15.12.1982
Neðri deild: 18. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

94. mál, sparisjóðir

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir til umr. er nú endurflutt, en það var lagt fyrir Alþingi skömmu fyrir þinglok s.l. vor. Í meginatriðum er þetta frv. efnislega hið sama og frv. til laga um sparisjóði, sem lagt var fram á Alþingi í apríl 1978 ásamt tveimur bankafrv. Öll þessi frv. döguðu þá uppi án þess að koma til umr.

Eins og kunnugt er starfar nú bankamálanefnd, sem vinnur að endurskoðun bankakerfisins, m.a. í því skyni að einfalda kerfið innan ramma heilsteyptrar löggjafar um viðskiptabankana. Nefnd þessi er skipuð fulltrúum allra þingflokkanna. Það mætti spyrja hvort heppilegra hefði verið að leggja fram frv. til l. um sparisjóði samtímis lagafrv. um viðskiptabankana, líkt og gert var 1978. Vafalaust er að það hefði veitt á margan hátt betri yfirsýn yfir þessi mál í heild. Hinu má þó ekki gleyma, að óvíst er hvenær bankamálanefndin lýkur störfum. Auk þess hefur sparisjóðasambandið lagt mikla áherslu á að frv. kæmi sem fyrst fyrir Alþingi. Þess vegna hef ég talið rétt að leggja frv. fram nú þegar.

Það er ástæða til að rekja nokkuð hvað áður hefur gerst í þessu máli. Það mætti segja að forsaga þessa frv., sem hér liggur fyrir, nái allt til ársins 1972. Það ár skipaði þáv. viðskrh. bankamálanefnd til þess að endurskoða allt bankakerfið í samræmi við stefnuyfirlýsingu þáv. ríkisstj. Nefnd þessi tók m.a. saman frumdrög að nýrri löggjöf um sparisjóði. Þessi drög voru síðar notuð þegar skipuð var önnur nefnd árið 1975 til þess að semja sérstaklega frv. til l. um sparisjóði. Nefndin studdist einnig við löggjöf um sparisjóði á Norðurtöndum, sérstaklega dönsku lögin um banka og sparisjóði frá 1974. Við samningu frv. var þó megináhersla lögð á að finna lausnir og leiðir sem væru í sem bestu samræmi við íslenska staðhætti og íslenskt efnahags- og fjármálalíf. Nefndin kappkostaði að hafa samráð við Samband ísl. sparisjóða og var tekið tillit til margvíslegra ábendinga og aths. frá sambandinu. Jafnframt var leitað til einstakra sparisjóðsstjóra um gerð frv. Nefndin skilaði af sér frv. til nýrra laga um sparisjóði og var það lagt fyrir Alþingi 1978, eins og ég sagði áður.

Um mitt árið 1981 ákvað ég að hafin skyldi endurskoðun á frv. Í ljós hafði komið að Samband ísl. sparisjóða taldi vera á því nokkra hnökra, þótt það gæti í meginatriðum fellt sig við frv. eins og það var lagt fram 1978. Stjórn sambandsins var ritað bréf í ágústmánuði 1981, þar sem þeim tilmælum var beint til hennar að rn. yrði gerð bréflega grein fyrir brtt. sparisjóðasambandsins og léti jafnframt rökstuðning fylgja.

Í byrjun nóv. sama ár bárust rn. brtt. sambandsins við frv. Tillögur þessar reyndust mun umfangsmeiri en fyrri aths. sambandsins höfðu gefið til kynna. Voru tillögurnar skoðaðar í rn. og athugað að hve miklu leyti fært væri að taka þær upp í frv. Í ýmsum atriðum var fallist á tillögurnar eða komið til móts við þær. Jafnframt voru nokkrar aðrar breytingar gerðar á frv. frá því sem það var þegar það var lagt fram á Alþingi árið 1978. Engu að síður er hér í meginatriðum um sama frv. að ræða.

Áður en vikið verður að einstökum köflum frv. er rétt að fara nokkrum orðum um sparisjóði og sparisjóðalöggjöf.

Hinn 1. okt. s.l. var starfandi hér á landi 41 sparisjóður, þar af voru 13 starfandi á Vestfjörðum og 14 á Norðurlandi eystra. Sparisjóðunum hefur heldur farið fækkandi undanfarin ár, einkum vegna stofnunar nýrra útibúa viðskiptabankanna, sem hafa yfirtekið starfsemi sparisjóðanna.

Flestir voru sparisjóðirnir á árunum í kringum 1960 eða 63 talsins. Á rúmum 20 árum hefur því sparisjóðunum fækkað um 22 samtals. Hlutdeild sparisjóða í heildarinnlánum innlánsstofnana hefur yfirleitt farið nokkuð minnkandi. Þó er athyglisvert hve sparisjóðir halda hlut sínum þrátt fyrir fjölgun viðskiptabanka. Á því árabili sem flestir sparisjóðir eru starfandi er hlutdeild s jóðanna í heildarinnlánum tæp 21%, en síðastliðið ár nam hlutdeildin rúmum 16%, enda þótt sparisjóðum hafi fækkað um þriðjung.

Í árslok 1981 nam hlutdeild sparisjóða í heildarúttánum innlánsstofnana um 12% samkv. upplýsingum bankaeftirlitsins, ef miðað er við stöðuna í árslok 1981, og fer langstærsti hluti af útlánum sparisjóða til einstaklinga eða 57.8%, þar af 45% til húsbygginga, en um 12% í önnur neyslulán.

Hlutdeild sparisjóða í lánum til einstaklinga af heildarútlánum innlánsstofnana nema 30.8%. Útlán sparisjóðanna til einstaklinga hafa jafnan verið hlutfallslega mest. Stafar það sennilega einna helst af því, að sparisjóðirnir voru upphaflega stofnaðir til að ávaxta innlánsfé á sem tryggastan hátt, þ.e. í áhættulitlum útlánum.

Sparisjóðirnir hafa æ meir aukið lán til atvinnuveganna og einnig aukið hlutdeild sína í útlánum á ýmsum öðrum sviðum. Útlán til sveitarfélaga eru t.d. hlutfallslega mikil samanborið við heildarútlán innlánsstofnana eða um 18.1%. Útlán sparisjóða í árslok 1981 til sjávarútvegsins námu 3.6% af heildarútlánum sparisjóða, en það svarar til 1.8% af útlánum innlánsstofnana í heild til þess atvinnuvegar.

Almenn lög um sparisjóði voru fyrst sett árið 1915, en þá hafa starfandi sparisjóðir verið farnir að nálgast fjórða tuginn. Þessi lög, sem voru fyrstu heildarlögin hér á landi um sparisjóði, þóttu um margt ítarleg og skýr á þeim tíma og fullnægjandi miðað við sparisjóðastarfsemina eins og hún var þá.

Áður höfðu gilt nokkur ákvæði um sparisjóði samkv. tilskipun frá 1874. Hún bar heitið „Um hlunnindi nokkur fyrir sparisjóði á Íslandi“. Tilskipun þessi hafði m.a. að geyma ákvæði um hvernig með skyldi fara ef viðskiptabók við sparisjóð rýrnaði.

Lögin um sparisjóði frá 1915 giltu í rúman aldarfjórðung. Árið 1941 voru sett ný lög um sparisjóði, sem eru enn í gildi. Þetta eru lög nr. 69 frá 1941. Lög þessi voru afrakstur af starfi milliþinganefndar er vann að endurskoðun bankamála á árunum 1937 til 1940. Lögunum hefur tvisvar verið breytt, nú síðast árið 1980. Með stoð í lögum þessum var gefin úf reglugerð um sparisjóði 15. febr. 1941. Eftir lögum þessum og reglugerð svo og staðfestum samþykktum starfa sparisjóðirnir nú.

Lög um sparisjóði eru nú að ýmsu leyti úrelt, þó þau hafi á sínum tíma verið nýt lagasmíð. Með frv. þessu er stefnt að því að bæta hér nokkuð úr. Má segja að tilgangur frv. sé tvíþættur: Ætlunin er að treysta almennt stöðu sparisjóða meðal innlánsstofnana og auka aðhald og öryggi í rekstri þeirra í samræmi við kröfur tímans. Skal nú vikið að einstökum köflum frv.

Frumvarpið telur 69 greinar og skiptist í 16 kafla. l. kafli frv. hefur að geyma tvær greinar, sem fjalla almennt um sparisjóði. Eru þetta ítarlegri ákvæði en í gildandi lögum.

Í. 1. gr. er leitast við að setja fram hvað felist í hugtakinu sparisjóður. Í því sambandi má nefna að með frv. er lagt til að stofnfjáreigendum verði heimilt að ráðstafa því verðmæti, sem felst í stofnfé þeirra, innan vissra marka. Er þetta rýmkun frá gildandi lögum, sem miðar að því að styrkja stöðu sparisjóða og gera stofnfjáreign í þeim eftirsóknarverða. Í greininni er einnig kveðið á um hlutverk sparisjóða og kem ég nánar að því þegar fjallað verður um VII. kafla frv.

Í 2. gr. frv. er m.a. tekið fram að sparisjóðum sé óheimilt að reka annars konar starfsemi en sparisjóðastarfsemi. Þetta er nýmæli.

II. kafli frv. fjallar um stofnun sparisjóða. Kaflinn hefur að geyma mun fyllri ákvæði en eru í gildandi lögum.

Samkv. 3. gr. verður stofnun sparisjóðs áfram háð leyfi viðskrh. Jafnframt eru settar ítarlegar reglur um hvernig gengið skuli frá umsókn um leyfi til stofnunar sparisjóðs og um meðferð umsóknar hjá stjórnvöldum. Er lagt til í frv. að áður en ráðh. afgreiðir umsókn skuli leitað umsagnar hlutaðeigandi sýslunefnda eða bæjarstjórna, Seðlabanka Íslands og Tryggingarsjóðs sparisjóða. Þessum reglum er ætlað að tryggja að ákvörðun um stofnun sparisjóðs sé tekin að vandlega athuguðu máli.

Í 4. gr. er lagt til að fleiri aðilum verði heimilt að stofna sparisjóði en er samkv. gildandi lögum. Aðalreglan verður að stofnendur skuli eigi vera færri en 30 talsins. Samkv. greininni verður starfsemi sparisjóðs áfram fyrst og fremst bundin við ákveðið svæði og skulu stofnendur vera búsettir eða reka atvinnu eða aðra starfsemi á því svæði. Þetta skilyrði er sett sökum þess að sparisjóðir skulu almennt vera staðbundnar stofnanir, settar á fót til að þjóna ákveðnu byggðarlagi og íbúum þess. Á þetta sjónarmið er líka lögð áhersla í 3. gr. frv., en þar er mælt svo fyrir að þegar ráðh. afgreiðir umsókn um leyfi til stofnunar sparisjóðs skuli sérstaklega gefa því gaum hvort stofnun sjóðsins sé líkleg að vera til hagsbóta fyrir byggðarlagið og íbúa þess.

Samkv. 5. gr. verður það meginregla að sparisjóð megi ekki hér eftir stofna með lægra stofnfé en kr. 500 þús. Ráðh. verður þó heimilt að veita undanþágu frá þessari

1181 Nd. 15. des reglu bæði til hækkunar og lækkunar. Undanþáguheimildin styðst við þau rök, að aðstæður og staðhættir hér á landi eru mismunandi. T.d. getur stofnun sparisjóðs í fámennu byggðarlagi, þar sem fjármagn er takmarkað, haft mikil áhrif á uppbyggingu byggðarlagsins. Ráðh. getur þó ekki beitt þessari heimild að eigin geðþótta, heldur ber honum að leita umsagnar Seðlabankans og Tryggingarsjóðs sparisjóða áður en undanþága er veitt.

Í síðustu grein kaflans, 6. gr., eru reglur um hvaða ákvæði samþykktir sparisjóðs skuli hafa að geyma. Ákvæðin eru ekki tæmandi talin í greininni. Samkv. þessum kafla verður framvegis óheimilt að stofna sparisjóð nema með innborguðu stofnfé. Sparisjóðir með ábyrgðarmannafyrirkomutagi verða því ekki stofnsettir. Á hinn bóginn þótti ekki fært að leggja þá skyldu á starfandi sparisjóði að taka upp stofnfé í stað ábyrgða við gildistöku laganna. Slíkt væri of þungbær skylda.

Í IV. kafla frv. er að finna reglur um hvernig með skuli fara ef aðatfundur sparisjóðs ákveður að í stað ábyrgða skuli koma innborgað stofnfé.

III. kafli frv. fjallar um stofnfjárhluti o. fl. Samkv. ákvæðum kaflans verður framsal stofnfjárhluta heimilt, að fengnu samþykki sparisjóðsstjórnar. Ætlunin er að gera eigendaskipti að stofnfjárhlutum heimil innan þröngra marka í því skyni að gera stofnfjáreign í sparisjóði eftirsóknarverðari. Það ber hins vegar að taka fram, að alls ekki er stefnt að almennum viðskiptum með stofnfjárhluti eða stofnfjárbréf eins og um kvaðalaus hlutabréf eða önnur viðskiptabréf væri að ræða.

Í síðustu grein kaflans, í 12. gr., er að finna mikilvægt ákvæði sem kveður á um þá meginreglu að sparisjóður megi sjálfur ekki eiga meira en 10% af eign stofnfé. Nauðsynlegt er að setja þröngar skorður fyrir eignarhaldi sparisjóðs á eigin stofnfé, enda geta kaup sparisjóðs á stofnfjárhlutum stórlega rýrt stöðu sjóðsins.

IV. kaflinn fjallar um aukningu stofnfjár. Áður hefur verið vikið að því, að þessi kafli hefur að geyma ákvæði um hvernig með skuli fara ef aðalfundur sparisjóðs ákveður að í stað ábyrgðar skuli koma innborgað stofnfé. Í kaflanum er jafnframt ákvæði er mælir svo fyrir, að ákvörðun um að auka stofnfé í starfandi sparisjóði skuli tekinn á aðalfundi sjóðsins. Skal þá aðalfundurinn setja reglur um áskrift nýrra stofnfjárhluta í samræmi við ákvæði í samþykktum sjóðsins.

Í V. kafla er fjallað um séreignarsjóð stofnfjáreigenda. Stofnun séreignarsjóðs stofnfjáreigenda hjá sparisjóðum er nýmæli, sem er tilkomið vegna verðlagsþróunar undanfarinna ára. Við stofnun slíks sjóðs er stefnt að því að gera stofnfjáreign í sparisjóði eftirsóknarverðari án þess að rýra stöðu eigin fjár hjá sparisjóði. Framlög í sjóðinn eru tvennskonar: Í sjóðinn skal leggja hluta þeirra vaxta sem aðalfundur sparisjóðs ákveður að greiða stofnfjáreigendum af árlegum tekjuafgangi. Þetta skal ég skýra örlítið nánar.

Samkv. 39. gr. frv. er m.a. heimilt að verja tekjuafgangi sparisjóðs til greiðslu vaxta af stofnfé og séreignarsjóði stofnfjáreigenda. Ársvextir mega þó ekki vera hærri en bestu innlánskjör eru á hverjum tíma. Aðalfundur sparisjóðs ákveður síðan hve mikill hluti vaxtanna skuli greiðast út til stofnfjáreigenda, en þau takmörk eru sett að fjárhæðin má ekki vera hærri en sem svarar til vaxta af almennum sparisjóðsbókum á hverjum tíma, sem reiknaðir séu bæði af stofnfé og séreignarsjóði. Sá hluti vaxtanna, sem ekki greiðist út, skal lagður í séreignarsjóð stofnfjáreigenda.

Önnur framlög í séreignarsjóð stofnfjáreigenda eru fjárhæðir sem greiddar eru fyrir ný stofnfjárbréf umfram nafnverð bréfanna.

Í kaflanum er tekið fram að ekki megi skilja sundur rétt yfir stofnfjárbréfi og rétt yfir hlut í séreignarsjóði.

Um stjórn sparisjóða eru sett ítarleg ákvæði í VI. kafla frv., en gildandi lög eru fáorð um þetta efni. Þeirri stjórnunarlegu skipan, sem nú er við lýði í sparisjóðum, er í öllum meginatriðum haldið. Í frv. er leitast við að treysta það stjórnkerfi sem fyrir er hjá sparisjóðum og setja skýrari reglur um ýmislegt það sem skort hefur, lögfesta sumt sem í framkvæmd hefur tíðkast og almennt færa stjórnunarákvæðin í nútímalegra horf. Þessi skipan á stjórn sparisjóðanna er einföld og reynsla fengin fyrir henni. Því skal þó ekki leyna að sú reynsla er að vísu misjöfn. Hjá minni og meðalstórum sparisjóðum hafa stjórnir ekki verið eins virkar og nauðsynlegt er, en hjá hinum stærri hefur stjórnarframkvæmd verið mun traustari og sumstaðar mjög góð.

Ekki þótti fært að taka upp þá skipan sem gildir hjá sparisjóðum á hinum Norðurlöndunum, enda er hún mun flóknari og viðameiri. Auk stjórnar og framkvæmdastjórnar er þar að finna svokallað fulltrúaráð og einnig er innstæðueigendum tryggð aðild að sparisjóðsstjórninni. Vegna fámennis og annarra sérstakra aðstæðna hér á landi var ekki talið rétt að feta í fótspor hinna Norðurlandanna, enda hafa hugmyndir um þá skipan mála ekki fengið hljómgrunn hjá íslenskum sparisjóðsmönnum.

Meðal nýmæla í kaflanum má nefna ákvæði um sparisjóðsstjóra. Samkv. frv. verður sparisjóðum ekki skylt að ráða sparisjóðsstjóra. Sé sparisjóðsstjóri hins vegar ráðinn fer hann ásamt sparisjóðsstjórninni sameiginlega með stjórn sparisjóðs. Sparisjóðsstjóri á að annast stjórn hins daglega rekstrar hjá sparisjóði og lúta í þeim efnum fyrirmælum og eftirliti sparisjóðsstjórnarinnar. Í frv. er ekki farin sú leið að tilgreina hvað fellur undir daglegan rekstur, heldur verður í því efni að hafa hliðsjón af umfangi starfseminnar og venjum á þessu sviði. Sú almenna takmörkun er þó gerð, að ráðstafanir sem eru óvenjulegar en mikils háttar falla ekki undir daglegan rekstur.

VII. kafli fjallar um starfsemi sparisjóða. Í upphafi kaflans er skýrt nánar hvað átt sé við með orðinu „sparisjóðsstarfsemi“, sem minnst er á í I. kafla frv. Í 24. gr. segir að sparisjóðsstarfsemi sé fólgin í geymslu og ávöxtun fjár, miðlun ápeningum og annarri sparisjóðs- og þjónustustarfsemi sem er eðlileg í tengslum við slík viðskipti. Virðist þessi lýsing komast næst því sem atmennt er álitið felast í hugtakinu „sparisjóðsstarfsemi“ og þá jafnframt bankastarfsemi. Í kaflanum er einnig að finna margvísleg nýmæli sem eiga að tryggja rekstraröryggi sparisjóða betur en nú er, þar á meðal ítarlegri reglur um tryggingar sem setja skal fyrir útlánum.

VIII. kafli frv. hefur einnig að geyma reglur sem eiga að tryggja rekstraröryggi sparisjóða. Í fyrri grein kaflans, 36. gr., er fjallað um laust fé sparisjóða. Með ákvæðinu er stefnt að því að sparisjóður geti fullnægt þeirri skyldu að greiða innlánafé þegar þess er krafist af innistæðueigendum. Síðari greinin fjallar um eigið fé sparisjóða. Með framsetningu þessa ákvæðis er reynt að tryggja að hver og einn sparisjóður hafi á hverjum tíma yfir fullnægjandi eigin fé að ráða og sé fjárhagslega traustur. Samhliða þessu er reynt að haga ákvæðinu á þann hátt að þessi skylda verði sparisjóðnum ekki fjötur um fót, heldur stuðli að frekari eflingu starfseminnar.

IX. kafli frv. fjallar um reikningsskil. Helsta nýmæli í þessum kafla er að finna í 39. gr., en þar er fjallað um ráðstöfun tekjuafgangs hjá sparisjóðunum. Í greininni er lögð sérstök áhersla á að efla varasjóð.

Í X. kafla frv. er fjallað um endurskoðun hjá sparisjóðunum. Er þar bæði að finna reglur um endurskoðendur og framkvæmd endurskoðunar.

Í XI. kaflanum er lagt til að stofnsettur verði nýr tryggingarsjóður sparisjóða. Allt frá gildistöku gildandi laga um sparisjóði hefur Tryggingarsjóður sparisjóða verið starfandi. Er hann í vörslu Seðlabanka Íslands. Árlega greiðir hver sparisjóður 2% af tekjuafgangi sínum í sjóðinn og er nú heildarfé í sjóðnum um 2.87 millj. kr. miðað við árslok 1981.

Hlutverk sjóðsins og annarra tryggingarsjóða af svipuðu tagi er að koma í veg fyrir að innistæðueigendur bíði tjón þótt innlánsstofnun verði fyrir svo miklu fjárhagslegu áfalli að hún geti ekki greitt skuldbindingar sínar að fullu.

Skipulag núverandi tryggingarsjóðs er með þeim hætti, að hann getur ekki valdið þessu hlutverki. Árleg tillög hvers sparisjóðs ásamt vöxtum skoðast sem séreign sparisjóðsins og færist sem eign í efnahagsreikningi hans. Af þessu leiðir að tryggingarsjóðurinn getur ekki veitt óafturkræft framlag til sparisjóðs sem þarf á því að halda til að geta staðið við skuldbindingar sinar gagnvart innistæðueiganda. Þetta er meginástæða þess að núverandi tryggingarsjóður hefur haft sáralítið gildi fyrir starfsemi sparisjóða. Á hinn bóginn leikur ekki á því nokkur vafi að rétt skipulagður tryggingarsjóður mundi auka fjárhagslegt öryggi sparisjóða og treysta hagsmuni innistæðueigenda. Forráðamenn sparisjóða hafa verið þess mjög lengi fýsandi að byggður verði upp öflugur tryggingarsjóður sem gegnt gæti hlutverki sínu. Með ákvæðum frv. um tryggingarsjóð sparisjóða er stefnt að þessum markmiðum.

Í XII. kafla frv. er fjallað um eftirlitshlutverk bankaeftirlitsins með sparisjóðum og í XIIL kafla er fjallað um slit á sparisjóði, bæði frjáls slit og skyldu til þess að slíta sparisjóði. Ákvæðið miðar að því að hagsmunir innistæðueigenda séu tryggðir ef til slita á sparisjóði kemur. Jafnframt er í kaflanum mælt fyrir um meðferð mála við sparisjóðaslit.

XIV. kafli fjallar um sameiningu sparisjóða, sem segja má að séu sérstök tegund slita. Starfsemi sjóðanna heldur áfram þótt þeir teljist ekki lengur sjálfstæðir lögaðilar.

Í XV. og XVI. kafla er að finna refsiákvæði og ýmis almenn ákvæði og loks er að finna í frv. ákvæði til brb., sem gerir ráð fyrir að sparisjóðum verði heimilt að endurmeta stofnfé sitt innan tveggja ára frá gildistöku frv., ef að lögum verður. Í ákvæðinu eru settar sérstakar reglur um hvernig skuli haga því endurmati.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir og kynnt meginefni þess frv. sem hér liggur fyrir. Eins og áður hefur komið fram hefur á ýmsum stigum við gerð frv. verið leitað álits og tekið tillit til athugasemda og ábendinga frá Sambandi ísl. sparisjóða og einstökum sparisjóðsstjórum.

Meðal þeirra breytingaritill. sem sparisjóðasambandið sendi rn. um mitt s.l. ár var till. um að tekin yrði upp í frv. nýr kafli um svonefnda lánastofnun sparisjóðanna. Hér var um nýja till. að ræða, sem sparisjóðasambandið hafði ekki sett áður fram mér vitanlega. Í till. er gert ráð fyrir að lánastofnunin hafi það meginhlutverk að stuðla að þróun og eflingu starfsemi sparisjóða. Samkv. því sem kemur fram í greinargerð með till. er lánastofnuninni ætlað að ræk ja þetta hlutverk með því að veita sparisjóðum lán til að jafna árstíðabundnar sveiflur í starfseminni. Jafnframt á stofnunin að gera sparisjóðum kleift að taka að sér útlán sem nú eru þeim ofviða. Loks á stofnunin að stuðla að rekstrarhagræðingu hjá sparisjóðum. Hér er þó ekki um tæmandi talningu að ræða, heldur minnst á meginatriði í þessum till.

Till. ber þess glögg merki að sparisjóðasambandið hefur í huga að lánastofnun sparisjóðanna hafi umfangsmikinn rekstur með höndum. Að lokinni athugun á till., sem framkvæmd var af starfsmönnum viðskn. og Seðlabankans, komst ég að þeirri niðurstöðu að taka hana ekki upp í frv. Þessa niðurstöðu má þó ekki skilja svo, að ég hafi að öllu leyti verið mótfallinn hugmyndinni sem lánastofnunin er reist á, heldur fyrst og fremst sem viðleitni til að sporna gegn aukinni þenslu í bankakerfinu, sem mörgum þykir ærin fyrir.

Eins og till. er sett fram er um umfangsmikla starfsemi að ræða og má jafnvel tala um bákn í því sambandi. Á það verður einnig að líta, að á hinum Norðurlöndunum, þar sem hliðstæðar stofnanir eru starfræktar, stunda þær almenna inn- og útlánastarfsemi við almenning. Reyndar er tekið fram í greinargerð sparisjóðasambandsins að þetta sé ekki ætlunin með lánastofnun sparisjóða. Engu að síður þykir mér trúlegt að starfsemi lánastofnunarinnar muni færast smátt og smátt inn á sömu braut og hliðstæðra stofnana á hinum Norðurlöndunum.

Þess sér reyndar merki í till. Þar sem gert er ráð fyrir að lánastofnunin geti ákveðið, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að lána viðskiptamanni sparisjóðs fé með milligöngu hlutaðeigandi sparisjóðs.

Í annan stað sýnist till. gera ráð fyrir að lánastofnun færi nokkuð inn á það svið sem Tryggingarsjóði sparisjóða er ætlað að starfa á samkv. frv. Það getur ekki talist æskilegt að á vegum sparisjóðanna starfi tvær stofnanir sem hafa að nokkru leyti svipað hlutverk.

Af þessum ástæðum m.a. hef ég ekki talið fært að taka till. sparisjóðasambandsins upp í frv. Nefnd sú sem fær frv. til meðferðar leitar áreiðanlega umsagnar sparisjóðanna og geri ég þá ráð fyrir að sparisjóðasambandið fái tækifæri til að gera grein fyrir hugmyndum sínum varðandi lánastofnun sparisjóðanna.

Því er ekki að neita að það er nokkuð misvindasamt í stjórnmálunum eins og sakir standa og erfitt er að spá um hve langt þing verður í vetur. Eigi að síður geri ég mér vonir um að það vinnist nægur tími til þess að þetta frv. fái vandlega meðferð hér á hv. Alþingi. Ég mundi helst kjósa að unnt yrði að afgreiða frv. frá Alþingi sem lög áður en yfirstandandi þingi lýkur.

Ég vildi leyfa mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.