14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

1. mál, fjárlög 1983

Frsm. 1. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur starfað á venjubundinn hátt á þessu hausti og haldið sínu starfsama striki þrátt fyrir þá óvissu sem forustuleysi ríkisstj. hefur haft í för með sér á störf Alþingis. Enn hefur nefndin ekki fengið í hendur fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1983, sem þó eru fyrirmæli um í lögum að skuli liggja fyrir samtímis fjárlagafrv., en ógerningur er að gera sér grein fyrir heildarumsvifum og áhrifum ríkisfjármálanna á þjóðarbúskapinn nema svo stefnumótandi upplýsingar liggi fyrir, eins og ég benti á hér í umr. um þingsköp áðan.

Hér er síður en svo við meðnm. úr fjvn. að sakast. Þeir hafa gert sitt besta til að fá þessar upplýsingar. En ríkisstj. virðist ekki fær um að taka þær ákvarðanir sem þarf í þessu sambandi. Við minnihlutamenn þökkum formanni nefndarinnar og meðnm. okkar öllum fyrir ánægjulegt samstarf, lipurð og umburðarlyndi í okkar garð. Hagsýslustjóra og ritara n. þökkum við aðstoð og veittar upplýsingar.

Fjvn. flytur öll að venju sameiginlegar tillögur til breytinga á frv., með fyrirvara af hálfu minni hl. sem áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Minni hl. er á hinn bóginn algerlega andvígur stefnu frv. og þeirri efnahagsstefnu ríkisstj. sem það endurspeglar. Á undanförnum þingum hef ég rætt almennt um efnahagsstefnu ríkisstj. við 2. umr. fjárl. auk ríkisfjármálanna. Að þessu sinni mun ég beina athyglinni sérstaklega að ríkisfjármálunum, bæði vegna þess að fjárlagafrv. er að þessu sinni í engu samræmi við raunveruleikann, ef marka má stefnu og yfirlýsingar ríkisstj. sjálfrar, og auk þess er búist við almennum umr. um efnahagsmál í sambandi við afgreiðslu brbl. ríkisstj. frá Ed. nú næstu daga, og þá mun e.t.v. gefast tækifæri til að gera almenna úttekt á þeirri haldlitlu og öfugsnúnu stefnu niðurtalningar og hafta sem ríkisstj. hefur fylgt í efnahagsmálum.

Í tekjuáætlun fjárlagafrv. er gert ráð fyrir minni tekjum að raungildi en ríkissjóður hefur haft, af ástæðum sem ég kem að síðar. Á hinn bóginn er það yfirlýst stefna ríkisstj. í þjóðhagsáætlun að draga ekki úr samneyslu og auka rekstrarútgjöld að raungildi á sumum sviðum. Við minnihlutamenn höfum látið reikna hvað þessi stefna þýðir í ríkisútgjöldum og hvort tekjur nægi á árinu 1983 til þess að framfylgja henni. Byggt er einfaldlega á framreikningi ríkisreiknings fyrir árið 1981, sem er síðasta og besta vitneskja um raunverulegt umfang ríkiskerfisins. Þá kemur í ljós að nálægt 1 000 millj. kr. skortir á að endar náist saman. Svo óraunhæf er útgjaldaáætlun frv., ef taka á mark á stefnu ríkisstj., þeirri stefnu sem hún hefur verið sérstaklega trú, að auka sífellt eyðsluútgjöld ríkissjóðs. Þetta kemur fram í fskj. með nál. okkar, en þar er birt nýtt frv. til fjárlaga fyrir árið 1983, sem er byggt á stefnuyfirlýsingum ríkisstj. sjálfrar og raunhæfum verðlagsforsendum, byggðum á framreikningi Þjóðhagsstofnunar á líklegum verðbreytingum milli áranna 1982 og 1983.

Ekki þarf að taka fram að hér er ekki um frv. að ræða, sem felur í sér stefnu sjálfstæðismanna í ríkisfjármálum, þvert á móti. Þetta er frv. sem sýnir svart á hvítu að það umfang, sem ríkisstj. hefur komið ríkisbúskapnum í, og þau áform hennar að halda óbreyttri samneyslu kosta einfaldlega miklu meira en frv. gerir ráð fyrir. Það er því óraunhæft pappírsplagg og ætlað að dylja raunverulegan halla á ríkisbúskapnum.

Megineinkenni þessa frv. eru hin sömu og verið hafa í ríkisfjármálum í tíð núv. ríkisstj. og raunar einnig í tíð vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar. Ómenguð vinstri stefna hefur setið í fyrirrúmi á þessu mikilvæga sviði þjóðarbúskaparins eins og víðar. Raunar er það svo, að ekki hefur síður hallað á ógæfuhliðina nú síðustu árin, enda Alþb. og framsóknarmenn með forræði 10 ráðuneyta af 13 og Alþb. með ríkisfjármálin í sínum höndum.

Í þessu sambandi má enn minna á orð formanns þingflokks Alþb. í Þjóðviljanum. Þar sagði hann orðrétt með leyfi hæstv. forseta:

„Efnahagsstefna ríkisstj. ber mjög svip þeirrar afstöðu sem Alþb. hefur haft síðan 1978. Sú afstaða varð undir í ríkisstj. 1978–1979 (vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar). Nú hefur hins vegar verið tekið tillit til sjónarmiða Alþb. og árangurinn er að koma í ljós.“

Vinnubrögð við gerð fjárlaga og stjórn ríkisfjármála hafa verið losaraleg, ruglingsleg og ómarkviss, eins og vill verða undir stjórn vinstri flokka.

Verðlagsforsendur fjárlagafrv. hafa verið vísvitandi rangar. Útgjöld fjárlagafrv. hafa verið áætluð á grundvelli gildandi fjárlaga, en ekki tekið mið af raunverulegu umfangi og útgjöldum. Síðan hefur verið gripið til þess ráðs að veita aukafjárveitingar þegar komið hefur í ljós að viðkomandi fjárlagaliður reynist markleysa — ýmist hreinlega vanáætlaður eða verðbólga hefur reynst meiri en gert er ráð fyrir við gerð fjárlaga.

Það gefur auga leið að í 50–60% verðbólgu, sem ávallt hefur reynst miklu meiri en svonefndar reiknitölur fjárlagafrv. hafa gert ráð fyrir, bitnar þetta ráðslag þungt á raungildi framkvæmdaliða, enda hafa þeir liðir lækkað ár eftir ár að raungildi eins og fylgt hafi verið þaulhugsaðri niðurtalningarformúlu. Á því sviði hefur niðurtalningin tekist.

Þegar þannig er staðið að fjárlagagerð er ríkisvaldið í raun og veru að svipta sjálft sig því mikilvæga stjórntæki sem raunsæ fjárlög eru hverju sinni. Sama gildir um lánsfjárlög. Þau fjalla þó að verulegu leyti um framkvæmdir. Í þeim er oftast gert ráð fyrir fastri krónutölu. Þess vegna eru rangar verðlagsforsendur þeim mun verri við gerð lánsfjárlaga en almennra fjárlaga. Og í samræmi við það er gildi þeirra sem stjórntækis rýrt þeim mun meir sem fáránlegar er haldið á verðlagsforsendum þeirra.

Þessi vinnubrögð einkenna ekki síst frv. til fjárlaga fyrir árið 1983. Það er hreinlega gripið til þess ráðs að áætla vísvitandi of lágar upphæðir til rekstrar og viðhalds þess ríkisbákns sem ríkisstj. hefur þanið kerfisbundið út og gert er ráð fyrir að viðhalda eða auka samkv. forsendum í þjóðhagsáætlun og grg. fjárlagafrv. Þetta virðist gert, eins og ég sagði áðan, til þess að dylja að raunverulega vantar rúman milljarð kr. á að endar nái saman í frv., ef framangreind markmið ríkisstj. um umfang ríkisbúskaparins eiga að nást.

Ástæðan fyrir þessari vöntun er einfaldlega sú, að í tekjuáætlun er ekki gert ráð fyrir því, að sú gífurlega eftirspurnarþensla haldist sem valdið hefur vaxandi innflutningi hátollavöru, aukinni veltu og viðskiptahalla, sem mætt hefur verið með gífurlegri eyðsluskuldasöfnun erlendis.

Því miður er þó ekki horfið algerlega frá þessari óheillabraut. Á næsta ári er samkv. þjóðhagsspá ríkisstj. stefnt að því, að þjóðarútgjöld verði meiri en tekjur, viðskiptahalli verði verulegur og eyðsluskuldasöfnun haldi áfram. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður „hagnist“ enn á næsta ári á þessu háttalagi, þótt í minna mæli sé en verið hefur.

Gengisstefna ríkisstj. hefur leitt til útsölu á gjaldeyri misserum saman, stóraukins viðskiptahalla og eyðsluskulda, er stefnt hafa fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í fullkomna tvísýnu. Þessi ranga gengisstefna hefur vegna mikils innflutnings umfram útflutning valdið tekjuauka hjá ríkissjóði sem nemur miklum fjárhæðum undanfarin ár. Efnahagssjúkdómur þjóðarinnar verður þannig að tekjuuppsprettu ríkissjóðs.

Um þetta segir svo í skýrslu Þjóðhagsstofnunar frá 15. mars s.l.:

„Á síðasta ári var þróun ríkisfjármála með þeim hætti, að töluverður greiðsluafgangur var á ríkissjóði, hann bætti stöðu sína við Seðlabankann. Meginástæða þessarar útkomu var mikil tekjuaukning, einkum af aðflutningsgjöldum og söluskatti vegna mikils innflutnings.“

Sama þróun hefur átt sér stað fyrstu mánuði yfirstandandi árs. Í þjóðhagsáætlun, sem var lögð fyrir Alþingi í haust af hæstv. forsrh., segir svo um framvindu ríkisfjármála:

„Tímabilið janúar-ágúst í ár voru innheimtar tekjur um 50% meiri en á sama tíma í fyrra og var það umfram hækkun verðlags á þessu tímabili, vegna mikillar veltu og innflutnings fyrstu mánuði ársins.“

Þar segir einnig:

„Tímabilið janúar-ágúst í ár var innheimtur söluskattur 63% meiri en í fyrra og tolltekjur 73% meiri. Á sama tíma var útgjaldaaukningin 58%.“

Að mati sérfróðra manna má áætla að tekjuauki ríkissjóðs vegna umframeftirspurnar eftir innflutningi og óvenjumikillar veltu 1981 og það sem af er þessu ári hafi a.m.k. numið um 800 millj. kr.

Á árinu 1981 og 1982 er talið að viðskiptahalli við útlönd verði hvorki meira né minna bæði árin en um það bil 5 000 millj. kr. á verðlagi ársins í ár. Það er upphæð sem nemur tæplega 17% af þjóðarframleiðslu í ár. Greiðslubyrði erlendra lána er að verða svo þung að Seðlabankinn áætlar að hún muni nema 25% af útflutningstekjum á næsta ári, m.a. vegna óreiðu- og eyðslulána sem taka þarf til þess að fleyta atvinnuvegunum og jafna viðskiptahalla.

Þannig hafa upplausn og óstjórn í efnahagsmálum, þótt mótsagnakennt sé, valdið því, að ríkissjóður hefur verið í formlegu jafnvægi 1981 og sýnist ætta að verða það nokkurn veginn á þessu ári. Ef ríkissjóður hefði á hinn bóginn ekki fengið þessar tekjur væri bullandi greiðsluhalli á ríkissjóði. Skuldir hans hafa aukist um 700–800 millj. þrátt fyrir stórfelldar skattahækkanir ár eftir ár.

Skal nú vikið að megineinkennum á stefnu frv. til fjárlaga fyrir árið 1983, en þau eru flest hin sömu og einkennt hafa stefnuna í ríkisfjármálum í tíð núv. ríkisstj. og raunar einnig í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar.

Ég fjalla nánar um þessi atriði síðar, en megineinkennin í stuttu máli eru þessi:

1. Í frv. eru vísvitandi rangar verðlagsforsendur. Samkv. þjóðhagsáætlun er markmið ríkisstj. að verðbólgan verði 40–50% frá upphafi til loka árs 1983. Verðbólgan verður á árinu 1982 um 62% frá upphafi til loka árs. Þetta þýðir að meðalhækkun milli áranna 1982 og 1983 verður ekki undir 50%. Það er reikningslega útilokað. Reiknitala frv. er á hinn bóginn 42%. Hún er því ekki í neinu samræmi við bjartsýnar verðbólguspár ríkisstj. á árinu 1983, sem engin skýring hefur fengist á hvernig eigi að ná fram. Hér er um vísvitandi rangar verðlagsforsendur við fjárlagagerðina að ræða eins og undanfarin ár.

2. Óbreytt skattastefna leiðir enn til skattahækkunar. Þannig á að þrengja að heimilunum bæði með skattahækkun og annarri kjaraskerðingu sem felst í brbl. ríkisstj. Ekki er gert ráð fyrir að ríkissjóður sýni gott fordæmi og rifi seglin. Almenningur á einungis að herða sultarólina.

Skattar í heild til ríkis og sveitarfélaga eru nú áætlaðir 38% af þjóðarframleiðslu. Þetta hlutfall var 31.6% árið 1977. Hækkunin er 6.4% á valdatíma vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar og núv. ríkisstj. Þetta svarar til 2 660 millj. kr. eða fjárhæðar sem nemur 57 800 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Miðað er við verðlag fjárlagafrv. 1983.

Á valdatíma núv. ríkisstj. hafa skattar til ríkisins eins hækkað um 3.1% af þjóðarframleiðslu. Þetta jafngildir 1 290 millj. kr. eða 28 000 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu á verðlagi fjárlagafrv. fyrir árið 1983. Á sama tíma hækkuðu skattar til sveitarfélaga um 0.3–0.4% af þjóðarframleiðslu, þ.e. 166 millj. kr. Samtals er skattahækkunin á þessum þremur árum í tíð núv. ríkisstj. því 31 600 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu.

Þriðja megineinkennið er að eyðsluútgjöld ríkissjóðs aukast eitt árið enn langt umfram gefnar verðlagsforsendur og eru þau þó vanáætluð víða miðað við það umfang sem ríkisreksturinn er kominn í, svo sem áður segir. Ríkisumsvifin eru aukin ár frá ári. Þannig eru rekstrarútgjöld hækkuð um 65% eða langt fram úr þeirri reiknitölu sem frv. er miðað við, 42%.

Fjórða megineinkennið er að niðurgreiðslur og millifærslur eru langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Sú ákvörðun að auka niðurgreiðslur um 6 prósentustig í framfærsluvísitölu fyrri hluta ársins í ár var nánast eina úrræði ríkisstj. gegn verðbólgu á þeim tíma. Það kostar 800 millj. kr. að greiða eingöngu þessi 6% niður á næsta ári á verðlagi fjárlagafrv. Áður var greitt niður sem svaraði rúmlega 5% í verðbótum á laun. Það er því ljóst, að ríkisstj. hefur gefist upp á þessu bjargráði sínu, og verði krónutöluhækkun ekki á niðurgreiðslum á næsta ári en verðbólga svipuð og gert er ráð fyrir í spám, verða niðurgreiðslur ekki meiri en þær voru þegar þessar ákvarðanir voru teknar. Þessi saga hefur endurtekið sig með stuttu millibili frá því í des. 1978. Niðurgreiðslur hafa verið stórauknar af og til, en jafnharðan gefist upp á að afla fjár til þess að standa undir slíkum „efnahagsúrræðum“, ef efnahagsúrræði skyldi kalla.

Fimmta meginatriðið er að ártegur niðurskurður á raungildi fjárveitinga til verklegra framkvæmda heldur áfram og nú enn frekar en áður. Sama gildir um framlög til sjóða og atvinnuvega. Sem dæmi má nefna að raungildi framlaga til hafna, grunnskólabygginga og íþróttamannvirkja, en það eru mannvirki sem minni sveitarfélög í landinu eru flest að glíma við, hefur verið skorið niður í 65 ef miðað er við 100 árið 1978. Fjárveitingar til verklegra framkvæmda hækka samkv. frv. um 31% frá gildandi fjárlögum, en rekstur, eins og áður segir, um 65%.

Sjötta meginatriðið er að lántökur eru auknar og enn eru ný lán tekin til greiðslu óreiðuskulda. Augljóst er á grg. frv. að ríkisstj. hefur gefist upp á að sýna áformaðar lántökur til A- og B- hluta kerfisins. Í því efni er vísað til væntanlegrar lánsfjáráætlunar. Á þessu sviði eru því miður ekki öll kurl komin til grafar í frv. Í þessu sambandi er athyglisvert að samkv. upplýsingum frá Seðlabankanum hafa erlendar skuldir ríkissjóðs og ríkisstofnana hækkað úr 3 345 millj. kr. árið 1977 í 4 839 millj. 1981, reiknað á föstu gengi. Þetta er aukning erlendra skulda ríkisbúskaparins um 45% á föstu gengi.

Þessi sex framangreind meginatriði um stefnu eða stefnuleysi í ríkisfjármálum undanfarin ár eru gamalkunn. Þessi saga hefur endurtekið sig ár eftir ár. Nú horfir á hinn bóginn þannig við, að þegar draga þarf saman seglin og ríkissjóður fær minni tekjur af umframeyðslu og þjóðarútgjöldum, sem fara fram úr þjóðartekjum, þá verður sú mynd skýrari hvernig ríkisfjármálin eru í raun byggð á sandi. Greinilega kemur þá í ljós eitt megineinkenni á stefnu og störfum ríkisstjórna sem fylgja vinstri stefnu. Þær bregða fyrir sig hverjum blekkingarhjúpnum eftir annan. Fjárlagafrv. fyrir árið 1983 er óbrotgjarn minnisvarði um þessi vinnubrögð.

Ég vík þá aðeins nánar að verðlagsforsendum frv. Í fyrsta fjárlagafrv. núv. hæstv. ríkisstj., frv. fyrir árið 1980, segir svo orðrétt:

„Í stjórnarsáttmálanum eru boðaðar eftirtaldar aðgerðir í verðlagsmálum í því skyni að draga úr verðbólgu: Verðlagshækkunum á þeim vörum og þjónustu, sem verðlagsráð fjallar um, verði sett eftirgreind efri mörk ársfjórðungslega á árinu 1980: Til 1. maí skulu mörkin vera 8%, til 1. ágúst 7% og loks til 1. nóv. 5%.“

Áfram er haldið í grg. frv. og nákvæmlega tíundað hvernig niðurtalningarformúlan hljóðaði í stjórnarsáttmálanum. Síðan segir í grg. frv.:

„Í samræmi við þetta er frv. miðað við það að verðhækkun frá upphafi til loka árs 1980 verði um 31% og meðalhækkun verðlags 1979–1980 verði 45–46%.“

Hér er það alveg skýrt að stefna ríkisstj. í verðlagsmálum er lögð til grundvallar verðforsendum sem fjárlagafrv. hvíldi á.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1981 er komist ofurlítið óljósar að orði. Þar segir í 4. lið þegar verið er að ræða meginforsendur frv.:

„Verðlagshækkanir frá miðju árinu 1980 til miðs árs 1981 verði um 42%, sem er nokkru minni verðbólga en verið hefur um skeið.“

Í þriðja fjárlagafrv. ríkisstj., fyrir árið 1982, hefur ríkisstj. fyrir alvöru „undanhald samkv. áætlun“ í þessum efnum. Þar er með öllu horfið frá því að stefna að ákveðnu verðbólgumarkmiði sem fjárlög síðan hvíli á. Þar segir orðrétt:

„Reiknitala fjárlagafrv. varðandi hugsanlega hækkun verðlags og launa er miðuð við 33% milli áranna 1980 og 1982.“ Á þessu herrans ári er hin svokallaða reiknitala uppgötvuð.

Í fjórða frv. ríkisstj. til fjárlaga, fyrir árið 1983, er ekki lengur talað um „hugsanlega hækkun verðlags og launa.“ Þar segir orðrétt:

„Reiknitala fjárlagafrv. er miðuð við 42% hækkun verðlags milli áranna 1982 og 1983. Rétt er að minna á að reiknitala fjárlaganna hefur aldrei verið verðbólguspá fyrir komandi ár.“

Af því sem ég hef lesið hér úr greinargerðum fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. má sjá að það er ekki rétt sem segir í aths. fjárlagafrv. um verðlagsforsendur. Það gerðist nefnilega nokkurn veginn samtímis að ríkisstj. gafst upp við að hamla gegn verðbólgunni og að miða við ákveðið verðbólgumarkmið sem fjárlögin yrðu byggð á.

Þegar verðbólga er svo mikil sem raun ber vitni verða bæði fjárlög og lánsfjárlög, sem byggjast á óraunhæfum verðlagsforsendum, hrein markleysa. Upp hafa verið teknar aðferðir sem byggjast á fjárlögum til þess að fylgjast með útgjöldum einstakra ráðuneyta og stofnana. Gerðar eru greiðsluáætlanir á grundvelli fjárlaga. Síðan er fylgst í tölvubókhaldi með framkvæmd þessara áætlana. Laun eru jafnan verðbætt að nokkru, en önnur rekstrarútgjöld, viðhald og gjaldfærður stofnkostnaður ekki. Ef laun hækka meira en verðlagsforsendur fjárlaga ganga þau út yfir aðra rekstrarliði og gjaldfærðan stofnkostnað. Augljóst er því að þeim mun betri sem verðlagsforsendur eru þeim mun betra stjórntæki eru fjárlög og sú greiðsluáætlun sem á þeim byggist. Það er því alveg út í hött að tala um að reiknitala eða verðlagsforsendur fjárlagafrv. skipti ekki verulegu máli.

Fjárlagafrv. fyrir árið 1983 er byggt á þeirri forsendu að verðlag hækki um 42% að meðaltali milli áranna 1982 og 1983, eins og áður segir. Þessi verðlagsforsenda er allt of lág og ekki í samræmi við neinar spár um þróun verðlags milli áranna 1982 og 1983 né heldur í samræmi við yfirlýst verðbólgumarkmið ríkisstj.

Nú liggur fyrir að framreiknuð framfærsluvísitala frá upphafi til loka þessa árs sýnir um það bil 62% hækkun og byggingarvísitala 64–65% hækkun. Ef taka ætti mark á markmiði ríkisstj. um 40–45% verðbólgu frá upphafi til loka næsta árs, þá getur meðalhækkun verðlags milli áranna 1982 og 1983 ekki verið undir 50%. Önnur niðurstaða er reikningslega útilokuð. Verðlagsforsenda fjárlagafrv. er því hreinlega úr lausu lofti gripin.

Í þjóðhagsáætlun er spáð 58% verðlagshækkun framfærsluvísitölunnar milli áranna 1982 og 1983. Í nýjum framreikningi Þjóðhagsstofnunar, sem fram kemur í bréfi til fjh.- og viðskn. Ed., dags. 26. nóv. s.l., kemur fram að Þjóðhagsstofnun gerir nú ráð fyrir meiri verðbólgu en í þjóðhagsáætlun. Hún gerir nú ráð fyrir 60-63% meðalhækkun verðlags milli áranna 1982 og 1983. Þær spár, sem gefnar hafa verið út af einkaaðilum, gera yfirleitt ráð fyrir meðalhækkun um eða yfir 70%. Spá Vinnuveitendasambands Íslands gerir t.d. ráð fyrir 69.1% meðalhækkun framfærsluvísitölu milli ára og spá Sambands ísl. samvinnufélaga gerir ráð fyrir rúmlega 70% hækkun. Flest opinber fyrirtæki gera sömuleiðis ráð fyrir 60–70% verðbólgu á næsta ári og á Spástefnu Stjórnunarfélagsins, sem haldin var nýlega, talaði forstjóri Þjóðhagsstofnunar um 60–80% verðbólgu.

Það liggur því ljóst fyrir að enginn aðili í þjóðfélaginu treystir sér til að taka mark á verðbólgumarkmiði ríkisstj. Í því frv. sem þessi sama ríkisstj. leggur fyrir Alþingi er ekki gert ráð fyrir 40–50% verðbólgu, eins og ríkisstj. hefur að markmiði, heldur aðeins 20% frá ársbyrjun til ársloka. Svo óraunhæfar og beinlínis hlægilegar eru verðlagsforsendur þessa frv.

Ríkisstj. hefur gumað mjög af hallalausum ríkisrekstri og minnkandi skuldum ríkissjóðs í Seðlabankanum. Í raun er þessu öfugt farið. Sá þáttur ríkisfjármálanna sem nefndur er A-hluti hefur verið í formlegu jafnvægi á árunum 1980 og 1981 vegna mikilla umframtekna ríkissjóðs af innflutningi og veltu í þjóðfélaginu, vegna þess að þjóðarútgjöld hafa farið langt fram úr tekjum, þ.e. þjóðin hefur eytt um efni fram. Stefna ríkisstj. hefur ýtt undir þessa óheillaþróun, eins og ég hef áður rökstutt. Því má slá föstu, að raunverulegur halli ríkissjóðs þessi tvö ár og á yfirstandandi ári nema a.m.k. 1 000 millj. kr., þar af 800 millj. kr. í fyrra og í ár.

Þessu til viðbótar hefur ríkisbúskapurinn í heild verið rekinn með auknum lántökum. Erlendar skuldir ríkissjóðs og ríkisstofnana hafa hækkað mjög ár frá ári, reiknað á föstu gengi, og ennþá meira ef ríkisfyrirtæki eru tekin inn í dæmið. Þannig voru löng erlend lán til hins opinbera 35% hærri í Bandaríkjadollurum í árslok 1981 en í árslok 1978 og 18% hærri en í árslok 1979.

Fjárfesting hefur á hinn bóginn dregist saman að magni til og sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á þessu tímabili. Á þessu ári er áætlað að fjárfesting nemi 25.1% af þjóðarframleiðslu og þetta hlutfall hefur ekki verið jafnlágt frá árinu 1969. Þetta gefur til kynna að eyðsla í ríkiskerfinu hefur aukist. Eftir hefur staðið síminnkandi hluti fjármagns til fjárfestingar, sem þó hefur verið haldið uppi með lántökum, þ. á m. erlendum lántökum.

Skuldastaða ríkissjóðs við einn lánardrottna sinna, þ.e. Seðlabankann, sem fjmrh. hælir sér af að hafa bætt, segir því enga sögu. Raunar gefur það alranga mynd af raunveruleika ríkisbúskaparins að halda slíkri blekkingu að fólki.

Þegar þetta „kreppufrv.“ til fjárlaga fyrir árið 1983, svo að notuð séu orð fjmrh., er skoðað kemur þessi beiski veruleiki ennþá betur í ljós.

Tekjur frv. eru áætlaðar á þeim forsendum, að þjóðin eyði og fjárfesti minna (þjóðarútgjöld minnki) umfram þjóðartekjur og viðskiptahalli verði minni en í ár. Þetta dregur úr tekjum ríkissjóðs af umframeyðslu. Þess vegna er úr minni ríkistekjum að spila samkv. fjárlagafrv. en verið hefur undanfarin óstjórnarár.

Þá er gripið til örþrifaráða. Margir mikilvægir útgjaldaliðir eru stórlega vanáætlaðir miðað við umfang ríkisbúskaparins eins og hann er orðinn undir stjórn núverandi valdhafa. Miðað við forsendur þjóðhagsáætlunar og aths. í fjárlagafrv. skortir til að mynda 10.2% á að raungildi samneyslu sé það sama og samkv. ríkisreikningi fyrir árið 1981.

Í þjóðhagsáætlun er spáð óbreyttri samneyslu á næsta ári, en hún jókst um 2% í ár frá 1981. Séu tölur úr ríkisreikningi árið 1981, sem sýna samneyslu á því ári, framreiknaðar og leiðréttar vegna flutnings tveggja sjúkrahúsa og fjögurra heilbrigðisstofnana af daggjaldakerfi yfir í A-hluta kemur eftirfarandi í ljós:

Á samneyslunni í heild munar hvorki meira né minna en 566 millj. kr. eða 10.2%, eins og ég sagði áðan. Laun eiga samkv. þessu að lækka að raungildi í frv. 1983 um 3.4% á sama tíma sem ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað. Önnur rekstrargjöld eiga að lækka að raungildi um 30%, miðað við framreikning frá 1981, og viðhald um 24.2%.

Gjaldfærður stofnkostnaður lækkar um 15% að raungildi í frv. miðað við ríkisreikning 1981. Þessi lækkun þýðir vitaskuld verulegan niðurskurð á framkvæmdum og fjárfestingu. Niðurgreiðslur eru óbreyttar frá 1981, en lækka um 30% að raungildi miðað við árið í ár. Þetta samrýmist illa fyrri yfirlýsingum ríkisstj. um lækkun verðbólgu með þessu uppáhaldsbjargráði, en það var eina lausnin sem á dagskrá var frá áramótum og fram yfir sveitarstjórnarkosningar í vor.

Að formi til ætlar ríkisstj. að láta líta svo út að síðustu fjárlög hennar séu í jafnvægi, því að þetta eru fjárlög sem viðtakandi ríkisstj. þarf að framkvæma og bera ábyrgð á. Gripið er til framangreindra blekkingaraðferða og „niðurskurðar“, sem sýnist „ekta“ á pappírnum. Öðru máli gegnir um framkvæmdir og framlög til atvinnuvegasjóða. Í þeim efnum er skorið niður í fullu samræmi við fyrri stefnu og gerðir ríkisstj.

Ég vík þá nánar að þróuninni í skattamálum undanfarin ár. Vinstri stjórnin hóf feril sinn með því að leggja á afturvirka tekju- og eignarskatta haustið 1978. Þessar hækkanir hafa haldist síðan og aukist. Vinstri stjórnin lagði á fjölda nýrra skatta: Gjald á ferðalög til útlanda, skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, aðlögunargjald, auk þess sem hún hækkaði söluskatt um 2%, úr 20 í 22%, haustið 1979 og vörugjald um 6% á sama tíma. Hún hóf þá skattahækkun á bensín umfram verðlagshækkanir, sem hefur aukist síðan án þess að sem nokkru nemi af þeirri skattahækkun hafi farið til vegamála.

Núv. ríkisstj. hefur viðhaldið öllum vinstristjórnarsköttunum nema nýbyggingargjaldi, sem var hverfandi lítið, auk þess sem aðlögunargjald er ekki innheimt lengur, en það var fyrst og fremst markaður tekjustofn til iðnþróunar. Hún lagði á „orkujöfnunargjald“ sem í raun er 1.5% söluskattur. Þá hefur hún lagt á tollafgreiðslugjald og skatt á innlánsstofnanir auk þess sem hún hefur hækkað vörugjald nú nýverið með brbl.

Ég vil rekja hér í stuttu máli samandreginn skattreikning Alþb., Framsfl. og raunar Alþfl. til þjóðarinnar, en Alþfl. ber auðvitað ábyrgð á hluta þess skattreiknings vegna skattaálaga vinstri stjórnarinnar. Þessi viðbótarskattreikningur liti einhvern veginn þannig út á verðlagi 1983: Hækkun eignarskatta og tekjuskatta að frádreginni lækkun sjúkratryggingagjalds 650 millj. kr. Hækkun söluskatts 516 millj. kr. Hækkun vörugjalds 470 millj. kr. Gjald á ferðalög 45 millj. kr. skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði 49 millj. kr. Verðjöfnunargjald á raforku 38 millj. kr. Skattahækkun á bensín umfram verðlagshækkanir 349 millj. kr. „Orkujöfnunargjald“, sem er 1.5% söluskattur, 288 millj. kr. Gjald í Framkvæmdasjóðs aldraðra 28 millj. kr. Markaðar tekjur teknar í ríkissjóð 150 millj. kr. Tollafgreiðslugjald 62 millj. kr. Skattur á innlánsstofnanir 50 millj. kr.

Frá dregst: Niðurfelling söluskatts á matvörur, lækkun tolla og launaskatts um 480 millj. kr.

Samtals er þessi aukaskattreikningur að upphæð 2 245 millj. kr.

Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, Úr þjóðarbúskapnum, nr. 13, frá mars s.l., segir svo:

„Álagning beinna skatta ríkisins á einstaklinga á árinu 1982 er samkv. fjárlögum talin hækka um 52% frá árinu 1981, og álagðir skattar til sveitarfélaga munu líklega hækka heldur meira. Á þeim forsendum um þróun tekna á árinu 1982, sem áður var getið, hefði þetta í för með sér aukna skattbyrði og ráðstöfunartekjur hækkuðu því minna en tekjur fyrir skatt.“

Þetta er í algeru ósamræmi við það sem fjmrh. og forráðamenn ríkisstj. héldu fram við umr. um fjárlög í fyrra og skattamál á síðasta þingi, en þá var sagt að ekki væri meiningin að auka skattbyrðina.

Í aths. í fjárlagafrv., sem hér er til umr., kemur fram að innheimtur tekjuskattur verður líklega liðlega 70 millj. kr. hærri en fjárlög yfirstandandi árs gera ráð fyrir.

Skattbyrði beinna skatta hefur farið jafnt og þétt hækkandi frá árinu 1977. Eignarskattar voru til að mynda 1977 einungis 0.29% af tekjum greiðsluárs, en verða í ár um 0.51%. Þetta er nærri tvöföldun á skattbyrði eignarskatta. Tekjuskattar voru árið 1977 einungis 3.9% af tekjum greiðsluárs, en verða í ár liðlega 6%. Þetta er rúmlega 50% aukning á skattbyrði tekjuskatts.

Þá vil ég víkja nánar stuttlega að samdrætti raungildis fjárveitinga til framkvæmda og sjóða. Samkv. frv. er þeirri stefnu haldið áfram, eins og ég sagði áðan, að skera niður raungildi fjárveitinga til framkvæmda og framlög til fjárfestingarlánasjóða og sjóða með félagsleg markmið. Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að dregið sé úr framlögum til fjárfestingarlánasjóða sem lána fé sitt verðtryggt með eðlilegum vöxtum. Á hitt ber að líta, að þessi „sparnaður“ svonefndi er ekki nýttur til skattalækkunar, heldur til aukinnar eyðslu. Sé talið eðlilegt að lækka framlög til sjóða með félagsleg markmið, t.d. Erfðafjársjóðs, á að sjálfsögðu að gera það með breytingum á lögum. Sé það ekki gert er skatturinn innheimtur á fölskum forsendum.

Í nál. okkar minnihlutamanna er gerð grein fyrir samdrætti fjárveitingar til framkvæmda. Flest sveitarfélög, stór og smá, glíma við að byggja skóla, hafnir og íþróttamannvirki. Þar eru birtar töflur yfir samdrátt þessara fjárveitinga að raungildi undanfarin ár og kemur þar fram mjög skemmtilegt niðurtalningarmynstur á öllum þessum sviðum.

Nýlega mælti samgrh. fyrir till. að nýrri langtímaáætlun í vegagerð. Með henni átti að auka vegaframkvæmdir. Samkv. fjárlagafrv., sem hér er til umr., verður verulegur samdráttur í nýframkvæmdum vega frá því í ár. Samkv. útreikningi fjárlaga- og hagsýslustofnunar minnka nýframkvæmdir vega og brúa úr því að vera 100 1982 í 92 eða 83 á árinu 1983. Fyrri útkoman fæst með því að reikna með verðlagsforsendum frv. (þessari hlægilegu forsendu 20–22% verðbólgu frá ársbyrjun til ársloka á næsta ári) og hin síðari með venjulegum framreikningi Þjóðhagsstofnunar. Þannig lítur nú út um þennan þátt, sem svo margir hafa áhuga á og sem samstaða skapaðist um hér á Alþingi hver stefnan skyldi vera.

Framlög til fjárfestingarsjóða eru skorin niður eins og jafnan áður en auk þess hafa framlög til ýmissa annarra sjóða, sem ekki beinlínis teljast fjárfestingarsjóðir í venjulegum skilningi, verið skorin niður. Þar er t.d. um að ræða Byggðasjóð, Orkusjóð, Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna svo að dæmi séu nefnd.

Ef litið er á Byggðasjóð, þá er það svo að samkv. lögum um Byggðasjóð skal framlag ríkisins ekki vera minna en svo, að ráðstöfunarfé hans nemi 2% af útgjaldafjárhæð fjárlagafrv. Þetta hefur verið framkvæmt þannig, að beinar fjárveitingar eru nú samkv. frv. einungis rúmur þriðjungur þess sem þær voru að raungildi 1978. Fjárveiting til sjóðsins er samkv. frv. 69.8 millj. kr., en ætti að vera 178 millj. miðað við sama raungildi og 1978.

Sama gildir um fjárveitingar til Orkusjóðs. Frá því að nýja „orkujöfnunargjaldið“ var lagt á árið 1980, sem nemur nú 288 millj. kr., hafa fjárveitingar til Orkusjóðs verið skertar verulega að raungildi. Framlagið hækkar að vísu nokkuð í frv. frá því í fyrra, en raungildi þess er miklum mun minna en 1980. Skerðingin nemur yfir 40%.

Ef litið er á fjárveitingar til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Fjárveitingar til húsnæðismála í heild hafa verið skornar gífurlega niður á undangengnum árum. Samkv. fyrri lögum áttu 2% af launaskatti að renna í Byggingarsjóð ríkisins og auk þess svonefnt byggingarsjóðsgjald sem var 1% álag á tekju- og eignarskatt og aðflutningsgjöld.

Árið 1979 voru þessir tekjustofnar fyrst skertir, að hluta til með samningum milli launþega og ríkisvaldsins. Skerðing launaskatts var 620 millj. gkr. 1978 og 3 660 millj. 1980. Árið 1981 var launaskattur felldur niður sem tekjustofn Byggingarsjóðs, en 1% af skattinum gert að sérstökum tekjustofni Byggingarsjóðs verkamanna. Þannig var helmingurinn af þeim launaskatti, sem áður var tekjustofn húsnæðiskerfisins, tekinn í ríkissjóð auk alls byggingarsjóðsgjaldsins. Eftir stendur þó í lögum um launaskatt að 2% hans, af 3.5% alls, skuli renna til húsnæðismála.

Beinar fjárveitingar til beggja sjóðanna hafa verið skornar þannig niður, að fjárveiting er nú helmingur af raungildi þeirra fjárveitinga sem gengu í báða sjóðina 1978. Þótt sérstök fjárveiting, sem mikið er af gumað, 85 millj. kr., sé reiknuð með — en sú ákvörðun var tekin í sambandi við útgáfu brbl. — verður raungildi framlaga úr ríkissjóði til húsnæðismála þriðjungi minna á næsta ári en 1978.

Allur sá mikli niðurskurður sem ég hef hér tíundað hefur ekki verið nýttur til skattalækkunar og lækkunar á ríkisútgjöldum, heldur varið jafnharðan til aukinna eyðsluútgjalda. Framkvæmdafé og framlög til uppbyggingar eru þannig minni og minni þáttur í ríkisútgjöldunum en eyðsluútgjöldin meiri.

Herra forseti. Ein alvarlegasta afleiðingin af óraunsærri fjárlagagerð á undanförnum árum kemur fram í því, að einstakir ráðherrar og ríkisstj. í heild veita hundruð aukafjárveitinga án nokkurs samráðs við Alþingi eða fjárveitingavaldið.

Á fskj. II. í nál. minni hl. er listi yfir slíkar aukafjárveitingar til októberloka í ár. Hér er sumpart um að ræða fjárveitingar vegna rangra verðlagsforsendna og óhjákvæmilegra ástæðna, sumpart vegna beinna ákvarðana sem ríkisstj. tekur án heimildar Alþingis. Samtals nemur þessi fjárhæð 541.8 millj. kr. eða þrefaldri þeirri upphæð sem fjvn. Alþingis fjallaði um við breytingar á fjárlagafrv. við 2. umr.

Dæmi um þessar aukafjárveitingar skulu nefnd. Menntmrn. hefur fengið 80.2 millj., landbrn. 13.6, dóms- og kirkjumálaráðuneytið 21, heilbr.- og trmrn. 61, samgrn. 26.9, iðnrn. 16.9 og viðskrn. 272 millj. kr. Hér er gengið svo langt að segja má að verið sé að svipta Alþingi fjárveitingavaldinu. Erlendis, t.d. í Danmörku, fjallar fjvn. um slíkar aukafjárveitingar. Spurning er hvort ekki þarf að taka upp slík vinnubrögð, ef ekki er unnt að standa betur að fjárlagagerð hverju sinni en gert hefur verið.

Herra forseti. Þetta frv. ber öll merki um að ríkisstj. sé að fara frá og ætli sér ekkí að bera ábyrgð á framkvæmd þessara laga. Þess vegna er með ýmsum hætti reynt að fela þá erfiðleika sem blasa við. Jafnframt er reynt að hylja þær tilfærslur á útgjöldum frá fjárfestingu til eyðslu sem er óumflýjanleg afleiðing þessara vinnubragða.

Frv. til lánsfjárlaga og fjárfestingaráætlun hefur enn ekki séð dagsins ljós hér á Alþingi þrátt fyrir skýlaus lagaákvæði þar að lútandi. Þess vegna er ekki hægt að gera sér nægjanlega góða grein fyrir heildarumfangi ríkisfjármála á næsta ári.

Ágreiningur er innan ríkisstj. um fjölmörg mikilvæg mál, sem snerta efnahagsþróunina á næstu misserum og geta haft veruleg áhrif á forsendur þessa frv. Því miður er sýnt að hér stefnir í ábyrgðarlausa og marklausa fjárlagaafgreiðslu ef allt fer fram sem horfir.