25.10.1982
Sameinað þing: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Snögg umskipti til hins verra hafa orðið í þjóðarbúskap Íslendinga á þessu ári. Heimskreppan, sem þjakað hefur efnahagslíf allra nálægra þjóða mörg undanfarin misseri, hefur gert vart við sig hérlendis með fullum þunga og meiri erfiðleikum en nokkurn mann óraði fyrir við upphaf ársins. Um leið og kreppan í efnahagsmálum umheimsins hefur leitt til verðfalls og sölutregðu á framleiðslu landsmanna hefur orðið tilfinnanlegur brestur í fiskveiðum, undirstöðu efnahagslífs Íslendinga.

Á síðustu árum varð veruleg aukning á sjávarafla. Á sama tíma versnuðu viðskiptakjör þjóðarinnar stórlega. Kaupmáttur útflutningsframleiðslunnar hefur þannig rýrnað um 13% frá árunum 1977 og 1978, þegar þjóðin naut sem bestra kjara á erlendum mörkuðum. Þetta er tilfinnanlegt tjón, en þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður hefur okkur tekist fram á þetta ár að bæta lífskjörin með mikilli framleiðsluaukningu. Þegar framleiðslan dregst skyndilega saman verður skellurinn stór og áfallið þungt.

Á þessu ári hefur hvert áfallið öðru þyngra dunið yfir atvinnulíf landsmanna með þeim afleiðingum að allar forsendur í efnahagsmálum hafa gerbreyst á ótrúlega skömmum tíma.

Þegar ég flutti stefnuræðu fyrir réttu ári virtist um marga hluti bjart fram undan. Erfiðleikar voru vissulega fyrir hendi, en þeir voru gamalkunnir og úrræði lágu fyrir um hvernig við þeim skyldi bregðast. Mikilsverður árangur hafði náðst í efnahagsmálum á því ári, 1981, og fyrir lágu spár sérfræðinga sem á voru reistar áætlanir um áframhaldandi árangur. Allar þær spár og öll sú þekking, sem fyrir lá um þetta leyti í fyrra, benti til þess að með þeirri stefnu, sem mörkuð hafði verið, mundi landsmönnum auðnast að sigla áfram stóráfallalaust í gegnum þann ólgusjó alþjóðaefnahagsmála sem leitt hefur til óhugnanlegs ástands í atvinnumálum í löndunum allt í kring.

Því var spáð af hlutlausum sérfræðingum, að útflutningur Íslendinga mundi aukast að verðmæti um 3 til 4% í ár. Í þess stað mun hann líklega dragast saman um 12–13%. Einnig töldu sérfræðingar, að jöfnuður mundi nást í viðskiptum landsmanna við útlönd á þessu ári. Þess í stað hefur myndast halli á viðskiptum okkar, sem rekja má beint til samdráttar í útflutningsframleiðslu og sölutregðu á erlendum mörkuðum. Talið var fyrir ári að þjóðarframleiðsla Íslendinga mundi aukast um 1% á þessu ári, en þess í stað mun hún að öllum líkindum dragast saman um 3.5% .

Á öllum þessum spám, sem enginn maður var í aðstöðu til að rengja, voru reistar áætlanir um áframhaldandi hjöðnun verðbólgu. Þær áætlanir hafa ekki staðist vegna brostinna forsendna um fiskafla og útflutningsverðmæti. Á þessum spám voru einnig reistar þær vonir að unnt yrði að halda kaupmætti óbreyttum eða jafnvel að bæta hann nokkuð annað árið í röð. Nú eru hins vegar horfur á að kaupmáttur ráðstöfunartekna muni dragast saman í ár, en þó miklu minna en búast mætti við vegna þeirra áfalla sem yfir hafa dunið. Þannig er talið að kaupmáttur ráðstöfunartekna muni minnka um 1% á yfirstandandi ári. Á næsta ári mun kaupmátturinn óhjákvæmilega minnka enn vegna minnkandi tekna þjóðarinnar. Á síðasta ári var hér á landi hæsti kaupmáttur ráðstófunartekna sem nokkru sinni hefur þekkst. Í ár býr þjóðin þannig við kaupmátt sem er aðeins einu prósentustigi minni en það besta sem hér hefur orðið.

Það er nú eins og áður, að í rauninni byggjast spár, útreikningar og áætlanir sérfræðinga og stjórnvalda á hverjum tíma á því í meginatriðum hve mikinn fisk landsmönnum tekst að draga úr sjónum og við hvaða verði útlendingar eru tilbúnir að kaupa þann fisk. Hvorttveggja gerðist í senn, að brestur varð á fiskafla og hitt, að vegna ömurlegra efnahagsaðstæðna víða um heim hafa viðskiptavinir vorir erlendis einfaldlega ekki bolmagn til þess að kaupa framleiðslu okkar því verði sem hún hefur kostað okkur. Hversu mikið sem við deilum um ástæðurnar fyrir efnahagserfiðleikum okkar, þá verða það allt smáatriði hjá þessum einföldu staðreyndum.

Þrátt fyrir þessi tvíþættu áföll, sem ég hef hér rakið, hefur okkur Íslendingum þó auðnast eitt, sem aðrar þjóðir í okkar heimshluta hafa ekki borið gæfu til. Hér á landi hefur verið full atvinna allt þetta ár. Í þeirri svartsýni, sem gerir vart við sig þegar illa árar, megum við Íslendingar ekki gleyma því, að tekist hefur að sneiða hjá þeim hörmungum sem yfir nágranna okkar hafa gengið, þar sem tíundi hver maður eða meira gengur atvinnulaus mánuðum og árum saman án þess að nokkuð virðist ætla að rofa til. Þetta er það sem alla alþýðu þessa lands skiptir mestu. Prósentubrot til eða frá í kaupmætti skipta litlu í samanburði við þá þjóðarógæfu sem slíkt fjöldaatvinnuleysi er.

Í þeirri umræðu, sem fram fer um markmið og leiðir í efnahagsmálum, megum við aldrei gleyma því, að þó að við búum í gjöfulu landi er það ekki neitt náttúrulögmál sem segir að hér á Íslandi verði ekki atvinnuleysi. Það sýnir reynsla grannþjóðanna og raunar okkar eigin reynsla svo ekki verður um villst.

Á miklu ríður fyrir framtíð okkar að við berum áfram gæfu til að standa saman og skipta byrðunum jafnt í stað þess að láta undan og dæma þúsundir landa okkar úr leik í atvinnulífinu. Þannig veltur á miklu hvernig við bregðumst við þeim áföllum sem svo snögglega hafa dunið yfir.

Stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum má setja fram í fjórum meginþáttum:

Í fyrsta lagi að draga verulega úr viðskiptahalla, þannig að á næstu tveimur árum megi í áföngum ná hallalausum viðskiptum við önnur lönd.

Í öðru lagi að treysta undirstöður atvinnulífsins með aðgerðum til að auka framleiðni og framleiðslugetu þjóðarbúsins og tryggja þannig öllum landsmönnum næga atvinnu.

Í þriðja lagi að verja lægstu laun eins og unnt er fyrir þeim samdrætti sem orðið hefur í þjóðartekjum.

Í fjórða lagi að veita viðnám gegn verðbólgu.

Til þess að ná þessum fjórum meginmarkmiðum setti ríkisstj. í s.l. ágústmánuði brbl. sem innihalda þessi meginatriði:

Dregið er úr víxlgangi kaupgjalds og verðlags með helmingslækkun verðbóta á laun 1. desember n.k. og samræmdri lækkun búvöru- og fiskverðs. Aflað er tekna á þann hátt að dregið mun úr viðskiptahalla. Tekjunum verður ráðstafað til jöfnunar lífskjara. Um leið og gengi krónunnar var breytt til að styrkja stöðu atvinnuveganna og draga úr viðskiptahalla var helmingi gengismunar varið til sérstakra ráðstafana í þágu sjávarútvegs, einkum vegna erfiðleika í togaraútgerð.

Auk þessara meginatriða í brbl. ákvað ríkisstjórnin að standa að ýmsum aðgerðum til þess að stuðla að meginmarkmiðum sinum í efnahagsmálum. Nokkur helstu atriði þessara aðgerða eru eftirfarandi:

Að taka upp nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun að undangengnum frekari viðræðum við aðila vinnumarkaðarins; að stöðva innflutning fiskiskipa í tvö ár, gera auknar kröfur til eigin fjárframlags við nýsmíði innanlands og beina verkefnum við breytingar og viðhald flotans til innlendra skipasmíðastöðva í auknum mæli; að setja hertar matsreglur og viðurlög til þess að tryggja betri meðferð á afla og auka framleiðslugæði; að efna til stóraukinnar fræðslu um gæði og vöruvöndun í íslenskri framleiðslu; að örva útflutning með nýjum útflutningstryggingum og efldu útflutningslánakerfi; að draga úr þörf fyrir útflutningsuppbætur með því að stuðla að samdrætti í kjötframleiðslu með aðstoð hins opinbera, þannig að framleiðsla haldist framvegis í hendur við innanlandsneyslu og nýtanlega erlenda markaði; að efla loðdýrarækt og aðrar nýjar búgreinar með útflutning í huga; að undirbúa sérstakt árak í markaðsmálum íslenskra afurða erlendis; að gefa frjálsa verðlagningu á innlendum iðnaðarvörum sem eiga í óheftri erlendri samkeppni; að samræma útlánareglur, lánstíma og vaxtakjör fjárfestingalánasjóða atvinnuveganna; að undirbúa löggjöf um að stjórnendur ríkisstofnana, ráðuneyta og ríkisbanka verði framvegis ráðnir til fimm ára í senn; að leggja aukna áherslu á sparnað í opinberum rekstri og sporna við útþenslu í ríkiskerfinu; að takmarka erlendar lántökur til samræmis við markmið um viðskiptajöfnuð; að draga úr heildarfjárfestingu og beita ýmsum aðgerðum til þess að draga úr innflutningi; að endurskoða skipulag og útgjöld til heilbrigðismála; að endurskoða tekjuöflun í kerfi hins opinbera með það fyrir augum að jafna starfsskilyrði atvinnuveganna; að vinna að því að samræma aðstöðugjöld á atvinnurekstri með lækkun gjaldsins á iðnað og landbúnað; að verja 175 millj. kr. á þessu og næsta ári til láglaunabóta og skattendurgreiðslna til þess að tryggja jöfnun lífskjara; að veita 85 millj. viðbótarframlag til Byggingarsjóðs ríkisins til þess að auðvelda fólki að koma sér upp eigin húsnæði; að efna til viðræðna við viðskiptabanka og sparisjóði um lengingu lána til atvinnuvega og til húsbyggjenda; að stefna að aukinni hlutdeild starfsmanna og meðábyrgð þeirra í stjórnun fyrirtækja og stofnana; að beita sér fyrir frestun á umfangsmiklum byggingaframkvæmdum opinberra stofnana og fyrirtækja þar sem ástæða þykir til; að jafna húshitunarkostnað með sérstöku átaki og kom fyrsti áfangi þess til framkvæmda 1. október s.l. að leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins um þá breytingu á orlofslögum að laugardögum og frídegi verslunarmanna verði sleppt í talningu orlofsdaga. — Þannig hefur ríkisstj. sett sér fjögur meginmarkmið í efnahagsmálum og markað stefnu í samræmi við þessi markmið.

Þau áföll, sem yfir þjóðarbúið hafa dunið og hér að framan hafa verið rakin, hafa leitt til mikils halla á viðskiptum Íslendinga við útlönd. Miðað við þann árangur, sem náðist í efnahagsmálum á s.l. ári, og þær spár um framvindu efnahagsmála, sem fyrir lágu í fyrrahaust, var talið að ná mætti hallalausum utanríkisviðskiptum á árinu 1982 þrátt fyrir að spáð væri nokkurri rýrnun viðskiptakjara. Í stað aukins útflutnings eru nú hins vegar horfur á að hann minnki um 12–13% á þessu ári.

Um leið og tekjur þjóðarinnar minnkuðu jókst innflutningur hröðum skrefum framan af þessu ári og varð 8–10% meiri að magni til á fyrra helmingi ársins en hann hafði verið árið á undan. Það er nú eitt allra brýnasta verkefnið í íslenskum efnahagsmálum að draga svo skjótt sem auðið er úr hinum mikla halla á utanríkisviðskiptum þjóðarbúsins og eyða honum alveg á næstu tveimur árum. Þetta var einn megintilgangur efnahagsráðstafana ríkisstjórnarinnar í ágúst og þeirra brbl. sem sett voru þá um leið.

Til þess að tryggja árangur af gengislækkun krónunnar í ágúst var nauðsynlegt að hemja víxláhrif verðlags og kaupgjalds af hennar völdum með því að takmarka verðbætur á laun. Að öðrum kosti hefðu efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar skilað litlum árangri, en magnað verðbólgu.

Sá viðskiptahalli sem við er að glíma mun nema um 10% af þjóðarframleiðslu þessa árs. Með þeim aðgerðum sem ríkisstj. hefur ákveðið er mjög dregið úr viðskiptahallanum og er að því stefnt með áframhaldandi gát á þessu mikilvæga atriði að helminga hallann þegar á næsta ári og eyða honum alveg á árinu 1984.

Annað meginverkefni íslenskra efnahagsmála er að treysta undirstöður atvinnulífsins með aðgerðum — til aukningar framleiðni og framleiðslugetu þjóðarbúsins. Aðeins með mikilli atvinnuuppbyggingu á sem flestum sviðum atvinnulífsins verður unnt að tryggja öllum landsmönnum næga atvinnu í framtíðinni. Atvinnuöryggi verður áfram eitt meginmarkmið efnahagsstefnu ríkisstj. Frá því markmiði verður ekki hvikað. Þetta er slíkt meginatriði fyrir þjóðfélagslegan frið og velferð alls almennings að hafa verður markmiðið um fulla atvinnu að leiðarljósi við mótun stefnu á öllum sviðum efnahagsmála. Ríkisstj. mun ekki fórna þessu markmiði fyrir eitthvað skjótteknari árangur í baráttunni við verðbólguna. Forsenda fullrar atvinnu og bættra lífskjara í framtíðinni er fjárfesting í auðlindum og atvinnuvegum þjóðarinnar. Þó nú sé þörf nokkurs samdráttar í neyslu og fjárfestingu megum við ekki draga svo saman seglin að fjárfesting okkar í framtíðarmöguleikum þjóðarinnar minnki verulega. Þess í stað eigum við að leggja áherslu á að beina framkvæmdafé þjóðarinnar inn á þær brautir sem líklegastar eru til að auka þjóðarframleiðslu og atvinnu á komandi árum. Hér þarf að fara saman stórhugur og aðgát.

Ríkisstj. mun áfram vinna að stórfelldri uppbyggingu orkuframleiðslu.

Þá hefur ríkisstj. ákveðið að gera átak í vöruvöndun og gæðaeftirliti með íslenskri framleiðstu til að auka verðmæti þeirra afurða sem við framleiðum.

Þá má nefna, að því mikla átaki sem staðið hefur yfir í vegamálum verður fram haldið á næsta ári og áfram samkvæmt vegáætlun sem samþykkt var á þessu ári.

Þegar illa árar er það mikilvægara en nokkurn annan tíma að hafa gát á skiptingu þjóðarteknanna. Það er eitt af meginmarkmiðum efnahagsstefnu stjórnarinnar að jafna lífskjör og bæta hag hinna lakast settu. Á síðustu árum hafa lífskjör Íslendinga batnað verulega, þrátt fyrir margháttaða erfiðleika í efnahagsmálum. Þannig jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um milli 4 og 5% á síðasta ári. Í ár mun kaupmáttur dragast örlítið saman, en þó er því spáð að kaupmáttur ráðstöfunartekna verði aðeins um 1% minni en það besta sem þjóðin hefur áður þekkt, en það var kaupmáttur ársins í fyrra. Á næstu mánuðum og misserum þurfum við Íslendingar að búa okkur undir nokkurn samdrátt lífskjara.

Á miklu veltur fyrir þjóðfélagsfrið og samstöðu þegnanna að unnt reynist að deila þessum byrðum sem jafnast niður þannig að þeir sem við lökustu kjörin búa þurfi ekki að taka á sig umtalsverðar byrðar af áföllum þjóðarinnar. Í þessu skyni verða viðræður við samtök launafólks um hvernig verja skuli 175 millj. kr. á þessu og næsta ári til láglaunabóta og til skattendurgreiðslna. Að auki hefur ríkisstj. ákveðið, eins og fram var tekið, að tvöfalda framlag til Byggingarsjóðs ríkisins, en stærsta kjarabót almennings í landinu er auðveldun á öflun húsnæðis til eigin nota. Í undirbúningi er sérstakt átak í þessum efnum og er stefnt að því að hækka að raungildi lán úr Byggingarsjóði ríkisins til þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn.

Þá má nefna áfanga í jöfnun húshitunarkostnaðar, sem kom til framkvæmda 1. okt. s.l.

Á s.l. ári náðist mikill árangur í baráttu við verðbólguna. Hún lækkaði þá á einu ári úr 60% í um 40%. Ríkisstj. stefndi að því í upphafi þessa árs að ná enn verulegum áfanga í verðbólguhjöðnun, miðað við þær forsendur sem kunnar voru um s.l. áramót, en þá var gott útlit fyrir að nokkuð tækist að þoka verðbólgunni niður á árinu. Þau áföll sem útflutningsframleiðsla landsmanna hefur orðið fyrir á þessu ári gerðu þessar óskir að engu. Við þær aðstæður sem skapast höfðu um mitt þetta ár var öllu öðru mikilvægara að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi og draga úr viðskiptahalla. Gengislækkun krónunnar var óhjákvæmileg leið í þessum efnum.

Um leið og gengislækkunin og þær hliðarráðstafanir sem gerðar voru henni samfara munu ná þeim árangri sem að var stefnt, þ.e. að draga úr viðskiptahalla og tryggja áframhaldandi rekstur útflutningsatvinnuveganna, fól þetta í sér að slaka varð á markmiðum í verðlagsmálum. Við þessar aðstæður gæti of aðhaldssöm stefna í efnahagsmálum leitt til atvinnuleysis, eins og gerst hefur í nágrannalöndunum og valdið mjög umtalsverðum samdrætti kaupmáttar. Ríkisstj. telur að ekki eigi að leysa aðsteðjandi efnahagsvanda með því að stofna til atvinnuleysis. Hins vegar leggur ríkisstj. höfuðáherslu á að verðbólgunni verði haldið í skefjum og í því skyni komi til framkvæmda þær aðgerðir sem ríkisstj. hefur þegar ákveðið.

Skjóttekinn árangur í verðlagsmálum með stórfelldum lífskjarasamdrætti getur reynst skammvinnur. Reynslan erlendis sýnir að tilraunir til að leysa verðbólguvandann með atvinnuleysi eru sársaukafullar og geta leitt menn út í fen sem þeir komast ekki út úr. Þó að verðbólgan sé ein höfuðmeinsemd hins íslenska efnahagslífs verða menn að gæta þess að efna ekki til enn stórfelldari vandamála með vanhugsuðum tilraunum til lausnar á þessum þráláta vanda íslensks efnahagslífs.

Á s.l. árum hefur tekist að ná þeim mikilsverða árangri sem er hallalaus rekstur í ríkisbúskapnum. Á árunum 1975–1978 komust skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann upp í 4–5% af þjóðarframleiðslu, en við síðustu áramót var þetta hlutfall komið niður í rúmlega 1 %. Þannig hefur ekki einungis tekist að reka ríkissjóð án skuldasöfnunar s.I. þrjú ár, heldur hefur reynst unnt að greiða til baka mikinn meiri hluta þeirra skulda sem ríkissjóður hafði safnað vegna hallareksturs um og eftir miðjan síðasta áratug. Allar horfur eru á að á þessu ári verði einnig mjög viðunandi útkoma á fjármálum ríkisins.

Þessi mikilsverði árangur í ríkisfjármálum hefur náðst með því að beita aðhaldi í rekstri stofnana og fyrirtækja ríkisins. Á þessu ári hefur þetta aðhald enn verið hert með ýmsu móti. Fjárlagafrv. fyrir árið 1983 mótast enn af því meginmarkmiði sem einkennt hefur stjórn ríkisfjármála í tíð núverandi ríkisstjórnar, en það er hallalaus rekstur ríkissjóðs. Samdráttur þjóðartekna mun gera leiðina að þessu markmiði torsóttari en fyrr. Því mótast stefnan í ríkisfjármálum fyrir næsta ár mjög af þeirri eindregnu viðleitni að draga svo úr ríkisútgjöldum sem frekast er unnt.

Traust fjármálastjórn ríkisins á undanförnum árum gerir okkur kleift að forðast að bæta niðurskurði á félagslegri þjónustu við lífskjarasamdrátt, eins og gerst hefur viða í kringum okkur.

Þrátt fyrir að samdráttur efnahagslífsins dragi úr tekjum ríkissjóðs er áformað að afborganir ríkissjóðs af lánum verði hærri en þau lán sem tekin verða þannig að skuldir ríkissjóðs minnki enn á næsta ári, fjórða árið í röð. Þetta skiptir verulegu máli fyrir framvindu peningamála, en ríkissjóður hefur á undanförnum misserum haft áhrif í átt til jafnvægis í peningamálum gagnstætt því sem verið hafði um langt skeið.

Í þróun peningamála hefur á þessu ári gætt skorts á jafnvægi. Dregið hefur hlutfallslega úr aukningu sparifjár, en útlán hafa vaxið meira en verðlagsbreytingum nemur. Ráðstafanir verður að gera til að koma hér betra jafnvægi á. Á síðasta ári varð hins vegar mikil aukning á sparifé landsmanna. Þetta var gleðileg og mikilvæg þróun, sem framhald þarf að verða á. Það er ekki síst mikilvægt í því skyni að auka innienda fjármögnun atvinnuveganna og opinberra framkvæmda og draga þannig úr þörf á erlendum lántökum og er ein forsenda þess að árangur náist við að eyða viðskiptahallanum.

Um s.I. áramót féllu verðstöðvunarákvæði laga úr gildi.— Þar með var meira en áratugar löng verðstöðvun afnumin.

Í janúarmánuði var lögð fram á Alþingi skýrsla ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum. Þar sagði m.a. um verðlagsmál:

„Í verðlagsmálum verði við það miðað að draga úr opinberum afskiptum af verðmyndun og auka sveigjanleika í verðmyndunarkerfinu. Tekið verði upp nýtt fyrirkomulag, sem miðar að því að verðgæsla komi í vaxandi mæli í stað beinna verðlagsákvæða“.

Í framhaldi af þessari yfirlýsingu voru síðan samþykktar á Alþingi breytingar á verðlagslöggjöfinni, sem miðuðu að því að auka sveigjanleika í verðmyndunarkerfinu. Verðlagsyfirvöld hafa síðan unnið að undirbúningi verðgæslukerfis og í því sambandi átt viðræður við ýmis hagsmunasamtök atvinnuveganna.

Stefnt er að því, að í vetur verði unnt að fella undan beinum verðlagsákvæðum ýmsar greinar innlendrar vöruframleiðslu sem eiga í óheftri samkeppni við innfluttar iðnaðarvörur. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna aðgerða í efnahagsmálum í lok ágúst s.l. var undirstrikað að gefa ætti verðlagningu á þessum vörum frjálsa. Jafnframt því að stefna að afnámi beinna verðlagsákvæða þar sem því verður við komið verður með markvissum hætti unnið að kynningarstarfsemi til að styrkja verðskyn kaupenda og seljenda.

Stefna ríkisstj. í fjárfestingarmálum á þessu ári og því næsta tekur mið af þeim erfiðleikum sem þjóðarbúið á við að glíma. Megináhersla er lögð á að draga verulega úr opinberum framkvæmdum á næsta ári. Opinberar framkvæmdir hafa talsvert dregist saman á þessu ári, enda var beinlínis að því stefnt með aðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum í upphafi ársins.

Á s.l. árum hefur náðst verulegur árangur í því að styrkja eiginfjárstöðu fjárfestingarlánasjóða með bættri ávöxtun á fé sjóðanna. Jafnframt hefur verið unnt að draga úr beinum framlögum ríkisins til lánasjóða atvinnuveganna. Enn vantar þó nokkuð á að útlánareglur og vaxtakjör þessara sjóða séu sambærileg. Verður unnið að því á næstunni að samræma þetta. Það er stór liður í viðleitni ríkisstj. til að jafna starfsskilyrði atvinnuveganna. Auk þess hefur það áhrif í þá átt að draga úr óarðbærum framkvæmdum, sem ráðist hafa af vildarkjörum á fjármagni.

Allt frá því að ríkisstj. tók við í ársbyrjun 1980 hefur jafnt og þétt verið unnið að því að lagfæra stöðu fiskvinnslunnar, en hún hafði versnað mjög verulega mánuðina á undan. Með aðlögun gengis að innlendum kostnaði, ýmsum aðgerðum til sparnaðar, endurgreiðslu á fjármagnskostnaði og breytingu á vaxtakjörum afurðalána tókst undir lok síðasta árs að tryggja jákvæða afkomu fiskvinnslunnar. Afkoma útgerðar var einnig betri á síðasta ári en oft áður. Áður en aflabrestur og önnur áföll tóku að dynja yfir s.l. vetur var staða fiskvinnslu og útgerðar með betra móti. Á þessu ári hefur sjávarútvegur lent í miklum erfiðleikum vegna aflabrests og sölutregðu. Loðnan, sem á undanförnum árum hefur staðið undir um tíunda hluta af útflutningstekjum landsmanna, hefur á þessu ári að mestu leyti horfið úr okkar þjóðarbúskap. Þá hafa þorskveiðar dregist stórlega saman á þessu ári.

Vegna þessara áfalla versnaði staða útgerðarinnar mjög verulega. Í ágúst var gripið til umfangsmikilla aðgerða til að lagfæra rekstrargrundvöll útgerðarinnar. Eftir þessar aðgerðir er rekstrarstaða útgerðar botnfiskveiða talin vera neikvæð um 2–5%, sem er betri staða en mjög oft áður, en um miðjan síðasta áratug var togaraútgerð landsmanna árum saman rekin með miklu meiri rekstrarhalla en þessar tölur gefa til kynna.

Þeir miklu erfiðleikar, sem gengið hafa yfir útgerð og fiskvinnslu á þessu ári, hafa haft víðtæk áhrif á allt efnahagslíf landsmanna. Áður en þessir erfiðleikar dundu yfir var staða þessara undirstöðugreina sterkari en oft áður og getum við því vonandi litið á þessa erfiðleika sem tímabundna. Við þeim hefur verið brugðist og að þessum málum er stöðugt unnið. Þó að hér sé að mestu leyti um að ræða erfiðleika sem rekja má beint til árferðis og efnahagsörðugleika erlendis, þá er ýmislegt, bæði í útgerð og fiskvinnslu, sem endurskoðunar þarfnast. Fiskveiðifloti landsmanna hefur náð þeirri stærð að ekki er lengur hagkvæmt að auka þar við. Af þessum sökum ákvað ríkisstj. í ágúst að leggja bann við innflutningi fiskiskipa.

Á liðnu vori samþykkti Alþingi samhljóða þál. um stefnu í iðnaðarmálum, þar sem áhersla er lögð á nauðsyn öflugrar iðnþróunar á næstu árum og bent á leiðir að því marki. Að framkvæmd þessarar stefnu er nú unnið m.a. með ákvörðun sem ríkisstj. tók í ágúst um endurskoðun á tekjuöflunarkerfi hins opinbera til þess að jafna starfsskilyrði atvinnuveganna, lækkun aðstöðugjalds á iðnað og frjálsa verðlagningu á innlendum iðnaðarvörum sem eiga í óheftri samkeppni.

Ríkisstjórnin hefur markað stefnu um opinber innkaup ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana á vörum og þjónustu og leitast verður við að gera hlut innlends framleiðslu- og þjónustuiðnaðar í uppbyggingu orku- og iðjuvera sem mestan. Sérstaki átak er að hefjast til að örva stofnun smáiðnaðarfyrirtækja. Starfsemi iðnráðgjafa í landshlutunum hefur þegar gefið góða raun og víða er á döfinni stofnun svæðisbundinna iðnþróunarfélaga og sjóða til eflingar iðnaði. Hafnar eru framkvæmdir við sjóefnavinnslu á Reykjanesi og í undirbúningi er bygging steinullarverksmiðju og stálbræðslu. Fyrirtæki hefur verið stofnað um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og er gert ráð fyrir að hún rísi á næstu árum. Unnið er að hagkvæmnisathugun vegna ýmissa greina í orkufrekum iðnaði, m.a. trjákvoðuverksmiðju og áliðju.

Í orkumálum hefur mikið áunnist við að auka hlut innlendra orkugjafa í húshitun og draga úr olíunotkun. Mikilvægir áfangar hafa náðst í verðjöfnun á orku, fyrst með jöfnun á verði raforku til almennra heimilisnota, og skref hefur verið stigið í lækkun á raforkuverði til húshitunar. Með viðtækum samningum milli ríkisins og Landsvirkjunar í ágúst s.l. um virkjanir og yfirtóku byggðalína er tryggt að sama gjaldskrá gildi um afhendingu rafmagns í heildsölu frá Landsvirkjun í öllum landshlutum.

Alþingi samþykkti samhljóða 6. maí þáltill. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu. Með henni er dreginn rammi um meginverkefni í raforkuframkvæmdum til næstu 10 til 15 ára og ákveðin stærri skref í virkjun fallvatna en áður hafa verið tekin.

Framkvæmdum við Hrauneyjafossvirkjun lýkur að mestu í ár. Hafnar eru framkvæmdir við Blönduvirkjun og verður virkjunin tekin í notkun eigi síðar en á árinu 1987. Unnið er að undirbúningi Fljótsdalsvirkjunar með það fyrir augum að hún geti hafið rekstur árið 1990. Samhliða byggingu þessara virkjana á Norður- og Austurlandi verður unnið að því að treysta stöðu virkjana á Suðurlandi og síðan að því að ljúka við Sultartangavirkjun, en nú er unnið að stíflugerð sem mun nýtast henni.

Hafin er könnun vegna hugsanlegra olíulinda innan íslenskrar lögsögu, m.a. með borunum við Flatey á Skjálfanda. Samkomulag hefur orðið við Norðmenn um skiptingu hafsbotns milli Íslands og Jan Mayen og gert ráð fyrir samvinnu um rannsóknir á þessu sviði.

Ríkisstj. hefur kynnt stefnu sína í landbúnaðarmálum með þáltill. á Alþingi. Meginatriði þeirrar stefnu eru að framleiða landbúnaðarafurðir með þeirri fjölbreytni sem landkostir, veðurfar og markaðsskilyrði leyfa, að tryggja efnahagslegt sjálfstæði og félagslegt jafnrétti bændafólks og eignar og umráðarétt þess á bújörðum, að leggja áherslu á að varðveita náttúruauðæfi landsins, landkosti og hlunnindi bújarða og eðlilega byggð í landinu.

Í samræmi við þessa stefnu mun ríkisstj. áfram vinna að því að framleiðsla landbúnaðarins verði í samræmi við innlendan markað og erlenda markaði sem teljast viðunandi. Í þessu skyni verður m.a. haldið áfram að auka fjölbreytni framleiðslunnar með eflingu nýrra búgreina, en jafnframt með nýjungum í markaðsmálum og vinnslu búvara fyrir innlendan og erlendan markað. Unnið verður að athugun á nýjum leiðum til að hafa áhrif á framleiðslumagn í þeim tilgangi að móta meginlínur eftir héruðum eða framleiðslusvæðum sem draga úr afskiptum af umsvifum einstaklinga. Jafnframt verður gerð sérstök athugun á fjárhagsstöðu bænda.

Þegar ríkisstj. tók við völdum í byrjun 1980 var bundið slitlag á vegum um 270 km alls. Á þremur sumrum, 1980 og 1981 og nú í sumar, hefur verið bætt við um 380 km og hefur þannig miklu meira verið bætt við á þremur árum en framkvæmt hafði verið samanlagt öll árin á undan. Síðustu tvö árin hefur verið lagt á yfir 140 km hvort ár. Stefnt er að því að halda áfram á sömu braut. Stærri hluta þjóðarframleiðslunnar er nú varið til vegamála en áður eða um 2.2 %.

Ríkisstj. hefur nýlega tekið ákvörðun um tvöföldun á framlagi ríkisins til hins almenna húsnæðiskerfis. Nú er unnið að mikilsverðum breytingum á fjármögnun húsnæðismála með það fyrir augum að auðvelda róðurinn þeim sem byggja eða kaupa húsnæði í fyrsta sinn. Stefnt er að auknu samstarfi bankakerfisins, lífeyrissjóða og Byggingarsjóðs ríkisins til hagsbóta fyrir húsbyggjendur.

Það er tvímælalaust ein mikilvægasta kjarabót sem nokkur launþegi getur fengið að auðvelda honum að koma sér upp húsnæði. Með því átaki sem gert hefur verið í byggingu verkamannabústaða og þeim áföngum sem nú eru í undirbúningi í almenna húsnæðislánakerfinu eru stigin stór skref í þá átt að allur almenningur ráði við þennan stóra þátt í útgjöldum sínum.

Unnið er að endurskoðun jafnréttislaga og sömuleiðis að frv. um stjórn umhverfismála.

Með stofnun Framkvæmdasjóðs aldraðra og þeirri vinnu sem lögð hefur verið í þessi mál á síðustu misserum ætti senn að ljúka því neyðarástandi sem skapast hafði í hjúkrunarmálum aldraðra á höfuðborgarsvæðinu. Nú hefur verið lögð áhersla á að hækka tekjutryggingu aldraðra og er nú samanlagður ellilífeyrir og tekjutrygging hærra hlutfall af kauptöxtum en nokkru sinni fyrr. Þá hefur verið unnið að víðtækri stefnumótun í málefnum aldraðra og liggur fyrir frv. sem er þungamiðja þeirrar stefnumótunar.

Reksturskostnaður sjúkrastofnana hefur vaxið hröðum skrefum hér á landi, eins og raunar víða annars staðar. Nú hefur verið hrundið af stað víðtækri könnun á því máli. Á næsta ári mun heilbrmrn. undirbúa áætlun til fimm ára um forvarnarstarf í ýmsum þáttum heilbrigðismála. Einkum er að því stefnt að auka upplýsingamiðlun til heilsuverndar. Þá hefur sérstaki átak verið undirbúið í áfengismálum og ávana- og fíkniefnamálum.

Þannig er unnið að fjölmörgum málum á sviði félagsog heilbrigðismála, en hér er um að ræða snaran þátt í lífskjörum almennings.

Á síðasta þingi voru samþykkt ýmis merk lög á sviði menntamála, svo sem lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands, lög um Listskreytingasjóð ríkisins, lög um námslán og námsstyrki o.fl. Í ráði er að flytja einnig á yfirstandandi þingi ýmis frv, sem snerta skólamál og almenn menningarmál. Lögð hefur verið áhersla á röskleg átök við byggingu þjóðarbókhlöðu.

Utanríkisstefna Íslands byggist á góðum samskiptum við öll ríki, þátttöku í Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og alhliða samstarfi Norðurlanda. Áfram verður unnið að því að styrkja hlut Íslands í alþjóðlegu samstarfi og áhersla lögð á að styrkja hverjar þær aðgerðir sem geta dregið úr spennu í samskiptum ríkja, stöðvað vígbúnaðarkapphlaupið og stuðlað að raunhæfum samningum um afvopnun. Fulltrúar Íslands munu leggja þeim öflum lið sem vilja vinna gegn aukinni tilhneigingu til verndunaraðgerða í milliríkjaviðskiptum og stuðla þannig að því að ríkjandi efnahagskreppu linni sem fyrst.

Í dómsmálum verður áfram unnið að umbótum á löggjöf sem stuðlar að hraða og öryggi í meðferð dómsmála. Lögð er áhersla á að veita upplýsingar, aðstoð og leiðbeiningar þeim sem þurfa að ná rétti sínum.

Herra forseti. Það ár sem nú er að líða hefur orðið okkur erfitt um marga hluti. Heimskreppan hefur sótt okkur heim með óvæntum þunga og um leið hefur sjávarafli minnkað. Við þurfum nú að framleiða miklu meira en fyrir fáum árum til þess eins að halda í horfinu því að framleiðsla okkar hefur ekki hækkað í verði neitt nálægt því sem allir aðdrættir okkar hafa hækkað. Um leið hefur það gerst á þessu ári að sjávarafli hefur stórlega minnkað frá því sem var í fyrra og misserin á undan. Fram á þetta ár stóðum við af okkur heimskreppuna með því að framleiða stöðugt meira og gerðum þannig betur en að vinna upp það raunverulega verðfall sem orðið hefur á framleiðslu okkar. Þetta brást í ár og nú finnum við fyrir köldum vindum þeirrar kreppu sem svipt hefur tugi mill j. manna í nálægum löndum atvinnu og lífsafkomu. Um leið og við hörmum þessi áföll megum við ekki tapa áttum í þeirri svartsýnisþoku sem jafnan leggst yfir þegar erfiðlega gengur. Við skulum meta stöðu okkar og framtíðarmöguleika raunsæjum augum.

Í fyrsta lagi getum við fagnað því, að á Íslandi einu landa í okkar heimshluta hefur ekki komið til atvinnuleysis. Slíkt ástand er sem fjarlæg draumsýn öllum nágrönnum okkar, þar sem milljónir fullveðja manna eru ekki lengur þátttakendur í atvinnulífinu. Slíkum hörmungum hefur verið afstýrt á Íslandi og við verðum að leggja á það alla áherslu að standa af okkur vinda kreppunnar á þann hátt að landsmenn allir skipti á sig byrðunum í stað þess að deila þeim ójafnt niður svo sem gerst hefur sums staðar í kringum okkur.

Í öðru lagi skulum við minnast þess, að kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings hefur aldrei orðið hér jafn mikill og hann varð í fyrra. Að vísu mun hann á þessu ári lítillega dragast saman og á næsta ári eitthvað meira, en það er samdráttur frá því sem við höfum þekkt best.

Í þriðja lagi skulum við minnast þess, að við búum í landi með mikla möguleika og suma þeirra erum við nú fyrst að byrja að nýta. Við verðum að halda áfram að fjárfesta í framtíð okkar, þó að hér eins og annars staðar verðum við að sýna meiri aðgát en áður. Þar þarf að fara saman gát og stórhugur. Um leið og við sýnum fulla og aukna aðgát skulum við minnast þess, að það er bjartsýni og stórhug að þakka að við búum hér við ysta haf við góð lífskjör.

Fram undan eru margar hættur í okkar þjóðarbúskap. Handan þeirra skerja er hins vegar mikil framtíð fyrir okkar litlu þjóð. Á öllu veltur að við stöndum saman, tökumst á við erfiðleikana, en verðum ekki sundrungaröflum að bráð. Aðeins með því að fylgja stefnu sem tryggir þjóðfélagsfrið og samstöðu alls almennings getum við klakklaust komist í gegnum skerjagarðinn og sigrast á erfiðleikunum.