15.12.1982
Neðri deild: 18. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

112. mál, eftirlaun aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem ég mæli hér fyrir um eftirlaun aldraðra, hefur þegar sætt meðferð í hv. Ed. og var afgreitt þaðan samhlj. Frv. gerir ráð fyrir að sú skipan á eftirlaunum aldraðra, sem ákveðin var á árunum 1976–1980, verði framlengd út árið 1984, en samkv. lögunum eins og þau voru útbúin var gert ráð fyrir að þessi skipan félli niður í lok ársins 1982. Hér þarf að framlengja þetta og fram eru komnar um það beiðnir frá öllum hagsmunaaðilum sem eiga menn í umsjónarnefnd eftirlauna.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, herra forseti. Það er í rauninni einfalt, — framlenging á fyrirkomulagi sem fullt samkomulag er um. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.