14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

1. mál, fjárlög 1983

Frsm. meiri hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þeim tíma sem fjvn. hefur haft til að afgreiða fjárlagafrv. til 2. umr. hefur ríkt nokkur óvissa í stjórnmálum, órói og sviptingar á heildina litið og í einstökum flokkum. Fjárveitinganefndarmenn, sem jafnan hafa þurft að láta störf í nefndinni koma niður á almennum þingstörfum, hafa að þessu sinni verið undirorpnir þessu sérstæða pólitíska ástandi og því þurft að sinna ýmsu sem af því hefur leitt til hliðar við nefndarstörfin í ríkara mæli en almennt hefur áður verið, þegar lygnara hefur verið í stjórnmálum. Þeim mun meiri ástæðu hef ég til að þakka meðnefndarmönnum mínum öllum fyrir mikil og tímafrek störf í nefndinni og mjög ánægjulegt samstarf og þolinmæði í minn garð. Ég flyt ennfremur nýjum starfsmanni nefndarinnar, Þorsteini Steinssyni, þakkir fyrir vel unnin störf og hagsýslustjóra, Magnúsi Péturssyni, og starfsliði hans margháttaða aðstoð.

Fjvn. hefur fjallað um frv. til fjárl. á 43 fundum, auk þess sem hún átti viðtöl við fulltrúa um 80 sveitarfélaga á tímabilinu 1.–11. okt., þ.e. áður en þinghald hófst. Þá hafa undirnefndir að venju starfað að undirbúningi að afgreiðslu einstakra málaflokka. Alls mun nefndin hafa átt viðtöl við um 200 aðila, auk þess að einstakir nefndarmenn hafa að sjálfsögðu verið umsetnir og sinnt utan funda viðræðum við fjölmarga sem á fund þeirra hafa leitað til að greina frá óskum sínum og þörfum á því að hlutur stofnana þeirra eða félagssamtaka verði bættur frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Þá hafa nefndinni borist mörg hundruð skrifleg erindi.

Allt tekur þetta ærinn tíma og að venju naumast nægur tími fyrir nefndina að fjalla sameiginlega og í sínum hópum einstaka fjárlagaliði og erindi sem fyrir liggja. Er þó óhætt að fullyrða að veruleg bót hefur orðið á í þessu efni eftir að nefndin tók upp þann hátt að ljúka viðtölum við sveitarstjórnarmenn áður en þing kemur saman.

Enda þótt ýmsum kunni að þykja árangur viðræðna við fjvn. ærið rýr þegar till. hennar liggja fyrir tel ég það nefndinni mikils virði að vera í beinu persónulegu sambandi við þá einstaklinga sem ef svo má segja standa á bak við þá tölustafi sem birtir eru í fjárlagafrv. sem mynd hinna einstöku stofnana og félagssamtaka. Á þeim skamma tíma sem nefndin hefur til afgreiðslu svo viðamikils máls sem afgreiðsla fjárl. er fær nefndin þó með þessum viðtölum milliliðalausar útlistanir viðkomandi aðila á því hversu raunhæfar eða óraunhæfar áætlanir fjárlagafrv. eru að þeirra dómi að því er varðar stofnanir þeirra eða félagssamtök samtímis því sem nefndinni og þessum viðmælendum hennar gefst færi á að kanna andsvör fulltrúa fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem undirbúið hefur ákvarðanatöku í þessum efnum við gerð fjárlagafrv.

Það vantar vissulega mikið á að fjvn. geti í hverju og einu tilviki kannað einstök mál sem skyldi þegar er um að ræða svo óvenjumörg og ólík efnisatriði sem fjárlagafrv. spannar. Til þess að einhver úrbót fengist í þeim efnum og fjvn. gæti orðið virkari þátttakandi í ákvarðanatöku, yrði að taka upp þá starfshætti, sem tíðkast sums staðar með öðrum þjóðum, að nm. starfi að undirbúningi fjárlagafrv. allan þann tíma sem sá undirbúningur stendur. Þá skipta nm. með sér verkum á þann veg, að hver fyrir sig annast undirbúning að fjárlagagerð varðandi tiltekin rn. og stofnanir þeirra eða skipta með sér störfum með öðrum hætti og hver og einn nm. leggur síðar upplýsingar sínar og tillögur varðandi sitt verksvið fyrir alla n. til umræðu og afgreiðslu. Með þessum hætti væri að sjálfsögðu betur tryggt en nú getur verið um að ræða, að innan n. sjálfrar sé fyrir hendi sú vitneskja og þekking á rekstri og stöðu hverrar ríkisstofnunar og rekstrareiningar og upplýsingar um einstaka útgjaldaliði sem þörf er á ef ætla á n. raunverulega það eftirlit og aðhaldsstarf sem ákvarðanataka þarf að byggjast á. Með slíkum starfsháttum væri aðstaða nm. til að hafa grundaða skoðun á hverri einustu till., sem í fjárlagafrv. felst, allt önnur en nú. En til þess að af þessu yrði þarf hvort tveggja til: vilja Alþingis til slíkrar breytingar á starfssviði og starfsháttum fjvn. og vilja þeirra sem n. skipa á hverjum tíma til þess að sinna svo umfangsmiklum störfum, sem stæðu nánast allt árið, til viðbótar við önnur þingstörf.

Jafnframt ætti þá fjvn. að taka að sér að vera fulltrúi Alþingis, sem hefur fjárveitingarvaldið, gagnvart ákvörðunum um aukafjárveitingar, eins og þekkist í störfum slíkra n. í öðrum löndum, þannig að samþykkt fjáraukalaga gæti gagnvart Alþingi orðið annað en formsatriði, skýrslugjöf eins og nú er, heldur hefðu fulltrúar þingflokkanna upplýsingar um aukafjárveitingar áður en þær væru veittar og gætu a.m.k. komið sínum athugasemdum að á ákvörðunarstigi.

Ýmsar aukafjárveitingar eru í eðli sínu nánast sjálfkrafa ákvarðanir þar sem um er að ræða uppfærslu útgjaldaupphæðar í samræmi við mismun verðlagsþróunar og reikningsforsendna fjárlaga. Slík ný ákvörðun um útgjaldagreiðslu til stofnunar gefur þó að sjálfsögðu alltaf tilefni til og færi á að endurmeta þörfina hverju sinni og versnandi afkoma ríkissjóðs miðað við fjárlög kallar á nauðsyn þess að herða enn frekar að en gert var ráð fyrir við fjárlagaafgreiðslu. Leiðrétting gæti einnig verið á hinn veginn af þeim sökum að vanmetin hefði verið óhjákvæmileg útgjaldaþörf í fjárlögum.

Varðandi aukafjárveitingar vegna framkvæmdaliða gegnir nokkuð öðru máli. óhjákvæmilegt getur að vísu stundum reynst af tæknilegum ástæðum að ljúka áfanga sem reyndist dýrari í framkvæmd en áætlað var, en ákvörðun um algerlega nýja framkvæmdaþætti, sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum, á ekki að vera í höndum ráðh. heldur Alþingis eða fulltrúa þingflokkanna. Sama gildir þegar um er að ræða hækkun félagastyrkja eða hliðstæðra greiðslna á fjárlagaárinu umfram fjárlagaupphæðir.

Við afgreiðslu fjárlaga leitast Alþingi m.a. við að ná fram ákveðnu innbyrðis jafnvægi að því er það varðar hvernig sinnt er óskum um fjárveitingar til framkvæmda og alls kyns styrki til sveitarfélaga, samtaka, stofnana og einstaklinga. Það er afar óheppilegt og óeðlilegt þegar ráðh. ákveður upp á sitt eindæmi að lokinni fjárlagaafgreiðslu að raska slíkum ákvörðunum Alþingis. Ákvarðanir þingsins kunna að vera og eru án efa umdeilanlegar, en þær eru ákvarðanir Alþingis. Í þessum orðum mínum felst ekki ásökun á hendur núv. ráðh. sérstaklega. Á þennan hátt hefur jafnan verið staðið að aukafjárveitingum og þm. ekki fjallað um þær á annan veg en þann að afgreiða þær í heildarsummum sem formsatriði í fjáraukalögum.

Mér finnst jafnvel þægilegra að finna að þessum starfsháttum nú þegar í hlut á fjmrh. úr þeim flokki sem ég skipa. Ef um annan fjmrh. væri að ræða er hættara við að orð mín yrðu skilin sem flokkspólitískt karp.

Aukafjárveitingar komu til umræðu í fjvn. og ég bauðst til þess að útvega n. skrá um allar slíkar greiðslur á þessu ári, fram að þeim tíma sem þá var. Á því stóð ekki að fjvnm. fengju slíka skrá í hendur. Ég held að það sé í fyrsta sinn á a.m.k. síðustu tuttugu árum, en lengra aftur þekki ég ekki til í þessu efni.

Sá samdráttur, sem orðið hefur í þjóðartekjum á þessu ári og fyrirsjáanlegur er á næsta ári, setur mark sitt á afgreiðslu fjárlaga að þessu sinni. Áhrifin á tekjur ríkissjóðs eru ljós þegar haft er í huga að óbeinir skattar nema um 80% af heildartekjum ríkissjóðs, en spáð er um 8% samdrætti í almennum vöruinnflutningi að raungildi á næsta ári. En pólitískar stjórnunaraðgerðir í þjóðfélaginu hljóta að stefna að því að draga úr viðskiptahallanum svo sem unnt er.

Í forsendum fjárlagafrv. er í samræmi við þjóðhagsspár gert ráð fyrir meiri almennum verðlagshækkunum á næsta ári en hækkunum tekna ríkissjóðs. Miðað við reikniforsendur frv. er hlutfallið milli aukningar útgjalda miðað við aukningu ríkistekna á þann veg, að móti 42% almennum verðlagshækkunum gæti hækkun tekna ríkissjóðs numið 36%. Þetta bil er sá vandi sem m.a. er við að fást og er þá á það að líta að miðað við sömu forsendur verður að gera ráð fyrir að ákveðnir stórir útgjaldaliðir hækki verulega meir en almennum verðlagshækkunum nemur. Útgjöld til allra sjúkrahúsa í landinu og til tryggingabóta almannatrygginga, sem nema 33% af heildarútgjöldum ríkissjóðs, hækka þannig um 61.4%. miðað við sömu forsendur um 42% almennar verðlagshækkanir.

Það þrengist því um aðra þætti í fjárlagafrv., einkum þegar sú stefna er grundvallaratriði í fjárlagagerðinni að félagsleg þjónusta sé hvergi skert, heldur þvert á móti aukin á ýmsum sviðum, á sama tíma og nágrannaþjóðir okkar mæta fjárhagserfiðleikunum með því að stórskerða þjónustu sem almenningur hefur notið af opinberri hálfu. Það hefur því við fjárlagagerðina orðið að þrengja að í ýmsum rekstrargjöldum og framkvæmdaliðum og ljóst er að ýmsir munu finna til þess. Hin síðari ár, þegar þjóðartekjur jukust, hafa félagsleg þjónusta og félagsleg réttindi verið aukin á margvíslegan hátt. Má þar til nefna greiðslur úr almannatryggingum á nýjum þjónustuþáttum, greiðslur fæðingarorlofs, hækkun raungildis tekjutryggingar, bætta heilsugæslu, aukna aðstoð við þroskahefta og ellihruma.

Ég hafði áður minnt á að slík stórfelld árleg aukning þjónustu hlýtur að jafnaði að verða að byggjast á verðmætaaukningu í framleiðsluatvinnuvegunum ef slík þjónusta á ekki að draga úr ráðstöfunarfé þjóðfétagsþegnanna á öðrum sviðum. Slík tilfærsla á nýtingu fjármuna á fullan rétt á sér, en menn verða þá að gera sér grein fyrir að reikning aukinnar þjónustu og samfélagslegrar neyslu, jafnt á þessum sviðum sem á öðrum, hljóta þjóðfélagsþegnarnir að greiða og ættu því að láta sig miklu varða hvernig að henni er staðið, hvort aðhald er t.d. viðhaft varðandi húsnæðisnotkun og starfsmannahald þeirra stofnana sem þjónustuna veita. Það er oft býsna erfitt að koma við slíku aðhaldi. Ráðamenn stofnana telja sig færasta um að dæma um þessar þarfir og viðkomandi fagráðuneyti verða á stundum hluti þrýstihóps í þessu efni.

Þegar ríkissjóður greiðir 85% byggingarkostnaðar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og 100% byggingarkostnaðar heimavistarhúsnæðis í skólum er hætt við að þeir sem kalla eftir slíku húsnæði skeri stundum ekki við nögl þær kröfur sem þeir gera. Síðan taka rekstrargjöldin að íþyngja þeim sem við húsnæðinu tóku og þá í einhverjum eða verulegum mæli meiri rekstrargjöld en þurft hefðu að vera ef kröfurnar hefðu verið meira við hæfi. Þá er baráttan hafin fyrir aukinni þátttöku ríkissjóðs í rekstrarkostnaðinum. Þetta getur orðið útgjaldavítahringur. Þetta er sannarlega ekki heppileg tilhögun í stjórnsýslu, að þeir sem miklu, jafnvel mestu, geta með einum eða öðrum hætti ráðið um byggingarframkvæmdir, stærðir og tilhögun mannvirkja séu samtímis að miklu eða öllu leyti firrtir algerlega ábyrgð á rekstrarkostnaði sem oft ræðst í verulegum mæli af því hvort aðhalds hefur verið gætt um stærðir og hagkvæmni mannvirkja.

Við höfum á sumum sviðum tekið hluta af tekjum ríkissjóðs og gert að sérstökum sjóðum sem standa fyrir byggingu þjónustustofnana, en rekstur er síðan að öllu leyti á kostnað ríkissjóðs og í stöku tilfeilum að nokkru leyti á kostnað sveitarfélaga sem engu ráða um byggingarframkvæmdir. Ég held að þetta geti til langframa naumast verið ákjósanlegt fyrirkomulag. Þeir sem efna til framkvæmdanna og ráða að mestu eða öllu um tilhögun þeirra hafa í rauninni engra hagsmuna að gæta í því efni að aðhald sé viðhaft um stærð húsa og mannahald í framhaldi af því. Betra væri að slíkir sjóðir væru þá stærri, en tækju að einhverju leyti þátt í rekstri í nógu ríkum mæli til að hafa beinna hagsmuna að gæta í því efni að ekki fari meira fé til reksturs en brýnasta nauðsyn krefur. En það atriði ræðst að verulegu leyti við ákvörðun um stærð og tilhögun byggingarinnar.

Það kom fram í sjónvarpi fyrir skemmstu, sem rétt er, að gamlar stofnanir, eins og Kópavogshæli sem annast þjónustu við vangefna við erfiðar aðstæður og knappt mannahald svo ekki sé meira sagt, fá í raun ekki svo fljótt sem skyldi úrbætur í þessu efni, vegna þess m.a. að ríkissjóður þarf á hverju ári að sjá fyrir nýju starfsliði í nýjar stofnanir, þar sem allt aðrar og meiri kröfur eru gerðar um húsrými og fjölda starfsliðs. Fram undan hjá þeim sjóði, sem að þessum vissulega bráðnauðsynlegu framkvæmdum stendur, er að hrinda í framkvæmd fyrri fyrirætlan um að við þeirri starfsemi, sem nú fer fram í Kjarvalshúsinu og ekki er nægilega fyrir séð, taki nýbygging sem kosta mun 75 millj. kr. með 54 manna starfsliði. Hverjir verða möguleikar til að bæta úr þar sem starfsemi er nú rekin við illan aðbúnað þegar kemur að því að sinna þeim útgjöldum sem fylgja slíkum nýbyggingum?

Ég held að ekki verði nægilega á það minnt að byggingarkostnaður er í sjálfu sér tiltölulega lítill hluti þeirra vandamála sem allir keppast við að leysa á hinum ýmsu sviðum í heilbrigðis-, mennta- og félagsmálum, og ég tel ekki heppilegt að alls engin tengsl séu milli þess eðlilega framtaks ýmissa aðila að knýja á um uppbyggingu stofnana og síðan ábyrgð á því hvernig verður fyrir rekstrarkostnaðinum séð. Menn mega kalla þetta íhaldssamar skoðanir. Ég kippi mér ekki upp við það. Sjóðir hafa ekki annað hlutverk en koma fjármunum ríkisins í byggingar nýrra stofnana hvernig sem árar. Rekstrarkostnaðurinn bætist einfaldlega við ríkisútgjöldin. Félagssamtök hefja byggingu þjónustustofnana og fara fram á nokkrar milljónir í byggingarstyrk. Það er í sjálfu sér minnsta málið að verða við því. En síðan eru ríkinu afhentir árlegir rekstrarreikningar til greiðslu og þeir geta verið nokkuð háir.

Söfnun sem myndarlega var að staðið meðal allra landsmanna nú nýlega var talin bera mikinn árangur. Landsmenn afhentu líklega 13 millj. kr. til að koma í framkvæmd miklu nauðsynjamáli. Á sama tíma stóðu auð 20 rúm í nýrri sjúkrastofnun norður í landi. Árlegur rekstrarkostnaður við að nýta þessi fáu rúm verður ekki langt frá þeirri tölu sem hið mikla átak meðal allra landsmanna skilaði. Ég nefni þetta einungis til að menn átti sig á því um hvaða tölur er verið að fjalla.

Á allri þessari þjónustu þurfum við að halda og víða er úrbóta þörf. En til þess að undir kostnaði verði staðið með sæmilegu móti og til þess að það verði gert án þess að skerða lífskjör okkar að öðru leyti að óþörfu verður að koma til meiri aðgæsla varðandi húsnæðisþörf og mannahald í hverri einstakri stofnun og hverjum þjónustuþætti og að mínum dómi einhver ábyrgð framkvæmdaaðila á rekstri þar sem því verður við komið. Það kann ekki góðri lukku að stýra að þeir sem gera kröfur varðandi húsnæði og mannaflaþörf hafi enga minnstu hagsmuni af því til hve mikils rekstrarkostnaðar er efnt.

Eins og ég áður sagði hefur við fjárlagagerðina orðið að þrengja að í rekstrargjöldum og framkvæmdum og ýmsir munu finna til þess. Almenningur hefur orðið og mun verða að haga heimilisrekstri sínum í samræmi við þrengri kjör. Forstöðumenn stofnana ríkisins verða og að gera sér það ljóst og það verða stofnanirnar líka að gera að því er varðar almennar reglur og framkvæmdir.

Oft hefur verið á það minnst að ríkissjóður hafi síðustu ár aukið tekjuöflun sína samanborið við t.d. árin 1974 og 1978, en framhjá því litið að á þeim árum voru útgjöld ríkissjóðs verulega hærri en tekjur. Það var ekki aflað tekna fyrir öllum útgjöldum þeirra ára, heldur var hallanum þá mætt með seðlaprentun hjá Seðlabankanum. Til viðbótar útgjöldum hinna síðustu ára hefur því einnig orðið að afla tekna til að greiða skuldahala ríkissjóðs frá hinum fyrri. Skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann námu í árslok 1978 á núgildandi verðlagi 1 406.3 millj. kr. eða 140 milljörðum gkr. og á þriggja ára tímabilinu 1979–1981 hefur ríkissjóður greitt í vexti og afborganir af þessari skuld upphæð sem nemur tæplega 1400 millj. kr. eða jafngildi allra framkvæmda eins og lagt er til að þær verði á næstu fjárlögum til grunnskóla, dagvistarstofnana, íþróttamannvirkja, sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, hafnarframkvæmda og flugmála í 31/2 ár. Þetta hefur farið til að greiða skuldaslóða ríkissjóðs hjá Seðlabankanum.

Nú þegar þrengir að er ekki ætlunin að leysa vandann með hliðstæðum hallarekstri. En það hefur í för með sér að herða verður að víða í ríkisrekstrinum. Æði oft hefur það verið svo, þegar komið er að afgreiðslu fjárlagafrv., að endurskoðun á tekjuhlið þess hefur gefið tilefni til að hækka tekjutölur svo að verulega hefur um munað. Svo er ekki að þessu sinni. Samkv. upplýsingum forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar, en hann kom á fund fjvn. fyrir skemmstu, er almennt ekki unnt að gera ráð fyrir að tekjuhliðin geti verið hærri, enda þótt ávallt sé um nokkra óvissu að ræða í því efni í einstökum atriðum. Með tilliti til þessara aðstæðna hefur fjvn. í störfum sínum takmarkað brtt. sínar sem allra mest við að hækka framlög, einkum til félagssamtaka, að krónutölu í átt við þá verðlagsþróun sem orðið hefur á þessu ári, en þessi framlög eru mörg hver óbreytt í fjárlagafrv. frá núgildandi fjárlögum, svo og að leiðrétta nokkra útgjaldaliði þar sem ekki verður undan vikist. Um helmingur þeirrar útgjaldahækkunar, sem í tillögum n. felst, er á framkvæmdaliðum, sem eru hækkaðir nokkuð í átt við verðlagsbreytingar, en í frv. voru þeir að krónutölu hækkaðir að meðaltali aðeins um 30% frá raungildi framkvæmdafjár á þessu ári.

Fjvn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu fjárlagafrv. og munu fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa skilað sérálitum, en nefndin flytur sameiginlegar brtt. á þskj. 149 og 157. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa fyrirvara um fylgi við einstakar brtt., sem n. flytur, og áskilja sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja till. sem fram kunna að koma.

Nefndin hefur fyrir 2. umr. afgreitt alla framkvæmdaflokka nema fyrirhleðslur auk einstakra tillagna. Til 3. umr. bíða, auk tekjuhliðar, afgreiðsla B-hluta fyrirtækja, heimildargreinar, vegamál, málefni Háskóla Íslands og Lánasjóðs ísl. námsmanna, byggingarmál Landspítalans og nokkur einstök atriði.

Brtt. n. við frv. eru þessar:

Við tekjuhlið frv. er flutt ein till. við 2. umr. Lagt er til að skipaskoðunargjald hækki um 600 þús. kr. til samræmis við endurmat á útgjöldum Siglingamálastofnunar ríkisins.

Við menntmrn.

Rannsóknaráð ríkisins: Útgjöld hækka í heild um 515 þús. kr., þar af 100 þús. kr. vegna skipulags- og þróunarmála, 215 þús. kr. vegna upplýsingamála og 200 þús. kr. vegna liðarins Nýting náttúruauðæfa.

Menntaskólinn á Akureyri: Stofnkostnaður hækkar um 100 þús. kr. í 200 þús.

Menntaskólinn á Ísafirði: Stofnkostnaður hækkar um 300 þús. í 5.3 millj.

Fjölbrautaskólar í Reykjavík: Stofnkostnaður hækkar um 800 þús. í 8 millj. 360 þús.

Flensborgarskóli, fjölbrautaskóli: Stofnkostnaður hækkar um 700 þús. eða í 1 millj. 50 þús. Fjölbrautaskóli Suðurnesja: Stofnkostnaður hækkar um 500 þús. og verður 800 þús.

Verkmenntaskólinn á Akureyri: Stofnkostnaður hækkar um 3 millj. kr. og verður 9.1 millj.

Námsgagnastofnun: Önnur rekstrargjöld hækka um 1.5 millj. og verða 14 millj. 713 þús. kr. Gjaldfærður stofnkostnaður hækkar um 1 millj. vegna myndbandavæðingar og verður 1 millj. 60 þús.

Tækniskóli Íslands: Gjaldfærður stofnkostnaður hækkar um 100 þús. kr. vegna bókasafns.

Stýrimannaskólinn í Reykjavík: Viðhald hækkar um 100 þús. kr. og verður 185 þús. kr.

Sjómannaskólahúsið: Stofnkostnaður hækkar um 500 þús. kr. vegna áframhaldandi lagfæringa á húsinu og verður upphæðin þá 2 millj. kr.

Héraðsskólar, almennt: Stofnkostnaður hækkar um 19 millj. kr. í 5 millj. 850 þús. kr., en sundurliðun kemur fram í brtt. n.

Grunnskólar í Reykjavík: Laun hækka um 80 þús. kr. vegna skólaathvarfs í Breiðholti.

Bygging grunnskóla og íbúða fyrir skólastjóra, framlög: Stofnkostnaður hækkar um 15 millj. 615 þús. kr. í 97 millj. 35 þús. kr. Sundurliðun kemur fram í brtt. n., en í þeirri sundurliðun þarf að leiðrétta eitt atriði sem hefur misritast í prentun. Það er Akureyri, íþróttahús. Í stað 1000 kr. á að koma 1 millj. kr.

Skólar fyrir þroskaheft börn: Framlag til þjálfunarskóla hækki um 965 þús. kr. í 14 millj. 448 þús. kr. og framlag til dagvistunar forskólabarna hækki um 357 þús. kr. í 5 millj. 90 þús.

Dagvistarheimili, stofnkostnaður: Framlag til dagvistarheimila hækki um 5 millj. kr. í 27 millj., en þetta er sá framkvæmdaliður sem hækkar mest, eða um 91.5%, að krónutölu frá fjárlögum 1982. Sundurliðun kemur fram í brtt. n.

Náms- og fræðimenn, framlög: Liðurinn Menntastofnun Bandaríkjanna á Íslandi hækkar um 15 þús. kr. og verður 45 þús. kr. Styrkur til útgáfustarfa hækkar um 90 þús. kr. og verður 420 þús. kr., sem fjvn. skiptir síðan milli viðtakenda. Liðurinn Starfsemi stúdenta hækkar um 9 þús. kr. og verður 27 þús. kr.

Þjóðminjasafn Íslands: Laun hækka um 136 þús. Í þessari fjárveitingu felst heimild til að ráða húsvörð fyrir hús Þjóðminjasafns og Listasafns. Önnur rekstrargjöld hækka um 15 þús. kr., einnig vegna ráðningar húsvarðar. Gjaldfærður stofnkostnaður hækkar um 200 þús. kr. til lagfæringar á skrifstofu. Liðurinn Til sveitarfélaga hækkar um 120 þús. kr., verður 2 millj. 520 þús. kr., en fjvn. skiptir þessum lið að fengnum tillögum þjóðminjavarðar. Liðurinn til einstaklinga og samtaka, þ.e. liðurinn til Sjóminjasafns Íslands, hækkar um 800 þús. kr. og verður 1.2 millj. kr.

Kvikmyndasafn Íslands: Sértekjur falli niður, þar sem hér mun hafa verið um að ræða tímabundinn styrk. Liðurinn Blindrabókasafn Íslands, sem verður nú sérstök stofnun: Þar er lagt til að laun verði 1 millj. 411 þús. kr., sem eru laun sex starfsmanna. Önnur rekstrargjöld verði 300 þús. kr. og gjaldfærður stofnkostnaður 300 þús. kr. eða alls 2 millj. 11 þús. kr.

Listir, framlög: Liðurinn hækki alls um 1 millj. 371 þús. kr., sem skiptist svo sem hér segir: Leikfélag Reykjavíkur hækki um 788 þús. og verði 2 millj. kr. Leikfélag Akureyrar hækki um 288 þús. kr. og verði 1.5 millj. kr. Liðurinn Leiklistarstarfsemi hækki um 150 þús. kr. og verði 1 millj. 800 þús. Liðurinn Ferðaleikhúsið orðist svo: a) rekstrarstyrkur 60 þús. kr. og b) stofnkostnaður 50 þús. Liðurinn hækki því alls um 65 þús. kr. Tekinn verði upp nýr liður: Íslenskir menningardagar í Berlín 80 þús. kr.

Íþróttasjóður: Rekstrarstyrkir o.fl. hækki um 200 þús. kr. og bygging íþróttamannvirkja hækki um 2 millj. 970 þús. kr. og verði 15.6 millj. kr., sem skiptist eins og fram kemur í brtt. fjvn.

Æskulýðsmál: Liðurinn hækki alls um 176 þús. kr. Æskulýðssamband Íslands hækki um 10 þús. Ungmennafélag Íslands um 104 þús. Bandalag ísl. skáta um 29 þús. Bandalag ísl. skáta vegna Úlfljótsvatns 7 þús. kr. Íslenskir ungtemplarar 10 þús. kr. Landssamband KFUM og KFUK 7 þús. kr. KFUM, starfsemi í Vatnaskógi 5 þús. kr. KFUK, starfsemi í Vindáshlíð 4 þús. kr. Með þessum breytingum hafa fjárveitingar á liðnum Æskulýðsmál almennt verið hækkaðar um 50% frá núgildandi fjárlögum, en þær voru óbreyttar í fjárlagafrv.

Ýmis íþróttamál: Liðurinn forseti FIDE lækki um 640 þús. kr. og verði 160 þús. kr., og er þá gert ráð fyrir að þessari upphæð verði varið til skuldagreiðslna.

Þá er það liðurinn Ýmislegt. Hann hækki um 583 þús. kr. Almennt er hér um að ræða að fjárveitingar til þeirra félagssamtaka sem hér um ræðir hækki að krónutölu um 50% frá núgildandi fjárlögum. Liðirnir Landakotsskóli og Hlíðardalsskóli hækka þó nokkru meir og liðurinn Endurbygging Búðakirkju fellur niður á þessum stað, en færist á safnlið hjá Þjóðminjasafni Íslands. Vert er að geta þess að fellt er niður framfag til Hljóðbókasafns, því að áætlað er fyrir því á nýjum lið, Blindrabókasafni Íslands.

Er þá komið að utanrrn.

Ýmis utanríkismál: Liðurinn Lögberg-Heimskringla hækki um 56 þús. kr. og Háskóli Sameinuðu þjóðanna hækki um 800 þús. kr., en Íslendingar hafa um þriggja ára skeið starfrækt jarðhitadeild Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Háskólinn hefur nú ákveðið að leggja ekki lengur fram hluta af rekstrarkostnaði og er lagt til að hlutur Íslands verði hækkaður sem því nemur til þess að starfsemi jarðhitadeildarinnar geti haldið áfram.

Landbrn.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Nýr liður. Tilraunabú óskipt 1.5 millj. kr. Þessi liður nemur 1.2 millj. kr. á núgildandi fjárlögum, en féll niður í fjárlagafrv. Liðurinn Stóra-Ármót hækki um 200 þús. kr. og verði 300 þús. kr. vegna fjósbyggingar.

Skógrækt ríkisins: Nýir liðir: Útivistarsvæði 150 þús. kr. og 100 þús. kr. vegna tilrauna við rótarskóga í Hjaltastaðahreppi.

Veiðimálaskrifstofan: Önnur rekstrargjöld hækka um 100 þús. kr., en þessi upphæð er ætluð til þess að fylgjast með laxveiðum Færeyinga í sjó.

Yfirdýralæknir: Framlag til héraðsdýralækna hækki um 171 þús. kr., þar af 146 þús. kr. vegna launa eins dýralæknis frá 1. júlí á næsta ári.

Landbúnaðarmál, ýmis starfsemi: Liðurinn hækki alls um 386 þús. kr., sem skiptist þannig: Norræna búfræðifélagið hækki um 1000 kr. Liðurinn Landssamband ísl. hestamannafélaga falli niður, en Landssamband ísl. hestamanna, til leiðbeininga um hestamennsku hækki um 7 þús. kr. og verði 10 þús. kr. Landvernd hækki um 100 þús. kr. Búnaðarfélag Austur-Skaftafellssýslu hækki um 30 þús. kr. Og upp verði tekinn nýr liður: Til rannsókna á lifnaðarháttum æðarfugls 250 þús. kr. Hér er um að ræða framkvæmd á þáltill. sem Alþingi hefur samþykkt.

Bændaskólinn á Hólum: Stofnkostnaðarframlag hækki um 250 þús. kr. vegna frágangs á sundlaug.

Skrifstofa Rannsóknastofnana atvinnuveganna, viðhald: Liðurinn hækkar um 330 þús. kr. vegna samningsbundins viðhalds á tölvum.

Sjútvrn.

Ýmislegt á sviði sjávarútvegs: Liðurinn Veiðieftirlit hækki um 260 þús. kr. vegna launa eins veiðieftirlitsmanns, en í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir annarri nýrri stöðu veiðieftirlitsmanns.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.

Rannsóknarlögregla ríkisins: Laun hækki um 1.5 millj. kr., aðallega vegna yfirvinnu, og önnur rekstrargjöld hækki um 500 þús. kr.

Sýslumaður og bæjarfógeti í Keflavík: Laun hækki um 81 þús. kr., en þar er um að ræða 4/10 úr stöðu fulltrúa í Grindavík til þess að unnt sé að hafa þar opna afgreiðslu á venjulegum skrifstofutíma.

Landhelgisgæslan: Framlag hækki alls um 9 millj. 792 þús. kr., sem skiptist þannig: Ægir hækkar um 1 millj. 831 þús. kr. Óðinn 1 millj. 317 þús. kr. Þór 1 millj. 157 þús. kr. Týr 1 millj. 957 þús. kr. Fluggæsla 4 millj. 265 þús. kr. Landhelgissjóður lækki um 735 þús. kr. Hér er einungis um að ræða hækkun á útgjaldatölum til samræmis við verðhækkanir á olíu og tryggingum síðan frv. var samið. Þó er vert að geta þess, að hér er gert ráð fyrir 12 nýjum flugtímum á næsta ári í stað 1000, sem var gert ráð fyrir í fjárlagafrv.

Almannavarnir: Önnur rekstrargjöld hækki um 50 þús. kr. og stofnkostnaður um 47 þús. kr. Þjóðkirkjan: Framlag hækki alls um 410 þús. kr. og skiptist þannig: Álag vegna afhendingar kirkna hækki um 100 þús. kr., framlag til Hallgrímskirkju í Reykjavík hækki um 250 þús. kr. og til Hjálparstofnunar kirkjunnar um 60 þús. kr.

Félmrn.

Framkvæmd laga um aðstoð við þroskahefta: Framlag hækki alls um 3 millj. 676 þús. kr. og verði 19 millj. 603 þús. kr., sem skiptist eins og hér segir: Svæðisstjórnir hækka um 360 þús. kr. í 2 millj. 719 þús. Sambýli hækki um 1 millj. 409 þús. í 5 millj. 287 þús., þar af 1 millj. 48 þús. kr. hækkun vegna nýrra sambýla að Drekavogi og Háteigsvegi í Reykjavík og er þar reiknað með launakostnaði 101/2 starfsmanns og öðrum kostnaði frá 1. apríl 1983. Verndaðir vinnustaðir hækki um 195 þús. kr. í 5 millj. 855 þús. kr. Leiktækjasöfn hækki um 262 þús. kr. í 651 þús. kr., þar af verði 148 þús. kr. vegna nýs leiktækjasafns á Siglufirði. Gert er ráð fyrir að þar starfi einn starfsmaður. Kostnaður samkv. 15. gr. hækki um 1 millj. 339 þús. kr. í 2 millj. 339 þús. kr. og liðurinn Heimili fyrir einhverf börn hækki um 111 þús. kr. í 2 millj. 91 þús. kr.

Heimili fyrir þroskahefta: Skálatún hækki um 1 millj. og Sólborg hækki um 2.2 millj. kr., en fjvn. mun taka mál þessara stofnana til nánari skoðunar á milli 2. og 3. umr.

Vinnumál: Nýr liður: Sjómannasamtök, lögskráning 200 þús. kr., en liður þessi féll niður í fjárlagafrv. Ýmis framlög: Liðurinn hækki alls um 1 millj. 668 þús.

kr., og er vísað til brtt. n. um einstakar breytingar á viðfangsefni.

Heilbrmrn.

Tryggingastofnun ríkisins: Liðurinn lækki um 2 millj. 25 þús. kr. Sama fjárhæð færist á Krabbameinsfélag Íslands, en hér er um að ræða kostnað við skoðanir sem tryggingarnar sjá nú um að greiða.

Landlæknir: Yfirstjórn hækki um 115 þús. kr. vegna skráningar og úrvinnslu upplýsinga.

Heyrnar- og talmeinastöð: Laun hækki um 290 þús. kr. vegna hálfrar stöðu læknis og einnar stöðu talmeinafræðings, sem ráðinn yrði frá 1. júlí 1983. Önnur rekstrargjöld hækki um 100 þús. kr. og yfirfærslur til einstaklinga og samtaka hækki um 700 þús. kr. til kaupa á heyrnartækjum.

Landspítalinn: Framlag til viðhalds hækki um 2 millj.

Sjúkrahús og læknisbústaðir: Liðurinn Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða, annarra en ríkissjúkrahúsa, hækki um 21 millj. 615 þús. kr. Sundurliðun kemur fram í brtt. n. Sjúkrahús St. Franciscusarreglunnar í Stykkishólmi, byggingarstyrkur hækki um 1.5 millj. kr. og verði 3 millj. Landakotsspítali, röntgentæki, þessi liður fellur niður og færist á nýjan lið. Þá er liðurinn DAS, Hrafnista, Hafnarfirði, byggingarstyrkur, þriðja greiðsla af fimm. Lagt er til að liðurinn hækki um 328 þús. og í stað þess að greiðslurnar verði fimm er lagt til að þær verði sex og tekinn upp nýr liður: hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð, Kópavogi, í millj. kr., sem er sama upphæð og á núgildandi fjárlögum.

Landakotsspítali: Liðurinn orðist svo: St. Jósefsspítali, Landakoti. Nýr liður: Gjaldfærður stofnkostnaður 2 millj.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri: Laun hækki um 5 millj. 145 þús. kr. og önnur rekstrargjöld um 4 millj. 705 þús. kr. vegna nýrra starfsmanna við sjúkradeild sem tekur til starfa snemma á næsta ári. Skiptingin milli launa og annarra rekstrargjalda er röng á þskj. 149 og verður leiðrétt. Viðhald hækkar um 2.5 millj. kr.

Með því fjárlagafrv. sem hér er til umr. verður sú breyting á samkv. heimild í lögum, að tvö sjúkrahús, St. Jósefsspítali, Landakoti, og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri verða fjármögnuð með föstum fjárlögum í stað daggjalda, en framlög til sjúkratrygginga breytast að sama skapi. Með brtt. fjvn. um hækkun frá fjárlagatillögum til þessara sjúkrahúsa er leitast við að bæta nokkuð þann reikningsgrunn sem lagður er til áframhaldandi fjárveitinga til þessara stofnana þegar þær eru nú teknar inn á beinar fjárlagagreiðslur. En án efa þarf að huga vel að stöðu þeirra að ári við næstu fjárlagagerð. Samkv. bráðabirgðauppgjöri sjúkrahúsanna tveggja verður um allnokkurn rekstrarhalla að ræða á þessu ári. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hve stór hluti þessa halla verður bættur á árinu 1982. Eðlilegast væri að upp úr áramótum yrði hraðað bókhaldsuppgjöri sjúkrahúsanna vegna ársins 1982, þannig að bæta megi sjúkrahúsunum halla þessa árs á fyrri hluta næsta árs, enda er áætlað fyrir halladaggjöldum á sjúkratryggingalið Tryggingastofnunar ríkisins. Eðlilegt væri að halli ársins 1982 verði bættur með beinum greiðslum til sjúkrahúsanna fremur en með því að miða við legudaga. Hér er að öðru leyti að nokkru um tæknilegt mál að ræða, sem eðlilegast er að heilbr.- og trmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnun og hlutaðeigandi aðilar leysi.

Ýmis heilbrigðismál: Liðurinn Hjartavernd hækki um 650 þús. kr. Krabbameinsfélag Íslands hækki um 2 millj. 875 þús. kr. Þar af eru 2 millj. 25 þús. kr. fluttar af framlagi frá Tryggingastofnun ríkisins, þar sem skoðunargjöld verða nú greidd með beinu framlagi til félagsins, en Tryggingastofnunin hefur áður greitt þau. Sjúkraflug hækki um 75 þús. kr. Félag astmasjúklinga hækki um 2000 kr. Exem- og psoriasissjúklingar hækki um 3000 kr. og ýmis framlög um 50 þús. kr.

Gæsluvistarsjóður, framlag: Bláa bandið hækki um 12 þús. kr. Vernd, félagssamtök hækki um 15 þús. kr. Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið hækki um 70 þús. kr.

Bindindisstarfsemi: Nýr liður: Til einstaklinga og samtaka 225 þús. kr. Aftan við liðinn komi tvö ný viðfangsefni: Áfengisvarnir 1 millj. 181 þús. kr. og Stórstúka Íslands 225 þús. kr., en sá liður féll niður í fjárlagafrv.

Samgrn.

Hafnarmannvirki og lendingarbætur hækki um 37 millj. 538 þús. kr. og verði 98.6 millj. kr. Sundurliðun kemur fram í brtt. n. Ferjubryggjur hækki um 375 þús. kr. Hafnabótasjóður, framlag hækki um 3 millj. 943 þús. kr. Sjóvarnargarðar hækki um 3 millj. 36 þús. kr. og verði 4 millj. 80 þús. kr., en sundurliðun kemur fram í brtt. fjvn. Liðurinn Hafnarframkvæmdir vegna skipaiðnaðar falli niður, en upphæðin er felld saman við liðinn Hafnarmannvirki og lendingarbætur.

Siglingamálastofnun ríkisins: Önnur rekstrargjöld hækki um 600 þús. kr. Á móti komi jafnmikil hækkun á skipaskoðunargjaldi, sem fram kemur í 3. gr. fjárlaga.

Sjóslysanefnd: Nýr liður: Til einstaklinga og samtaka verði 110 þús. kr.

Flugmálastjórn: Framlag til Flugvalladeildar hækki um 5 millj. kr. og verði 19 millj. 583 þús. kr., en þar er um að ræða viðhald á flugvöllum. Framkvæmdir á flugvöllum hækki um 4 millj. 875 þús. kr. og verði 46 millj. 250 þús., sem skiptist eins og sýnt er í tillögum fjvn.

Ýmis framlög: Liðurinn Flugbjörgunarsveitir hækki um 100 þús. kr. Slysavarnafélag Íslands vegna tilkynningarskyldu fiskiskipa hækki um 68 þús. kr. og verði 1 millj. 293 þús. kr. Nýr liður: Fræðsluefni um öryggismál sjómanna verði 300 þús. kr., en þetta fé er sérstaklega ætlað til að kaupa myndefni um öryggismál sjómanna og dreifa því til skipa.

Iðnrn.

Iðntæknistofnun Íslands: Liðurinn Iðntækniþjónusta hækkar um 640 þús. kr., verður 13 millj. 137 þús. kr. Þar af verði 270 þús. kr. vegna launa eins ráðgjafa í yfirborðsmeðhöndlun. Á móti hækki sértekjur um 200 þús. kr.

Iðja og iðnaður, framlög: Liðurinn Iðnráðgjafar hækki um 420 þús. kr. vegna yfirvinnu iðnráðgjafa sem starfar á vegum landshlutasamtaka.

Og þá er komið að síðustu till. Hún er hjá viðskrn. Aðalskrifstofa: Liðurinn Til einstaklinga og samtaka hækki um 20 þús. kr., en þar er um að ræða Neytendasamtökin.