14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

Um þingsköp

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta. Ég þakka hæstv. forseta fyrir hans úrskurð. Ég vil aðeins vek ja athygli á því, að ég held að það sé íhugunarefni fyrir þingheim að hæstv. forseti hefur ekki vald til að framfylgja fyrirmælum Alþingis í lögum að hans mati. Ég tel þetta afar alvarlegt mál.

Ég skal ekki hafa hér mörg orð um ræðu hæstv. fjmrh. Ég skil að mörgu leyti hans aðstöðu. Í ríkisstj. eru mikil átök og deilur um öll mál og sjálfsagt líka um lánsfjáráætlun. En það afsakar það ekki, það er einmitt vegna þess, hæstv. ráðh., að það er óvenjulegt ástand í stjórnmálum og efnahagsmálum þjóðarinnar, hættuástand, að Alþingi á kröfu á því að fá að fjalla a.m.k. um drög að lánsfjáráætlun samtímis fjárlagaafgreiðslu. Ég byggði minn málflutning sértaklega á því hve óvenjulegt ástandið væri. Að oft væri þörf, en nú væri nauðsyn. Út af þeim athugasemdum hæstv. ráðh. að það sé tillaga Sjálfstfl. að hækka útgjöld fjárlaga um milljarð vil ég aðeins segja það, að þetta er einfaldlega framreikningur á því sem hæstv. ríkisstj. hefur sagt sjálf. Hún hefur sagst ætla að halda samneyslu í sama horfi og í fyrra og samneysla jókst í ár um 2%. Þetta er einfaldur reikningur, jafnvel fyrir hæstv. ráðh., ef hann kærir sig um að gá að því að það eru tillögur ríkisstj. sem gera þetta að verkum.