14.12.1982
Sameinað þing: 29. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

1. mál, fjárlög 1983

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 169. Þessi brtt. felur í sér að í 4. gr. 02 999 undir yfirskriftinni Ýmislegt komi inn þrír nýir liðir til þriggja kvenfélagasambanda, Sambands norðlenskra kvenna, Sambands austfirskra kvenna og sambands vestfirskra kvenna. Farið er fram á 3000 kr. til hvers þessara sambanda fyrir sig.

Málavextir í þessu máli eru þeir, og ég hlýt að taka það fram hér í upphafi, að áratugum saman, að ég hygg, hafa þessir liðir verið inni á íslenskum fjárlögum. Þeir voru það á síðastliðnu ári þar til kom fram undir mitt árið 1982 að hinir slyngu sláttumenn í hagsýslustofnun og fjmrn. tóku til við að spara. Þá voru þessir liðir látnir hverfa af fjárlögum íslenska ríkisins. Ekki skal ég mæla því í mót að sparnaðar er þörf á ýmsum sviðum í okkar þjóðlífi, en mér fannst að þarna væri nú langt seilst, að kippa út einu þúsundi frá hverju þessara kvenfélagasambanda, sem verið hefur fastur fjárlagaliður í gegnum árin.

Kvenfélagasambönd á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum hafa notið þessa styrks frá ríkinu umfram önnur kvenfélagasambönd á landinu vegna þess að aðstæður í þessum landshlutum eru á ýmsan hátt erfiðari vegna mjög mikilla samgönguerfiðleika og dreifbýlis þannig að kostnaður allur við starf félaganna og samband félaganna á milli í hverjum landshluta verður þeim mun meiri sem erfiðara er að ná saman.

Sú upphæð, sem þessi kvenfélagasambönd hafa fengið gegnum árin, hefur auðvitað hvergi nærri, og mjög langt í frá, fylgt almennri verðlagsþróun. Upphæðin var um tíma 25 þús., fór upp í 50 þús. og síðast upp í 100 þús. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um gamlar krónur. Hér er gert ráð fyrir að 1 þús., sem á fjárl. var síðast, verði 3 þús. handa hverju sambandi.

Ég skil ekki að þetta ráði ýkjamiklu um afkomu íslenska ríkisins og vissulega dugar það skammt til þeirra fjölmörgu verkefna sem kvenfélögin úti um land beita sér fyrir. Ég hygg að af hálfu Alþingis, eins og í mínum huga, hafi í gegnum tíðina verið litið á þessa upphæð sem viðurkenningu og hvatningu fremur en umbun og því síður laun fyrir hinar ótöldu vinnustundir íslenskra kvenna innan kvenfélagasamtakanna. Það er óhætt að segja að allt það starf hefur verið unnið í þágu menningar- og framfaramála.

Óhætt er að fullyrða að kvenfélögin úti um allt land hafi með starfi sínu sparað bæði sveitarfélögum og ríkinu stórfé í beinhörðum peningum. Kvenfélögin ganga yfirleitt hávaðalaust til starfa, eru ekki dugleg að auglýsa eða básúna það sem þau eru að gera hverju sinni. Ég hygg þó að almenningur í landinu meti starf þeirra að verðleikum og sýnu fátæklegra yrði um að lítast á sviði menningar- og félagsmála ef þessa starfs þeirra nyti ekki við. Það á ekki síst við úti um hinar dreifðu byggðir landsins þar sem kvenfélögin halda í mörgum tilvikum uppi því eina félagsstarfi sem til er að dreifa.

Ég geri mér grein fyrir að ég ætti sem ábyrgur þm. að gera tillögu til lækkunar annars staðar í fjárlagafrumvarpinu á móti því sem ég fer fram á til viðbótar, en mér fannst satt að segja, þessi upphæð, sem ég er að tala hér um, það lítil að það tæki því varla. Hins vegar festi ég auga á vissum lið í frv. sem hugsanlega mætti sniða eitthvað af. Það er liður sem heitir Önnur rekstrarútgjöld menntmrn. og nemur 5.3 milljónum kr. eða næstum helmingi af launagreiðslum rn. skrifstofunnar sem hér er um að ræða. Algerlega er þetta ósundurliðað og ég hef satt að segja ekki hugmynd um til hvers það á að fara.

En maður spyr, þegar verið er að tala um þetta litlar upphæðir til að styðja við eitthvert gott mál: Hvað um allar aukagreiðslur hinna ýmsu rn. sem fara fram úr árlega svo og svo mikið í alls konar rekstrarútgjöldum? Hvar kemur það í dagsljósið? Væntanlega er hægt að finna það í ríkisreikningnum. Ég trúi ekki að með tilliti til allrar þeirrar eyðstu og að ég er hrædd um óhóflega miklu eyðslu í rekstri ríkisins almennt séu einar 9 þús. kr. stór hluti sem þurfi að velta mjög vöngum yfir.

Ég hef átt tal um þetta við okkar ágæta formann fjvn., sem að sjálfsögðu gætir þeirrar skyldu sinnar að halda í hvað hann getur, en það er oft erfitt um vik. Mér hefur verið svarað til af honum og fleirum í fjvn.: Við hækkuðum drjúgum framlag til Kvenfélagasambands Íslands og Kvenfélagasamband Íslands á að geta miðlað kvenfélagasamböndunum úti um landið einhverju af þeim fjármunum sem til þess fellur á fjárlögum ríkisins. En á síðasta ári nam fjárveiting til Kvenfélagasambands Íslands 150 000 kr. Hún er hækkuð í ár úr 150 000 í 210 000. Staðreyndin er hins vegar sú, að í umsókn Kvenfélagasambands Íslands til fjvn. er farið, í mjög vel sundurliðaðri fjárhagsáætlun, fram á 358 000 til að geta staðið undir þeirri starfsemi sem Kvenfélagasamband Íslands innir af höndum, m.a. í rekstur leiðbeiningarstöðvar húsmæðra, sem ég hika ekki við að segja að gegnir mjög þörfu og mikilvægu hlutverki, enda er annríkið það mikið á þessari skrifstofu, sem ekki er hægt peningaleysis vegna að halda opinni nema hálfan daginn, að hún fær vart annað öllum þeim beiðnum um upplýsingar og leiðbeiningar sem bæði varða heimilisrekstur, innkaup til heimila og allt að því lútandi. Þarna er því virkilega enginn hégómi á ferð. Það er því tómt mál að tala um að Kvenfélagasambandið geti miðlað kvenfélagasamböndunum úti um land.

Það er líka bent á kvenfélögin. Kvenfélögin geta borgað til sinna félaga — er sagt. Það er alveg rétt, enda gera þau það og gera það í vaxandi mæli. Meðal annars leggja þau hvert sinn skerf til Kvenfélagasambands Íslands til þess að það geti sinnt sínu hlutverki að sinna ýmiss konar fræðslustarfsemi og menningarstarfsemi. Það er ekki bara það sem varðar heimilisstörf innan veggja heimilisins. Þau hafa fjölmargt á sinni stefnuskrá; garðyrkju, skógrækt og þar fram eftir götunum. Að öllu sem lýtur að framförum og ég vil segja betra og fegurra mannlífi vinna kvenfélögin. Þau gera það hávaðalaust, eins og ég sagði, án þess að ætlast til þess að þeim sé hrósað eða hælt fyrir það.

Ég hef verið brýnd á því sem sjálfstæðismaður, að ég vilji vera að sækja um styrk til ríkisins til að halda uppi frjálsu félagsstarfi. Þetta er að vissu leyti rétt athugasemd. En ég lít ekki á þetta sem fjárfúlgur til að halda uppi félagsstarfinu. Ég lít á þetta sem hvatningu og smástuðning við mikilvægt áhugamannastarf. Það er fjöldinn allur af félögum inni á fjárlögum sem nýtur smástuðnings frá ríkinu einmitt þess vegna. Það er ekki verið að standa undir þeirra starfi, heldur viðurkenna það og örva félagsmenn til frekari dáða. Það er þetta sem fyrir mér vakir með flutningi þessarar litlu breytingartillögu, að þessu merka starfi, sem íslenskar konur úti um allar byggðir landsins vinna í þágu góðra þjóðþrifamála, sé ekki gleymt.

Ég vil líka minnast sérstaklega á í þessu sambandi að þetta eru félög sem standa utan við alla flokkspólitík. Þarna taka konur höndum saman alveg án tillits til þess hvaða pólitískum flokki þær tilheyra. Ég verð að segja að það færi betur ef við Íslendingar gætum víðar litið framhjá flokkspólitíkinni og unnið saman án tillits til hennar að þeim málum sem við þurfum að ná fram.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta frekar hér. Ég vona að þessi litla tillaga njóti skilnings hv. alþm. Ég held hún kollvarpi ekki fjárhag ríkisins og ég held hún sé sanngjörn og réttmæt. Ég ætla að brottfelling þessara liða af fjárlögum á árinu 1982 sé til komin fyrir hugsunarleysi eða jafnvel vangá fremur en vanmat á hinu gagnmerka og óeigingjarna starfi íslenskra kvenfélaga fram á þennan dag.