14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

1. mál, fjárlög 1983

Frsm. 2. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég varð að hinkra aðeins við. Ég las það í einu dagblaðanna í dag, blaði sem oft gengur undir nafninu „Blað allra landsmanna“, — það var í fréttum héðan frá Alþingi — að hv. 3. þm. Vestf. ætti að mæla fyrir nál. fyrir hönd Alþfl. við þessa umr. Ég taldi því rétt að hinkra við, ef þetta kynni að reynast rétt. En það er kannske eins og oft kemur fyrir í því ágæta blaði ekki alltaf fullt mark á öllu takandi.

Eins og hér hefur komið fram varð í þetta skiptið eins og oft áður raunin sú, að fjvn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa frv. við 2. umr. Eigi að síður eru fluttar sameiginlegar brtt., en minni hl. áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja hugsanlegum brtt. sem fram kynnu að koma.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Ég þakka formanni n. sérstaklega fyrir ágætt samstarf, eins og raunar í öll þau skipti sem ég hef starfað með honum að þessum málum, og einnig meðnm. mínum. Það er ekki heiglum hent að stýra þessu starfi undir því oki sem á formann og kannske meiri hl. fjvn. er lagt við þær kringumstæður sem nú ríkja, en eigi að síður hefur hv. þm. Geir Gunnarsson, eins og venjulega, stýrt því sem að honum snýr í starfinu vel. Ég tek einnig undir þakkir til ritara nefndarinnar og starfsmanns og hagsýslustjóra og starfsmanna hans.

Það er augljóst öllum sem hér eru inni, og þarf í raun og veru ekki að fara mörgum orðum þar um, að við 2. umr. fjárl. fyrir árið 1983 ríkja mjög óvenjulegar kringumstæður á Alþingi — kringumstæður sem kannske eiga ekki sinn líka, þ.e. að ríkisstj. missti starfhæfan meiri hl. til að koma frumvörpum í gegnum aðra þd. á Alþingi. Þetta hefur þær afleiðingar, að um framgang þeirra tekjuöflunarfrv., sem fylgja fjárlagafrv., er allsendis óvíst. Það eitt setur auðvitað það strik í afgreiðslu fjárlaga, auk margs annars, að hér er meira og minna um að ræða pappírsgagn sem ekki hefur við neina raunverulega stoð að styðjast í veruleikanum. Það má segja að ríkisstj. getur að nafninu til fengið afgreitt fjárlagafrv. í Sþ., en þau tekjuöflunarfrv., sem því verða að fylgja og óafgreidd eru, er allsendis óljóst um, hvort þau ná fram að ganga í þinginu, þannig að þetta fjárlagafrv., sem er nú rætt við 2. umr. á Alþingi, stendur á brauðfótum.

Það er auðvitað grundvallaratriði, og ég geri ráð fyrir að öllum sé það ljóst og allir séu sammála um það, að við afgreiðslu fjárlaga sé tryggður meiri hl. til afgreiðslu allra teknaþátta að því er fjárlögin varðar. Það liggur alls ekki fyrir nú.

Hæstv. ráðh. hafa sumir hverjir gefið þessu fjárlagafrv. ákveðið heiti. Þetta er kreppufrv., segja þeir. Hæstv. fjmrh. hefur sagt þetta og hæstv. samgrh. — kreppufjárlög fyrir árið 1983. Það er út af fyrir sig rétt, að í ýmsum mikilvægum þáttum er hér um kreppufjárlög að ræða, verði þau afgreidd á þeim nótum sem hér er lagt til. Það er þó ekki um að ræða kreppu að því er varðar þann þátt fjárlagaafgreiðslunnar eða fjárveitinga sem snýr að ráðh. sjálfum, þ.e. ráðuneytunum. Þar ætla hæstv. ráðherrar að taka drjúgum meira sér til handa en öðrum er ættað í fjárveitingu til ýmissa framkvæmda, þjónustu og annars slíks í fjárlagafrv.

Það hefur gerst undanfarið, að hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðar hafa beint umr. um efnahagsmálin og það öngþveiti, sem stjórnarstefnan er komin í, og hefur hún raunar beðið skipbrot, inn á þær brautir að allt sé utanaðkomandi aðstæðum að kenna, utanaðkomandi áhrifum sem ríkisstjórnin ráði ekki við. Auðvitað er þetta í meginatriðum rangt. Það skal hins vegar viðurkennt, að nokkur utanaðkomandi atriði hafa orðið þess valdandi að heldur hefur syrt í álinn. En í meginatriðum er það ástand sem hér ríkir í efnahagsmálum til orðið vegna rangrar og óskynsamlegrar stjórnarstefnu í efnahagsmálum. Og það skal hér skýrt tekið fram, að sá vandi, sem er vissulega fyrir hendi, verður ekki leystur með sífelldum bráðabirgðaráðstöfunum, eins og t.d. brbl. hæstv. ríkisstj., sem út voru gefin á s.l. hausti, sem eru raunar einvörðungu um að skerða laun hjá launafólki. Vandi efnahagsmálanna verður ekki leystur á þann veg einan að skerða laun hjá hinum almenna launamanni. (StJ: Við höfum heyrt þetta áður.) Já, hv. þm. Stefán Jónsson hefur ábyggilega heyrt þetta áður og líklega hefur hann heyrt þetta oftast í eigin þingflokki, ég þykist vita það. (Gripið fram í.) Það er hins vegar æðioft sem vantar samnefnara milli orða og gerða í þeim þingflokki. Það er það sem á skortir. (VG: Það er víðar.) Það er víðar segir hv. þm. væntanlegs flokks, sem hér greip fram í. (Forseti: Ég vil biðja menn að vera ekki með samtöl hér.) (VG: Af hverju ekki?) Það er mér að meinalausu, herra forseti. Ef mönnum er svona mikið niðri fyrir er það leyfilegt að því er mig varðar. (Forseti: Hér er það ekki leyft.)

Það er augljóst, að haldi fram sem horfir að því er varðar stöðu efnahagsmála verður það dökk mynd sem við blasir í þ jóðlífinu strax í byrjun næsta árs. Alþfl. hefur lengi hamrað á því að það þurfi gerbreytta stefnu í efnahagsmálum. Þar er um að ræða breytta stefnu til skemmri tíma til þeirra vandamála sem nú þegar blasa við, en einnig breytta stefnu varðandi efnahagsmálin og úrlausnir þar til lengri tíma. Þessi málflutningur Alþfl. hefur ekki fengið þann hljómgrunn sem skyldi, þó að hins vegar örli á því að í sumum tilvikum hafi aðrir stjórnmálaflokkar tekið upp að nokkru leyti baráttumál og tillögur Alþfl., sem hann hefur flutt hér á Alþingi til breytinga, um aðgerðir í efnahagsmálum, gerbreytta stefnu og gerbreytt vinnubrögð.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1982, þ.e. fyrir um ári, benti Alþfl. rækilega á þær óraunsæju forsendur sem þá voru lagðar til grundvallar fjárlagaafgreiðslunni fyrir árið 1982. Alþfl. benti rækilega á að vinnubrögð af því tagi sem þá voru viðhöfð væru óraunsæ og raunar óverjandi. Ef við víkjum aðeins að þessu að því er varðar afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1982 hefur það raunar komið í ljós og sannast að það sem bent var á af hálfu Alþfl. við þá fjárlagaafgreiðslu var hið rétta í málinu. Það var vikið að því aðeins hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, að það hefur komið í ljós að fyrstu 10 mánuði ársins í ár hafa verið sett upp við hliðina á þeim fjárlögum sem Alþingi afgreiðir fjárlög sem kalla mætti ráðherrafjárlög með aukafjárveitingum upp á tæplega 550 millj. kr. á fyrstu 10 mánuðum ársins. Auðvitað verður þetta reynslan ef áfram verður haldið að hafa rangar forsendur undir fjárlagagerðinni.

Það er nauðsynlegt að líta til baka að því er þetta varðar og gera sér grein fyrir því, að það hefur komið allt saman fram sem bent var á við afgreiðslu fjárl. á s.l. ári. T.d. er nú ljóst, að forsendur fyrir árið 1982, sem lagðar voru til grundvallar í fjárlagafrv. ríkisstj. þá um 33% hækkun verðlags milli ára, hafa víðs fjarri staðist. Nú er orðið ljóst að verðlagshækkanir milli ára eru um 50% og það er æðimikil skekkja, þegar verið er að grundvalla fjárlög ríkisins fyrir heilt ár, og allillt að slík skekkja skuli vera í forsendum sem gefnar eru. Það er því augljóst, að verði haldið áfram á þeirri braut sem nú hefur verið farin verða í gangi meira og minna tvenns konar fjárlög að því er varðar ríkisbúskapinn.

Það er birtur með nál. 2. minni hl. sem fskj. listi yfir þessar aukafjárveitingar og ég hygg að ýmsum leiki forvitni á og hafi gaman af að líta yfir þann lista sem þar er birtur. Ég skal ekki fara út í að taka fyrir einstaka þætti hans, en það er fróðlegt, bæði fyrir þm. og fyrir almenning í landinu, að fylgjast með því hvernig framkvæmdin á sér stað í raun og veru.

Þá er einnig ljóst, eins og bent var á af hálfu Alþfl. við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1982, að útgjöld ríkissjóðs verða í raun miklu meiri en fjárl. gera ráð fyrir í ár. Verðhækkun milli ára 1981 og 1982 er um 50%, en útgjaldaaukning ríkissjóðs er um 58%. Hér er um æðimikinn mun að ræða.

Lítum aðeins á einn þáttinn enn varðandi forsendur þess frv. sem afgreitt var fyrir árið 1982, skattbyrðina. Því var haldið fram sem einni af forsendum fjárlagagerðarinnar fyrir árið 1982, að skattbyrði héldist óbreytt á yfirstandandi ári. Hins vegar hefur komið í ljós að hér var rangt metið, rangt lagt til grundvallar, því að skattbyrði hefur aukist. Það hefur komið í ljós og kemur fram í spá Þjóðhagsstofnunar, ef ég man rétt, að skattbyrði hefur aukist. Það er að vísu ekki tekið fram hversu mikil sú aukning er, en fróðlegt væri að fá um það að heyra hjá hæstv. fjmrh. hversu mikið skattbyrðin hefur í raun og veru aukist, því að fyrir liggur og er viðurkennt að hún er meiri en gert var ráð fyrir.

Enn ein forsenda fyrir afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1982 var sú, að kaupmáttur almennings héldist óbreyttur. Einnig þessi forsenda hefur ekki staðist. Það hefur komið í ljós, að kaupmáttur ráðstöfunartekna á yfirstandandi ári mun minnka um 1–2%. Haldi fram sem horfir að því er varðar stjórn efnahagsmála og það sem við blasir er allt útlit fyrir að kaupmáttur minnki a.m.k. um 6% á næsta ári.

Það sem hér hefur verið tekið til og auðvitað ótalmargt fleira er augljóst merki þess, að forsendur þess fjárlagafrv. sem afgreitt var haustið 1981 voru rangar, þær voru óraunhæfar. En ef litið er til þessarar reynslu er augljóst að þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar því fjárlagafrv. sem nú er til 2. umr. eru enn þá óraunsærri en forsendurnar voru við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1982.

Eins og hér hefur komið fram og margoft hefur verið lýst gefur hin margumtalaða reiknitala, sem menn kalla svo í fjárlagafrv., til kynna 42% verðlagshækkanir milli áranna 1982 og 1983. Ég held að það dyljist engum að það er gersamlega óraunhæft að gera ráð fyrir 42% verðlagshækkun milli áranna í því ástandi sem nú er, enda er það svo, að Þjóðhagsstofnun sjálf spáir að verðlagshækkun milli áranna 1982 og 1983 muni verða um 58% og þá er búið að taka inn í spána þá kauplækkun sem átti sér stað 1. des. s.l. og einnig er búið að taka inn í spá Þjóðhagstofnunar þær ráðstafanir sem hæstv. ríkisstj. segist ætla að gera í peninga- og fjárfestingarmálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Þær forsendur sem fjárlagafrv. byggir á eru því allt aðrar en þær sem Þjóðhagsstofnun gefur sér um þróun mála árið 1983. Að vísu er eitt atriði enn að því er varðar forsendur þessa fjárlagafrv. og spá þess um 42% verðbreytingar næsta ár sem þarf að taka inn í þessa mynd og þess er getið í þjóðhagsspánni líka, en þar er gert ráð fyrir breytingu á vísitöluviðmiðun kaupgjalds. Ef forsenda fjárlaga fyrir árið 1983 um 42% hækkun milli ára ætti að standast og breyttur vísitölugrundvöllur og verðbætur á laun ættu að skýra þann mun sem þarna er á, þá sjá menn að hér er í raun og veru verið að leggja til kjaraskerðingu hjá almenningi í landinu á komandi ári. Mundu þessar spár ganga fram með eðlilegum hætti ætti verðbólga frá upphafi árs 1983 til loka árs 1983 ekki að verða nema 20%. Ég hygg að engum detti í hug að slík spá komi til með að rætast og það sé víðs fjarri því, nema því aðeins, eins og skilja má á annars vegar forsendum fjárlagafrv. og hins vegar spá Þjóðhagsstofnunar, að hér sé verið að leggja til og sigla inn í einhverja stórfelldustu lífskjaraskerðingu sem um getur um langt árabil.

Það er gert ráð fyrir því í frv. að því er varðar launaþróunina að vegin meðalhækkun á árinu 1983 verði um 14.5%, þ.e. 10.5% vegna hækkunar á verðbótum og 4% grunnkaupshækkun. Eigi þetta að standast þurfa víðtækari ráðstafanir í efnahagsmálum til að koma en þegar liggja fyrir, því að þær verðhækkanir, sem urðu í byrjun þessa mánaðar á t.d. landbúnaðarvörum og fleira og ríkisstj. hefur hleypt af stað, þýða 1. febr. n.k. a.m.k. þrefalda hækkun miðað við það sem hér er gert ráð fyrir. Strax 1. mars ætti hér að öllu óbreyttu að verða um þreföld sú hækkun sem forsendur fjárlagafrv. gera ráð fyrir að því er varðar launaþróunina í landinu. Það er full ástæða til að biðja hæstv. fjmrh. um skýringar að því er varðar þennan þátt málsins, hvaða forsendur það séu sem ríkisstj. ætlar sér að byggja á ef þetta á að ná fram að ganga. Ég sé ekki betur en með slíku sé verið að boða stórfellda kjaraskerðingu og sumum þykir nóg um það sem af er þó að ekki bætist við enn frekar og þá eins stórtækt og hér sýnist vera gert ráð fyrir.

Hvað boðar núv. fjárlagafrv. að því er varðar skattamál? Aukning tekna ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga á árinu 1982 mun vera um 70%. 70% hækkun tekjuskatts einstaklinga verður á árinu 1982 á sama tíma og laun hækkuðu ekki nema um 52%. Þarna er um æðimikinn mun að ræða og þyngingu skatta að því er varðar tekjuskattinn. En hvað boðar fjárlagafrv. það sem nú er verið að ræða fyrir árið 1983 að því er varðar skattamál í þessu tilfelli? Það er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga á árinu 1983 eigi að hækka um 55%. 55% hækkun verður á tekjuskatti einstaklinga á árinu 1983 á sama tíma og ríkisstj. virðist ætla að stöðva launahækkunina við 34%. Enn skal haldið lengra á þeirri braut að þyngja skattaálögur á almenning á sama tíma og stórkostlegar kjaraskerðingar eru framkvæmdar. Þetta er enn eitt dæmið um — ég sé ekki betur — að forsendur frv. geri ráð fyrir stórfelldri kjaraskerðingu, kjararýrnun, eigi þær forsendur sem það byggir á að standast.

Ég vék að því áðan að hæstv. ráðherrar hafa sjálfir gefið þessu fjárlagafrv. heitið kreppufrv. Það er mín skoðun, að í slíku ástandi, þegar að kreppir, sé ekki síst skylda stjórnvalda að gæta réttlætis og jöfnunar í útdeilingu þeirra fjárframlaga sem ríkið veitir á ári hverju til framkvæmdaþátta hinna ýmsu. Nú er það kunnugt öllum, að orkuframkvæmdir munu hafa algeran forgang á næsta ári og kannske næstu árum. Í ljósi þess er það skylda stjórnvalda að sjá svo um að framkvæmdafjárveitingar til þeirra landssvæða sem ekki njóta forgangs í orkuframkvæmdum séu ekki skornar niður, en meðhöndlaðar á sama hátt og forgangsframkvæmdir. Mér sýnist að það sé víðs fjarri að til þessa hafi verið litið. Ég vil nota tækifærið hér til að koma á framfæri megnustu óánægju minni með að ekki skyldi tekið meira tillit til framkvæmdafjárveitinga af hálfu ríkisins á næsta ári í ljósi þessara staðreynda. Ég bendi t.d. á Vestfirði. Þar er um að ræða landshluta sem á engan hátt kemur til með að njóta neinna þeirra framkvæmda sem eiga að hafa forgang af hálfu ríkisins á næsta ári. Þess vegna hefði verið full ástæða til þess og raunar skylda ríkisvaldsins að sjá svo um, að framkvæmdafjárveitingar til þess kjördæmis m.a. væru með þeim hætti að séð væri sómasamlega fyrir atvinnuástandi þar á næsta ári, eins og meiningin er að gera í þeim kjördæmum sem njóta kunna orkufrekra framkvæmda og njóta forgangs.

En víkjum aftur að nafngift hæstv. ráðherra á fjárlagafrv., kreppufjárlög. Eins og ég sagði áðan er ekki að sjá að hæstv. ráðherrar ætli sér að missa neinn spón úr aski að því er fjármagn varðar á árinu 1983. Þeir hafa séð svo um, og ætla sér að sjá svo um, að þeirra eigin stofnanir, reksturinn í rn., toppurinn í ríkiskerfinu, haldi miklu meira eftir af fjárveitingum og fái drýgri fjárveitingar en öðrum framkvæmdaþáttum er ætlað að búa við miðað við það ástand sem nú er í uppsiglingu. Það er t.d. nokkuð fróðlegt að skyggnast um og athuga hver hækkunin er á hinum ýmsu yfirstjórnum í hinum ýmsu rn.

Ef menn skoða þetta kemur t.d. í ljós að til yfirstjórnarinnar í menntmrn. þarf að hækka framlag um 55,6% frá því sem er í ár á sama tíma og.hinum mikilvægustu málaflokkum og framkvæmdum, eins og hafnarmálum og öðrum slíkum, er ætlað að búa við 42% hámark. Framkvæmdafjárlög til hinna ýmsu framkvæmdaþátta hafa að vísu, að því að best verður séð, farið allt niður í 30% miðað við það sem er gert ráð fyrir í fjáragatill. fyrir árið 1983.

Hjá yfirstjórninni í utanrrn. á hækkun að vera 57,5% á sama tíma og meðaltalshækkun á ekki að vera nema 42% hjá öðrum. Í sjútvrn. á yfirstjórnin að hækka um 57.4%. Í dóms- og kirkjumrn. á yfirstjórnin að hækka um 52.6%. Hjá félmrn. á yfirstjórnin að hækka um 53.6%. Heilbr.- og trmrh. ætlar ekkert að missa af sínu, því þar á yfirstjórnin að hækka um 67.6%. Og sjálft fjmrn., sem ætti nú að sýna gott fordæmi og þykjast geta lifað á sama skammti og það ætlar öðrum í þjóðfélaginu á næsta ári, ætlar sér 55.4% hækkun á sama tíma og það skammtar öðrum miklu naumar. Yfirstjórnin í samgrn. á að hækka um 54.5% og iðnrh. ætlar að taka sinn skerf. Þar þarf 63.4% hækkun frá því sem er í ár.

Á sama tíma og hægt er að rekja svona hækkanir á yfirstjórn hjá ráðh. sjálfum í rn. ætla þeir til hinna ýmsu brýnustu og nauðsynlegustu framkvæmda víðs vegar um landið hækkun á bilinu frá 28 til 30%. Í nokkuð mörgum tilfellum hækka ráðh. framlög til yfirstjórnar í rn. nær tvöfalt meira 1982–1983 en þeir ætla öðrum í þjóðfélaginu að búa við á sama tímabili. Ekki verður þetta kölluð aðhaldsstefna í fjármálum ríkisins.

Á sama hátt má segja að það er greinilegt miðað við frv. að sama óráðsía í rekstri ríkisins á að halda áfram og verið hefur. T.d. á að hækka liðinn Önnur rekstrargjöld um 73.5%. Á sama tíma og forsenda frv. um verðbreytingar milli ára er 42% eiga önnur rekstrargjöld að því er varðar ríkið sjálft að hækka um 73.5%.

Ekki er ástæða til að gleyma t.d. þeim þætti í þessu máli öllu saman sem eru niðurgreiðslur, en sá liður á að hækka um hvorki meira né minna en 80%.

Það vekur athygli mína líka að því er varðar frv. til fjárlaga, sem hér er til umr., að á sama tíma og svona naumt er skammtað til framkvæmdaþátta sem eru undirstöðuframkvæmdir, undirstaða undir allt athafnalíf og atvinnulíf í landinu, er t.d. gert ráð fyrir að framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna hækki um 82%. Nú erum við að tala um það sem er á þessari stundu. Trúlega á þetta eftir að hækka og kannske verulega. Á sama tíma eru líka auknar lántökuheimildir til þessa sama sjóðs um 80%. Allt er þetta gert af ríkisstj. Það er verið að tala um hennar verk. En svo skýtur nokkuð skökku við. Á sama tíma og 82% hækkun skal verða á framlagi til Lánasjóðs ísl. námsmanna á t.d. ekki að hækka framlag til Byggingarsjóðs ríkisins nema um 33% og til Byggingarsjóðs verkamanna um 41.5% — ekki einu sinni þá prósentutölu í hækkun sem forsendur frv. gera ráð fyrir að verði breytingin á milli ára.

Ég minni á einnig að t.d. skal framlag til Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra hækka um 42%, en h já ráðh. sjálfum er allt upp í milli 70 og 80% hækkun.

Á sama tíma og til Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra er ætluð 42% hækkun er liðurinn Landbúnaður, framlög, hækkaður um 78%. Sjá menn nú ekki hversu geigvænlegt ósamræmi og raunar óréttlæti er þarna á ferðinni af hálfu hæstv. ríkisstj. í tillögum til framkvæmda og fjárveitinga til hinna ýmsu þátta þjóðlífsins á árinu 1983? Liðurinn Landbúnaður, framlög, hækkar um 78.91%, en Félagsheimilasjóður fær framlag ríkissjóðs hækkað um 42%. Þarna er enn um helmings hækkun að ræða í landbúnaðarþættinum umfram t.d. Félagsheimilasjóð, sem skuldar mörg ár aftur í tímann einstaklingum sem hann á að standa skil. Það er svo langur skuldahalinn og háar upphæðirnar að það er alveg augljóst að haldi áfram þetta fjársvelti Félagsheimilasjóðs verður liðið á annan áratug áður en sjóðurinn getur staðið skil á því sem hann á að standa skil á lögum samkvæmt.

En á sama tíma og hækkun ríkissjóðs á framlagi til Félagsheimilasjóðs er 42% og til Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra 42% er þó hækkunin til Háskólans, sem hvað mest hefur verið býsnast yfir að væri svo lítil, og væntanlega á eftir að koma þrýstihópur þaðan til að þrýsta á um verulega hærri fjárveitingu en þarna er um að ræða, um 53.1%. 53.1% hækkun verður á framlögum til Háskólans þó að þar hafi verið stunið undan óréttlætinu.

Þannig mætti halda áfram að telja, fara í gegnum fjárlagafrv. og bera saman hina ýmsu liði og þætti sem þar er gert ráð fyrir að styðja við bakið á, en þó með eins geigvænlega miklum mun og hér hefur verið frá greint.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða öllu lengri tíma í að vitna til samanburðar af því er þetta snertir, en ég minni enn einu sinni á að mér virðist að það sé víðs fjarri að gætt sé samræmis að því er varðar tillögur til fjárveitinga til hinna ýmsu stofnana og þátta í því frv. sem hér er nú til 2. umr.

Ég vil þó ekki skilja við þennan þátt án þess að minnast sérstaklega á einn lið úr fjárlögum yfirstandandi árs. Liðurinn heitir Orkujöfnunargjald og var upp á um 190 millj. í fjárlögum yfirstandandi árs, þ.e. skattlagning á þjóðfélagsþegna til að jafna orkuverð í landinu. Aðeins um 20 millj. af þessum 190 munu hafa verið notaðar til jöfnunarinnar á þessu ári. Mismunurinn hefur farið í ríkishítina, sem aldrei var ætlunin og engin lög heimila. Nú bregður svo við, að þessi liður er strikaður út úr fjárlagafrv. og sést hvergi, en er settur inn í tekjur af söluskatti. Eins og menn muna var um að ræða þegar þetta var á sett, muni ég rétt, um 1.5 söluskattsstig. Mér sýnist allt benda til þess að hæstv. ráðh. hafi verið farnir að finna til undir þeim þunga sem að þeim hefur beinst vegna þess óréttlætis sem þeir hafa beitt með því að taka ófrjálsri hendi meginhlutann af því fjármagni sem fékkst með þessari skattlagningu og nota það til annars og hafa viljað koma í veg fyrir a.m.k. að liðurinn Orkujöfnunargjald minnti fólk á óréttlætið áfram, hafa því blandað því inn í söluskattstekjurnar hjá ríkissjóði. Þessi skattlagning mun gefa á árinu 1983 hátt í 300 millj. kr., sem á að taka af almenningi í landinu til jöfnunar orkuverðs, þar sem er gífurlegur mismunur milli hinna ýmsu staða. 300 millj. á að taka og bæta í ríkishítina ráðh. sjálfum til handa til útdeilingar - eða hver er skýringin á því, hæstv. fjmrh., að þessi liður er strikaður út úr frv.? Hver skyldi vera skýringin á því að þessi liður, sem er í fjárlögum yfirstandandi árs og heitir orkujöfnunargjald, sem gaf rúmar 190 millj. í ár og mun gefa í kringum 300 millj. næsta ár, finnst nú hvergi sem sérstakur liður í frv.? (Gripið fram í.) Hefur hæstv. fjmrh. nokkra skýringu? Já, hann er það, en hver er ástæðan? Það er það sem vantar. Af hverju stendur hann ekki áfram óbreyttur sem sérstakur liður í fjárlagafrv., eins og hann gerir í fjárlögum yfirstandandi árs? Hver er skýringin á því? (Fjmrh.: Þess gerist ekki þörf.) Vegna hvers ekki? Vegna hvers gerist þess ekki þörf? (Fjmrh.: Af því að þetta er ekki markaður tekjustofn.) Hefur minnkað þörfin á því að jafna þennan mun frá því sem er á yfirstandandi ári? Ber að skilja þetta frammíkall hæstv. fjmrh. svo, að það sé meining hans og hæstv. ríkisstj. að ráðstafa ekki eyri af þessum skattpeningum til jöfnunar orkuverðs? (Fjmrh.: Nei.) Hvað á mikið af því að fara til þess? Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hér hversu miklu af þessum 300 millj. á að verja til hins upprunalega verksviðs þessarar skattheimtu, jöfnunar á orkuverði. Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað á mikið af þessum 300 millj. að fara til þess verkefnis sem lögin gerðu ráð fyrir og gera ráð fyrir enn? (Fjmrh.: Það má lesa um það í fjárlögum.) Nei. Hæstv. fjmrh., hafi honum vafist þarna tunga um tönn, skýri frá því síðar.

Mér finnst, eins og ég hef áður sagt, að með þessu háttalagi sé hæstv. ríkisstj. að koma aftan að almenningi í landinu, sem er skattlagður til að jafna þennan ákveðna þátt, en peningarnir svo notaðir til alls annars. Mér liggur við að segja að framkoma af þessu tagi sé ekki sæmandi hæstv. ráðh. og ríkisstj. — að skattleggja almenning á gersamlega fölskum forsendum eins og hér er gert.

Herra forseti. Það er augljóst að verði fjárlög fyrir árið 1983 afgreidd á þeim forsendum, sem frv. gerir ráð fyrir, er visvítandi verið að blekkja fólk. Tilgangurinn er augljóslega sá og sá einn að fela þá staðreynd að stefna núv. ríkisstj. í efnahags- og fjármálum hefur beðið skipbrot.

Stefna núv. ríkisstj. í efnahags- og fjármálum hefur þegar orðið þjóðinni dýrkeypt, en hún á eftir að verða ennþá dýrkeyptari ef að fram heldur sem horfir og eins og líkur benda til. Öllum er ljóst að allir helstu atvinnuvegir landsmanna eru að stöðvast eða þegar stöðvaðir og komnir í greiðsluþrot. Þjóðin lifir nú, og hefur lifað lengst af þann tíma sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið að völdum, á gegndarlausum erlendum lántökum. Auk þess finna launþegar allhastarlega fyrir þeirri efnahagsstefnu og fjármálastefnu sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt og er að beita og ætlar greinilega, eigi að marka forsendur þessa fjárlagafrv. og spá Þjóðhagsstofnunar, að framkvæma miklu stórfelldari kjaraskerðingu en um getur um langt árabil. Það er við þessar aðstæður sem Alþingi er ættað að afgreiða fjárlög fyrir 1983 og á gersamlega röngum forsendum sem ekki fá staðist.

Við þetta bætist svo, og það kórónar í raun og veru alla málsmeðferð af hálfu hæstv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst hæstv. fjmrh., að hvorki lánsfjárlög né lánsfjáráætlun hafa verið sýnd, a.m.k. veit ekki stjórnarandstaðan í Alþfl. hvað þar kann að hanga á spýtunni, en afgreiðsla þeirra mála er auðvitað hluti af ríkisfjármálum. Það er ekki sýnt. Að öllu þessu athuguðu er það hrein firra og raunar hneyksli að ætla Alþingi að afgreiða slíkt brauðfótafrv. til fjárlaga sem hér er á ferðinni.

Alþfl. varar mjög alvarlega við eins óraunhæfri afgreiðslu og hér er lögð til og lýsir ábyrgð á hendur hæstv. ríkisstj. og vill ekki trúa því að ríkisstj. sé svo heillum horfin og misbjóði svo virðingu Alþingis að ætta því að afgreiða fjárlög á eins óábyrgan hátt og hér er lagt til.

Alþfl. mun ekki, í ljósi þeirrar stöðu sem málið er nú í, flytja brtt. við þessa umr. Alþfl. minnir enn á að hann einn flokka á Alþingi hefur margítrekað bent á nauðsyn breyttrar stefnu í efnahagsmálum og vísar til margfluttra frv. hér á Alþingi af hálfu flokksins þeirri stefnumörkun til staðfestingar.