13.12.1982
Neðri deild: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

93. mál, verðlag

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það kom skýrt fram í ræðu flm., að hann byggir allan málflutning sinn á því að ekki sé unnt að skapa hér eðlilegt verðmyndunarkerfi með öðrum hætti en þeim, að ákveðinni opinberri stofnun sé ætlað að ráðskast með hvað hvaðeina kosti. Það mætti ætla að hv. flm. væri þeirrar skoðunar að störf Verðlagsstofnunar og pólitísk afskipti ríkisstjórna af störfum hennar á undanförnum árum hafi gefist sérstaklega vel og af þeim sökum sé nauðsynlegt að auka umsvif og valdsvið þessarar stofnunar.

Ég er ekki á sama máli um það. Ég gæti nefnt fjölmörg dæmi þess, að afskipti Verðlagsstofnunarinnar af verðlagi og verðmyndun hafi reynst afskaplega illa og í mörgum tilvikum valdið því annars vegar að vöruverð hefur hækkað í einstökum greinum meira en ella mundi og í öðrum greinum komið í veg fyrir eðlilega framþróun í vissum greinum.

Ég get tekið sem dæmi, að fyrir allinörgum árum, þegar smásíldveiði var leyfð í Eyjafirði, óskaði niðursuðuverksmiðja K. Jónssonar eftir því að fá að verðleggja sardínur með mismunandi hætti eftir því hversu margar síldar væru í hverri dós. Verðlagsstofnun gat ekki á þetta fallist, vildi heldur að neytandinn keypti köttinn í sekknum, og stóð gegn því að þessi verksmiðja gæti komið til móts við neytendur, selt sumt ódýrara og annað dýrara eftir eðli málsins.

Við getum horft á afskipti Verðlagsstofnunar af Hitaveitu Reykjavíkur og raunar af öðrum hitaveitum á landinu þ.e. opinberir þjónustuaðilar sem ekki hafa fengið að skrá sína þjónustu á hverjum tíma eins og þeir hafa viljað, með þeim afleiðingum að heita vatnið hér í Reykjavík hefur verið óeðlilega lágt verðlagt, sem aftur hefur valdið því að Hitaveita Reykjavíkur hefur safnað skuldum, bæði hér á landi og erlendis, og hefur ekki sömu möguleika og áður til að standa undir nýframkvæmdum og eðlilegri útþenslu á sínu kerfi af eigin fé. Ég man eftir háværri deilu um þessi efni, sem upp kom fyrir einum tveimur árum. Þá var það málflutningur ríkisvaldsins að allt það fé sem Hitaveita Reykjavíkur legði fram til nýframkvæmda væri í rauninni ekkert annað en hagnaður og þess vegna væri óþarfi að leyfa hækkun á hitaveitugjöldunum, eðlilegra væri að standa undir þeim með dýrum lánum. Ef við tökum líkingu af ríkissjóði sjálfum, þá getum við náttúrlega sagt að allt það fé sem á fjárlögum er varið til skólabygginga, vegaframkvæmda og annars slíks sé hagnaður af rekstri ríkisins og þess vegna ástæðulaust að hafa skattana svona háa. Eðlilegra sé að stilla þeim svo í hóf að ríkið geti ekki lagt í nýframkvæmdir án þess að standa undir þeim með lántökum.

Það er ekki langt síðan, svo að ég taki enn eitt dæmi, að Verðlagsstofnun stóð á móti hækkun á ákveðnum iðnvarningi hér í Reykjavík í trássi við verkalýðshreyfinguna, svo að hún snerist gegn þeim ákvörðunum og krafðist tiltekinnar hækkunar á þessari framleiðslu til þess að atvinnu yrði haldið uppi í viðkomandi verksmiðjum.

Við getum þannig talið dæmi hvert af öðru. Við munum eftir því að Verðlagsstofnun taldi að brauð af ákveðnu tagi og vínarbrauð af ákveðnu tagi mætti ekki hækka nema svo og svo mikið með þeim afleiðingum að bakararnir hættu að baka þau brauð og fóru að baka önnur, sem aftur urðu dýrari. Þetta var nauðsynlegt til þess að menn fengju yfirleitt brauð í brauðbúðunum, því að auðvitað gátu bakararnir ekki staðið í því að gefa Íslendingum í stórum stíl svo og svo mikið af brauði á hverjum degi. Slíkt mundi að sjálfsögðu leiða til stöðvunar eða leiða til gjaldþrots á brauðgerðum innan skamms tíma. Sennilega yrði afleiðingin sú, að ríkið tæki þar yfir og síðan yrði brauðið niðurgreitt gegnum opinber gjöld.

Þannig getum við haldið áfram að telja upp. Hvernig er samkeppnisaðstaða iðnaðarins núna? Getum við hrósað því hvernig verðmyndunarkerfið hefur leikið íslenskan iðnað? Hvernig stendur á því að hann er svona illa haldinn um þessar mundir? Af hverju skuldar hann svona mikið? Getur verið að hann hafi verið píndur til þess á ákveðnum tímum að selja vörur sínar undir framleiðsluverði og þannig safnað upp skuldum, sem er dýrt þegar verðtryggð lán eru komin til sögunnar? Við vitum það, sem höfum talað við framleiðendur, að þeir fara stundum fram á meira en þeir kannske þurfa að því að sú regla hefur stundum verið tekin upp að skera allar hækkunarbeiðnir niður um svo og svo mikið.

Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá, að flestar greinar okkar iðnaðar standa í mjög harðri samkeppni við innfluttan varning, bæði gæðasamkeppni og verðsamkeppni. Sá varningur sem fluttur er til landsins er ekki háður neinum verðlagshöftum. Hann hækkar jafnt og þétt í verði í réttu hlutfalli við verðfall krónunnar. Ef verðfall krónunnar dregst úr hömlu hefur það þær afleiðingar að sá erlendi varningur verður ódýrari og ódýrari í hlutfalli við þann mikla kostnað sem leggst á innlenda framleiðslu.

Ég er að ræða um Verðlagsstofnunina og hvernig hún kemur út. Undir hitt skal ég taka, að það er náttúrlega nauðsynlegt að Verðlagsstofnunin hafi visst eftirlit og aðhald, ekki síst nú þegar verðbólgan er eins mikil og raun ber vitni. En við skulum líka athuga hitt, að það liggja engar nýjar heimildir fyrir um stöðu einstakra atvinnugreina í heild hjá opinberum aðilum. Afkoma þessara greina byggist að mestum hluta á framreikningi frá löngu liðnum tíma. Ég geri ráð fyrir að á þessu ári sé reiknað út frá framreikningi hvernig afkoma viðkomandi atvinnugreina var á árunum 1979 og 1980. Það hefur afskaplega mikið breyst á þessum tíma og möguleikar verðlagsskrifstofunnar til þess að fylgjast nógu vel með verða sí minni eftir því sem þjóðfélagið verður fjölbreytilegra og eftir því sem það efnahagskerfi sem viðum í, umhverfi þeirra sem eiga að starfa í þjóðfélaginu, verður ótryggara og óvissara.

Á hinn bóginn er tilgangurinn á bak við þennan tillöguflutning náttúrlega fallegur og góður, ég veit það vel. Hann byggist á því, að hægt sé að búa til einhvern hlutlausan opinberan dómstól sem skuli á hverjum tíma kveða upp úr um hvað hvaðeina skuli kosta. Þannig skildi ég inntak ræðu hv. flm.

Um þau efni sérstaklega, sem hér er fjallað um, skal ég svo ekki ræða frekar. Mér finnst eðlilegt að könnun fari fram á því, hver reynslan er af afskiptum verðlagsskrifstofunnar af einstökum töxtum. Mér finnst nauðsynlegt að sú reynsla verði könnuð hvernig þetta hefur tekist. Ég er síður en svo á móti því að efni frv. verði athugað gaumgæfilega í nefnd, en ég vara á hinn bóginn við þeirri tilhneigingu að Verðlagsstofnunin geti orðið einhver allra meina bót. Það held ég ekki.

Hér er sérstaklega rætt um tannlækna og tannlæknaþjónustu. Ég hef verið einn þeirra manna sem telja að skattalögin eins og þau eru núna séu alltof miskunnarlaus í mörgum tilvikum. Beinu skattarnir eru of háir og við álagningu þeirra er ekki tekið tillit til margvíslegra atriða sem nauðsynlegt er að taka tillit til þegar um svo þunga og mikla skattheimtu er að ræða. Ég tel þess vegna að það komi mjög til álita að öll heilbrigðisþjónusta, og nú er ég ekki eingöngu að tala um tannlæknaþjónustu heldur heilbrigðisþjónustu yfirleitt, sem fellur e.t.v. með miklum þunga eitt eða tvö ár á afmörkuðum tímum á einstaklinga, verði undanþegin tekjuskatti. Það tel ég eðlilegt. (Gripið fram í.) Ég vil ekki binda það við tannlækna. Það er vinsælt mál að tala um tannlækna, en ég er að tala um heilbrigðisþjónustuna almennt. Ég geri ráð fyrir að fjárhags- og viðskiptanefnd deildarinnar muni athuga það frv. ef það er þangað komið, sem ég tel vera.

Nú er það svo, að sú breyting var gerð fyrir nokkrum árum að tannlæknaþjónusta við börn og unglinga yrði greidd af sjúkrasamlagi. Niðurstaðan af því hefur orðið sú, að sá kostnaður hefur mjög vaxið, hlaupið upp. Það er kannske ekki fyrst og fremst því um að kenna að taxtinn sé út af fyrir sig of hár, heldur hinu, að farið er í miklu dýrari aðgerðir en annars. Þar liggur hundurinn grafinn. Það er alltaf hætta á að menn setji þjónustu af þessu tagi undir opinberan hatt, en loki á eftir augunum fyrir því hvað þar er að gerast og gleymi því.

Ég geri ráð fyrir að tillaga liggi fyrir um að þessu frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. ekki svo? (Forseti: Ég vil aðeins trufla ræðumann. Fundartíminn er löngu liðinn og þessari umr. verður ekki lokið um málið. En ef hann er að ljúka máli sínu skal ég hinkra við ögn enn.)

Já, ég hef ekkert á móti því að fundi sé slitið.