15.12.1982
Sameinað þing: 30. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

1. mál, fjárlög 1983

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þessi fjárlagaliður er táknrænn fyrir það samtryggða bákn og þá pólitísku peningaspillingu, sem allt of margir hér vilja kyrrt, en við hins vegar mörg, aðallega fyrir utan þetta hús þó, viljum burt. Skynsamlegt væri að áætlunardeild í byggðamálum starfaði á vegum rn., t.d. félmrn., en þessi fjárhæð kemur því auðvitað ekkert við. Þetta eru nefndir, ráð pólitískra manna, sem eru að hygla vinum sínum að langmestu leyti. Þetta er táknrænt mál fyrir það sem við verðum að losna við í þessu samfélagi. Það er lærdómsríkt að sjá hv. þm. Sjálfstfl. greiða atkv. til þriggja átta, eða svo margra sem hægt er í þessu máli, og kemur engum á óvart. Þessa stofnun á auðvitað að leggja niður eins og hún leggur sig, því að hún er dæmi um þá peningaspillingu í þröngum pólitískum hringum, sem verður að útrýma. Ég segi nei.