14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

Um þingsköp

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hvort ég hyggist flytja tillögu í tengslum við fjárlög sem varði töku erlendra lána á næsta ári. Ég vil minna á í þessu sambandi að slíkar heimildir eru yfirleitt veittar í tengslum við 6. gr. fjárlaga. Þessi mál koma þar af leiðandi til umfjöllunar við 3. umr. Það er ekki búið að fjalla um það enn hvaða tillögur verða lagðar fram nú að heimildum til ríkisstj. svo að ég tel eðlilegra að ræða það mál á síðara stigi.

Ég þykist muna það rétt að í fjárlagafrv. eins og það liggur nú fyrir eru einhverjar lántökuheimildir eins og alltaf er. Og vissulega kann að vera að einhverjar lántökuheimildir verði í fjárlögum þegar þau verða afgreidd eins og alltaf hefur verið, ég gæti trúað að það væri leitun að fjárlagafrv. á seinustu 30 árum þar sem ekki hafa verið fleiri eða færri lántökuheimildir. Það uppistand, sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen gerði hér í fyrra út af þessu máli, mun vera nokkurt einsdæmi. En um þetta mál er miklu betra að ræða á síðara stigi, þegar ríkisstj. og fjvn. hefur fjallað um þessa hlið málsins. Það hefur enn ekki verið gert og ég er því ekki reiðubúinn til að ræða það mál nú, síst af öllu utan dagskrár.