16.12.1982
Sameinað þing: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

272. mál, endurskoðun á reglugerð um ökukennslu

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Á þskj. 90 hef ég leyft mér að bera eftirfarandi fsp. fram til hæstv. dómsmrh. og hún er, með leyfi forseta, svohljóðandi:

„Hvað liður störfum starfshóps um endurskoðun á reglugerð um ökukennslu og próf ökumanna sem skipaður var haustið 1979?“

Herra forseti. Sú er forsenda þessarar fsp., að árum saman höfðu ökukennarar eða félag þeirra haft af því áhyggjur að reglugerð sú sem hér um ræðir stæðist engan veginn kröfur sem til slíkrar menntunar og til slíkra starfa þyrfti að gera í nútímalegu þjóðfélagi. Fyrir vikið var haustið 1979 vegna beiðni þessara manna, sem þótti vera bæði sanngjörn og eðlileg þegar upp var borin, skipaður sá starfshópur sem um ræðir í nefndri fsp. Starfshópurinn hefur starfað að málinu og a.m.k. að einhverju leyti hafa frá honum komið tillögur, en að öðru leyti hefur þetta mál lítið eða ekkert hreyfst, og vísa ég þar m.a. til skilmerkilegrar greinar eftir formann Ökukennarafélagsins, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir fáum dögum. Það er af þessum ástæðum og alveg án annarra aths. sem hæstv. dómsmrh. er um það spurður, hvað líði störfum þessa starfshóps um endurskoðun á reglugerð um ökukennslu og próf ökumanna, og vænti ég svara hæstv. ráðh. við spurningunni.