13.12.1982
Neðri deild: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

111. mál, Tónskáldasjóður Íslands

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Við sex þingmenn úr menntmn. Nd. stöndum saman um frv. til l. um Tónskáldasjóð Íslands. Efni frv. er í höfuðdráttum það að stofna skuli Tónskáldasjóð Íslands og skuli stofnféð vera tíföld meðalárslaun menntaskólakennara og greiðast úr ríkissjóði.

Í 2. gr. stendur: „Fjárveiting samkv. 1. gr. skal í fyrsta sinn veitt í fjárlögum fyrir árið 1983.“ Það er nú borin von að úr því geti orðið. Getum við flm. trauðla vænst þess að svo fljótt verði brugðið við, en munum á hinn bóginn leggja áherslu á að frv. verði afgreitt á þessu þingi svo að hægt verði að taka tillit til þess við fjárlög ársins 1984. Við gerum ráð fyrir því að í fjárlögum hvert sinn skuli sjóðnum áætluð fjárveiting er eigi nemi lægri fjárhæð en að ofan greinir. Tilgangurinn er að sjálfsögðu sá að hvetja tónskáld til starfa og stuðla að útbreiðslu íslenskrar tónlistar hér á landi sem erlendis.

Til eftirtalinna verkefna má veita framlög úr sjóðnum:

a) Til tónsmíða, enda hafi umsækjandi gert grein fyrir hvernig hann hyggist vinna að þeim.

b) Til útgáfu íslenskrar tónlistar á hljómplötum, snældum og nótum.

c) Til kynningar á íslenskri tónlist innanlands og utan. Við höfum ekki talið rétt að skilgreina verkefnin frekar. Við teljum að reynslan verði að leiða í ljós hvaða áherslu rétt sé að leggja á hvern einstakan þátt þar sem hér er um að ræða nýjung og erfitt að segja fyrir fram hvar þörfin kunni að vera brýnust.

Í frv. er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi fimm manna stjórn Tónskáldasjóðsins til fjögurra ára í senn. Formaður skuli skipaður án tilnefningar, en hinir fjórir samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila: Tónskáldafélags Ístands, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttur, Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og Félags ísl. tónlistarmanna.

Það er kannske eitt helsta einkennið á okkar þjóðfélagi í dag að því er lýtur að menningarmálum hversu mikill gróandi hefur verið í tónlistarmálunum. Það má raunar færa fyrir því sannfærandi rök að engin listgrein standi með jafnmiklum blóma um þessar mundir. Skal ég ekki fara frekar út í það, en ég get þó rifjað upp óperuhúsið nýja í Gamlabíó eða þá nýju hljómsveit sem stofnuð hefur verið.

Ég held að við getum öll verið sammála um að okkur er mikill sómi að frammistöðu okkar tónlistarmanna, ekki síst tónskálda okkar á erlendum vettvangi. Okkur er í fersku minni þegar Atli Heimir Sveinsson hlaut tónskáldaverðlaun Norðurlanda og þótti vel að þeim kominn hvarvetna. Fyrr á þessu ári var frumflutt í Þjóðleikhúsinu óperuverkið Silkitromman sem fékk frábærar undirtektir. Og nú liggur fyrir að farið verður með þá óperu víða um lönd og álfur. Ég hygg að Suður-Ameríka sé þar efst á blaði og enginn vafi á því að það verk muni auka hróður okkar víða.

Það frv. sem hér liggur fyrir er sniðið eftir lögum um Launasjóð rithöfunda og Þýðingarsjóð og þeim hugmyndum sem uppi hafa verið um Launasjóð myndlistarmanna, en nefnd sem vann að samningu frv. um hann hefur nú lokið störfum. Höfuðhlutverk sjóðsins er að örva tónskáld til dáða og fylgja eftir þeirri tónlistarvakningu sem hér hefur orðið á undanförnum árum.

Það er skoðun flm. að frumkvæði og sjálfstæði í menningarmálum sé ekki síður mikilvægt en efnaleg velgengni, enda styður það hvort annað. Nauðsynlegt er að hvetja til skapandi starfs á sviði allra listgreina og einn liður í því er að endurskoða fjárveitingar til menningarmála með betri nýtingu þeirra í huga. Blómlegt menningarlíf gerir mannlífið auðugra og innihaldsríkara.

Ég vil í þessu samhengi ítreka þá skoðun, sem ég hef áður látið í ljós, að ég tel að þær fjárveitingar sem við verjum til menningarmála séu mjög tilviljunarkenndar og ekki nógu markvissar. Ég tel nauðsynlegt að gömlu listamannalaunin verði lögð niður í því formi sem þau eru núna, en á hinn bóginn er nauðsynlegt að huga að því hvernig unnt sé að hlúa að okkar gömlu listamönnum, sem ekki eiga rétt á lífeyrissjóði af einu eða neinu tagi, svo að þeir þurfi ekki að líða skort í elli sinni þótt dragi úr listsköpun þeirra.

Listamannalaunin voru á sínum tíma merkilegt framtak, en mönnum í listamannastétt hefur fjölgað svo að undanförnu að úthlutun af þessu tagi getur aldrei orðið annað en handahófskennd og í rauninni marklaus, eins og að henni er staðið.

Ég vil vekja athygli á því líka í tengslum við þetta frv. að ýmsir af okkar helstu tónlistarmönnum, sem gjarnan óska að setjast að hér á landi vegna tryggðar við ættjörðina, eiga í erfiðleikum vegna tónleikahalds erlendis. Það kemur of oft fyrir að þeim sé boðið að vera einleikarar eða halda tónleika í löndum Evrópu eða vestan hafs, en hafi ekki ráð á að þiggja þau góðu boð vegna þess þröskuldar sem fargjöldin til útlanda eru. Þeir hafa einfaldlega ekki ráð á því að fljúga svo oft yfir hafið sem æskilegt væri.

Þar er einn þáttur í okkar tónlistarlífi sem við þurfum að gefa betri gaum. Það er spurning hvort unnt sé að koma til móts við þarfir þessara einleikara með samningum við Flugfélag Íslands, sem yrðu þá í höndum Félags ísl. hljómlistarmanna, eða hvort einhver önnur leið sé fær, hvort ríkið eigi að koma þar inn o.s.frv. Ég hef nú ekki hugsað þetta mál til hlítar og gert mér grein fyrir hvernig best sé að því að standa. En reynslan hefur sýnt að fjölmargir snjallir tónlistarmenn hafa neyðst til að setjast að erlendis einungis af fjárhagslegum ástæðum.

Það mál sem var hér á dagskrá á undan snerti grunnskóla. Þar var m.a. talað um að nauðsynlegt væri að auka fræðslu í sambandi við skaðsemi ávana- og fíkniefna. Ég hygg að það sé sammæli flestra kennara að þeir nemendur, sem á annað borð læra að meta og túlka og gefa sig að tónlist, góðri tónlist, leggja sig fram um að læra hljóðfæraleik og eru lifandi á þeim vettvangi, standi sig yfirleitt vel í öðrum námsgreinum einnig og verði nýtir þjóðfélagsborgarar síðar meir.

Tónlistin er nú einu sinni sú listgrein sem er mest agandi, krefst mest af einstaklingnum þannig að hann verður að leggja sig allan fram, og þær miklu kröfur um sjálfsaga sem tónlistin gerir til unnenda sinna valda því að þeim gengur líka betur á öðrum sviðum. Þótt iðkun tónlistarinnar taki mikinn tíma hefur reynslan sýnt að þeir sem þar skara fram úr hafa kannske einna mestan tímann til annarra hluta einnig, vegna þess hversu góða stjórn þeir hafa á sínum málum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. — Mér er kunnugt um það að í Tónskáldafélagi Íslands er áhugi fyrir því að sjóður af þessu tagi verði stofnaður. Það eru skiptar skoðanir um hvort tilgangur sjóðsins eigi endilega að vera sá sem hér er lagt til eða hvort færa eigi út verksvið hans. Mér þykir rétt að það verði athugað í nefnd og þeir aðilar sem hér eru taldir upp verði kallaðir á fund nefndarinnar til skrafs og ráðagerðar.

Ég vil svo, herra forseti, óska eftir því að frv. verði vísað til 2. umr. og menntmn.