25.10.1982
Sameinað þing: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði að veita ætti á næsta ári 85 millj. kr. viðbótarframlag til Byggingarsjóðs ríkisins. Það er gott og blessað, en sú upphæð er þó ekki nema litill hluti af því sem núv. ríkisstj. hefur af sjóðnum haft. Ef fyrri markaðir tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins væru óskertir fengi hann á næsta ári 380 millj. kr. framlag, en fær aðeins 156,5 millj. samkv. fjárlagafrv. að meðtöldum þeim 85 millj. sem forsrh. gat um, langt innan við helming þess sem sjóðurinn hefði fengið ef núv. ríkisstj. hefði látið markaða tekjustofna hans í friði.

Á yfirstandandi ári fær húsnæðislánakerfið í heild, Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna, vel innan við helming þess sem það hefði fengið að óskertum tekjustofnum. Afleiðingarnar blasa líka alls staðar við. Almennum nýbyggingarlánum hefur fækkað um þriðjung, langt niður fyrir það sem svarar til eðlilegrar íbúðarþarfar, og félagslegum íbúðarbyggingum fer einnig fækkandi ef svo heldur fram sem horfir. Ungu fólki og öðrum, sem vilja byggja eða kaupa íbúð í fyrsta sinn á almennum markaði, er það orðið með öllu óviðráðanlegt. Fólkið, sem mest þarf á húsnæði að halda, er horfið af markaðinum, það er bjargarlaust. Forsjá ráðh. Alþb. í húsnæðismálum var nýlega nefnd af flokksbróður þeirra og í þeirra eigin málgagni „hægfara lífskjaraskerðing sem bitna mun á heilli kynslóð ungs fólks“. Í þessum málum verður að snúa við blaði. Það verður að hefja nýja sókn að þeim markmiðum, sem Alþfl. setur fram í frv. sínu árið 1979, sem m.a. fólu það í sér að almenn nýbyggingarlán hækkuðu á fáum árum í 80% byggingarkostnaðar og önnur lán eftir því. Ef stefnu frv. Alþfl. hefði verið fylgt væri nýbyggingarlán Byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári minnst 40% byggingarkostnaðar, en er 16–17%, hvort tveggja miðað við staðalíbúð eins og Húsnæðisstofnun reiknar þær út. Eftir að séð varð hver stefna ríkisstj. í þessum málum er hafa þm. Alþfl. flutt hvert lagafrv. á fætur öðru, til að freista þess að bjarga því sem bjargað verður fyrir húsbyggjendur, án verulegs árangurs.

Hæstv. forsrh. sagði einnig að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi aldrei verið meiri en á síðasta ári. Auðvitað ætti þetta að vera rétt, enda þjóðartekjur þá hærri en nokkru sinni fyrr. Ég efast þó stórlega um að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi verið jafnmikill og af er látið. Í öllum útreikningum á verðbólgu og kaupmætti er notast við löngu úreltan málstokk, framfærsluvísitöluna.

Margar ríkisstjórnir hafa svindlað á víkinni, eins og einokunarkaupmenn forðum daga, en engin eins hrikalega og núv. ríkisstj. Hjá henni er svindlið orðið að vísindagrein. Ég tek nýlegt dæmi. Í ágúst s.l. var ákveðið að greiða stórlega niður verð á innfluttum kartöflum. Til niðurgreiðslnanna átti að verja 4 millj. kr. og var búist við að þær giltu í 2–3 vikur eða þar til innlendar kartöflur kæmu á markaðinn. Þessar skammtíma niðurgreiðslur lækkuðu framfærsluvísitöluna um 1.4% næsta ársfjórðunginn og lækkuðu því laun í landinu um 70 millj. Fjögurra millj, kr. niðurgreiðsla lækkaði laun um 70 millj. Ef við yfirfærum þetta á meðalfjölskyldu í landinu þá lítur dæmið svona út: 70 kr. af skattgjöldum fjölskyldunnar eru notaðar til að greiða niður kartöflukaup sömu fjölskyldu um sömu upphæð. En vegna þess hve verðbólgan er talin hafa lækkað mikið vegna þessa lækka laun sömu fjölskyldu næstu þrjá mánuðina um 1 230 kr. Auðvitað er þetta gróf kjaraskerðing þó að mælingar sýni ekki að svo sé. Það lækkar ekki verðbólguna þó að klippt sé af málbandinu sem hún er mæld með. Málstokkurinn er bæði úreltur og margfalsaður og því vart treystandi til að mæla kaupmátt launa.

Árin 1980 og 1981 voru þjóðarbúinu um flest mjög góð. Hvert aflametið á fætur öðru var slegið, verðlag útflutningsafurða var hátt og mikil hækkun dollarans var einstakt búsílag, þegar á heildina er litið, þjóðartekjur hærri en nokkru sinni áður. En hvernig voru þessi góðu ár notuð? Voru þau notuð til að byggja upp fyrir framtíðina? Nei. Voru þau notuð til að safna í sjóði til magrari ára? Þvert á móti. Fjármagni var í stórum stíl sóað í óarðbærar fjárfestingar, sem engum arði skila í þjóðarbúið en binda okkur bagga um langa framtíð, og stórfelld erlend neyslulán voru tekin í mesta góðæri. Áfram var offjárfest í landbúnaði til að auka framleiðslu á vörum sem við getum ekki selt. Áfram var haldið að kaupa fiskiskip til landsins í stórum stíl þótt afkastageta þess flota sem fyrir var væri miklu meiri en fiskistofnar okkar þola. Og ekki má gleyma garminum henni Kröflu þótt eldri sé en allir núverandi stjórnarflokkar. Alþb., Framsfl. og Sjálfstfl. bera ábyrgð á þeirri virkjun og margir núv. ráðherrar komu þar alveg sérstaklega við sögu.

Af þessum fjárfestingum og mörgum öðrum þurfum við að bera mikinn kostnað um langa framtíð án nokkurs arðs. Vegna Kröflu þarf hver meðalfjölskylda í landinu að greiða 3 800 kr. skatt á næsta ári, vegna útflutningsuppbóta þarf sama fjölskylda að greiða 5 500 kr. og vegna togarakaupa síðustu tveggja ára a.m.k. 4 000 kr. Samtals þarf hver fjölskylda í landinu að greiða vegna þessara þriggja óarðbæru fjárfestingarliða a.m.k. 13 300 kr. í aukna skatta á næsta ári án þess að fá nokkuð í staðinn.

Í heild eru þær upphæðir sem hér er um að ræða liðlega 800 millj. kr. á næstu árum. Þetta er tvisvar sinnum hærri upphæð en verja á til allra nýframkvæmda í vegagerð á landinu öllu. Þetta er álíka há upphæð og nemur öllu framkvæmdafé ríkissjóðs til skólabygginga, sjúkrahúsa, hafna, flugvalla og vegaframkvæmda á landinu öllu. Sú skattlagning sem sérhver meðalfjölskylda á landinu öllu verður fyrir vegna þessara þriggja vitlausu fjárfestingarpósta, sem núv. stjórnarflokkar allir þrír bera ábyrgð á en Alþfl. einn flokka hefur ævinlega varað við, jafngildir 8% skerðingu á ráðstöfunarfé allra launþega í landinu. Það munar um minna.

Herra forseti. Það er greinilegt að þjóðin er og hefur lengi verið tilbúin til að færa fórnir ef þær eru nauðsynlegar og koma réttlátlega niður og ef hægt er að sýna frá á að þær geri gagn, bæði til skamms og langs tíma. Það er því sorglegt að núv. ríkisstj. hefur ekki notfært sér þennan góða vilja þjóðarinnar til verulegra og varanlegra endurbóta á efnahagskerfinu. Þessari ríkisstj. hefur verið sýnt meira umburðarlyndi en flestum öðrum. Þrátt fyrir það hefur hún aldrei komið sér niður á aðgerðir í efnahagsmálum, sem horfa til framtíðar, aldrei komið sér saman um neins konar kerfisbreytingar þótt augljós nauðsyn blasi hvarvetna við. Það eina sem ríkisstj. hefur komið sér saman um eru bráðabirgðaaðgerðir, þegar allt er að komast í þrot, bráðabirgðaaðgerðir sem svo til eingöngu snúast um kjaraskerðingu launþega. Önnur ráð hefur ríkisstj. ekki fundið.

Ég viðurkenni að stundum eru þær aðstæður í þjóðfélaginu vegna heimatilbúins eða utanaðkomandi vanda, eða hvors tveggja eins og nú er, að tímabundin kjaraskerðing er nauðsynleg, en þó aldrei nema sem liður í víðtækum aðgerðum sem horfa til framtíðar. Í slíkum tilvikum verður að tryggja að árangur aðgerðanna verði varanlegur, að fórnir séu ekki færðar til einskis, að þeim verst settu verði hlíft. Ekkert af þessu gera brbl. ríkisstj. og því er Alþfl. þeim andvígur.

Alþfl. hefur og hefur haft um margra ára skeið fullmótaðar tillögur um gerbreytta efnahagsstefnu, tillögur bæði til skamms og langs tíma. Alþfl. vill ekki skjóta sér undan ábyrgð í þessum málum fremur en öðrum, og alveg fráleitur er sá áróður málgagna stjórnarliða að stjórnarandstaðan verði að samþykkja léleg brbl. um léleg efnahagsúrræði, en standa ella ábyrg fyrir afleiðingum af þriggja ára misheppnaðri efnahagsstefnu núv. ríkisstj.

Þó að við eigum nú við ýmsa örðugleika að stríða, þá er síður en svo ástæða til að örvænta. Árin 1967 og 1968 átti þjóðin við margfalt meiri erfiðleika að etja en nú, en var þó fljót að vinna sig út úr þeim. Af núv. ríkisstj. er þó lítils að vænta í þessum efnum. Henni fórst sigling þjóðarskútunnar illa í blásandi byr árin 1980 og 1981 og því við litlu að búast þegar kula tekur á móti. Við getum snarlega rétt þjóðarskútuna við ef við erum samhent og stórhuga. Við getum t.d. fljótlega bætt stöðu þjóðarbúsins og almennings með því einu að hætta óarðbærum og óskynsamlegum fjárfestingum á borð við Kröflu og skuttogarakaup erlendis frá. Með því að feta okkur út úr útflutningsbótakerfinu getum við náð umtalsverðri hækkun ráðstöfunartekna. Við erum ein af fáum þjóðum heims, sem á mun meiri orku en hún þarf sjálf á að halda, orku sem ekki eyðist þótt af sé tekið og ekki veldur mengun. Stórhuga nýting þeirrar orku mun fljótlega bæta þjóðarhag, ef skynsamlega er að málum staðið, en til þess þarf styrka og samhenta ríkisstj.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.