja sannleikann. Þetta er því auðvitað stórt og flókið mál, sem er bæði stórpólitískt mál og fjölskyldupólitískt mál, og þinginu gefst eflaust ekki tími til þess nú, enda sýnist áhugi takmarkaður, að ræða þau mál til hlítar. Ég legg þó áherslu á að ég held að hið háa Alþingi ætti að gera meira af því í framtíðinni en það hefur gert hingað til.

Ég vil eindregið fara þess á leit við hv. deild að þessu máli verði veitt brautargengi. Ég held að það sé gott mál og skynsamlegt, en ég tel ákaflega mikilvægt að hæstv. menntmrh. sem hefur brugðið sér frá undir þessari umr., gangi þá dyggilega frá því að málinu verði fylgt eftir og samin reglugerð eða reglur um skipulagða fræðslu í þessum málum, auk þess sem bæði við sem íslenskir stjórnmálamenn og stjórnmálamenn allra þjóða ættu að sjá til þess að heimurinn sé ekki svo vonlaus sem hann er, svo að börnin okkar og unglingarnir þurfi að leita á náðir vímugjafa til að geta horfst í augu við ástandið í heiminum.