14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

Um þingsköp

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins ítrekað vekja athygli á því við hvaða aðstæður Alþingi er ætlað að starfa. Hæstv. ráðh. hefur upplýst að ekki náist samkomulag um svo mikið sem að leggja fram frv. til lánsfjárlaga hvað þá heldur að afgreiða það núna fyrir jólin. Það næst ekki einu sinni samkomulag um að leggja það fram. Og þegar 2. umr. fjárlaga á að hefjast og 3. umr. hefur verið boðuð innan örfárra daga þá fæst ekki einu sinni upplýst frá ráðh. hvort hann hugsar sér að gera tillögu um lánsfjáröflun við afgreiðslu fjárlaga eða ekki. Hann upplýsir að það mál sé enn órætt í ríkisstj. Hvernig í ósköpunum geta menn gengið til afgreiðslu fjármála ríkisins á þessum grundvelli? Það er ofvaxið mínum skilningi. Það nær ekki nokkurri átt að menn skuli nú vera að tilkynna þinginu að það sé ekki einu sinni búið að fjalla um mál eins og þetta í ríkisstj., hvað þá heldur að það sé komið á þann grundvöll að hægt sé að fara að ræða það í fjvn. eða á Alþingi. Málið hefur ekki einu sinni verið rætt, segir hæstv. ráðh., í ríkisstjórn landsins. Og það eru örfáir sólarhringar þangað til á að afgreiða héðan fjárlög.